Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 509. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1008  —  509. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði.

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers við Reyðarfjörð, svo og starfræksla álversins, munu, auk hinna þjóðhagslegu áhrifa, hafa mikil áhrif á samfélags-, byggða- og atvinnuþróun á áhrifasvæði framkvæmdanna. Mest munu áhrifin væntanlega verða á Miðausturlandi. Þessum framkvæmdum er líka ætlað að hafa áhrif í þá veru að efla og styrkja byggð á Austurlandi og jafnvel víðar.
    Til að glöggva sig á áhrifum álversframkvæmdanna sérstaklega og af starfrækslu álversins í framtíðinni hafa verið samdar nokkrar skýrslur sem hafa verið hluti af mati á umhverfisáhrifum, bæði um áhrif á umhverfi og hugsanleg samfélagsleg áhrif og síðan einnig um efnahagsleg áhrif, bæði til skemmri og lengri tíma. Í ljósi niðurstaðna þeirra styður Samfylkingin þessar framkvæmdir. Það er þó ljóst að ýmsum hliðarráðstöfunum þarf að beita til að ávinningur verði sem mestur af framkvæmdinni. Einnig telja fulltrúar Samfylkingarinnar mikilvægt að reynt verði að draga sem mesta lærdóma af framkvæmdinni og því sem henni fylgir, bæði í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. Víkjum fyrst að hinum samfélagslegu áhrifum:
    Um það hefur ríkt nokkuð almenn samstaða á Íslandi að byggja þurfi landið til að nýta sem best gögn þess og gæði. Byggðarannsóknir og byggðaáætlanir eiga sér þó ekki langa sögu hér. Stjórnvöld á hverjum tíma hafa verið gagnrýnd fyrir andvaraleysi og aðgerðaleysi í byggðamálum og sýnst sitt hverjum. Það er þó öllum ljóst að gangi þær framkvæmdir eftir sem nú eru fyrirhugaðar á Austurlandi munu þær hafa mikil samfélagsleg áhrif á helsta áhrifasvæði framkvæmdanna og á byggða- og atvinnuþróun langt út fyrir það. Nú gefst einstætt tækifæri til að rannsaka og meta þessi áhrif og nýta niðurstöður þeirra rannsókna til inngripa ef stjórnvöld meta slíkt nauðsynlegt. Það væri til vansa að ráðast í svo gríðarlegar framkvæmdir sem hér um ræðir án þess að kanna afdrif mannfólksins, rétt eins og náttúrunnar, en fylgst verður náið með henni á tilteknum svæðum svo að unnt verði að bregðast við ef þurfa þykir. Auk þess sem rannsókn af þessu tagi gæti leitt til skynsamlegra mótvægisaðgerða gefst hér einstakt tækifæri til byggðarannsókna, til þess m.a. að átta sig á hvaða kraftar kunna að vera að verki þegar fólk tekur ákvörðun um búsetu og fjárfestingu og til hvaða aðgerða stjórnvöld geta gripið vilji þau hafa bein áhrif á byggðaþróun. Rannsóknarniðurstöður gætu því nýst fleirum en Íslendingum ef vel væri að verki staðið.
    Afar mikilvægt er að safna upplýsingunum jafnóðum og framkvæmdir eru í gangi því að í mörgum tilfellum er ógerlegt eða til muna erfiðara að nálgast þær eftir á. Þá tryggir eftirlit sem þetta betri möguleika á viðbrögðum ef eitthvað virðist ætla að ganga í aðra átt en vænst var eða æskilegt þykir. Fulltrúar Samfylkingarinnar vísa í þessu sambandi til þingsályktunartillögu um rannsóknir á samfélagslegum áhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi, 511. mál.
    Varðandi hin efnahagslegu áhrif vísast til minnihlutaálits fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd, sbr. fylgiskjal I, en meginniðurstöður þess eru að áhrif álvers í Reyðarfirði í tengslum við virkjun við Kárahnjúka muni til lengri tíma styrkja hagkerfið. Reynslan sýnir að til lengri tíma eru alla jafna sterk jákvæð fylgni milli útflutningstekna og þjóðartekna. Aukinn útflutningur álafurða mun því efla þjóðartekjur.
