Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 336. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 366  —  336. mál.
Frumvarp til lagaum Vísinda- og tækniráð.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins.

2. gr.

    Stefna stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum skal mörkuð af Vísinda- og tækniráði til þriggja ára í senn. Umfjöllun þess á hvoru sviði um sig skal undirbúin af vísindanefnd og tækninefnd.

3. gr.

    Forsætisráðherra skipar 14 menn í Vísinda- og tækniráð til þriggja ára í senn og jafnmarga til vara samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila:
     a.      Fjóra samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins,
     b.      tvo samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands,
     c.      tvo samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins,
     d.      einn samkvæmt tilnefningu menntamálaráðherra,
     e.      einn samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðherra,
     f.      einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra,
     g.      einn samkvæmt tilnefningu landbúnaðarráðherra,
     h.      einn samkvæmt tilnefningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
     i.      einn samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra.
    Auk framangreindra skulu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra eiga föst sæti í ráðinu, en þar að auki skal forsætisráðherra vera heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra til setu í ráðinu í senn. Forsætisráðherra er formaður ráðsins.

4. gr.

    Úr hópi þeirra sem skipaðir eru skv. 1. mgr. 3. gr. tilnefnir Vísinda- og tækniráð fulltrúa í vísindanefnd og jafnmarga til vara, sem menntamálaráðherra skipar. Ráðherra skipar jafnframt formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.
    Iðnaðarráðherra skipar tækninefnd með sama hætti.
    Nefndirnar skulu hafa með sér samráð um þau atriði sem máli skipta fyrir stefnumótun Vísinda- og tækniráðs.

5. gr.

    Forsætisráðherra getur með reglugerð mælt nánar fyrir um starfsemi Vísinda- og tækniráðs. Sama á við um menntamálaráðherra vegna vísindanefndar og iðnaðarráðherra vegna tækninefndar.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.Ný viðhorf á sviði vísinda og tækni.
    Á undanförnum áratug hafa blásið nýir vindar í íslensku atvinnulífi. Miklar skipulagbreytingar hafa orðið við aukið frelsi á fjármálamarkaði og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Fyrirtæki í hefðbundnum greinum hafa sameinast og nýir frumkvöðlar tekið forustu í þeim. Þá hafa sprottið upp fyrirtæki sem byggð eru á nýrri þekkingu og innlendum rannsóknum og þróunarstarfi, m.a. á sviði matvælatækni, upplýsingatækni, heilbrigðistækni og líftækni. Þau hafa látið að sér kveða á alþjóðlegum markaði og sum hver orðið leiðandi á sínu sviði. Fjárfesting í menntun, vísindarannsóknum og tækniþróun skilar þannig sýnilegum árangri, m.a. umtalsverðum og vaxandi tekjum í útflutningi á hátæknivörum og þjónustu sem byggð er á háþróaðri þekkingu og rannsóknum.
    Þessi þróun ber að mörgu leyti sömu einkenni og gerist í öðrum löndum og kennd eru við „þekkingarþjóðfélagið“. Í mati á samkeppnisstöðu þjóða er þáttur menntunar og frammistöðu á sviði vísindarannsókna og stuðningsumhverfi við nýsköpun hátt metinn. Þetta endurspeglast m.a. í nýlegum ályktunum ráðherraráðs Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD) þar sem bent er á að menntun, rannsóknir, nýsköpun og framtakssemi séu drifafl hagvaxtar í þekkingarþjóðfélaginu. Aðildarríkin eru hvött til að efla stuðning við vísindi og rannsóknir og skapa hagstæð skilyrði til nýsköpunar á grundvelli nýrrar þekkingar.
    Að undanförnu hefur farið fram samanburður milli þjóða á frammistöðu á ýmsum sviðum, ekki síst á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Hafa einstök ríki, OECD og Evrópusambandið staðið að slíkum samanburði. Samanburður þessi hefur m.a. beint sjónum að þætti stjórnvalda, þ.e. hvernig staðið er að stefnumótun, fjármögnun og ákvörðunum (forgangsröðun) um stuðning við rannsóknir, verndun hugverkaréttinda og skipulagningu á hvetjandi efnahagsumhverfi fyrir framtaksfjárfesta. Margar þjóðir hafa lagt sérstaka áherslu á þessa þætti og náð athyglisverðum árangri. Þar má sérstaklega nefna smærri þjóðir eins og Íra, Finna, Dani og Ástrali sem hafa á skömmum tíma náð mjög langt í tæknigreinum og með því aukið framleiðni og hagvöxt. Hafa Finnar og Írar t.d. náð að breyta hagkerfum sínum og ná sér upp úr verulegum efnahagserfiðleikum á tiltölulega skömmum tíma, ekki síst með fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun á sviði upplýsingatækni.

