Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 435  —  382. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á þjóðminjalögum, nr. 107/2001.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    Í stað orðsins „fornleifanefnd“ í 2. málsl. 2. gr. laganna kemur: húsafriðunarnefnd ríkisins.

2. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Til byggðasafna teljast samkvæmt lögum þessum önnur söfn en Þjóðminjasafn Íslands sem sett hafa verið á stofn í þeim tilgangi sem segir í 5. gr., falla undir skilgreiningu á söfnum skv. 4. gr. safnalaga, nr. 106/2001, og uppfylla skilyrði um rekstrarstyrki safna skv. 3. mgr. 10. gr. sömu laga.

3. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Fornleifavernd ríkisins“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: safnið.
     b.      Orðin „í samráði við Fornleifavernd ríkisins“ í 2. málsl. 4. mgr. falla brott.

4. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Landinu er skipt í minjasvæði eftir ákvæðum í reglugerð sem menntamálaráðherra setur. Í Reykjavík fer borgarminjavörður með minjavörslu. Þjóðminjavörður ræður aðra minjaverði er hafa umsjón með minjasvæðum. Þeir eru starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands. Minjaverðir skulu sinna verkefnum er varða þjóðminjavörsluna í heild, þ.m.t. fornminjum og húsafriðun. Um störf þeirra skal nánar kveðið á í reglugerð.
    Minjaverðir skulu hafa háskólamenntun og þekkingu á menningarsögu. Þjóðminjaverði er heimilt með sérstökum samningi að fela forstöðumanni byggðasafns að gegna hlutverki minjavarðar á viðkomandi minjasvæði.
    Þjóðminjaverði er heimilt að stofna minjaráð á hverju minjasvæði. Minjaráð skulu skipuð forstöðumönnum allra viðurkenndra byggðasafna á svæðinu ásamt minjaverði. Hlutverk þess er að fjalla um menningarminjar og varðveislu þeirra.

5. gr.

    Við i-lið 1. mgr. 9. gr. laganna bætist: eða lausir hlutir úr flökum.

6. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Orðin „að höfðu samráði við Náttúruvernd ríkisins“ í 3. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður sem orðast svo: Haft skal samráð við Umhverfisstofnun þegar einnig er um náttúruminjar að ræða.

7. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „fornleifar“ í 3. málsl. kemur: sem áður voru ókunnar.
     b.      Við bætist nýr málsliður sem orðast svo: Rannsóknir samkvæmt ákvæði þessu eru neyðarrannsóknir, gerðar á kostnað Fornleifaverndar ríkisins sem ber jafnframt ábyrgð á þeim en getur þó falið öðrum framkvæmd þeirra.

8. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „vegagerðar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: virkjanaframkvæmda, flugvallargerðar, hafnar- eða dýpkunarframkvæmda.
     b.      Á eftir orðinu „vegagerð“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: hafnar- og dýpkunarframkvæmdir, framræslu.
     c.      Í stað orðanna „fornleifafundi“ og „fundarins“ í 2. mgr. kemur: fornleifum, og: þeirra.

9. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Til fornleifarannsókna telst annars vegar fornleifauppgröftur og hins vegar fornleifaskráning.
     b.      Í stað orðsins „fornleifarannsókn“ í 2. mgr. kemur: fornleifauppgreftri.

10. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „forngripum“ kemur: fornminjum.
     b.      Í stað orðsins „þjóðminjavarðar“ kemur: Fornleifaverndar ríkisins.

11. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þjóðminjavörður ákveður friðlýsingu og varðveislu kirkjugripa sem varðveittir eru í kirkjum landsins og hann telur friðunarverða vegna sögulegs eða listræns gildis þeirra.
     b.      Í stað orðanna „forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins“ í 2. mgr. kemur: þjóðminjavarðar.


12. gr.

    Í stað orðanna „Forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins“ í 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: Þjóðminjavörður.

13. gr.