    Þá er jafnframt bent á að til skamms tíma geti verkefnið haft neikvæð áhrif á efnahagslífið sem birtist í hærra raungengi og hærri vöxtum en ella. Gríðarlegt gjaldeyrisinnstreymi mun verða á framkvæmdatímanum sem mun að óbreyttu auka spennu á vinnumarkaði og stuðla að hærra gengi krónunnar. Hin aukna spenna mun einnig setja þrýsting á verðbólgu. Þessi áhrif framkalla svokölluð ruðningsáhrif, þ.e. starfsemi sem ræður ekki við ýkt skammtímaáhrif framkvæmdanna eða er ekki eins framleiðin og stóriðjan lætur undan síga af völdum hás gengis og/eða hárra vaxta. Það mun því reyna mjög á hagstjórnina. Fullrúar Samfylkingarinnar leggja höfuðáherslu á að sem best samvinna takist við stjórn peninga- og ríkisfjármála svo að sem mestur ávinningur verði af framkvæmdunum fyrir þjóðarbúið allt.
    Varðandi langtímaáhrifin hefur Seðlabankinn bent á að í fyrra var álútflutningur um 19% af heildarvöruútflutningi okkar en til samanburðar var útflutningur sjávarafurða um 62% af heildarvöruútflutningi. Á árinu 2008 má hins vegar ætla að hlutfall áls í vöruútflutningi verði komið upp í 30% en vægi sjávarafurða komið niður fyrir helming. Að sama skapi mun útflutningur áls af vergri landsframleiðslu vaxa úr 5% í 10% á sama tíma.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar telja óeðlilegt og óæskilegt að þegar erlend fyrirtæki svo sem stóriðjufyrirtækin hafa verið sett niður á Íslandi skuli samið við hvert þeirra fyrir sig um afslætti frá þeim reglum, þ.m.t. skattareglum, sem íslenskum fyrirtækjum er ætlað að búa við. Það er fullkomlega óeðlilegt að fyrirtæki sem starfa á sama sviði og að sams konar starfsemi skuli búa hvert við sitt skattaumhverfið, allt eftir því hvernig aðstæður voru þegar samið var. Eðlilegra væri að öll fyrirtæki sem t.d. starfa á vettvangi stóriðju byggju við sams konar skattareglur og auðvitað hlýtur markmiðið að vera það að öllum fyrirtækjum í landinu sé boðið upp á ásættanlegt skattaumhverfi þannig að ekki þurfi að semja sérstaklega um frávik þegar laða á erlenda atvinnustarfsemi inn í landið.
    Samfylkingin telur að frávikin sem gerð hafa verið fyrir erlend fyrirtæki sem hefja starfsemi hér á landi sýni hvers fyrirtækin þurfi við og ætti þá að verða til þess að stjórnvöld litu til slíkra breytinga fyrir öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Þar vill Samfylkingin sérstaklega benda á lækkun og afnám stimpilgjalda og bendir á frumvarp Margrétar Frímannsdóttur, varaformanns Samfylkingarinnar, þar að lútandi en það hefur hún ítrekað flutt ásamt þingmönnum úr þingflokki Samfylkingarinnar.