Íslenskar aðstæður.
    Ísland hefur á síðustu árum staðið sig allvel í alþjóðlegum samanburði. Hafa orðið umtalsverðar breytingar frá því sem áður var að þjóðin varði hlutfallslega litlum fjármunum til vísindarannsókna og umhverfi til nýsköpunar var óhagstætt fyrir aðrar greinar en sjávarútveg. Nokkuð vel hefur tekist til um fjárfestingu í samskiptatækni og tölvu- og upplýsingatækni og búa Íslendingar við hagstæð skilyrði að þessu leyti og aðgangur að tölvum og interneti má heita almennur og þjónustugjöld með lægsta móti. Þjóðin hefur reynst móttækileg fyrir nýrri tækni og fljót að tileinka sér nýjungar á flestum sviðum. Verulegur vöxtur hefur orðið í nokkrum hátæknigreinum þar sem byggt er á innlendum rannsóknum og sérstöðu.
    Þótt framsækni nýrra fyrirtækja á nýjum sviðum veki mesta athygli má ekki gleyma því að hefðbundnir atvinnuvegir byggja einnig á nýrri þekkingu sem fæst með rannsóknum og þróunarstarfi og aðgangi að menntuðu fólki sem tryggt getur endurnýjun á þekkingarinnviðum fyrirtækja og stofnana. Þörf fyrir vísindalega þekkingu og þjálfun fer vaxandi á öllum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í mörgum þjónustugreinum, bæði á vegum hins opinbera og í einkageiranum.

Þörf á nýskipan vísinda- og tæknimála.
    Ábyrgð á málum rannsókna og þróunar í þágu atvinnulífsins hefur um langt skeið hvílt á herðum einstakra fagráðuneyta, að mestu án heildarsamræmingar þeirra í milli. Þannig hefur skipan rannsóknastofnana atvinnuveganna að mestu verið óbreytt í 37 ár. Fjárveitingar til stofnana og viðfangsefna hinna hefðbundnu atvinnugreina hafa verið í fremur föstum skorðum. Þetta var m.a. gagnrýnt í úttekt OECD á vísinda-, tækni- og nýsköpunarstefnu á Íslandi árið 1992. Þar var reyndar lagt til að stofnuð yrði ráðherranefnd um vísinda- og tæknimál til að fjalla um þessi mál innan ríkisstjórnar. Af því varð þó ekki.
    Rannsóknarráð Íslands hefur frá 1994, eftir sameiningu Rannsóknaráðs ríkisins og Vísindaráðs, gegnt vissu samræmingarhlutverki, annast alþjóðatengsl, safnað upplýsingum um framlög til rannsókna og lagt áherslu á samstarf opinberra rannsóknastofnana, háskóla og atvinnulífs. Hefur náðst margvíslegur árangur með styrkveitingum úr sjóðum sem ráðinu var falið að varðveita og úthluta. Hefur ráðið á grundvelli laganna frá 1994 m.a. komið upp vönduðu kerfi til að meta umsóknir um styrki á helstu sviðum vísinda, tækni og fræða. Virðist það eiga nokkurn þátt í vaxandi metnaði og samkeppnishæfni íslenskra vísindamanna í alþjóðlegum samanburði ef marka má aukna tíðni birtingar á vísindalegum greinum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á sviði vísinda á síðustu árum. Auk þess hefur ráðið annast og samræmt kynningu og framkvæmd á þátttöku Íslands í evrópsku samstarfi á sviði vísinda. Hefur hún tekist vel ef marka má sóknarárangur Íslendinga í rammaáætlun Evrópusambandsins, þar sem samkeppni er allhörð.
    Með hliðsjón af framangreindri alþjóðlegri og heimafenginni reynslu og vaxandi mikilvægis þessa málaflokks þykir nú tímabært að færa samræmda umfjöllun um málefni vísinda og tækni á efsta stig stjórnsýslunnar. Ljóst er að framlög atvinnulífsins til rannsókna fara ört vaxandi og jafnframt eykst metnaður vísindasamfélagsins í réttu hlutfalli við góðan árangur þess. Þótt framlög ríkisins til mennta- og vísindamála hafi lengst af verið hlutfallslega mikil miðað við framlög atvinnuveganna má nú búast við að kröfur til stjórnvalda um aukin framlög til vísinda og tækni og til stuðnings við nýsköpun aukist á næstu árum. Því verður æ mikilvægara að ákvarðanir séu teknar með heildarsýn í fyrirrúmi á grundvelli stefnu sem mörkuð er af stjórnvöldum. Taka þarf mið af þörfum sem varða starfssvið margra ráðuneyta því vísindaframfarir og ný þekking nýtist þvert á þá skipan. Ljóst er að skipan opinberra rannsóknastofnana þarfnast endurskoðunar og örar breytingar eru að verða á verkaskiptingu milli opinberra aðila og einkageirans á sviði rannsókna og þróunar um þessar mundir. Þá breytast viðhorf á sviði vísinda og tækni, sem og í atvinnulífinu, mjög hratt og mikilvægt að stjórnvöld séu vel upplýst og í aðstöðu til að bregðast við með breyttum áherslum.

