Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 257. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 268  —  257. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 19/2002, um póstþjónustu.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Íslenska ríkið hefur frá 1. janúar 2003 til 1. janúar 2006 einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa allt að 100 g að þyngd svo framarlega sem burðargjaldið fyrir bréfið er minna en þrisvar sinnum lægsta burðargjald sem gildir fyrir venjuleg bréf innan lands. Hið sama gildir um dreifingu innan lands á bréfum frá útlöndum innan sömu takmarkana.
    

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Ný málsgrein, 5. mgr., bætist við, svohljóðandi:
                  Rekstrarleyfishafa er heimilt að setja sérstaka gjaldskrá fyrir þá sem afhenda mikið magn póstsendinga í einu eða fyrirtæki sem safna saman póstsendingum mismunandi viðskiptavina og afhenda rekstrarleyfishafa. Slík sérgjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem ekki hefur þurft að leggja út í við venjulega póstþjónustu.
     b.      Við 5. mgr., er verður 6. mgr., bætist nýr málsliður, sem verður 2. málsl., svohljóðandi: Óheimilt er að nota tekjur af þjónustu í einkarétti til að greiða niður þjónustugjöld í alþjónustu sem ekki fellur undir einkarétt nema ef sýnt hefur verið fram á að slíkt sé beinlínis nauðsynlegt til að verða við sérstökum alþjónustukvöðum sem hvíla á rekstrarleyfishafa.

3. gr.

    Á undan 37. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:

Meðferð kvartana.

    Rekstrarleyfishafar skulu semja reglur um meðferð kvartana frá notendum.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal sjá til þess að reglur skv. 1. mgr. gefi kost á skjótri og sanngjarnri lausn deilumála með endurgreiðslum og/eða skaðabótum þegar þær eiga rétt á sér.

4. gr.

    Í stað orðanna „39.–41. gr.“ í 42. gr. laganna, er verður 43. gr., kemur: 40.–42. gr.

5. gr.

