Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 446  —  304. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um úrskurð vegna jarðarsölu í Skorradal.

1.    Með hvaða rökum var felld úr gildi sú ákvörðun Skorradalshrepps að neyta forkaupsréttar til að kaupa 50% hlut í jörðinni Efstabæ í Skorradal?
    Ekki var talið að Skorradalshreppur hefði sýnt fram á með nægjanlegum hætti að nauðsynlegt hefði verið að neyta forkaupsréttar í þessu tilviki út frá þeim sjónarmiðum sem sett eru fram í 1. gr. jarðalaga og talið var að yfirlýstum tilgangi hreppsins með kaupunum væri hægt að ná með öðrum og vægari úrræðum. Ekki var talið að Skorradalshreppur hefði sýnt fram á að fyrirhuguð nýting kærenda á landinu væri ósamrýmanleg þeirri nýtingu sem fyrir var á svæðinu.
    Talið var að Skorradalshreppur hefði ekki sýnt fram á að breyting á eignarhaldi á 50% hluta Efstabæjarlands skaðaði hagsmuni sveitarfélagsins eða þeirra sem innan þess búa með þeim hætti að það gæti réttlætt beitingu forkaupsréttar, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 30. gr. jarðalaga.
    Ráðstöfun landsins eins og hún var fyrirhuguð var ekki talin andstæð tilgangi jarðalaga, þannig að réttlæta mætti nýtingu forkaupsréttar samkvæmt jarðalögum.

2.    Með hvaða rökum var gengið gegn tilmælum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar í málinu?
    Í gögnum málsins lágu fyrir álit um ástand alls lands Efstabæjar. Við samningu úrskurðarins var litið til umræddra álita og var ekki litið fram hjá þeim með nokkrum hætti. Endanleg niðurstaða málsins var háð lögfræðilegu mati á öllum þeim gögnum sem fyrir lágu, þar á meðal tilvitnuðum álitum. Rétt er að geta þess að umrædd álit fjölluðu um ástand lands og beitarþol þess en ekki um það hvort sveitarstjórn ætti að neyta forkaupsréttar að landinu eður ei.

3.    Á hvern hátt hefðu lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, og girðingarlög, nr. 135/2001, getað nýst hreppsnefnd Skorradalshrepps sem vægari aðgerðir en neyting forkaupsréttar á grundvelli jarðalaga?
    Auk þeirra laga sem nefnd voru í úrskurðinum og getið er í fyrirspurn koma einnig önnur lög til álita. Rétt þykir því að láta koma fram í svari önnur helstu úrræði er gætu komið til greina.

         Lög um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002.

     I.      Í 5. gr. laganna er heimild fyrir sveitarstjórnir til að setja samþykkt um búfjárhald. Eftir ákvæðum 2. mgr. 5. gr. má í búfjársamþykktum kveða á um að tiltekið búfjárhald sé með öllu bannað í viðkomandi sveitarfélagi eða takmarkað við tiltekin svæði innan sveitarfélagsins.
     II.      Í 6. gr. kemur fram að sveitarstjórn er heimilt, til að koma í veg fyrir ágang búfjár, að ákveða að umráðamönnum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Sveitarstjórn getur ákveðið lausagöngubann á tilteknum hluta sveitarfélags eða í því öllu, allt eftir aðstæðum. Þar sem sveitarstjórn bannar lausagöngu búfjár ber umráðamönnum þess skylda til að hafa búféð í vörslu í gripheldri girðingu og ber umráðamaður búfjár ábyrgð á að svo sé.
     III.      Vilji eigendur lands á svæðinu friða land sitt er ákveðið úrræði fyrir þá í 8. gr. laganna. Þar segir að umráðamanni lands sé heimilt að ákveða að tiltekið og afmarkað landsvæði sé friðað svæði og er þá umgangur og beit búfjár þar bönnuð.

         Girðingarlög, nr. 135/2001.
     I.      Umráðamaður lands sem girða vill land sitt getur krafist þess skv. 5. gr. girðingarlaga að sá eða þeir sem land eiga að hinu fyrirhugaða girðingarstæði greiði girðingarkostnaðinn að jöfnu á merkjum jarðanna.
     II.      Í 9. gr. laganna er fjallað um það er girðing er reist á landamerkjum. Þar er sagt fyrir um hvaða sjónarmið eiga að ráða þegar girt er á merkjum.
     III.      Nú er land Efstabæjar í óskiptri sameign og á þá 10. gr. girðingarlaga við, eigi að skipta landinu milli eigenda. Í 10. gr. girðingarlaga kemur fram að sé land í óskiptri sameign geta einn eða fleiri landeigendur því aðeins girt á því landi að allir sameigendur séu samþykkir girðingunni. Náist ekki samkomulag er því aðeins hægt að girða að landskipti fari fram. Í landskiptalögum, nr. 46/1941, segir í 1. gr. að hafi landskipti ekki farið fram áður getur hver einstakur eigandi farið fram á skiptin.
     IV.      Eigendur lands Efstabæjar og aðliggjandi jarða geta krafist þess að girðingar séu reistar á merkjum jarðanna til að vernda land sitt eða girða sig fyrir ágangi sauðfjár, enda verður ekki betur séð á kortum en að ekki sé um neitt afréttarland að ræða heldur er allt land Efstabæjar heimaland og einungis heimalönd annarra jarða liggja að því.