Nýtt skipulag.
    Aukin samkeppni, breyttar aðstæður og ytri skilyrði gera kröfu til þess að fjármunir sem varið er til vísindarannsókna og tækniþróunar séu nýttir á markvissari hátt en áður og dugi til að ryðja nýrri þekkingu braut. Með markvissri stefnumótun, aukinni samvinnu og samhæfingu rannsóknastofnana og skýrri verkaskiptingu þeirra er hægt að nýta betur opinbert fjármagn sem rennur til rannsókna og þróunar og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Við gerð þessa frumvarps hefur verið haft til hliðsjónar að stefna í vísindum, rannsóknum og þróun setji ótvíræðan svip á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Erfitt getur verið fyrir Ísland að halda stöðu sinni í fremstu röð þjóða nema málaflokkurinn fái þann sess sem honum ber í stefnumótun stjórnvalda hverju sinni.
    Lög um Rannsóknarráð Íslands tóku gildi 1. júlí 1994. Samkvæmt þeim bar að endurskoða þau innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Hefur sú endurskoðun farið fram á undanförnum missirum á vegum menntamálaráðuneytisins í nánu samstarfi við ýmsa aðila sem þekkja starfssvið Rannsóknarráðs og þær breytingar sem orðið hafa á rannsóknaumhverfinu á síðustu árum. Jafnframt var leitað eftir hugmyndum um hvaða breytingar helstu rannsóknastofnanir í landinu teldu helst þörf á og skiluðu margir inn athugasemdum sínum í upphafi endurskoðunarstarfsins. Niðurstaða þessarar endurskoðunar er sú að samin hafa verið þrjú lagafrumvörp, sem fela í sér verulegar breytingar á stjórnskipulagi Rannsóknarráðs og tengdra aðila. Í fyrsta lagi frumvarp þetta til laga um Vísinda- og tækniráð, sem lagt er fram af forsætisráðherra, í öðru lagi frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem lagt er fram af menntamálaráðherra, og í þriðja lagi frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífs, sem lagt er fram af iðnaðarráðherra.
    Samkvæmt frumvörpunum þremur er gert ráð fyrir því að stefnumótun í málefnum vísindarannsókna og tækniþróunar fari fram í Vísinda- og tækniráði. Vægi málaflokksins er aukið með því að stefnumótun fer fram í ráði sem fjórir ráðherrar eiga sæti í og starfar undir stjórn forsætisráðherra. Þar koma ráðherrar, vísindamenn og fulltrúar atvinnulífs saman til stefnumótunar í málefnum rannsókna og þróunar. Er þetta nýlunda á Íslandi. Oft hefur verið bent á að það hafi staðið málaflokknum fyrir þrifum að heyra undir mörg ráðuneyti. Það hafi byrgt heildarsýn og hindrað markvissar aðgerðir. Víst er að í þeim löndum sem mesta athygli hafa vakið fyrir stefnumótun í vísindum og tækni hafa oddvitar ríkisstjórna komið að málum og staðið fyrir aðgerðum.
    Úthlutun styrkja verður samkvæmt frumvörpunum þremur á vegum tveggja sjóða, Rannsóknasjóðs sem heyrir undir menntamálaráðherra og Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir iðnaðarráðherra. Sjóðirnir starfi samkvæmt áherslum Vísinda- og tækniráðs og lúti sérstökum stjórnum og ráðinu er ætlað að tryggja nauðsynlega samhæfingu í starfi sjóðanna. Í núverandi skipulagi sjóða í vörslu Rannsóknarráðs eru mörkin dregin milli grunnrannsókna annars vegar og hagnýtra rannsókna og þróunarverkefna hins vegar. Þessi skilgreining er hefðbundin en að margra mati úrelt. Einkum hafa hugtökin grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir nálgast mjög í hugum þeirra sem fást við rannsóknir. Það er til dæmis tímanna tákn að rannsóknir á ýmsum sviðum hátækni og líftækni eru oftar en ekki grunnrannsóknir í þeim skilningi að aflað er nýrrar þekkingar á meginundirstöðum fyrirbæra, þótt þær séu hagnýtar í þeim skilningi að þeim er beint að sérstökum hagnýtum markmiðum. Mörkin eru einnig óljós í jarðvísindum svo annað dæmi sé tekið. Markmið tækniþróunar og nýsköpunar lýtur hins vegar fyrst og fremst að hagnýtingu vísindalegrar þekkingar til að skapa nýjar afurðir og aðferðir eða bæta þær sem fyrir eru. Í samræmi við þetta er Rannsóknasjóði ætlað að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir en Tækniþróunasjóði tækniþróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
    Markmið þessa frumvarps er að finna hentugt fyrirkomulag til að samhæfa starfsemi hins opinbera og sameina þá þætti sem hagkvæmt virðist. Einnig þarf að samræma sjónarmið opinberra aðila og einkaaðila varðandi stefnu í mennta-, vísinda- og tæknimálum.
    Við gerð frumvarpsins var víða leitað fanga. Skoðuð var skipan rannsóknamála í helstu nágrannalöndum okkar. Að fengnu áliti sérfróðra aðila var ákveðið að hafa skipulag rannsóknamála í Finnlandi að nokkru til hliðsjónar við gerð frumvarpsins. Finnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði á skömmum tíma og er talið að það megi rekja til þess vægis sem málaflokknum hefur verið gefið og einnig til skipulags vísinda- og tæknimála þar í landi.
