Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 598. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 959  —  598. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97 10. maí 2002.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    7. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: Búsetuleyfi: Leyfi sem felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 15. gr. laga um útlendinga.

2. gr.

    Í stað a- og b-liðar 14. gr. laganna kemur nýr liður sem orðast svo: Ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og aðrir útlendingar sem falla undir reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, með þeim takmörkunum sem þar greinir og nánar skal kveðið á um í reglugerð.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta felur í sér tvær breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97 10. maí 2002. Annars vegar er lögð til breyting á orðskýringu í 7. tölul. 3. gr. laganna og hins vegar breyting á 14. gr. laganna til samræmis við ákvæði nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), svonefnds Vaduz-samnings. Á síðasta þingi var samþykkt heimild til að fullgilda þennan nýja stofnsamning EFTA og hefur hann þegar öðlast gildi.
    Í 1. gr. er lögð til einföld breyting á skilgreiningu orðsins búsetuleyfi. Í núgildandi lögum er hún sú að um sé að ræða leyfi sem gefið sé út með varanlega dvöl í huga samkvæmt lögum um útlendinga. Í greinargerð með 15. gr. laga um útlendinga er skilgreiningin sú að búsetuleyfi feli í sér rétt til ótímabundinnar dvalar og það megi veita útlendingi sem dvalist hefur í landinu samfellt síðustu þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum, þ.e. leyfi sem gefið er út með varanlega dvöl í huga. Leyfið sem skilgreint er í lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem búsetuleyfi er því dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur búsetuleyfis og því villandi að nota hugtakið búsetuleyfi í þessu sambandi.
    Með hinum nýja stofnsamningi EFTA var ákveðið að reglur EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga giltu einnig um EFTA-ríki sem ekki eru aðilar að EES. Skulu reglur þessar þannig einnig gilda um Sviss, en önnur EFTA-ríki, Ísland, Liechtenstein og Noregur, eru aðilar að EES. Í EFTA-samningnum er eitt ákvæði víðtækara en EES-reglur, en það er ákvæði 20. gr. samningsins, sbr. og viðauka K, sbr. b-lið ii í 16. gr. 1. viðbætis. Varðar það einstaklinga, óháð þjóðerni, sem starfa hjá aðila sem veitir þjónustu og er hluti af almennum vinnumarkaði EFTA-ríkis. Þessum einstaklingum skal vera heimilt að koma til annars aðildarríkis og veita þjónustu á yfirráðasvæði þess í allt að 90 raunverulega starfsdaga á almanaksári. Er skilyrði að útlendingurinn hafi verið á vinnumarkaði aðildarríkisins og hafi leyfi sem jafngildi óbundnu atvinnuleyfi, sbr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Lagt er til að undanþáguákvæði frá kröfu um atvinnuleyfi í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, verði gert skýrara og a- og b-liður sameinaðir þar sem um sömu ríkisborgara er að ræða, fyrir utan Svisslendinga.
    Bætt er við ákvæðið heimild til að kveða nánar í reglugerð á um stöðu þeirra útlendinga sem hvorki eru ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið né Sviss. Reglugerðarákvæðið um þetta efni yrði byggt á 20. gr. EFTA-samningsins, sbr. viðauka K, sbr. b-lið ii í 16. gr. 1. viðbætis.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.

    Frumvarpið felur annars vegar í sér breytingu á skilgreiningu á búsetuleyfi til samræmis við 15. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og hins vegar breytingu á undanþáguákvæðum a- og b-liðar 14. gr. laganna til samræmis við hinn nýja stofnsamning EFTA. Í honum er kveðið á um að reglur EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga skuli einnig gilda gagnvart EFTA-ríkjunum, sem ekki eru aðilar að EES.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.