Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 176. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 343  —  176. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ragnarsdóttur um menningartengda ferðaþjónustu.

     1.      Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa á næstu árum til að auka menningartengda ferðaþjónustu, sbr. skýrslu samgönguráðuneytisins frá ágúst 2001?
    Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er m.a. lögð áhersla á að sóknarfæri ferðaþjónustunnar á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu verði nýtt. Í nóvembermánuði 1999 skipaði samgönguráðherra nefnd til að taka saman skýrslu um þetta málefni og gera tillögur um næstu skref sem nauðsynleg eru til þess að þessi sérstaka tegund ferðaþjónustunnar nái að skjóta fastari rótum. Nefndin skilaði greinargóðri skýrslu í september 2001, sem m.a. var kynnt á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands þá um haustið. Í skýrslunni komu fram fjölmargar tillögur og hugmyndir sem lagt var til að vinna að á næstu árum.
    Í samantekt og niðurstöðum skýrslunnar kemur m.a. fram í lokaorðum: Á grundvelli þess sem að framan er sagt, er lagt til að íslensk ferðaþjónusta verði í framtíðinni byggð upp á tveimur meginstoðum, íslenskri náttúru og íslenskri menningu og samverkan þessara þátta. Lagt er til að á fimm ára aðlögunrtímabili verði atvinnugreinin og menningarstarfsemin ásamt stoð- og grunnþjónustu búin undir að glíma við þetta verkefni. Æskilegt er að styðjast sem mest við það sem fyrir er og vel hefur reynst.
    Við skoðun á framansögðu var það niðurstaða samgönguráðherra að taka saman aðgerðaráætlun um verkefnið og gera tillögur þar að lútandi Nú liggur þessi aðgerðaráætlun fyrir og er til meðferðar hjá Ferðamálaráði Íslands.

     2.      Hefur verið unnin framkvæmdaáætlun í þessu skyni og hverjar eru helstu áherslur hennar? Óskað er eftir að í svarinu komi fram hve miklir fjármunir eru ætlaðir til verkefnisins.
    Aðgerðaráætlunin samanstendur af nokkrum atriðum, þ.e. helstu tillögum, almennum aðgerðum og sérstökum aðgerðum og hugmyndum. Meginatriðin eru byggð á tillögum úr skýrslu samgönguráðuneytisins um menningartengda ferðaþjónustu en lagaðar að þeim möguleikum sem til staðar eru.
    Í aðgerðaráætluninni, sem er í formi greinargerðar, er m.a fjallað um verkefni sem eru þegar komin í vinnslu, t.d. í menntamálaráðuneytinu og hjá aðilum í ferðaþjónustunni, en jafnframt er bent á verkefni sem Ferðamálaráð gæti haft forustu um, t.d. samræmingu minjagripa, heildarskipulagningu á starfsskilyrðum ferðamálafulltrúa, samantekt á landkynningarefni o.s.frv. Þá eru ábendingar um verkefni og hugmyndir sem mætti nýta betur. Þar að auki er fjallað sérstaklega um helstu sögustaði landsins og þýðingu þeirra í allri markaðssetningu á menningartengdri ferðaþjónustu í næstu framtíð.
    Helstu tillögur í greinargerðinni eru fjórar:
     1.      Stofnaður verði Þróunarsjóður ferðamála og verði markmið sjóðsins m.a. að styrkja þróunarstarf, nýsköpun, vöruþróun og önnur verkefni í ferðaþjónustunni og sérstaklega verkefni sem tengjast menningu og sögu þjóðarinnar.
     2.      Menningarborgarsjóður verði efldur með áherslu á menningarverkefni sem tengjast ferðaþjónustunni.
     3.      Stutt verði við kynningu á helstu sögustöðum landsins.
     4.      Gerð verði á netinu heimasíða um miðaldasamfélagið, bókmenntir, listir og nútímamenningu ásamt skrá um menningarviðburði sem tengjast ferðaþjónustu.
    Tillögurnar eru til meðferðar hjá Ferðamálaráði og bindur samgönguráðuneytið miklar vonir við að hrinda megi a.m.k hluta þeirra í framkvæmd sem fyrst. Í tillögunum er gert ráð fyrir umtalsverðum fjárhæðum til þessara verkefna en Ferðamálaráði hefur verið falið að meta fjárþörfina m.a. með tilliti til þess að verkefnin falla að hluta til að þeim verkefnum sem Ferðamálaráð sinnir nú þegar.