    Þótt greina megi á Íslandi flesta þætti sem Finnar hafa í sínu kerfi til stuðnings við vísindi, tækni og nýsköpun er ljóst að nokkuð skortir á yfirsýn og samræmingu hér á landi. Þótt tekið sé mið af finnska vísinda- og tæknikerfinu þá er það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvörpunum þremur miðað við íslenskar aðstæður.
    Í aðalatriðum má lýsa nýju skipulagi með eftirfarandi skipuriti.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Samkvæmt skipuritinu mun Vísinda- og tækniráð vinna að eflingu vísindarannsókna, vísindamenntunar og tækniþróunar og móta stefnu fyrir opinbera aðila í vísinda- og tæknimálum. Vísinda- og tækniráðið starfar undir forustu forsætisráðherra og þar sitja jafnframt fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra. Auk þess tilnefna sjávarútvegsráðherra, landbúnaðarráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra í ráðið, svo og aðilar vinnumarkaðarins og háskólar. Í ráðinu sitja samtals 18 menn. Milli funda starfar Vísinda- og tækniráð í tveimur nefndum, vísindanefnd, sem heyrir undir menntamálaráðuneyti, og tækninefnd, sem heyrir undir iðnaðarráðuneyti. Gert er ráð fyrir að nefndirnar hafi með sér náið samráð og vinni tillögur að stefnu í málaflokkum sem undir þær heyra. Menntamálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið annast umsýslu fyrir vísindanefnd og tækninefnd.
    Undir menntamálaráðuneyti heyra sjálfstæðir styrktarsjóðir, Rannsóknasjóður (núverandi Vísindasjóður og Tæknisjóður), Tækjasjóður og Rannsóknarnámssjóður. Menntamálaráðherra skipar fimm manna stjórn Rannsóknasjóðs til þriggja ára. Formaður vísindanefndar skal jafnframt vera formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Stjórn Rannsóknasjóðs fer með stjórn Tækjasjóðs. Menntamálaráðherra skipar þriggja manna stjórn Rannsóknarnámssjóðs til þriggja ára í senn. Stjórnir sjóðanna taka endanlega ákvarðanir um úthlutun styrkja. Rannsóknamiðstöð Íslands heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðuneytið og er henni meðal annars ætlað að annast umsýslu sjóða. Nánar er fjallað um hlutverk hennar í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.
    Undir iðnaðarráðherra heyrir Tækniþróunarsjóður. Hlutverk hans er að fjármagna verkefni sem tengjast nýsköpun í atvinnulífinu og standa nærri markaði. Stjórn sjóðsins er ætlað að endurspegla þetta og er uppbygging stjórnarinnar í grundvallaratriðum þannig að hún hafi sterk tengsl við nánasta faglegt umhverfi sitt og þekkingarlega breidd. Gert er ráð fyrir að tveir stjórnarmenn af fimm tengist tækninefnd Vísinda- og tækniráðs. Tveir tengist nýsköpunarstarfsemi, sem unnin er í þágu atvinnulífsins, þar af verði annar tilnefndur af rannsóknastofnunum atvinnulífsins og hinn af Samtökum iðnaðarins. Þá skipar iðnaðarráðherra fimmta stjórnarmanninn án tilnefningar. Nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er önnur lykilstarfsemi sem nýsköpunarferlið byggist á. Hlutverk hennar er fyrst og fremst miðlun vísindalegrar þekkingar til atvinnulífsins og aðstoð við frumkvöðla og fyrirtæki sem takast á við frumstig nýsköpunarinnar og þarfnast leiðsagnar til að ná tilætluðum árangri. Nánar er fjallað um þetta í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Rannsóknamiðstöð Íslands annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs samkvæmt samningi við iðnaðarráðherra.
    Í Vísinda- og tækniráði mætast einstaklingar frá ólíkum stofnunum og mismunandi stjórnsýslusviðum og einstaklingar sem þekkingu hafa úr atvinnulífinu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að þessir aðilar móti stefnuna í málaflokknum. Með þessu fyrirkomulagi er honum gefið aukið vægi auk þess sem stefnumótandi ráð af þessu tagi er líklegra til þess að ná árangri í því að samræma aðgerðir opinberra aðila í vísinda- og tæknimálum en það Rannsóknarráð sem nú starfar. Hér er um metnaðarfulla hugmynd að ræða sem byggist á því að þekkingarauður þjóðarinnar sé ein helsta auðlind hennar og öðru fremur líkleg til þess að stuðla að auknum hagvexti og bættum lífskjörum í framtíðinni.
    Krafan um að vel sé fylgst með nýtingu opinbers fjár felur í sér að skilgreina verður hlut ríkisins í stuðningi við vísindi og tækni með skarpari hætti en gert hefur verið. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að á sviði menntamálaráðuneytisins verði höfuðáherslan lögð á að styrkja og styðja við bakið á vísindarannsóknum, án tillits til þess hvort þær megi flokka undir grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir, jafnframt því að stuðla að menntun ungra vísindamanna. Hlutverk ríkisins á þessu sviði verður samkvæmt því annars vegar að fjármagna öfluga sjóði til þess að styrkja vísindarannsóknir og hins vegar að stuðla að meistara- og doktorsnámi á háskólastigi. Aðrir þættir þróunar og nýsköpunar heyri undir iðnaðarráðuneytið að mestu leyti og hvíli á herðum sjóða eða einkaaðila, sem veita fé til vöruþróunar, nýsköpunar og áhættufjárfestinga.

