Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 477. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 882  —  477. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möller um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.
    
    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja sem heyra undir ráðuneytið voru flutt út á land árið 2002, sundurliðað eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

    Engin störf á vegum ráðuneytisins eða undirstofnana þess voru flutt út á land árið 2002 og hvorki ráðuneytið né undirstofnanir þess gerðu samninga um að fela fyrirtækjum á landsbyggðinni að annast fyrir sig fjarvinnsluverkefni á sl. ári. Hins vegar má geta þess að öll símsvörun Seðlabanka Íslands hefur nú á þriðja ár verið á Raufarhöfn. Þjóðhagsstofnun notaði þessa sömu þjónustu þar til hún var lögð niður í júlí 2002. Einnig má nefna sem dæmi að ráðuneytið hefur í nokkur ár nýtt sér þjónustu þýðenda sem búsettir eru úti á landi og svo var einnig á sl. ári.
    Möguleikar á flutningi starfa og samningum um fjarvinnslu voru athugaðir hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess í kjölfar þess að lagt var fram svar við fyrirspurn um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land haustið 2000. Sú athugun leiddi ekki í ljós að slíkir möguleikar væru fyrir hendi.
    Í greinargerð með byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að forsætisráðuneytið sé sérstakur tengiliður ráðuneyta vegna verkefna af þessu tagi. Hefur ráðherra falið alþingismönnunum Halldóri Blöndal og Magnúsi Stefánssyni að vera með sér í ráðum um þau mál.
    Að öðru leyti skal hér vísað til fyrra svars við fyrirspurn um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land, sem lagt var fram á þskj. 262 á 126. löggjafarþingi veturinn 2000–2001.