    Í stað orðanna „Fornleifavernd ríkisins“ í 22. gr. laganna kemur: Þjóðminjasafn Íslands.

14. gr.

    Orðin „forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins“ í 1. málsl. 23. gr. laganna falla brott.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Eftir gildistöku þjóðminjalaga, nr. 107/2001, hefur í framkvæmd komið fram þörf á að gera nokkrar breytingar á lögunum, m.a. til að skerpa á verkaskiptingu milli Þjóðminjasafns Íslands og Fornleifaverndar ríkisins. Nauðsynlegt er talið að skýrari skil verði sett milli hlutverks Fornleifaverndar ríkisins sem stjórnsýslustofnunar sem veitir leyfi og hefur eftirlit með fornleifarannsóknum og hlutverks Þjóðminjasafns Íslands sem höfuðsafns á sviði minjavörslu í landinu. Breytingum þeim sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við þessi sjónarmið. Jafnframt hefur komið fram óánægja á landsbyggðinni með stöðu minjavarða samkvæmt þjóðminjalögum og því er lögð til sérstök breyting á stöðu og hlutverki þeirra í frumvarpinu. Þá er lagt til að ákvæði um neyðarrannsóknir verði gert skýrara auk annarra breytinga sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Fornleifanefnd ríkisins er einungis ætlað að gegna því hlutverki að úrskurða um tilteknar ákvarðanir Fornleifaverndar ríkisins skv. 7. gr. laganna. Með því að gerða breytingu sem hér er lögð til, að í stað fornleifanefndar í 2. mgr. 2. gr. komi húsafriðunarnefnd ríkisins, er verið að skýra þrískiptingu þjóðminjavörslunnar þar sem Þjóðminjasafn Íslands, Fornleifavernd ríkisins og húsafriðunarnefnd ríkisins fara hvert með sinn málaflokkinn.

Um 2. gr.

    Í 4. gr. safnalaga, nr. 106/2001, er skilgreining á söfnum og jafnframt er í 10. gr. sömu laga upptalning á þeim skilyrðum sem söfn þurfa að uppfylla til að fá rekstarstyrki. Má líta á þá upptalningu sem frekari skilgreiningu á söfnum. Safnaráð krefur söfn, sem undir safnalög falla, um gögn er staðfesta að þau uppfylli kröfur sem gerðar eru í 4. og 10. gr. laganna og því er hér talið óþarft að hafa það tvöfalda kerfi að söfn þurfi að fá viðurkenningu þjóðminjavarðar og safnaráðs. Því er þessi breyting á 4. gr. laga þessara lögð til.

Um 3. gr.