    Fyrirsögn XIV. kafla laganna verður: Meðferð kvartana og skaðabætur.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.
    Frá 1. janúar 2006 skulu þyngdarmörk 1. gr. breytast í 50 g og verðmörk í 2,5 sinnum lægsta burðargjald.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Í frumvarpi til núgildandi laga um póstþjónustu sem lagt var fyrir Alþingi í október 2001 var gert ráð fyrir að einkaréttur ríkisins héldist að mestu leyti óbreyttur frá þágildandi lögum. Í athugasemdum við frumvarpið kom fram að óráðið væri hvaða breytingar Evrópusambandið (ESB) mundi gera á ákvæðum tilskipunar 97/67/EC um póstsendingar í einkarétti og að umræða um einkaréttinn stæði enn yfir.
    Nú hefur ESB gefið út og birt tilskipun nr. 2002/39/EC, dags. 10. júní 2002, sem breytir tilskipun 97/67/EC varðandi frekari opnun póstmarkaðarins í Evrópu fyrir samkeppni. Helsta breytingin lýtur að mörkum einkaréttar. Þar segir að aðildarríkin geti veitt rekstrarleyfishöfum með alþjónustuskyldur áfram einkarétt til þess að tryggja þá þjónustu að því marki sem talið er nauðsynlegt. Þjónusta innan einkaréttar skal takmörkuð við móttöku eða söfnun, flokkun, flutning og skil á póstsendingum innan lands og póstsendingum sem berast til landsins, hvort sem um er að ræða hraðsendingar eða ekki, innan eftirfarandi þyngdar-og verðtakmarkana:
    Þyngdarmörkin skulu vera 100 g frá og með 1. janúar 2003 og 50 g frá og með 1. janúar 2006. Þessi þyngdarmörk gilda ekki ef póstsendingar bera burðargjald sem er frá 1. janúar 2003 jafnt eða hærra en þrisvar sinnum burðargjald bréfasendinga í fyrsta (lægsta) þyngdarflokki hraðasta flokks sendinga og frá 1. janúar 2006 ef burðargjaldið er jafnt eða hærra en 2,5 sinnum þetta gjald.
    Lagt er til að fella niður ákvæði 2. tölul. 7. gr. í lögum um póstþjónustu en samkvæmt ákvæðinu hefur einkaréttur verið látinn ná til ábyrgðarbréfa sem notuð eru til að koma til viðtakenda birtingu á stefnum sem og opinberum tilkynningum stjórnvalda. Bent hefur verið réttilega á að vandkvæði geta verið á því að greina slík bréf frá öðrum. Þrátt fyrir heimild tilskipunar ESB til þess að vernda einkarétt á slíkum bréfum verður ekki séð að knýjandi ástæða sé til þess að slík bréf frekar en önnur ábyrgðarbréf verði í einkarétti.
    Jafnframt er í þessari nýju tilskipun skerpt á nokkrum atriðum til bóta fyrir viðskiptavini póstrekenda. Í fyrsta lagi eru tekin inn skýrari ákvæði um sérstakar gjaldskrár rekstrarleyfishafa vegna þjónustu þeirra við þá sem afhenda mikið magn póstsendinga í einu og taka slíkar gjaldskrár fyrst og fremst mið af þörfum atvinnufyrirtækja og annarra stórnotenda eða fyrirtækja sem safna saman póstsendingum mismunandi viðskiptavina og afhenda rekstrarleyfishafa. Til þess að gætt sé jafnræðis verður slík gjaldskrá einnig að gilda fyrir aðra notendur sem uppfylla sömu skilyrði um afhendingu í miklu magni.
    Í öðru lagi eru tekin inn ákvæði þar sem rekstrarleyfishöfum er bannað að greiða niður þjónustugjöld í alþjónustu utan einkaréttar með tekjum af einkaréttarþjónustu, nema sýnt sé fram á nauðsyn þess til að hægt sé að verða við sérstökum alþjónustukvöðum sem á eru lagðar á samkeppnissviði.
    Í þriðja lagi eru sett inn ákvæði um að rekstrarleyfishafar gefi út skýrar reglur um meðferð kvartana frá notendum póstsins og skulu eftirlitsstofnanir tryggja það.

    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Umfang einkaréttar í póstþjónustu hefur verið til umræðu innan ESB um langt skeið og hafa verið skiptar skoðanir um málið. Í sumum Evrópulöndum hefur einkaréttur ríkisins verið afnuminn en í öðrum löndum er andstaða við breytingar á umfangi hans. Með tilskipun ESB nr. 2002/39/EC frá 10. júní 2002 eru gerðar breytingar á tilskipun nr. 97/67/EC þar sem fram kemur málamiðlun um einkaréttinn. Einkarétturinn skal nú ná til bréfa allt að 100 g í stað 350 g áður. Verðmörkin skulu vera þrisvar sinnum lægsta burðargjald sem gildir fyrir venjuleg bréf innan lands. Með venjulegu bréfi er hér átt við bréf í hraðasta flokki póstútburðar. Jafnframt er mótuð stefna fram í tímann, sbr. gildistökuákvæði, og kveðið á um að þyngdarmörkin skuli lækka í 50 g frá og með 1. janúar 2006 og verðmörkin breytast í 2,5 sinnum lægsta burðargjald.
    Frá árinu 1998 hefur einkaréttur hér á landi samkvæmt lögum um póstþjónustu verið takmarkaður við 250 g. Með hliðsjón af framangreindum breytingum á tilskipun ESB þykir rétt að leggja til að færa þyngdarmörk bréfa í einkarétti í 100 g frá og með 1. janúar 2003 og í 50 g frá og með 1. janúar 2006. Bréf 50 g og minna eru um 86% af öllum bréfum sem póstlögð eru hér á landi. Lagt er til að í 7. gr. verði orðin „án tillits til innihalds“ felld niður til samræmis við tilskipun ESB en rétt er að taka fram að þessi breyting hefur ekki áhrif á stöðu póstkorta sem munu áfram falla undir einkarétt, enda fellur póstkort undir orðskýringu á bréfi skv. 4. gr. laga um póstþjónustu. Með þessari breytingu verður munurinn milli bréfa og markpósts markvissari.

