Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 519. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 860  —  519. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    Orðin „eða fjárhæðir sem komið hafa fram vegna færslna í endurmatsreikning samkvæmt lögum um ársreikninga“ í 1. málsl. 4. mgr. 38. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    1. mgr. 51. gr. laganna orðast svo:
    Útgáfa jöfnunarhluta án greiðslu í B-deild stofnsjóðs skal byggð á yfirfærslu fjárhæða, sem greiða má sem arð, sbr. 41. gr. Eigendur hluta í B-deild stofnsjóðs skulu einir eiga rétt til jöfnunarhluta og í réttum hlutföllum við hlutaeign sína í B-deild stofnsjóðs.

3. gr.

    Á eftir 61. gr. b í lögunum kemur ný grein, 61. gr. c, sem orðast svo:
    Ef samvinnufélagaskrá telur sig hafa upplýsingar um það, m.a. frá ársreikningaskrá, að samvinnufélag hafi hætt störfum, félagið er án starfandi stjórnar, endurskoðanda eða skoðunarmanns eða það sinnir ekki tilkynningarskyldu sinni til skrárinnar skal skráin senda þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir félagið samkvæmt skráningu þess ellegar síðast skráðum stjórnarformanni eða stjórnarmönnum aðvörun þess efnis að félagið verði afskráð úr samvinnufélagaskrá komi ekki fram upplýsingar innan þess frests sem skráin setur er veitir líkur fyrir því að félagið starfi enn.
    Berist ekkert svar eða ekki fullnægjandi svar innan tilskilins frests skal aðvörun um afskráningu til fyrirsvarsmanna félagsins og annarra, sem hagsmuna eiga að gæta, birt einu sinni í Lögbirtingablaðinu. Berist ekki fullnægjandi svar eða athugasemdir innan þess frests sem þar er tiltekinn má fella skráningu samvinnufélagsins niður.
    Innan árs frá afskráningu geta félagsaðilar eða lánardrottnar gert þá kröfu að bú samvinnufélagsins verði tekið til skipta í samræmi við 62. gr. b. Jafnframt má samvinnufélagaskrá breyta skráningu þannig að afskráð félag sé skráð á nýjan leik enda berist beiðni þar að lútandi innan árs frá afskráningu samkvæmt þessari grein og sérstakar aðstæður réttlæti endurskráninguna. Ekki má ráðstafa heiti félagsins á þessum tíma.
    Þótt samvinnufélag hafi verið fellt niður af samvinnufélagaskrá samkvæmt þessari grein breytir það í engu persónulegri ábyrgð er stjórnar- eða félagsmenn kunna að vera í vegna skuldbindinga félagsins.

4. gr.

    6. tölul. 62. gr. a í lögunum orðast svo: Endurskoðaðir og samþykktir ársreikningar hafa ekki verið sendir ársreikningaskrá fyrir þrjú síðustu reikningsár, sbr. ákvæði laga um ársreikninga um skil á ársreikningum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu um samvinnufélög er gert ráð fyrir vissum breytingum, sem snerta ákvæði um ársreikninga, vegna þróunar í löggjöf um ársreikninga. Einnig er gerð tillaga um möguleika á einfaldri afskráningu samvinnufélaga að frumkvæði samvinnufélagaskrár og þá til samræmis við ákvæði í hlutafélagalöggjöf um einfalda afskráningu hlutafélaga og einkahlutafélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.

    Hér eru felld niður ákvæði um endurmatsreikning til samræmis við lög um ársreikninga.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að tekið verði upp í lögum um samvinnufélög ákvæði um afskráningu með einföldum en þó öruggum hætti að frumkvæði samvinnufélagaskrár en afskráningin yrði ein tegund félagsslita. Samsvarandi ákvæði eru í lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Gert er ráð fyrir að einkum kynni að reyna á þetta ákvæði varðandi afskráningu smærri samvinnufélaga, t.d. pöntunarfélaga sem hætt hafa starfsemi sinni.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um sendingu ársreikninga til ársreikningaskrár, ekki samvinnufélagaskrár.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1991,
um samvinnufélög, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að samræma reglur um skil ársreikninga samvinnufélaga lögum sem gilda almennt um hlutafélög og einkahlutafélög. Einnig er gerð tillaga um að hægt sé að afskrá félög sem ekki eru starfandi úr samvinnufélagaskrám.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.