Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 461. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 699  —  461. mál.
Frumvarp til lagaum staðla og Staðlaráð Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    Hugtökin staðall, alþjóðlegur staðall, stöðlun, tækniforskrift og sammæli skulu hafa alþjóðlega viðurkennda merkingu hér á landi eins og hún kemur fram í íslenskum staðli um íðorð í stöðlun og skyldri starfsemi.

2. gr.

    Íslenskur staðall er staðall sem hefur verið staðfestur af Staðlaráði Íslands.
    Heimilt er að gefa út íslenskan staðal á erlendu tungumáli ef sýnt er að það hindri ekki eðlileg not hans.

3. gr.

    Staðall er til frjálsra afnota. Stjórnvöld geta þó gert notkun tilgreinds staðals skyldubundna með vísun til hans og hlutaðeigandi laga. Skal hann þá staðfestur með reglugerð af hlutaðeigandi ráðuneyti og skal í reglugerð vísa til staðalsins.

4. gr.

    Staðlaráð Íslands er samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum. Aðild að ráðinu er heimil öllum hagsmunaaðilum.
    Staðlaráð Íslands setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir þar sem m.a. skal kveða á um skipulag ráðsins, stjórn þess og daglega starfsemi. Staðlaráð Íslands ræður sér framkvæmdastjóra. Hann fer með daglega stjórn ráðsins og ber ábyrgð á rekstri þess gagnvart stjórn þess.
    Stjórn Staðlaráðs Íslands hefur það hlutverk að staðfesta alþjóðlega staðla og annast gerð íslenskra staðla í samvinnu við hagsmunaaðila, svo sem hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, samtök og fyrirtæki.
    Staðlaráð Íslands getur starfrækt fagstaðlaráð á einstökum fagsviðum í samvinnu við hlutaðeigandi hagsmunaaðila. Hlutverk fagstaðlaráða er að samræma og hafa frumkvæði að stöðlunarvinnu á sínu sviði.

5. gr.

    Staðlaráð Íslands á aðild að alþjóðasamstarfi staðlaráða fyrir Íslands hönd og fer með atkvæði landsins á þeim vettvangi. Heimilt er þó ráðinu að fela stofnun, fyrirtæki eða samtökum að annast í umboði þess þátttöku í alþjóðastaðlasamstarfi.

6. gr.

    Eigi sjaldnar en ársfjórðungslega skal á vegum Staðlaráðs Íslands gefa út Staðlatíðindi þar sem m.a. skal:
     1.      tilkynna um ný stöðlunarverkefni,
     2.      auglýsa frumvörp að íslenskum stöðlum og kalla eftir athugasemdum innan tiltekins tímafrests og
     3.      tilkynna um staðfestingu Staðlaráðs Íslands á nýjum íslenskum stöðlum.
    Við útgáfu auglýsinga og ákvörðun tímafrests samkvæmt þessari grein skal miðað við að þeir sem hagsmuna hafa að gæta geti haft áhrif á gerð staðalsins.
    Á vegum Staðlaráðs Íslands skal haldin skrá yfir alla gildandi íslenska staðla. Skráin skal birt eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Jafnframt skal Staðlaráð Íslands sjá til þess að á hverjum tíma séu til eintök af öllum gildandi íslenskum stöðlum.

7. gr.

    Til að standa straum af starfsemi Staðlaráðs Íslands rennur hluti af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, til Staðlaráðs Íslands. Aðrar tekjur Staðlaráðs Íslands eru m.a. aðildargjöld, sem ráðið ákveður, tekjur af verkefnum fyrir opinbera aðila og sala á stöðlum og þjónustu.

8. gr.

    Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Hann getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þeirra, að fenginni umsögn Staðlaráðs Íslands.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003. Jafnframt falla úr gildi lög um staðla, nr. 97/1992.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Staðlar gegna mikilvægu hlutverki við að koma á og viðhalda hindrunarlausum viðskiptum á milli landa. Þar liggur til grundvallar að vísað sé til alþjóðlegra staðla í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum fremur en að tilgreint sé í einstökum atriðum hvaða tæknilegu kröfur skuli gera til vöru og þjónustu. Við setningu laga nr. 97/1992, um staðla, var tekið mið af þessu grundvallaratriði, svo og af þáverandi hefðum og venjum við beitingu staðla. Frá setningu laganna hefur framkvæmd staðlasetningar og innviðir staðlastarfsins á Íslandi þróast og er ástæða til að festa áorðnar breytingar í sessi með lögum.
    Meginatriði laga um staðla frá 1992 haldast óbreytt í frumvarpi þessu. Á Staðlaráð Íslands eru aftur á móti lagðar auknar skyldur og breytingin frá gildandi lögum um staðla snýr að verulegu leyti að hlutverki og starfsemi þess. Vegna þessa er lagt til að heiti laganna verði lög um staðla og Staðlaráð Íslands og komi þau í stað núverandi laga um staðla.
    Stjórnvöld Evrópusambandsríkja höfðu við setningu laga um staðla ákveðið að vísa í auknum mæli til staðla í tilskipunum og reglugerðum. Ekki var að öllu leyti tekið tillit til þessa í lögum um staðla, enda var málaflokkurinn í örri þróun. Aðild Íslands að EES- samningnum frá árinu 1992 lagði miklar kröfur á íslensk stjórnvöld að taka upp lagafyrirmæli ESB hérlendis. Meðal þeirra eru svonefndar nýaðferðartilskipanir þar sem hlutverk staðla í íslenskum réttarheimildum og samfélaginu almennt varð mun veigameira en áður. Samkvæmt þessari aðferð skal lögbundin samhæfing á tilskipunum ESB á tæknisviðum bundin við grunnkröfur um öryggi og heilsu manna og dýra og verndun umhverfis. Þeim sem unnið höfðu að stöðlun skyldi fengið það hlutverk að semja tækniforskriftir í einstökum atriðum er uppfylltu grunnkröfurnar. Þessar forskriftir yrðu síðan gefnar út sem samhæfðir staðlar í aðildarríkjunum. Í þessu sambandi er mikilvægt að leggja áherslu á að staðlar eru ekki samdir af stjórnvöldum, heldur í samvinnu þeirra sem hagsmuna eiga að gæta af stöðlunum og eiga þeir að endurspegla bestu fáanlega þekkingu, fyrirmyndarverklag og framkvæmd að bestu manna yfirsýn.
    Þróunin síðustu tíu ár hefur orðið sú að notkun staðla í stað hefðbundinna reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla hefur reynst vel og eru staðlar nú teknir upp á sífellt fleiri sviðum. Yfirleitt er gert ráð fyrir að með því að uppfylla kröfur tiltekinna staðla séu kröfur viðkomandi tilskipunar jafnframt uppfylltar. Þannig er gert ráð fyrir því í tilskipun um byggingarvörur (89/106/EB) að skylt sé að sýna fram á samræmi við tiltekna staðla. Þeir verða því bindandi reglur en ekki valfrjálsir. Í öðrum tilfellum er framleiðendum þó einnig heimilt að sýna fram á að kröfur tilskipunar séu uppfylltar á annan hátt en með því að sýna fram á samræmi við staðla. Staðlar eru í slíkum tilfellum aðeins ein leið til að sýna fram á samræmi við kröfur tilskipunar.
    Þessi þróun hefur kallað á að hlutverk Staðlaráðs Íslands verði fest betur í sessi en með gildandi lögum um staðla, nr. 97/1992. Í því felst m.a. að það fyrirkomulag sem þróað hefur verið á síðustu tíu árum og reynst hefur best verði nú lögfest og að lög kveði á um skýrt og ótvírætt umboð Staðlaráðs Íslands til að staðfesta alþjóðlega og evrópska staðla sem íslenska staðla og til að annast gerð séríslenskra staðla. Sömuleiðis er nauðsynlegt að kveða á um tilvist fagstaðlaráða þar sem innan þeirra fer fram það faglega starf sem staðlar grundvallast á. Ljóst þarf að vera hvaða umboð þau hafa þar sem þau vinna að því að semja staðla sem munu í sumum tilvikum verða bindandi fyrirmæli.
    Nauðsynlegt þykir einnig að kveða nánar á um hvernig rekstri Staðlaráðs skuli háttað þar sem það er opinber vettvangur hagsmunaaðila til að vinna að stöðlun þótt það sé ekki opinber stofnun. Einnig þykir nauðsynlegt að fram komi í lögum með hvaða hætti starfsemi Staðlaráðs skuli fjármögnuð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum um staðla, nr. 97/1992. Í samræmi við almennar reglur um að vísa skuli í staðla í stað þess að endurtaka innihald þeirra í lögum og reglugerðum er vísað til þess hér að lykilhugtök skuli skilgreind eins og segir í íslenskum staðli um íðorð í stöðlum og skyldri starfsemi. Þessar skilgreiningar eru eftirfarandi samkvæmt núgildandi útgáfu staðalsins.
     Staðall (e. standard): Skjal, ákvarðað með sammæli og samþykkt af viðurkenndum aðila, þar sem settar eru fram, til algengrar og endurtekinnar notkunar, reglur, leiðbeiningar eða eiginleikar fyrir starfsemi eða afrakstur hennar í þeim tilgangi að ná fram sem mestri samskipan í tilteknu samhengi.
     Athugasemd: Staðlar skulu byggðir á samanlögðum niðurstöðum vísinda, tækni og reynslu og miða að því að stuðla að hámarkshagsbótum fyrir samfélagið.
     Alþjóðlegur staðall, alþjóðastaðall (e. international standard): Staðall sem staðfestur er af alþjóðlegum stöðlunarsamtökum/staðlasamtökum og almenningur hefur aðgang að.
     Stöðlun (e. standardization): Sú starfsemi að setja ákvæði til algengrar og endurtekinnar notkunar, varðandi raunveruleg eða hugsanleg vandamál, sem miðast að því að ná fram sem mestri samskipan í tilteknu samhengi.
     Athugasemdir:
     1.      Sér í lagi felst starfsemin í því að semja staðla, gefa þá út og framfylgja þeim.
     2.      Mikilvægir kostir stöðlunar eru að með henni má bæta hæfni vöru, ferla og þjónustu til að þjóna tilgangi sínum, fyrirbyggja viðskiptahindranir og auðvelda samvinnu á tæknisviði.
     Tækniforskrift (e. technical specification): Skjal þar sem settar eru tæknilegar kröfur sem vara, ferli eða þjónusta þarf að uppfylla.
     Athugasemdir:
     1.      Í tækniforskrift ætti að koma fram, þegar við á, hvaða aðferð(ir) megi nota til að ákvarða hvort settar kröfur hafi verið uppfylltar.
     2.      Tækniforskrift getur verið staðall, hluti af staðli eða óháð staðli.
     Sammæli (e. consensus): Almennt samkomulag þar sem ekki er haldið uppi andstöðu við veigamikil efnisatriði af hálfu mikilvægs hluta hagsmunaaðila og þar sem leitast hefur verið við að taka tillit til sjónarmiða allra aðila og sætta andstæð sjónarmið.
     Athugasemd: Sammæli þarf ekki að fela í sér einróma samþykkt.