Hugtök á sviði rannsókna og þróunar.
    Í frumvarpinu gegna fjögur hugtök lykilhlutverki en þau eru: Vísindi og rannsóknir annars vegar og þróun og tækni hins vegar. Öll geta þessi hugtök tengst með ýmsum hætti en í frumvarpinu eru hugtökin vísindi og rannsóknir tengd saman annars vegar og hugtökin þróun og tækni hins vegar. Þetta er gert fyrst og fremst til hægðarauka og til þess að skilgreina styrkveitingar til vísindarannsókna og til fjármögnunar tækniþróunar. Orðið vísindarannsóknir er notað yfir allar tegundir vísindarannsókna án tillits til þess hvort um er að ræða grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir. Við gerð frumvarpsins var ákveðið að fara þá leið að fjalla um hugtökin í athugasemdum en ekki skilgreina þau í lagatexta. Vísinda- og tækniráði og nefndum þess er ætlað að sjá til þess að opinber stefna og stuðningur nái til allra þessara þátta og tengi þá saman.
    Í frumvarpinu er jafnframt stuðst við þrjú grunnhugtök: Grunnrannsóknir, hagnýtar rannsóknir og þróun. Fyrstu tvö hugtökin hafa ekki skýr mörk og eru því nefnd einu nafni rannsóknir í frumvarpinu. Í frumvarpinu eru eftirfarandi hugtök lögð til grundvallar:
          Grunnrannsóknir fela í sér tilraunir eða fræðilega vinnu sem innt er af hendi með það í huga að afla nýrrar þekkingar á undirstöðum fyrirbæra og atburða, oft án þess að hafa nokkra tiltekna hagnýtingu í huga. Meiri hluta slíkra rannsókna er samt sem áður beint að sviðum sem eru áhugaverð fyrir þann sem greiðir fyrir rannsóknirnar.
          Hagnýtar rannsóknir fela einnig í sér tilraunir eða fræðilega vinnu sem fer fram með það í huga að afla nýrrar þekkingar. Þeim er hins vegar oftast beint að sérstökum hagnýtum stefnumiðum eða markmiðum.
          Þróun felur í sér kerfisbundna vinnu, þar sem byggt er á fyrirliggjandi þekkingu sem hefur fengist með rannsóknum eða hagnýtri reynslu, sem miðar að því að framleiða ný efni, vörur og tæki; að setja upp ný ferli, kerfi og þjónustu; eða að bæta verulega þessa þætti þar sem þeir eru fyrir.

