Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 225. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 228  —  225. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um tryggan lágmarkslífeyri.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Sverrir Hermannsson.



    Alþingi ályktar að bæta skuli þjóðfélagsstöðu lífeyrisþega sem fá minni lífeyri greiddan úr lífeyrissjóði sínum en 40 þús. kr. á mánuði með því að breyta bótareglum almannatrygginga þannig að lífeyrisgreiðslur undir 40 þús. kr. á mánuði skerði ekki grunnlífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót eða aðrar bætur lífeyrisþegans. Fyrir hver 10 þús. kr. sem lífeyrir er umfram 40 þús. kr. verði skerðing 1/ 4þess sem nú er, fyrir hver 10 þús. kr. sem lífeyrir er umfram 50 þús. kr. verði skerðing 1/ 2þess sem nú er og fyrir hver 10 þús. kr. umfram 60 þús. kr. 3/ 4þess sem nú er.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt til þess að fá fram hver vilji meiri hluta Alþingis er gagnvart þeim lífeyrisþegum sem búa við lökust lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum. Hér er í flestum tilfellum um að ræða fólk sem á starfsævi sinni hafði frekar lág laun eða naut ekki greiðslu af launum sínum í lífeyrissjóð að hluta eða öllu leyti fyrr en of seint miðað við aldur til þess að öðlast lífeyri sem dugar til framfærslu á efri árum.
    Vitað er að lífeyrisgreiðslur eru enn of lágar til þess að geta verið meginstoð lífeyrisþega. Sú aðferð sem hér er lögð til leiðir til þess að greiðsla úr lífeyrissjóði undir 40 þús. kr. á mánuði skerðir engar bætur sem lífeyrisþeginn fær út úr almannatryggingum. Útfærslan virkar einnig þannig að eftir því sem fleiri landsmenn fá hærri lífeyri en 40 þús. kr. á mánuði, en þeim fjölgar vonandi hratt á næstu árum, þá fækkar þeim sem njóta þessarar reglu sem leiðir til þess smám saman að kostnaður ríkissjóðs minnkar. Rétt er að vekja athygli á því að eins og reglan er útfærð minnkar hún svokölluð jaðarskattaáhrif. Verði tillagan samþykkt og framkvæmd eftir efni sínu verður hagur lífeyrisþega með lágan lífeyri mun tryggari en nú er.