Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 282. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 469  —  282. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Örlygs Hnefils Jónssonar um fjölgun, vistun og flutning opinberra starfa og stofnana.

     1.      Hver var fjölgun starfa á vegum ráðuneytisins árin 1991–2000 og hvernig skiptust störfin milli höfuðborgar og landsbyggðar?
    Síðan höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins voru fluttar til Egilsstaða árið 1990 hefur landbúnaðarráðuneytið leitast við að koma sem flestum störfum fyrir á landsbyggðinni. Einnig eru fjölmargar stofnanir ráðuneytisins á landsbyggðinni, svo sem Bændaskólinn á Hólum, Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum í Ölfusi, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Landgræðsla ríkisins í Gunnarsholti. Síðastliðin ár hafa landshlutabundin skógræktarverkefni skapað fjölmörg störf á landsbyggðinni. Ekki er unnt að skipta þeim niður á einstök sveitarfélög þar sem þau dreifast um öll héruð á viðkomandi starfssvæði.
    Á tímabilinu sem spurt er um fækkaði föstum störfum á vegum landbúnaðarráðuneytisins og stofnana þess, en aðkeypt tímabundin vinna á landsbyggðinni varð meiri en áður, sérstaklega á vegum landshlutabundinna skógræktarverkefna. Ársverkum hjá Skógrækt ríkisins hefur fækkað um 15 á tímabilinu, sem aðallega má rekja til þess að plöntuframleiðslu hefur að mestu verið hætt. Ekki er talin með aðkeypt vinna vegna viðhalds varnargirðinga víðs vegar um landið á vegum yfirdýralæknis, en þar hafa orðið litlar breytingar á tímabilinu.
    Tölur um ársverk í eftirfarandi töflu eru að mestu byggðar á upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins en aðkeypt vinna vegna tímabundinna verkefna er áætluð. Því sýna tölurnar ekki fjölda starfsmanna eða stöðugilda, þar sem verkefni á landsbyggðinni eru oftast háð veðri og að miklu leyti hlutastörf. Mun fleiri sinna þeim á sumrin en fjöldi ársverka gefur til kynna.

Ársverk 1991 Ársverk 2000
Mismunur
Höfuðborgarsvæðið 137 134 -3
Landsbyggðin 273 348 75
Samtals 410 482 72


     2.      Hvaða nýju stofnanir voru vistaðar á vegum ráðuneytisins á landsbyggðinni árin 1991– 2000 og hvar?
    Vesturlandsskógar, með skrifstofu á Hvanneyri, Skjólskógar, með skrifstofu á Þingeyri, Norðurlandsskógar, með skrifstofu á Akureyri, Héraðsskógar, með skrifstofu á Egilsstöðum, og Suðurlandsskógar, með skrifstofu á Selfossi.

     3.      Hvað hafa fylgt þessum stofnunum mörg ný störf, hvar eru þau vistuð og hvernig skiptast þau milli einstakra kaupstaða og sýslna?
    Skógræktarverkefnin eiga það sammerkt að vera með eina skrifstofu hvert og að gerðir eru samningar um aðkeypta vinnu, m.a. við gróðursetningar, girðingarvinnu, jarðrækt og plöntuframleiðslu. Þessi verkefni skapa því störf á öllu starfssvæðinu óháð sveitarfélögum. Norðurlandsskógar, Skjólskógar og Vesturlandsskógar tóku til starfa árið 2000 og störfuðu því ekki af fullum krafti það árið.
     Vesturlandsskógar tóku til starfa árið 2000. Það ár voru unnin um fimm ársverk á þeirra vegum, þar af um 1,5 á skrifstofunni. Starfssvæðið nær frá Kjósarsýslu norður að Austur- Barðastrandarsýslu.
     Skjólskógar tóku til starfa árið 2000. Það ár voru unnin um fimm ársverk á þeirra vegum, þar af um 1,5 á skrifstofunni. Starfssvæðið er Vestfirðir frá Dalasýslu að Vestur-Húnavatnssýslu.
     Norðurlandsskógar tóku til starfa árið 2000. Það ár voru unnin um fimm ársverk á þeirra vegum, þar af um 1,5 á skrifstofunni. Starfssvæðið er frá Strandasýslu austur að Norður- Múlasýslu.
     Héraðsskógar tóku til starfa árið 1991, starfssvæðið er Hérað. Árið 2000 var búið að vinna um 25 ársverk á þeirra vegum, þar af um fjögur á skrifstofunni. Nefna má að Austurlandsskógar tóku til starfa árið 2001 og ná yfir Norður- og Suður-Múlasýslur að frátöldu starfssvæði Héraðsskóga.
     Suðurlandsskógar tóku til starfa árið 1998, starfssvæðið nær frá Suður-Múlasýslu vestur um Suðurland, að viðbættu Reykjanesi og Kjósarsýslu. Árið 2000 var búið að vinna ríflega 20 ársverk á vegum Suðurlandsskóga, þar af um þrjú á skrifstofunni.

     4.      Hvaða stofnanir voru fluttar á vegum ráðuneytisins frá höfuðborginni til landsbyggðar árin 1991–2000 og hvert?
     Lánasjóður landbúnaðarins tók til starfa 1. janúar 1998. Hann var áður stofnlánadeild innan Búnaðarbanka Íslands og flutti á Selfoss frá Reykjavík í maí árið 2000. Því er um færslu starfa að ræða frá banka til ríkis, ekki eiginleg ný störf.
     Yfirkjötmat ríkisins var flutt frá Reykjavík til Akureyrar árið 2000.

     5.      Hvað hafa fylgt þessum stofnunum mörg störf, hvar eru þau vistuð og hvernig skiptast þau milli einstakra kaupstaða og sýslna?
    Hjá Lánasjóði landbúnaðarins störfuðu níu manns árið 2000 og hjá Yfirkjötmati ríkisins eru ársverk að jafnaði um tvö.