Tölulegar staðreyndir.
    Umtalsverð aukning hefur orðið á útgjöldum til rannsókna og þróunar á Íslandi á síðustu árum. Upplýsingar um þessi útgjöld á Norðurlöndunum frá 1999 sýna t.d. að Ísland var með hæstu árlegu raunaukningu á Norðurlöndum á síðasta áratug eða um 12,6%.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram vilji til að auka veg menntunar og rannsókna sem eru forsenda fyrir nýsköpun í atvinnulífinu. Af því tilefni hefur frá árinu 2000 verið fjallað sérstaklega um útgjöld til rannsókna- og þróunarmála í fjárlagafrumvarpi í þeim tilgangi að fá heildaryfirsýn yfir þessi útgjöld á vegum ráðuneyta til að geta betur samræmt og samhæft aðgerðir stjórnvalda á þessu sviði. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2002 voru þessi útgjöld hjá öllum ráðuneytunum áætluð um 8,9 milljarðar kr. og er þá miðað við fjárframlög til stofnana ásamt sjálfsaflafé þeirra og önnur verkefni. Ef einungis er litið til áætlaðra framlaga ríkisins nemur sú upphæð um 7 milljörðum kr. 1 Áætluð skipting framlaga milli ráðuneyta sést á mynd 1. Þar kemur fram að menntamálaráðuneytið er umsvifamest. Framlög þess til rannsókna er um 4 milljarðar kr. árið 2002 sem er 57% af framlögum ríkisins til þessara mála. Næstumsvifamesta ráðuneytið er sjávarútvegsráðuneytið með 1,4 milljarð kr. til rannsókna 2002 sem er 21% af framlögum ríkisins til rannsóknamála (sjá mynd 1).
    Mynd 2 sýnir áætlaða skiptingu framlaga til rannsóknamála á fjárlögum árið 2002. Framlög til menntastofnana eru rúmir 2,4 milljarðar kr. eða um 35% af heildarframlagi ríkisins. Framlög til rannsókna atvinnuveganna eru um 1,8 milljarðar kr. eða um 26%. Opinberar rannsóknastofnanir eru svo þriðju í röðinni með 1,3 milljarð kr. eða 18,8%. Framlög til Rannsóknarráðs Íslands og ýmissa sjóða, þ.m.t. sjóða í vörslu þess, eru um 650 millj. kr. eða um 9,2% af heild. Til ýmissa áætlana og verkefna renna um 7,3% af framlögum til rannsóknamála og í erlent rannsóknastarf um 4,3%.

