Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 84. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 536  —  84. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við undirbúning álvers í Reyðarfirði.

     1.      Hver er heildarkostnaður ríkissjóðs við undirbúning álvers í Reyðarfirði, sundurliðað eftir árum, og af hvaða fjárlagaliðum hafa þeir fjármunir komið?
    Kostnaður ríkissjóðs hefur verið greiddur af fjárveitingum Fjárfestingarstofunnar – orkusviðs og iðnaðarráðuneytis. Frá árinu 1997 hefur kostnaðurinn verið sem hér segir en tekið skal fram að niðurstöður rannsókna frá fyrri árum hafa einnig komið að notum.

Kr.
1997 9.299.314
1998 23.398.123
1999 52.010.774
2000 30.421.752
2001 48.572.314
2002 36.072.065
Samtals 199.774.342

    Í þessum tölum er einnig innifalinn útlagður kostnaður sem fæst endurgreiddur ef til framkvæmda kemur.

     2.      Hver hefur þátttaka Norsk Hydro/Hydro Aluminium verið í þessum kostnaði?

    Hlutdeild Fjárfestingarstofunnar – orkusviðs í sameiginlegum kostaði sem endurgreiða átti samkvæmt samningi við Reyðarál hf. ef til framkvæmda kæmi er 112,6 millj. kr. Eins og kunnugt er hætti Norsk Hydro/Hydro Aluminium við byggingu álversins. Í tengslum við samninga um kaup Alcoa Inc. á Reyðaráli var samið um að Alcoa greiddi Fjárfestingarstofunni – orkusviði 600.000 USD eða tæplega 52 millj. kr.


     3.      Hvert hefur verið hlutverk STAR, samstarfsnefndar um staðarvalsathuganir iðnaðarsvæða á Reyðarfirði, í þessum undirbúningi og hverjar voru árlegar heildargreiðslur til nefndarinnar á tímabilinu 1997–2002?

    Hlutverk STAR – samstarfsnefndar um staðarvalsathuganir iðnaðarsvæða í Reyðarfirði, sem sett var á stofn 1. september 1998, er að vera rammi utan um samstarf sameinaðs sveitarfélags Eskifjarðar, Neskaupstaðar og Reyðarfjarðar, Orku- og stóriðjunefndar sveitarfélaga á Austurlandi (OSSA-SSA) og Fjárfestingarstofunnar – orkusviðs, sem miðar að því að koma á fót orkufrekum iðnaði í Reyðarfirði. Nefndin tók við verkefnum sameiginlegrar nefndar Fjárfestingarstofunnar – orkusviðs og Orku- og stóriðjunefndar sveitarfélaga á Austurlandi sem stofnað var til 10. október 1997. Árið 2000 var nefndin stækkuð með tilnefningu fulltrúa norðan og sunnan Fjarðabyggðar. STAR hefur sinnt hlutverki sínu með ýmsum hætti, m.a. ráðstefnu- og námskeiðshaldi, miðlun upplýsinga til fjárfesta og sveitarfélaga, atvinnufyrirtækja og íbúa á Austurlandi, skipulagningu kynnisferða og móttöku fulltrúa erlendra fjárfesta, aðstoð við FAG-hóp atvinnulífsins á Austurlandi, aðstoð við samfélagsathuganir o.fl.
    STAR hefur ekki haft sjálfstæðan fjárhag, en starfsmaður á Reyðarfirði hefur verið í hlutastarfi kostaður af Fjárfestingarstofunni – orkusviði.
    Aðilar að STAR hafa borið kostnað af framlagi til starfsins hver fyrir sig. Heildargreiðslur Fjárfestingarstofunnar – orkusviðs vegna verkefna í nafni eða á verksviði STAR á árunum 1997 til 1. nóvember 2002 hafa numið samtals 29.415.035 kr.

     4.      Hvaða hlutverki hefur eignarhaldsfélagið Hraun ehf. gegnt við undirbúning álvers í Reyðarfirði og er það enn starfandi? Hvaða greiðslur hafa runnið til félagsins úr ríkissjóði vegna undirbúnings álvers í Reyðarfirði, sundurliðað eftir árum?

    Eignarhaldsfélagið Hraun ehf. var stofnað 12. júlí 1999 í þeim tilgangi að kanna og vinna að undirbúningi að stofnun álvers í Reyðarfirði og annarri atvinnustarfsemi í Fjarðabyggð. Stofnandi félagsins er sveitarfélagið Fjarðabyggð sem á allt hlutafé þess. Félagið starfaði sem framkvæmdaraðili við undirbúning á framkvæmdum vegna álvers í Reyðarfirði. Sem slíkur lét félagið fara fram frummat á umhverfisáhrifum álversins. Kostnaður við matið var alfarið greiddur af Fjárfestingarstofunni – orkusviði og Hydro Aluminium. Félagið er enn starfandi, en hefur framselt réttindi sín vegna frummats á umhverfisáhrifum til Fjárfestingarstofunnar – orkusviðs. Félagið hefur ekki fengið neinar greiðslur úr ríkissjóði.