Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 331. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 681  —  331. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um notkun Vífilsstaðaspítala fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga.
         
     1.      Hver yrði heildarbyggingarkostnaður við notkun húsnæðis Vífilsstaðaspítala fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga? Óskað er eftir lýsingu á fyrirhuguðum breytingum á húsnæðinu.
    Ef nýta á húsnæði Vífilsstaða fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga er nauðsynlegt að leggja í nokkrar endurbætur á húsnæðinu auk þess sem kaupa þarf nauðsynleg tæki og búnað. Kostnaður við endurbætur og tækja- og búnaðarkaup er áætlaður um 130 millj. kr.
    Fyrirhugaðar breytingar á Vífilsstaðaspítala felast í fyrsta lagi í bættum brunavörnum. Brunahönnun var gerð fyrir Vífilsstaðaspítala árið 1995 og er sú hönnun í fullu gildi að mati Brunamálastofnunar. Búið er að framkvæma margt af þeim endurbótum sem þar var lagt til. Það sem þyngst vegur í þeim aðgerðum sem eftir er að framkvæma er að skipta þarf um hurðir í sjúkrastofum og breikka dyraop. Hurðir í sjúkrastofum á Vífilsstöðum eru 90 sm að breidd, en staðalbreidd er 110 sm. Skipta þarf húsnæðinu upp í eldhólf og hugsanlega þarf að leggja vatnsúðakerfi, a.m.k. á þriðju hæðina.
    Í öðru lagi þarf að skipta herbergjum upp í eins og tveggja manna herbergi og þarf því að koma upp nýjum veggjum milli herbergja þar sem áður voru fjögurra og fimm manna stofur.
    Í þriðja lagi þarf að mála húsið allt að innan og skipta um gólfefni á nokkrum stöðum. Húsið á „Hólnum“ þarf að mála og þar þarf að lagfæra hreinlætisaðstöðu.
    Í fjórða lagi er hreinlætisaðstaða spítalans ófullkomin og þarf að bæta þar verulega úr. Fjölga þarf baðherbergjum og koma fyrir sjúkrabaði.

     2.      Hversu vel nýtist húsnæðið sem heimili fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga, m.a. með tilliti til hjálparbúnaðar og vinnuaðstöðu starfsmanna?
    Sú staðreynd að hús á Vífilsstöðum standa auð og að mikill skortur er á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða hratt af stað umræðu um hugsanlega nýtingu Vífilsstaðaspítala fyrir hjúkrunarrými aldraðra. Óbreytt stenst húsnæðið ekki kröfur um aðbúnað og aðstöðu, þrátt fyrir að almennt megi segja að ástand þess sé þokkalegt og viðhald hafi verið nokkuð gott. Af hálfu ráðuneytis voru tveir kostir skoðaðir. Annars vegnar sá að freista þess að breyta húsnæði Vífilsstaðaspítala í þá veru að það stæðist nútímakröfur sem hjúkrunarheimili með tilliti til alls aðbúnaðar og aðstöðu og hins vegar að freista þess að taka húsnæðið í notkun án verulegra breytinga og nýta fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga sem lokið hafa meðferð á sjúkrahúsi og/eða bíða varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimili.
    Sérstakur starfshópur ríkisstjórnarinnar, sem m.a. hafði það hlutverk að fjalla um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu við aldraða, skilaði nýlega áliti þar sem lagt er til „að húsnæði Vífilsstaðaspítala verði tekið hið fyrsta í notkun án verulegra breytinga til að flýta fyrir því að aldraðir hjúkrunarsjúklingar komist af sjúkrahúsum og í aðstæður sem henta betur þörfum þeirra og spítalanna. Þótt Vífilsstaðir muni ekki fullnægja öllum nýjustu viðmiðunum er þar hægt að bjóða miklu betri aðstæður en spítalarnir gera og því er rétt að nýta húsnæðið lítið breytt til bráðabirgða næstu 3–5 árin meðan önnur þjónusta er að byggjast upp.“
    Að ráði hefur orðið að fara að tillögu starfshópsins og breyta Vífilsstöðum í nokkurs konar áfangaheimili fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga sem bíða varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimili, þarfnast tímabundinnar hvíldarinnlagnar og/eða þarfnast hvíldar og eftirlits eftir meðferð á sjúkrahúsi. Þess ber að geta að í starfshóp ríkisstjórnarinnar sátu fulltrúar aldraðra. Fyrrverandi landlæknir sat einnig fundi starfshópsins.
    Við 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2002 var gerð tillaga um 130 millj. kr. framlag til að gera nauðsynlegar breytingar á húsnæði Vífilsstaðaspítala, sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar.
    Að mati þeirra sem gerst þekkja getur húsnæði Vífilsstaða vel nýst sem áfangaheimili fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga að undangengnum þeim breytingum sem lýst er í svari við1. lið fyrirspurnarinnar. Húsnæðið er um 95 ára og gangar að hluta til þröngir og verður þess því fyllilega gætt að samsetning sjúklingahópsins taki mið af aðstæðum. Þess ber að geta að Vífilsstaðaspítali var nýttur sem spítali fram yfir mitt þetta ár, m.a. fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga.
    Í þeim breytingum sem í hönd fara á Vífilsstöðum verður þess gætt að allur hjálparbúnaður verði til staðar og verður vinnuaðstaða starfsmanna bætt verulega frá því sem nú er, m.a. með fjölgun á snyrtingum fyrir sjúklinga og starfsfólk.

     3.      Hvað er gert ráð fyrir mörgum vistmönnum á heimilinu og hve margir verða í eins manns, tveggja, þriggja eða fjögurra manna herbergjum?

    Gert er ráð fyrir 71 vistmanni, þar af 52 í sjálfu húsnæði Vífilsstaðaspítala og 19 í húsinu á „Hólnum“. Á 1. hæð er gert ráð fyrir 12 sjúklingum í 3 tveggja manna herbergjum og 6 í eins manns herbergjum. Á 2. og 3. hæð er gert ráð fyrir 12 eins manns herbergjum og 4 tveggja manna herbergjum.

     4.      Hver er áætlaður kostnaður við rekstur heimilisins, m.a. launakostnaður?

    Rekstrarkostnaður 71 hjúkrunarrýmis er áætlaður um 330 millj. kr. á verðlagi ársins 2003 og er þá allur rekstrarkostnaður meðtalinn. Greitt verður samkvæmt sérstöku reiknilíkani fyrir hjúkrunarheimili og tekur endanlegt daggjald mið af hjúkrunarþyngd þeirra sjúklinga sem vistast munu á Vífilsstöðum. Launakostnaður hjúkrunarheimila nemur um 70–75% af daggjaldi hjúkrunarheimila og er gert ráð fyrir sama hlutfalli hér.

     5.      Hver eru leigugjöld af húsnæðinu?

    Vífilsstaðaspítali er í eigu ríkisins og er ekki gert ráð fyrir að leigugjöld verði greidd af húsnæðinu. Sérstakri fjárveitingu verður varið til nauðsynlegra endurbóta á húsnæði Vífilsstaða og til kaupa á tækjum og búnaði.