    Þá bendir Samfylkingin á mikilvægi þess að ef talið er að styrkja þurfi fyrirtæki eða beita sérstökum aðgerðum til að ná erlendri fjárfestingu inn í landið eigi að gilda um það almennar, gegnsæjar reglur sem byggist á jafnræði þar sem hið sama gildi fyrir alla sem eins er ástatt um. Í því sambandi benda fulltrúar Samfylkingarinnar á margflutta tillögu sína um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs þar sem hvatt er til þess að skoðaðir verði möguleikar þess að stofna sjóð sem veitt geti stofnstyrki ef talin er nauðsyn á stuðningi við fyrirtæki til að hafa áhrif á þróun atvinnulífsins eða til að ná tiltekinni starfsemi inn í landið. Evrópusambandið er með öfluga uppbyggingarsjóði sem það notar til að ná markmiðum sínum í byggðamálum og til að endurskipuleggja atvinnulífið. Norðmenn hafa einnig, á þeim grundvelli að þeir ákváðu að hafna aðild að ESB, byggt upp öflugan sjóð, SND, sem veitir stofnstyrki við uppbyggingu atvinnulífsins. Fyrirmynd hans er evrópski byggðaþróunarsjóðurinn. Mikilvægt er að gegnsæjar reglur gildi og að fagleg vinnubrögð verði viðhöfð til að þessi aðferð virki með tilætluðum hætti.
    Vegna þess hvernig staðið hefur verið að þessum málum hér eru dæmi um að fyrirtæki sem von var um að stofnsett yrðu hérlendis hafi endað í öðru landi sem býður stofnstyrki í samræmi við þær leikreglur sem við verðum að sætta okkur við að aðrar þjóðir viðhafi en höfum ekki tekið upp sjálf. Við sitjum hins vegar uppi með mismunandi reglur fyrir stóriðjufyrirtækin í landinu, sbr. það sem fram kemur hér að framan og í fylgiskjölum, handahófskenndan stuðning við atvinnulífið og sífelldar ásakanir um spillingu við meðferð opinbers fjár ef það er nýtt til að stuðla að atvinnuuppbyggingu.
    Þá leggja fulltrúar Samfylkingarinnar áherslu á alvöru þess að íslensk stjórnvöld skuli gera samninga og síðan lögfesta ákvæði, sbr. 6. gr. frumvarpsins, sem sníða því stakk með hvaða hætti unnt verður að beita hagrænum stjórntækjum varðandi útblástur og mengun. Vísast þar einnig til þess sem fram kemur í áliti fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd um það efni.
    Þá vísa fulltrúar Samfylkingarinnar til umsagnar 1. minni hluta umhverfisnefndar þar sem það liggur fyrir að meðferð málsins hafi verið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, sbr. fylgiskjal II.
    Ljóst er að frumvarpið byggist á samningum sem gerðir hafa verið við Alcoa um starfsumhverfi væntanlegs álvers og því er ekki mikið svigrúm til breytinga. Hér hafa eigi að síður verið sett fram þau atriði sem fulltrúum Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd hefur þótt ástæða til að nefna til sögu, ýmist vegna mikilvægis eða vegna þess að um er að ræða atriði þar sem breyta þyrfti verklagsreglum eða umgjörð. Viðbrögð þingmanna Samfylkingarinnar við einstökum greinum frumvarpsins munu einnig kom fram við atkvæðagreiðslu um málið. Sú heildarniðurstaða liggur þó fyrir að það er stuðningur við að málið verði samþykkt.

Alþingi, 20. febr. 2003.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.




Fylgiskjal I.


Umsögn 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með bréfi dagsettu 29. janúar sl. óskaði iðnaðarnefnd Alþingis eftir umsögn efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Fyrsti minni hluti skilar meðfylgjandi séráliti um efnahags- og skattaþátt frumvarpsins:
    Áhrif álvers í Reyðarfirði í tengslum við virkjun við Kárahnjúka munu til langs tíma styrkja hagkerfið. Þau munu birtast í auknum hagvexti, styrkingu útflutnings og bættu atvinnustigi, ekki síst á Austurlandi. Til skamms tíma getur verkefnið þó haft neikvæð áhrif á efnahagslífið, sem birtist í hærra raungengi og hærri vöxtum en ella. Verði ekki gripið til styrkra mótvægisaðgerða til að skapa verkefninu rými í hagkerfinu getur það rutt burt störfum í þeim greinum útflutnings sem næmastar eru fyrir hækkun raungengis. Gegn slíkum skammtímaáhrifum er hægt að sporna með réttum mótvægisaðgerðum. Verkefnið er hins vegar svo stórt á íslenskan mælikvarða að forsenda þess að takist að sporna gegn ofhitnun og óhóflegri þenslu hagkerfisins meðan framkvæmdir verða í hámarki er farsæl samvinna við stjórn peninga- og ríkisfjármála. Seðlabanki hefur bent á að meðal mögulegra leiða til að draga úr þörf fyrir hækkun raungengis og vaxta er að fresta opinberum framkvæmdum meðan bygging álvers og orkuvirkja er í hámarki. Mikilvægt er, til að koma í veg fyrir kollsteypu í viðkvæmum greinum útflutnings, að stjórnvöld hafi náið samráð við aðila vinnumarkaðarins um tegund og tímasetningu nauðsynlegra mótvægisaðgerða.
