Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 265  —  87. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um stuðning við frjáls félagasamtök.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur stuðningi iðnaðarráðuneytis við frjáls félagasamtök verið háttað árin 1998–2001? Óskað er eftir því að í svarinu komi fram til hvers konar verkefna styrkir hafa verið veittir, hversu háir styrkir og hverjir ábyrgðaraðilar verkefnanna hafa verið, sundurliðað eftir fjárlagaliðum og árum.


    Styrkveitingar til frjálsra félagasamtaka geta fallið innan verksviða þriggja aðila sem heyra undir ábyrgð iðnaðarráðuneytisins. Þeir eru Átak til atvinnusköpunar, Byggðastofnun og Kísilgúrsjóður.
     Átak til atvinnusköpunar er umfangsmesta stuðningsverkefnið sem rekið er á vegum iðnaðarráðuneytisins, en það hefur verið starfrækt frá árinu 1996. Ítarlega var gerð grein fyrir starfsemi þess árin 1996–99 á 126. löggjafarþingi í svari við fyrirspurn frá Svanfríði Jónasdóttur og Þórunni Sveinbjarnardóttur, sjá þskj. 180 í 69. máli. Þá var gerð grein fyrir störfum þess árin 1998–2000 í svari við fyrirspurn frá Margréti Frímannsdóttur á þskj. 248 í 81. máli 127. löggjafarþings. Í sama svari var einnig gerð grein fyrir styrkveitingum Byggðastofnunar og Kísilgúrsjóðs til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar á árunum 1998–2000.
    Engum frjálsum félagasamtökum var veittur beinn styrkur af Átaki til atvinnusköpunar árin 1998–2001. Aftur á móti var Félagi kvenna í atvinnurekstri veittur stuðningur með vinnuframlagi starfsmanns Impru sem er þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Áætlað er að vinnuframlagið megi meta að jafnvirði um 785 þús. kr. á árinu 2000 og um 643 þús. kr. á árinu 2001. Félag kvenna í atvinnurekstri var stofnað að undirlagi iðnaðarráðherra til að efla þátttöku kvenna í nýsköpun atvinnulífsins. Starfsemi Impru var á árunum 2000 og 2001 fjármögnuð af fjárlagaliðum 11-201 1.01 (Iðntæknistofnun) og 11-299 1.48 (Átak til atvinnusköpunar).
     Byggðastofnun hefur veitt styrki sem frjáls félagasamtök geta sótt um. Málefni Byggðastofnunar voru færð undir iðnaðarráðuneytið í upphafi ársins 2000 en voru áður á verksviði forsætisráðuneytis. Engu að síður eru í svari þessu veittar upplýsingar um styrkveitingar Byggðastofnunar til frjálsra félagasamtaka á árunum 1998 og 1999 þótt málaflokkurinn hafi ekki heyrt undir iðnaðarráðuneytið á þeim tíma.
    Styrkveitingar Byggðastofnunar til frjálsra félagasamtaka árin 1998–2001 námu alls 12.000.000 kr. sem fóru til 25 verkefna. Skrá yfir styrkþega, verkefni, úthlutunarár og styrkupphæðir er að finna í töflu 1. Styrkveitingar Byggðastofnunar eru teknar af fjárlagalið 11-411 1.10 (Byggðastofnun).
    


Tafla 1. Styrkir veittir af almennu rekstrarfé Byggðastofnunar til frjálsra félagasamtaka 1998–2001.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     Kísilgúrsjóður var stofnaður með lögum nr. 80/1966, um Kísilgúrverksmiðju við Mývatn, í þeim tilgangi að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar. Nánar er kveðið á um Kísilgúrsjóð í reglugerð nr. 476/2001. Þar segir m.a. að tekjur sjóðsins séu 20% af námagjaldi Kísiliðjunnar fram til ársloka 2001 en vaxi þá í 68% af námagjaldinu.
     Styrkveitingar úr Kísilgúrsjóði til frjálsra félagasamtaka 1998–2001 námu alls 1.150.000 kr. sem fóru til fjögurra verkefna. Skrá yfir styrkþega, verkefni, úthlutunarár og styrkupphæðir er að finna í töflu 2. Kísilgúrsjóður fékk ekki fé af fjárlögum á árunum 1998–2001.

Tafla 2. Styrkir Kísilgúrsjóðs til frjálsra félagasamtaka 1998–2001.
Ár Styrkþegi Verkefni Upphæð Ábyrgðarmaður
1998
Menningarsjóður þingeyskra kvenna Til útgáfustarfsemi 100.000 Hólmfríður Pétursdóttir, Reykjahlíð
1999
Dyngjan handverkshópur Til húsakaupa 500.000 Þórunn Einarsdóttir, Baldursheimi 1, Mývatnssveit
2000
Ferðafélag Akureyrar Bygging snyrtihúss við Dreka
250.000

Ingvar Teitsson, Akureyri
Kaðlín, handverkshópur, Húsavík Lagfæringar á húsnæði 300.000 Rannveig Benediktsdóttir, Húsavík
2001
Enginn styrkur til frjálsra félagasamtaka