Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 94. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 534  —  94. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um söfnunarkassa og happdrættisvélar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hverjar voru brúttótekjur Íslenskra söfnunarkassa sf. og Happdrættis Háskóla Íslands af söfnunarkössum og happdrættisvélum árin 2000 og 2001?
     2.      Hver voru heildarrekstrargjöld hvors fyrirtækis á þessum árum?
     3.      Hverjar voru heildarvinningsfjárhæðir hvors fyrirtækis sömu ár?


    Dómsmálaráðuneytið leitaði eftir upplýsingum frá Íslenskum söfnunarkössum og Happdrætti Háskóla Íslands vegna fyrirspurnarinnar. Byggjast meðfylgjandi tölur á þeim upplýsingum og ársreikningum fyrirtækjanna.
    Í upplýsingunum frá Happdrætti Háskóla Íslands kemur fram að tekjur Gullnámunnar eru innleystar í reikningsskilum á þann hátt að þær tekjur sem skila sér í formi peninga til happdrættisins eru tekjufærðar. Aftur á móti eru þeir peningar sem spilað er fyrir í vélunum og eru greiddir út á staðnum, þ.e. úr vélunum sjálfum í formi smærri vinninga, ekki innleystir sem tekjur í bókhaldi happdrættisins né eru vinningar gjaldfærðir. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskum söfnunarkössum á hið sama við um vinninga sem greiddir eru úr söfnunarkössum og um smærri vinninga í happdrættisvélum Happdrættis Háskóla Íslands.
    Upplýsingar um brúttótekjur og vinninga verður þar með að skoða með hliðsjón af framangreindri reikningsskilaaðferð. Ekki er unnt að veita svar við 3. lið fyrirspurnarinnar um heildarvinningsfjárhæðir nema hvað varðar greiðslu úr uppsöfnuðum pottum Gullnámu Happdrættis Háskóla Íslands. Að því er varðar Happdrætti Háskóla Íslands taka upplýsingarnar einungis til þess hluta starfsemi happdrættisins sem lýtur að rekstri happdrættisvéla.

Tekjur.

Íslenskir söfnunarkassar Happdrætti HHÍ
2000 1.289.258.385 kr. 962.355.135 kr.
2001 1.302.900.067 kr. 1.201.841.617 kr.

Heildarrekstrargjöld.

Íslenskir söfnunarkassar Happdrætti HHÍ
2000 356.855.197 kr. 382.639.874 kr.
2001 379.436.327 kr. 475.143.677 kr.

Vinningar.

     Ekki er unnt að veita upplýsingar um vinninga úr söfnunarkössum og eftirgreindir vinningar sem gjaldfærðir eru hjá Happdrætti Háskóla Íslands varða einungis greiðslu úr gull- og silfurpottum Gullnámunnar. Aðrir vinningar eru hvorki tekju- né gjaldfærðir.

Happdrætti HHÍ
2000 166.051.818 kr.
2001 274.689.986 kr.