Mynd 1. Opinber framlög til rannsókna og þróunar árið 2002, eftir uppruna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2. Opinber framlög eftir viðtakendum 2002.    Eins og sést á mynd 2 er hlutfall ýmissa sjóða sem leggja fé til rannsókna og þróunar um 9% eða um 650 millj. kr. af heildarframlögum ríkisins til þessara mála. Þó að hlutfall samkeppnissjóða sem Rannsóknarráð hefur yfir að ráða sé ekki hærra en raun ber vitni er mikilvægi þeirra ótvírætt. Þar fer fram ítarlegt faglegt mat á umsóknum þar sem gæði og árangur verkefna hafa mest að segja. Sjóðirnir eru nánast eina opinbera fjármagnið hérlendis þar sem efnt er til samkeppni milli umsókna um styrki. Vægi þeirra er því meira en upphæðir gefa til kynna.
    Mikilvægt er að samhæfing náist milli þeirra ráðuneyta sem hafa með rannsóknamál að gera. Umhverfi vísinda- og rannsóknastarfsemi hefur breyst ört á síðustu árum, m.a. með aukinni þátttöku fyrirtækja, alþjóðavæðingu og tilkomu áhættufjármagnssjóða. Breytt mynd kallar á skýrari stefnu og aukna samhæfingu og samráð þeirra sem fara með fjármagn ríkisins í þessum málaflokki. Þessi staðreynd er grunnurinn að þeirri hugmynd að myndað verði Vísinda- og tækniráð með þátttöku þeirra sem bera ábyrgð á rannsókna- og þróunarmálum, hverra á sínu sviði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um meginmarkmið frumvarpsins og sérstök áhersla lögð á mikilvægi þeirra fyrir menningu þjóðarinnar og atvinnuvegina. Gert er ráð fyrir að stefna stjórnvalda, sbr. 2. gr., verði mörkuð í samræmi við þessi markmið.

