Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 188. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 682  —  188. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur og Guðrúnar Ögmundsdóttur um sértekjur glasafrjóvgunardeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss.

     1.      Hvað eru sértekjur glasafrjóvgunardeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss hátt hlutfall af kostnaði við meðferðir á hennar vegum og hvernig hefur þetta hlutfall þróast frá stofnun deildarinnar?
    Ekki reyndist unnt að ná fram kostnaðartölum allt frá stofnun deildarinnar. Hér er því eingöngu stuðst við árin 2000, 2001 og fyrri hluta árs 2002, en kostnaðargreining vegna DRG-verkefnisins gerir slíkt mögulegt. Næstum óframkvæmanlegt er að greina kostnað á glasafrjóvgunardeild þar sem kostnaður við einstakar meðferðir er margbreytilegur og ekki gildir sama verð fyrir alla, jafnvel þótt farið sé í nákvæmlega sömu meðferð. Ástæðan er mjög flókin verðskrá sem bundin er í reglugerð. Þar fyrir utan er mjög misjafnt hvað hver meðferð kostar því að einstaklingar geta farið á milli meðferða sem gerir heildarúttekt fyrir hvern meðferðarflokk mjög erfiðan. Öll kostnaðargreining á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hefur miðast við að ná kostnaði niður á kennitölur, en það hefur reynst afar erfitt á glasafrjóvgunardeildinni vegna framangreindra þátta.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir heildartekjur og heildarkostnað glasafrjóvgunardeildar á árunum 2000 og 2001 og á fyrri hluta árs 2002. Tekið skal fram að S-merkt lyf eru ekki meðtalin í heildarkostnaði, en á árinu 2001 var kostnaður vegna þeirra 78 millj. kr. S-merkt lyf vegna glasafrjóvgunardeildar voru greidd af Tryggingastofnun ríkisins árið 2000.

Ár Sértekjur
Greiðslur sjúklinga
Heildarkostnaður Sértekjur sem hlutfall
af heildarkostnaði
2000 50.769.250 83.370.881 60,9%
2001 53.862.000 90.624.148 59,4%
2002 (jan.–júní) 36.041.250 63.227.000 57,0%

    Ef litið er til tímabilsins 2000–2002 nema sértekjur/greiðslur sjúklinga samtals 57%–61% af heildarkostnaði við meðferðir á glasafrjóvgunardeildinni. Hlutfall greiðslna í heildarkostnaði hefur verið að lækka þetta tímabil, úr 61% í 57%.
    Ef S-merkt lyf eru tekin með á árinu 2001 er heildarkostnaður við meðferðir á glasafrjóvgunardeildinni 168.624.148 kr. Sértekjur/greiðslur sjúklinga það sama ár eru 53.862.000 kr., 32% af heildarkostnaði.

     2.      Hversu hátt hlutfall af meðferðarkostnaði greiða sjúklingar?
    Ef litið er til síðustu þriggja ára greiða sjúklingar að meðaltali um 60% af meðferðarkostnaði, um 30% ef lyf vegna meðferðanna eru tekin með, þ.e. svipað hlutfall og sjúklingar greiða vegna komu til sérfræðilækna. Þetta hlutfall getur verið mjög misjafnt eftir þeim sem í hlut eiga. Þar hafa áhrif þættir eins og flókin verðskrá, mismunandi lyfjanotkun þrátt fyrir að um sömu meðferð sé að ræða og sú staðreynd að einstaklingar geta verið að fara á milli meðferða.