Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 308. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 826  —  308. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Páls Magnússonar um tekjutengingu barnabóta.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hyggst ríkisstjórnin taka upp barnakort, ótekjutengdar barnabætur, fyrir eldri börn en sjö ára, sbr. það markmið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999 að dregið verði úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum?

    Með lögum um nr. 166/2000, voru ákveðnar breytingar á barnabótakerfinu sem fólu í sér umtalsverða hækkun á barnabótum á árunum 2001–03. Annars vegar voru ótekjutengdar barnabætur að hluta til teknar upp á nýjan leik og hins vegar var verulega dregið úr skerðingu vegna tekna. Enn fremur var eignaskerðing barnabóta felld niður.
    Þessi ákvörðun var tekin í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999, um að dregið yrði úr tekjutengingu barnabóta og jaðaráhrifum skattkerfisins, og yfirlýsingu hennar frá 10. mars 2000 í tengslum við gerð kjarasamninga. Breytingarnar voru vandlega undirbúnar af hálfu ríkisstjórnarinnar og var meðal annars haft náið samráð við Alþýðusamband Íslands sem lýsti fullum stuðningi við þær. Talið er að viðbótarkostnaður ríkissjóðs vegna breytinganna nemi um 2 milljörðum króna miðað við fyrri tilhögun.
    Breytingarnar leiða til verulegrar hækkunar á ráðstöfunartekjum alls barnafólks en þó er áberandi að hinir tekjulægri og fólk með miðlungstekjur ber mest úr býtum. Þá hækkuðu ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra nokkru meira en hjá hjónum almennt.
    Með þessum breytingum má telja að því markmiði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að draga úr tekjutengingu í barnabótakerfinu hafi verið náð.
    Nánar tiltekið fólust breytingarnar í eftirfarandi:
    Árið 2001 voru teknar upp ótekjutengdar barnabætur fyrir börn undir 7 ára aldri sem námu 34.475 kr. árið 2002 og hækkuðu í 35.422 kr. 1. janúar sl.
    Skerðingarhlutföll tekna voru lækkuð um tvö prósentustig, eða um 1% hvort ár 2002 og 2003, þ.e. úr 5% í 3% með einu barni, úr 9% í 7% með tveimur börnum og úr 11% í 9% með þremur börnum eða fleirum. Þetta jafngildir um þriðjungs lækkun.
    Skerðingarmörk tekna hækkuðu um 5% árið 2001, 5% árið 2002 og hækka um 4% til viðbótar í ár. Auk þess hækkuðu skerðingarmörkin um 2,5% við álagningu 2001 samkvæmt fyrri ákvörðun. Heildarhækkunin á þessum þremur árum nemur því 17,5%.
    Eignatenging barnabótakerfisins var felld niður í ársbyrjun 2001.
    Bótafjárhæðir hækkuðu auk þess um 3% árið 2001, 3% árið 2002 en hækka um 2,75% í ár.
    Taflan sýnir samanburð á barnabótakerfinu fyrir og eftir breytingar.

Barnabætur 2000–2003.

Álagningarár 2000 2001 2002 2003
Hjón og barnafólk
Barnabætur með fyrsta barni 107.622 113.622 x 3,0% x 2,75%
Barnabætur með börnum umfram eitt 128.105 135.247 x 3,0% x 2,75%
Viðbót vegna barna yngri en 7 ára 31.703 fellur út fellur út fellur út
Ótekjutengdar barnabæturvegna barna yngri en 7ára - 33.470 x 3,0% x 2,75%
Skerðingarmörk tekna 1.198.807 1.290.216 5% 4%
Skerðingarmörk eigna 8.771.598 falla út falla út falla út
Skerðingarhlutföll eigna 1,5% falla út falla út falla út
Einstæðir foreldrar
Barnabætur með fyrsta barni 179.251 189.244 x 3,0% x 2,75%
Barnabætur með börnum umfram eitt 183.874 194.125 x 3,0% x 2,75%
Viðbót vegna barna yngri en 7 ára 31.703 fellur út fellur út fellur út
Ótekjutengdar barnabætur vegna barna yngri en 7 ára - 33.470 x 3,0% x 2,75%
Skerðingarmörk tekna 599.404 645.109 5% 4%
Skerðingarmörk eigna 6.579.243 falla út falla út falla út
Skerðingarhlutfall eigna 3,0% falla út falla út falla út
Skerðingarhlutfall tekna
Með einu barni 5,0% 5,0% 4,0% 3,0%
Með tveimur börnum 9,0% 9,0% 8,0% 7,0%
Með þremur börnum og fleiri 11,0% 11,0% 10,0% 9,0%