    Í 5. gr. laganna kemur skýrt fram að varðveisla muna skuli vera hjá Þjóðminjasafni Íslands og á það jafnt við um kirkjugripi og forngripi sem aðra muni. Sérfræðiþekking á menningarlegu gildi muna af þessu tagi er því fyrir hendi í safninu. Þar er sérstök deild og sérfræðingur í kirkjugripum. Sérfræðiþekking og starfsemi Fornleifaverndar er á öðru sviði þjóðminjavörslunnar. Því er lögð til sú breyting að hlutverk Fornleifaverndar skv. 5. gr. verði falið Þjóðminjasafninu og orðalagi 4. mgr. breytt til samræmis við það. Nánar er fjallað um kirkjugripi í athugasemdum við 11.–14. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Hér er lögð til sú breyting á 8. gr. laganna að minjaverðir heyri undir Þjóðminjasafn Íslands en ekki Fornleifavernd ríkisins. Ástæða þessarar breytingartillögu er sú að fram hefur komið óánægja á landsbyggðinni með hlutverk minjavarða samkvæmt þjóðminjalögum. Á það hefur verið bent að hlutverk þeirra sé óljóst og að starfssvið þeirra hafi þrengst til muna frá því sem áður var. Áður höfðu minjaverðir eftirlit með gömlum húsum fyrir Þjóðminjasafnið og húsafriðunarnefnd og ráðgjöf fyrir byggðasöfnin, m.a. um varðveislu nýfundinna forngripa, auk þess að hafa eftirlit með fornminjum. Til að auka hlutverk og breikka starfssvið minjavarða á landsbyggðinni er mikilvægt að þeir heyri undir Þjóðminjasafn Íslands þar sem starfsemi safnsins er mun víðtækari en annarra stofnana þjóðminjavörslunnar, þ.e. Fornleifaverndar ríkisins og húsafriðunarnefndar ríkisins. Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um að minjaverðir skuli sinna verkefnum er varða þjóðminjavörsluna í heild, þ.m.t. fornminjum og húsafriðun. Um störf þeirra verði fjallað nánar í reglugerð sem tæki þá mið af fjölþættu hlutverki þeirra. Þá er lagt til að hæfisskilyrðum minjavarða verði breytt til samræmis við breytt hlutverk þeirra. Verði þessi breytingartillaga samþykkt er gert ráð fyrir að þeir minjaverðir sem ráðnir hafa verið af forstöðumanni Fornleifaverndar ríkisins heyri eftir breytinguna undir þjóðminjavörð og verði því starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að orðunum „eða lausir hlutir úr flökum“ verði bætt við i-lið 1. mgr. 9. gr. laganna til að leggja áherslu á að slíkir munir skuli einnig teljast til fornleifa samkvæmt ákvæðinu.

Um 6. gr.

    Þegar einungis er um fornminjar að ræða er ekki þörf á að Umhverfisstofnun (áður Náttúruvernd ríkisins), sem hefur sérfræðiþekkingu á öðrum sviðum en á sviði þjóðminjavörslunnar, sé umsagnaraðili um meðferð fornminja. Þegar um er að ræða staði þar sem saman fara forn- og náttúruminjar er hins vegar eðlilegt að Fornleifavernd ríkisins og Umhverfisstofnun hafi samráð. Því er þessi breyting lögð til á 12. gr. laganna.

Um 7. gr.

    Í þjóðminjalögum er engin skilgreining á „neyðarrannsóknum“ en tilgangurinn með breytingu þeirri sem hér er lögð til á 13. gr. þeirra er m.a. að bæta úr því. Þá er nauðsynlegt að kveða nákvæmlega á um hvaða rannsóknir Fornleifavernd ríkisins ber að framkvæma og hver beri kostnað af þeim. Gerður er skýr greinarmunur á skráðum og þekktum fornminjum annars vegar og óþekktum og óskráðum fornminjum hins vegar. Þegar óskráðar og óþekktar fornminjar finnast, hvort heldur er vegna framkvæmda eða af öðrum ástæðum, er lagt til að Fornleifavernd rannsaki fundinn og að kostnaður af því verði borinn af stofnuninni. Annað gildir þegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar og vitað er um fornminjar á viðkomandi stað, í fornleifaskrám eða öðru rituðu efni. Þá ber framkvæmdaaðili kostnað af þeim eins og kveðið er á um í 14. gr. laganna. Mikilvægt er að í reglugerð verði sett nánari ákvæði um samráð við menntamálaráðuneytið um umfang neyðarrannsókna, einkum þegar fornminjar finnast á stöðum þar sem engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Um 8. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á orðlagi 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna til samræmis við orðlag í 3. málsl. sömu málsgreinar, auk þess sem lagt er til að orðið „fornleifar“ komi í stað „fornleifafundar“ sem er þrengra hugtak. Samhengisins vegna komi jafnframt orðið „þeirra“ í stað orðsins „fundarins“.

Um 9. gr.

    Í núgildandi lögum er fornleifarannsókn aðeins skilgreind sem fornleifauppgröftur en fornleifaskráning er einnig fornleifarannsókn. Jarðrask hlýst af fornleifauppgreftri en ekki öllum fornleifarannsóknum og því er þessi breyting á 15. gr. lögð til.

