Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 548. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 895  —  548. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
    Í samræmi við skuldbindingar eða samþykktir á alþjóðavettvangi sem Ísland er aðili að skal Fjármálaeftirlitið gefa út tilkynningar um einstaklinga og lögaðila sem eftirlitsskyldum aðilum ber sérstaklega að kanna hvort stofnað hafi verið til viðskipta við og er þeim skylt að koma í veg fyrir hvers konar fjármagnsflutning, svo sem afhendingu fjármuna, úttektir, millifærslu, eignarskráningu sem og önnur viðskipti, og hindra þannig að aðilar sem tilgreindir eru í tilkynningum eftirlitsins fái greiðslur í hendur eða geti nýtt fjármuni með öðrum hætti.
    Fjármálaeftirlitið skal hlutast til um með tilkynningu til ríkislögreglustjóra að hald verði lagt á innstæður einstaklinga og lögaðila ef við framkvæmd eftirlitsins hefur komið í ljós að eftirlitsskyldur aðili hefur brotið gegn ákvæði 1. mgr. og haldlagning fjármuna hefur ekki átt sér stað.

2.      gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er að finna nýmæli þar sem lagt er til að í lögin komi ákvæði sem sé lagt til grundvallar þegar á íslenskum stjórnvöldum hvílir sú skylda að stöðva eða koma í veg fyrir hvers konar fjármagnsflutning fyrir nafngreinda einstaklinga og lögaðila sem taldir eru upp í alþjóðlegum samþykktum sem Ísland er aðili að. Allt frá því að hryðjuverkaárásin var gerð 11. september 2001 í Bandaríkjunum hafa Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðlegar stofnanir, svo sem Evrópusambandið, lagt meiri áherslu á að koma í veg fyrir að ýmsir aðilar sem bendlaðir hafa verið við hryðjuverkastarfsemi geti átt innstæður í bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum. Á grundvelli rannsókna hjá lögregluyfirvöldum í einstökum ríkjum og samstarfs þeirra hafa m.a. verið birtir listar með nöfnum aðila sem talið er rétt af hlutaðeigandi alþjóðastofnun að verði hindraðir í að hagnýta sér verðmæti er þeir kunna að eiga vegna tengsla þeirra við hryðjuverkastarfsemi og sambærilega starfsemi sem talin er geta ógnað öryggi eins eða fleiri ríkja sem aðild eiga að alþjóðlegum samþykktum. Tilkynningar berast reglulega til utanríkisráðuneytisins um skuldbindingar Íslands í þessu sambandi. Eðlilegt er að utanríkisráðuneytið taki afstöðu til þess hvaða skuldbindingar hvíli á Íslandi að þessu leyti og komi því á framfæri við Fjármálaeftirlitið að hve miklu leyti er skylt að birta slíkar tilkynningar á Íslandi.
    Á Íslandi eins og í öðrum vestrænum ríkjum er viðurkennd grunnreglan um viðskiptafrelsi einstaklinga og lögaðila sem almennt verður ekki takmarkað nema sérstakar ástæður séu til. Hvers konar takmörkun á fjármálaþjónustu til nafngreindra aðila verður því varla gerð nema skýr lagaheimild liggi henni til grundvallar. Af þeirri ástæðu og þar sem brýn nauðsyn er til þess að Ísland geti í reynd framfylgt viðvörunum þykir rétt að lögfest verði heimild til handa Fjármálaeftirlitinu að gefa út tilkynningar þar sem er að finna upptalningu á þeim aðilum sem falla undir slík alþjóðleg tilmæli, enda eigi Ísland þar aðild og hafi samþykkt tilmælin. Í framkvæmd er það oftast utanríkisráðuneytið sem tekur þátt í samþykkt slíkra tilmæla fyrir Íslands hönd og mun það hlutast til um að ályktanir verði sendar til Fjármálaeftirlitsins. Það mun síðan verða á verksviði Fjármálaeftirlitsins að birta þeim eftirlitsskyldu aðilum sem í hlut eiga fyrirmælin, svo og breytingar á þeim.
    Í alþjóðasamþykktum er einnig oft mælt fyrir um að hald skuli lagt á innstæður ef innlán eða önnur verðmæti finnast hjá fjármálafyrirtækjum á nafni þeirra einstaklinga eða lögaðila sem þær taka til. Á Íslandi er það almennt á verksviði lögreglu sem fer með rannsókn opinberra mála að krefjast haldlagningar á verðmætum, þ.m.t. bankainnstæðum, þegar það á við. Ljóst er að sú háttsemi sem vísað er til í frumvarpinu og fram fer í tengslum við hryðjuverkastarfsemi hefur nú verið gerð refisverð, sbr. 100. gr. b almennra hegningarlaga eins og þeim var breytt með lögum nr. 99/2002. Jafnframt er heimilt skv. 2. gr. laga nr. 144/1998, um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka, sbr. lög nr. 99/2002, að gera lögaðila fésekt ef brotið er gegn framangreindu ákvæði almennra hegningarlaga. Á fjármálafyrirtækjum og starfsmönnum hvílir því nú skylda að viðlagðri refisábyrgð samkvæmt almennum hegningarlögum að koma m.a. í veg fyrir brot af því tagi sem hér hefur verið rætt um. Þegar Fjármálaeftirlitið hefur gefið út sérstakar tilkynningar í samræmi við ákvæði frumvarpsins mun því hvíla sérstök skylda á fjármálafyrirtækjum og tilefni til að kanna með kerfisbundnum hætti hvort nokkrir þeir aðilar sem þar eru taldir upp eigi fjármuni eða önnur verðmæti hjá þeim og tilkynna réttum yfirvöldum þannig að unnt sé að leggja hald á verðmætin.
    Af eðli þeirra brota sem hér um ræðir er þó ljóst að sú staða kann að koma upp að einungis við reglubundið eftirlit Fjármálaeftirlitsins komi í ljós að einhver aðili sem talinn er upp í tilkynningu eigi innstæður eða önnur verðmæti hjá eftirlitsskyldum aðila. Nauðsynlegt er að í lögum um starfsemi Fjármálaeftirlitsins sé ótvírætt að þegar svo ber undir leiki enginn vafi á um það að sú skylda hvíli á eftirlitinu að það hlutist til um að koma upplýsingum til réttra aðila. Með því móti er tryggt að rétt yfirvöld geti krafist haldlagningar á verðmætunum í samræmi við samþykktir alþjóðasamfélagsins.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1998,
um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Tilgangur frumvarpsins er að skylda Fjármálaeftirlitið til að gefa út válista um vafasama aðila til íslenskra fjármálastofnana samkvæmt ákvæðum tilskipunar gegn peningaþvætti sem Íslendingar eru bundnir af. Viðskipti aðila sem brjóta gegn ákvæðum laganna skulu stöðvuð og hald lagt á innstæður þeirra.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.