Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 566. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 914  —  566. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.

Frá umhverfisnefnd.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna koma til framkvæmda 1. júlí 2003.

2. gr.

    Eftirfarandi tollskrárnúmer í viðauka II við lögin falla brott:
    4811.5109     –     –     –     Annars          22,23 kr./kg
    4811.5900     –     –     Annar          22,23 kr./kg
    4811.5909     –     –     –     Annars          22,23 kr./kg
    4811.6009     –     –     Annars          22,23 kr./kg
    4819.2019     –     –     –     Annars          22,23 kr./kg
    4819.2099     –     –     –     Annars          22,23 kr./kg

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp til laga um úrvinnslugjald var lagt fram á þessu löggjafarþingi í byrjun nóvember sl. og var afgreitt sem lög frá Alþingi 13. desember sl.
    Málið er flutt að beiðni fjármálaráðherra og umhverfisráðherra.
    Í 5. gr. laganna er mælt fyrir um að skráður eigandi ökutækis skuli á hverju gjaldtímabili greiða 520 kr. í úrvinnslugjald fyrir hvert gjaldskylt ökutæki í hans eigu samkvæmt lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Gjaldið á að innheimta með bifreiðagjaldi með sömu gjalddaga og eindaga. Með 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna er kveðið á um að eigendur bifreiða sem undanþegnir eru bifreiðagjaldi skuli greiða úrvinnslugjald. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að gjaldtöku úrvinnslugjalds á þennan hóp verði frestað til 1. júlí nk. Eru ástæðurnar fyrst og fremst framkvæmdalegs eðlis þar sem embætti ríkisskattstjóra var ekki tilbúið til að hefja gjaldtöku á þennan hóp við gildistöku laganna þar sem hann er undanþeginn greiðslu bifreiðagjalds og því ekki verið gert ráð fyrir honum við útsendingu greiðsluseðla.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að nokkur tollnúmer í viðauka II við lögin verði felld brott. Í viðaukanum er fjallað um samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur. Orðalag við nokkur af tollskrárnúmerunum í frumvarpi til laga um úrvinnslugjald náðu yfir fleira en slíkar pappaumbúðir. Skipta varð því hverju tollskrárnúmeri fyrir sig upp í tvö ný tollskrárnúmer, sbr. auglýsingu nr. 169/2002, þar sem fyrra númerið í hverri uppskiptingu hefur þetta orðalag „samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur“ til þess að hægt yrði að leggja á það úrvinnslugjald. Seinna númerið átti að vera án úrvinnslugjalds og er lagt til að þau númer verði felld út úr lögunum.