    Það er stefna Samfylkingarinnar að jafnræði og gegnsæi sé í skattlagningu fyrirtækja. Séu undanþágur frá almennum skattalögum taldar nauðsynlegar til að laða að erlenda fjárfestingu er mikilvægt að um það gildi almennar reglur og skattalegt jafnræði ríki milli aðila sem starfa á sama sviði eins og í stóriðju. Afar fróðlegur samanburður kemur fram í fylgiskjali sem fylgir þessu áliti á skattaumhverfi samkvæmt aðalsamningi ISAL, Alcoa-frumvarpi, lögum um Norðurál hf. og almennum íslenskum lögum, sem ISAL hefur látið taka saman. Þar kemur fram að veruleg frávik og undanþágur er á skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja annars vegar og stóriðjufyrirtækjanna hins vegar. Þetta yfirlit sýnir líka að verulegt innbyrðis ósamræmi er milli þessara þriggja stóriðjufyrirtækja. Alvarlegast er misræmið þó varðandi tekjuskattsgreiðslurnar. Þar kemur fram að Alcoa á að njóta þess ef tekjuskattur verður lægri en 18% á þeim degi sem afhending raforku fer fram að fullu, en tekjuskattshlutfallið skal þó aldrei vera hærra en 18%. Aftur á móti er skattákvæði varðandi ISAL þess efnis að þeir greiða 33% tekjuskatt. Óski þeir endurskoðunar á skattareglunum munu almennar skattareglur gilda um fyrirtækið og falla þá niður allar sérskattareglur sem nú eru í samningi þeirra. Hjá Norðuráli getur skatthlutfallið aldrei orðið hærra en 33% en þeir geta krafist lagfæringar ef breytingar verða á tekju- og eignarskattslögum. Ljóst er því að verulegt misræmi er í skattgreiðslum þessara þriggja stóriðjufyrirtækja.
    Frávikin sem fram koma í greiðslu stimpilgjalda á stóriðjufyrirtækin annars vegar og íslensk fyrirtæki hins vegar eru líka óásættanleg. Það eru líka alvarleg mistök hjá ríkisstjórninni að hafa fallið frá lækkun stimpilgjalds á íslensk fyrirtæki sem koma áttu til framkvæmda um sl. áramót á sama tíma og ríkisstjórnin er að bjóða Alcoa verulega lækkun á stimpilgjöldum.
    Samfylkingin telur einnig fráleitt á þessu stigi að útiloka, eins og gert er í frumvarpinu, að sett verði sérstakt gjald á útblástur skaðlegra lofttegunda eða aðra losun úrgangs frá álverinu. Alþjóðleg þróun stefnir í að markaðslausnum, svo sem viðskiptum með losunarkvóta, verði beitt til að takmarka mengun af þessu tagi í framtíðinni. Um leið verða losunarkvótar að takmarkaðri auðlind. Samfylkingin telur grundvallaratriði að greiða beri fyrir réttinn til að nýta slíkar auðlindir. Samfylkingin er því mótfallin þessu skattaákvæði.
    Þótt Samfylkingin gagnrýni að alvarlegir annmarkar séu á skattalegum þáttum í samningnum og að tímabundin neikvæð skammtímaáhrif á peningastefnu og ríkisfjármál geti orðið nokkur, þá vega þar upp hin jákvæðu efnahagsáhrif til langs tíma, sem tryggja aukinn hagvöxt og bætt atvinnuástand. Í ljós þess styður Samfylkingin frumvarpið, en afstaða hennar til einstakra þátta skattamálanna mun koma fram í atkvæðagreiðslu um málið.