Um 10. gr.

    Allar fornminjar í jörðu, hvort heldur fornleifar eða forngripir, eru á forræði Fornleifaverndar ríkisins sem hefur sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Því má telja eðlilegt að öll leyfi til rannsókna á fornminjum, án tillits til hvaða tæki eru notuð, séu á hendi Fornleifaverndar en ekki þjóðminjavarðar. Því er þessi breyting lögð til á 16. gr.

Um 11.–14. gr.

    Í 20.–23. gr. laganna er fjallað um kirkjugripi og minningarmörk. Er hér lögð til sú breyting að umsjón þeirra mála falli undir Þjóðminjasafn Íslands í stað Fornleifaverndar ríkisins. Ástæða þess er að í Þjóðminjasafni eru varðveittir lausir munir, þ.m.t. kirkjugripir og forngripir. Safnið, ásamt húsafriðunarnefnd ríkisins, sér um þann hluta þjóðminjavörslunnar sem lýtur að munum og mannvirkjum ofan jarðar. Sérfræðiþekking á munum og varðveislu þeirra er því einkum hjá Þjóðminjasafninu og af þeim sökum einnig þekking til að meta hvort hlutur sé þess virði að ástæða sé til að friða hann. Það á einnig við um legsteina og önnur minningarmörk því mörg slík eru í safninu og við kirkjur í húsasafni Þjóðminjasafnsins. Fornleifaverndin sér um menningarminjar sem liggja í jörðu og hefur sérfræðiþekkingu á fornminjum. Í lögunum er þessi verkaskipting mjög skýr með þeirri einu undantekningu að Fornleifavernd fer inn á munasviðið þegar um kirkjugripi er að ræða. Húsafriðunarnefnd hefur umsjón með friðlýsingu húsa og Fornleifavernd umsjón með friðlýsingu fornminja. Til að verkaskipting sé miðuð við sérfræðisvið hverrar stofnunar er eðlilegt að Þjóðminjasafn sjái um friðlýsingu muna, þ.m.t. kirkjugripa.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á þjóðminjalögum, nr. 107/2001.

    Í frumvarpinu er lagðar til ýmsar breytingar til að skerpa á verkefnum ríkisstofnana sem annast stjórnsýslu á sviði minjavörslu.
    Helstu breytingar eru annars vegar þær að Þjóðminjasafn Íslands tekur aftur við ýmsum verkefnum sem voru færð til Fornleifaverndar ríkisins með gildandi þjóðminjalögum. Þar munar mestu um störf minjavarða. Þá breytist starfssvið minjavarða aftur í fyrra horf. Að mati fjármálaráðuneytis mun þetta ekki að hafa áhrif á útgjöld ríkisins verði núverandi minjavörðum boðið sams konar starf hjá Þjóðminjasafninu og þeir hafa gegnt hjá Fornleifaverndinni. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar færist samhliða verkefnum sem flytjast milli stofnana.
    Hins vegar er lögð til sú breyting að Fornleifavernd ríkisins standi straum af og greiði kostnað við neyðarrannsóknir sem fram þurfa að fara þegar áður ókunnar fornminjar koma í ljós þegar unnið er við verklegar framkvæmir. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið er gert ráð fyrir að sett verði í reglugerð ákvæði um samráð Fornleifaverndar við menntamálaráðuneytið um umfang neyðarrannsókna. Við gerð þessarar umsagnar eru ekki fyrir hendi forsendur til að áætla hversu oft neyðarrannsóknir koma til með að fara fram og hvert umfang þeirra verður. Í umsögn þessari er reiknað með að rekstrarútgjöld ríkisins aukist um allt að 1 m.kr. á ári og að Fornleifavernd ríkisins skipuleggi starf sitt þannig að nægt svigrúm sé til að mæta kostnaði við fyrstu aðgerðir.