Um 2. gr.

    Greinin er óbreytt frá núverandi lögum um staðla. Kveðið er á um að staðall geti ekki kallast íslenskur staðall fyrr en hann hefur verið staðfestur af Staðlaráði Íslands. Í langflestum tilfellum verður íslenskur staðall til við það að Evrópustaðall, alþjóðastaðall eða erlendur þjóðarstaðall er gerður að íslenskum staðli. Aðeins um 2% íslenskra staðla eru frumsamdir hér á landi til að mæta séríslenskum aðstæðum. Í báðum tilfellum er svokallað frumvarp að staðli auglýst í Staðlatíðindum til almennrar umsagnar með a.m.k. tveggja mánaða umsagnarfresti. Allir hafa rétt til að gera athugasemdir við frumvarpið og ef þær leiða til verulegra breytinga er frumvarpið auglýst til umsagnar í annað sinn. Að lokum er staðallinn staðfestur af Staðlaráði Íslands, hann gefinn út og tilkynnt um staðfestinguna í Staðlatíðindum.
    Sumir erlendir staðlar, t.d. Evrópustaðlar, fjalla um tæknilega sérhæfð málefni sem fáir íslenskir sérfræðingar á afmörkuðum fræðasviðum nota. Í slíkum tilfellum er oft ekki ástæða til að leggja í kostnaðarsamar þýðingar, enda vilja sérfræðingar gjarnan byggja störf sín á frumtextum staðla. Vegna þessa er í 2. mgr. 2. gr. veitt heimild til að gefa út íslenskan staðal á erlendu tungumáli ef sýnt er að það hindri ekki eðlilega notkun hans.