         Lög um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.
     I.      Sveitarstjórnum, þegar um heimalönd er að ræða, er skylt að fylgjast með ástandi heimalanda. Berist sveitarstjórn rökstuddar ábendingar um að nýting heimalands sé ekki hagað á skynsamlegan hátt, eða að um ofbeit sé að ræða, er sveitarstjórn skylt að leita álits gróðurverndarnefndar og Landgræðslu ríkisins um málið og um aðgerðir til úrbóta.
     II.      Sveitarstjórn getur óskað þess að kannað verði hvort nauðsynlegt sé að koma á ítölu á svæðinu. Ákvæði um ítölu eru í 15.–30. gr. laganna og eru þau allítarleg og vandasamt að fylgja til að ákvörðun um ítölu verði gild.
     III.      Ítölu er hvort heldur sem er hægt að gera í afrétti eða heimalönd, fyrir heilar sýslur, einstök sveitarfélög eða hreppshluta, sbr. 17. gr. laganna.
     IV.      Ítala er úrræði sem hvort heldur er hægt að koma á með samvinnu við aðila eða með meirihlutakosningu, t.d. í atkvæðagreiðslu þeirra bænda sem land ættu í ofanverðum Skorradal.

         Lög um landgræðslu, nr. 17/1965.
     I.      Náist ekki samkomulag um aðgerðir til verndar landi eins og gert er ráð fyrir í 17.–21. gr. laganna getur landgræðslustjóri samkvæmt ákvæðum 22. gr. látið fara fram rannsókn á viðkomandi jörð eða landsvæði. Leiði rannsókn í ljós að brýn þörf sé á gróðurvernd getur landgræðslustjóri krafist nauðsynlegra aðgerða af hálfu landeiganda. Verði hann ekki við þeirri kröfu getur Landgræðslan á kostnað landeiganda framkvæmt aðgerðirnar, að fengnu samþykki ráðuneytis.
     II.      Landgræðslustjóri á samkvæmt ákvæðum 23. gr., náist ekki samkomulag við landeiganda, að láta rannsaka beitarþol lands og leiði rannsókn í ljós að löndum sé ofboðið er landgræðslustjóra skylt að krefjast ítölu í löndin og er bændum þá óheimilt að halda þar fleira fé en ítala leyfir.
     III.      Eftir ákvæðum 5. mgr. 23. gr. hefur ráðuneytið heimild til að takmarka beit tímabundið. Í greininni segir að sé svo komið að skjótra verndaraðgerða sé þörf, að mati gróðureftirlits Landgræðslu ríkisins, getur landbúnaðarráðuneytið að höfðu samráði við sveitarstjórn ákveðið tímabundna takmörkun á beitarálagi þar til ítala er komin á.
     IV.      Sé það markmið Skorradalshrepps að takmarka beit á svæðinu vegna ástands þess eru ákvæði í landgræðslulögum sem heimila takmörkun eða jafnvel stöðvun beitar.

4.    Á hvern hátt telur ráðherra 1. gr. jarðalaga samrýmast úrskurði sínum?

    Í þeim gögnum er lágu til grundvallar úrskurði ráðuneytisins kom fram að kaupendur 50% hluta Efstabæjar kaupa landið með það fyrir augum að uppfylla skilyrði um gæðastýrða búvöruframleiðslu, sbr. 41.–49. gr. búvörulaga, nr. 99/1993. Í 43. gr. búvörulaga segir að framleiðendur skuli hafa aðgang að nægu nýtanlegu beitarlandi fyrir búfé sitt. Landnýting skal vera sjálfbær þannig að framleiðslugeta landsins sé nægileg og nýting innan þeirra marka að gróðurfar sé í jafnvægi eða framför að mati Landgræðslu ríkisins sem leggur mat á land þeirra sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Af framansögðu var talið ljóst að til þess að uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu er ekki hægt að nota til þess beitarland sem er ekki hæft til beitar, enda verða bændur þá af þeim greiðslum sem af gæðastýringu leiðir.
    Þegar litið var til þess að kaupendur 50% hluta Efstabæjar hyggjast nýta jörðina til landbúnaðar og til þess að kaupin voru liður í að skjóta styrkari rótum undir sauðfjárræktun í gæðastýrðu kerfi með sjálfbæra nýtingu landsins í huga, og þegar litið var til þess að fyrir lá að kaupendur voru ekki andsnúnir fyrirhuguðu friðunarsvæði þegar samkomulag hefði náðst við þá um legu girðingar og að teknu tilliti til þess að Skorradalshreppi hafði ekki tekist að sýna fram á að breytt eignarhald á 50% hluta Efstabæjarlands væri andstætt hagsmunum sveitarfélagsins, var talið að úrskurður ráðuneytisins væri í samræmi við tilgang jarðalaga er fram kemur í 1. gr. jarðalaga, nr. 65/1976.