Um 2. gr.

    Hér er lagt að stefnumótun í vísinda- og tæknimálum verði í höndum Vísinda- og tækniráðs, sem skipað er skv. 3. gr., og umfjöllun ráðsins á hvoru sviði um sig undirbúin af vísindanefnd annars vegar og tækninefnd hins vegar, sem skipaðar eru skv. 4. gr. Gert er ráð fyrir að stefnan verði hverju sinni mótuð til jafnlangs tíma og ráðið og nefndirnar eru skipaðar eða til þriggja ára í senn.
    Stefnumótun á þessu sviði varðar starfsemi opinberra rannsóknastofnana og opinberra úthlutunarsjóða, áherslur á sviði vísinda og tækni, þ.m.t. vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun. Þannig er gert ráð fyrir að umfjöllun ráðsins taki til almennrar þróunar á sviði vísinda og tækni, samhæfingar opinberra stofnana á sviði vísindarannsókna, aðgerða sem miða að þróun tækni og aukinnar nýtingar hennar og skiptingar fjármuna ríkisins til vísinda- og tæknimála.

Um 3. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um skipan Vísinda- og tækniráðs. Til að starfsemi þess fái þá pólitísku athygli sem viðfangsefnið verðskuldar er lagt til að tilteknir fjórir ráðherrar eigi þar föst sæti, en þeim megi fjölga um allt að tvo í samræmi við þær áherslur sem ríkisstjórnin kýs að leggja hverju sinni. Auk þeirra verði ráðið skipað 14 fulltrúum stjórnvalda, atvinnulífsins og vísindasamfélagsins.
    Gert er ráð fyrir að ráðið komi saman undir forsæti forsætisráðherra, en skipti að öðru leyti sjálft með sér verkum, ákveði starfshætti og skipuleggi starfsemi sína, að svo miklu leyti sem um það er ekki mælt í reglugerð sem forsætisráðherra setur, sbr. 5. gr.

Um 4. gr.


    Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að stefnumótun Vísinda- og tækniráðs verði undirbúin af vísindanefnd annars vegar og tækninefnd hins vegar og taki mið af tillögum þeirra. Vísindanefnd fjallar þá um mál er varða vísindi og rannsóknir, en tækninefnd um mál er varða tækni og þróun. Til að tryggja samfellu og samræmi í störfum nefndanna og ráðsins er hér lagt til að nefndirnar verði skipaðar ráðsmönnunum sjálfum og varamönnum þeirra til jafnlangs tíma og ráðið er skipað. Ekki er lögbundið hversu margir skuli vera í hvorri nefnd og því er t.d. mögulegt að skipa fleiri en sjö fulltrúa í hvora nefnd. Þá opnast sá möguleiki að skipa sömu fulltrúa bæði í vísindanefnd og tækninefnd og samhæfa þannig störf þeirra, verði það talið æskilegt. Með þessu fyrirkomulagi er lögð sérstök áhersla á mikilvægi samstarfs og samvinnu milli nefndanna og ekki er útilokað að þær afgreiði í einhverjum tilfellum mál sameiginlega. Þrátt fyrir að áhersla sé lögð á samstarf og samvinnu nefndanna er talið rétt að starfandi séu tvær nefndir. Er það æskilegt vegna ólíkrar aðkomu ríkisvaldsins að tækniþróun og nýsköpun annars vegar og rannsóknum hins vegar. Hvor ráðherra um sig ber ábyrgð á að búa nefndunum viðunandi starfsskilyrði og aðstöðu.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er lagt til að forsætisráðherra geti sett nánari ákvæði um starfsemi Vísinda- og tækniráðs, eftir því sem þörf er á, og sama eigi við um menntamálaráðherra vegna vísindanefndar og iðnaðarráðherra vegna tækninefndar.

Um 6. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi við birtingu, en vitaskuld hljóta bæði ráðið og nefndirnar í upphafi að haga störfum sínum í takt við aðrar skipulagsbreytingar á þessu sviði, sbr. bráðabirgðaákvæði við frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð.


    Frumvarpinu er ætlað að efla og samræma stefnumótun stjórnvalda á sviði vísindarannsókna, vísindamenntunar og tækniþróunar í landinu, gera hana markvissari og gefa henni aukið vægi. Frumvarpið er lagt fram af forsætisráðherra og er flutt samhliða frumvarpi menntamálaráðherra um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og frumvarpi iðnaðarráðherra um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífs.
    Frumvarpið sem slíkt gerir ekki ráð fyrir auknum fjárveitingum til rannsókna- og þróunarmála frá því sem nú er en miðar þess í stað að því að fjármunir sem til málaflokksins er varið verði nýttir á markvissan hátt í samræmi við skýra stefnu.
    Af þessum sökum er gengið út frá því að lögfesting frumvarpsins leiði ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Útgjöldin gætu þó skipst öðruvísi en áður.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Samkvæmt gögnum Rannís.