Um 3. gr.

    Efnislega er greinin lítið breytt frá núverandi lögum um staðla en regla um tilvísun til staðla í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum er gerð skýrari.
    Staðall verður til við það að þeir sem telja sig hafa hagsmuni af staðlinum sammælast um ákvæði hans. Staðall er því í sjálfu sér ekki skuldbindandi fyrr en þar til bær stjórnvöld hafa kveðið á um skuldbindingu hans. Með vísun til staðals í reglugerð er ekki nauðsynlegt að birta ítarleg tæknileg fyrirmæli og forskriftir í sjálfri reglugerðinni, enda oft um að ræða hundraða blaðsíðna staðla sem fyrst og fremst snúa að fagmönnum. Sá sem fylgir tilgreindum stöðlum telst hafa fullnægt ákvæðum þeirra stjórnvaldsfyrirmæla sem vísa í staðalinn.

Um 4. gr.

    Kveða þarf nánar á um hvernig rekstri Staðlaráðs Íslands skuli háttað. Nauðsynlegt er að Staðlaráð Íslands hafi það hlutverk að staðfesta alþjóðlega staðla og annast gerð íslenskra staðla. Í tengslum við þetta er enn fremur nauðsynlegt að kveða á um að við Staðlaráð Íslands starfi framkvæmdastjóri sem beri ábyrgð á rekstri ráðsins gagnvart stjórn þess. Einnig þarf að kveða á um umboð fagstaðlaráða til að semja staðla og hafa frumkvæði að staðlagerð.
    Ákvæði um starfsreglur sem ráðherra staðfestir eru óbreyttar frá núverandi lögum um staðla.

Um 5. og 6. gr.

    Ákvæði þessara greina eru óbreytt frá gildandi lögum um staðla.

Um 7. gr.

    Í gildandi lögum eru lagðar miklar skyldur á Staðlaráð án þess að sagt sé hvernig standa beri straum af rekstri þess. Staðlaráð fær 0,007% af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum, en hefur einnig tekjur af aðildargjöldum, sölu staðla og ýmiss konar þjónustu, svo sem námskeiðum, stöðlunarverkefnum sem unnin eru fyrir einstök ráðuneyti á fagsviðum sem undir þau heyra og annarri þjónustu við opinbera aðila og einkaaðila. Lagt er til að í lögum um staðla og Staðlaráð Íslands verði kveðið á um hvaða tekjur Staðlaráð skuli hafa til að standa straum af þeim verkefnum sem því ber að sinna samkvæmt lögunum.

Um 8. gr.

    Samkvæmt núverandi lögum um staðla hefur iðnaðarráðherra heimild til að setja reglugerð um nánari ákvæði er lúta að framkvæmd laganna. Hér er lagt til að slík reglugerð verði ekki sett nema að fenginni umsögn Staðlaráðs Íslands. Þetta er talið eðlilegt þar sem ráðinu ber að starfa eftir lögum þessum og tilheyrandi reglugerðum.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um staðla og Staðlaráð Íslands.

    Í frumvarpinu er gerð tillaga að heildarlöggjöf sem hefur að geyma reglur um staðla og réttindi og skyldur Staðlaráðs. Í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, er kveðið á um að Staðlaráð fái 0,007% af gjaldstofni tryggingagjalds, en gert ráð fyrir 31,7 m.kr. framlagi til stofnunarinnar samkvæmt fjárlögum 2003.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.