Efnahagsáhrif framkvæmdanna.
    Bygging álvers í Reyðarfirði og virkjun við Kárahnjúka eru meðal mestu framkvæmda Íslandssögunnar. Séu framkvæmdirnar skoðaðar af sjónarhóli hreinna efnahagsáhrifa bendir flest til að framkvæmdirnar muni hafa jákvæð áhrif á hagkerfið til langs tíma. Þegar starfræksla álversins hefst eykst framleiðslugeta þjóðarbúsins og framleiðsla til útflutnings eykst. Reynslan sýnir að til langs tíma er allajafna sterk, jákvæð fylgni milli útflutningstekna og þjóðartekna. Aukning á útflutningi af völdum álversins mun því efla þjóðartekjur. Fjármálaráðuneytið hefur metið þessi áhrif þannig að framkvæmdir vegna álversins og virkjunar við Kárahnjúka muni auka þjóðarframleiðslu til lengdar um 0,75%. Fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd telja því öll rök hníga að því að langtímaáhrif framkvæmdanna fyrir efnahag þjóðarbúsins verði jákvæð.
    Fram hjá hinu er þó ekki hægt að horfa, að til skamms tíma geta efnahagsleg áhrif framkvæmdanna haft verulega neikvæð áhrif á fyrirtæki í útflutningi, sem eru næm fyrir hækkun gengis og vaxta. Í umhverfi, þar sem raungengi er hátt og fer hækkandi samfara háum vöxtum, eru sprettumöguleikar nýgræðings í atvinnulífinu litlir. Þetta verður að hafa í huga þegar heildaráhrif framkvæmdarinnar eru metin. Þungbær skammtímaáhrif gætu hugsanlega vegið upp ávinning af framkvæmdunum til langs tíma. Í aðdraganda þeirra er því mjög brýnt að hugað sé að réttum mótvægisaðgerðum, sem skapa framkvæmdunum heppilegt rými, þannig að þær ryðji ekki í úr vegi of miklu af starfsemi sem ekki er eins framleiðin og stóriðjan.
    Gríðarlegt innstreymi mun verða á framkvæmdatíma á erlendum gjaldeyri inn til landsins. Erlent fjármagn verður notað til að standa straum af notkun innlends vinnuafls, og öðrum framleiðsluþáttum, sem framkvæmdirnar krefjast. Innstreymið mun að óbreyttu auka spennu á innlendum vöru- og vinnumarkaði, og stuðla að hærra gengi krónunnar. Hin aukna spenna á vinnumarkaði mun brjótast fram í þrýstingi á verðbólgu. Þessi þróun mun óhjákvæmilega ýta undir hækkun á gengi og vöxtum, sem bregðast verður við. Hækkun á þessum þáttum getur kallað fram hin svokölluðu ruðningsáhrif, þ.e.a.s. þegar starfsemi, sem ræður ekki við ýkt skammtímaáhrif framkvæmdanna eða er ekki eins framleiðin og stóriðjan og tengd starfsemi, lætur undan síga af völdum hás gengis og hárra vaxta. Sjávarútvegur er besta dæmið, ekki síst greinar þar sem framlegð er lítil, og hækkun á gengi gæti riðið baggamun um framtíð þeirra. Dæmi má taka af rækjuvinnslu, en í umfjöllun nefndarinnar var fullyrt að frekari gengishækkun gæti leitt til kollsteypu innan hennar.