Um 2. gr.

    Erlendis hafa verið sett á laggirnar endursölufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem taka að sér að koma bréfum notenda á afhendingarstað rekstrarleyfishafa og njóta þess vegna afsláttar af venjulegri gjaldskrá. Sömuleiðis hefur það færst í aukana að stórfyrirtæki afhendi póst beint í póstmiðstöðvar og noti ekki venjulega afgreiðslustaði. Hið síðarnefnda á sér nú þegar stað hér á landi og líklegt er að endursölufyrirtæki skjóti áður en langt um líður upp kollinum hérlendis. Rétt þykir í þessu sambandi að setja ákvæði um að sérstök gjaldskrá sem kann að gilda í þessum tilfellum taki mið af kostnaði sem rekstrarleyfishafar spara sér við þessa tilhögun en að tekjur af almennum pósti verði ekki notaðar til að niðurgreiða þjónustuna. Ákvæði 16. gr. laganna um að gjaldskrár skuli vera auðskiljanlegar og gæta verði jafnræðis gilda hér og hefur hið síðarnefnda það í för með sér að láta skal einkaaðila njóta sömu kjara ef þeir uppfylla sömu skilyrði um afhendingu í miklu magni og atvinnufyrirtæki.
    Í b-lið er sett fram almenn regla um að tekjur af þjónustu í einkarétti skuli ekki notaðar til að greiða niður önnur gjöld í alþjónustu. Líkt og í tilskipun ESB er hins vegar gert ráð fyrir undanþágu frá þessu ákvæði þegar á rekstrarleyfishafa eru lagðar sérstakar kvaðir um alþjónustu sem enginn annar er tilbúinn að veita þó að þjónustan sé opin fyrir samkeppni.

Um 3.–5. gr.

    Heiti XIV. kafla í gildandi lögum er „Skaðabætur“ en í hinni nýju tilskipun ESB eru settar fram kröfur um málsmeðferð kvartana sem berast rekstrarleyfishöfum frá notendum. Af því tilefni hefur verið samin ný grein í XIV. kafla, 37. gr., sem skyldar rekstrarleyfishafa að setja reglur um meðferð kvartana. Með reglunum er stefnt að því að tryggja skjóta og sanngjarna lausn deilumála. Í samræmi við þetta er lagt til að breyta kaflaheitinu í „Meðferð kvartana og skaðabætur“.

Um 6. gr.

    Lagt er til að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 2003. Með því verður fyrirmælum tilskipunar 2002/39/EC um gildistöku í einstökum löndum fullnægt.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu
á lögum nr. 19/2002, um póstþjónustu.

    Markmið frumvarpsins er að fylgja eftir tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/39/EC, um frekari opnun póstmarkaðarins í Evrópu fyrir samkeppni. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að íslenska ríkið hafi frá 1. janúar 2003 til 1. janúar 2006 einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa, sem eru allt að 100 g í stað 250 g í núgildandi lögum og frá og með 1. janúar 2006 einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa sem eru 50 g.
    Jafnframt eru í frumvarpinu sett inn nokkur atriði sem skerpa á réttindum viðskiptavina póstrekenda. Í fyrsta lagi er bætt við ákvæðum um sérstakar gjaldskrár rekstrarleyfishafa vegna þjónustu við þá sem afhenda mikið magn póstsendinga í einu. Í öðru lagi er bætt við ákvæðum þar sem rekstrarleyfishöfum er bannað að greiða niður þjónustugjöld í alþjónustu utan einkaréttar með tekjum af einkaréttarþjónustu og loks er í þriðja lagi bætt við ákvæðum um að rekstrarleyfishafar gefi út skýrar reglur um meðferð kvartana frá notendum póstsins og skulu eftirlitsstofnanir tryggja að slíkt verði gert. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.