    Í þessu samhengi er óhjákvæmilegt að reyna að greina hvernig þróun krónunnar er líkleg til að verða, í ljósi sterkra áhrifa hennar á tekjur og framlegð útflutningsfyrirtækjanna. Almennt gildir, að hækkun á gengi þrengir að útflutnings- og samkeppnisgreinum, og eyðir því slaka í hagkerfinu. Þannig má segja að gengishækkun skapi rými fyrir framkvæmdir, sem líklegar eru til að valda þenslu í hagkerfinu að öðru jöfnu. Framkvæmdirnar á Austfjörðum, sem hér eru reifaðar, falla að sjálfsögðu í þann flokk. Lækkun á stýrivöxtum Seðlabankans hefur að öðru óbreyttu áhrif til lækkunar á genginu. Nú hafa stýrivextir lækkað jafnt og þétt, og hafa ekki verið lægri síðan 1994, þegar slaki í hagkerfinu var töluvert minni en nú. Þrátt fyrir þetta hefur gengið hækkað stöðugt að undanförnu, og er nú yfir tíu ára meðaltali. Fyrir vikið er nú þegar töluvert þrengt að útflutningsgreinum, og innan þeirra óar mönnum við frekari gengishækkunum. Ljóst er einnig að vaxtalækkanir bankanna, sérstaklega verðtryggðir vextir, hafa ekki fylgt mikilli lækkun stýrivaxta og svigrúm er því til lækkunar á vöxtum sem styrkt gæti stoðir atvinnulífsins.
    Hækkun á gengi undanfarið hefur fyrst og fremst verið rakin til væntinga markaðarins um innstreymi gjaldeyris í tengslum við álvers- og virkjunarframkvæmdir eystra. Reynslan sýnir að markaðurinn getur brugðist við væntanlegum tilefnum löngu áður en þeim er hrint í framkvæmd. Gengið getur því hækkað töluvert fyrr en innstreymi gjaldeyris vegna fyrirhugaðra framkvæmda er hafið. Ekki má þó gleyma því, að fyrir núverandi hækkunarlotu leiddi hagstætt gengi á síðustu missirum til verulegs innstreymis á gjaldeyri, ekki síst í sjávarútvegi. Án nokkurs vafa hefur það átt sinn þátt í að styrkja gengi krónunnar. Spár sérfræðinga um afkomu í sjávarútvegi eru enn mjög jákvæðar, og skapa því frekari væntingar um innstreymi gjaldeyristekna úr greininni. Þannig er gert ráð fyrir að framlegð í greininni á þessu ári verði meiri en nokkru sinni, ef frá eru talin tvö síðustu árin. Óneitanlega hlýtur það að styrkja gengið og ýta fremur undir hækkun en hitt. Nýleg aukning aflaheimilda, sem að nokkru leyti voru án fiskifræðilegra raka og því óvæntar, hafa sömuleiðis átt sinn þátt í að tosa genginu upp. Samanlagt hafa þessir þættir leitt til mun meiri gengishækkana en markaðurinn átti von á með tilheyrandi þrengingu á aðstæðum í útflutningi. Þrátt fyrir það blasir nú við, að leiðandi aðilar í fjármálaheiminum telja enn líkur á frekari gengishækkunum vegna væntinga um stóriðjuframkvæmdir. Greinargerð Seðlabankans um efnahagsleg áhrif stóriðjuframkvæmda er a.m.k. ekki hægt að skilja öðru vísi (sjá t.d. bls. 19, 20).
    Við þessar aðstæður skiptir því mjög miklu máli fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinarnar að stjórnvöld peninga- og ríkisfjármála neyti allra ráða sem hægt er til að deyfa ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja mesta áherslu á að sem best samvinna takist við stjórn peninga- og ríkisfjármála. Einstakt umfang framkvæmdanna kallar á slíkt samstarf. Hækkun á vöxtum, styrking gengisins samfara því og niðurskurður opinberra framkvæmda eru aðferðir sem stjórnvöld fjármála og peningamála hafa nefnt til að skapa rými fyrir framkvæmdirnar. Ljóst er að slíkar aðgerðir munu taka í víða í samfélaginu. Mikilvægt er að það fjármagn sem nú á að nýta til opinberra framkvæmda fari í arðsamar og brýnar framkvæmdir, sem greiði fyrir því að hægt sé að hafa verklegar framkvæmdir í lágmarki á aðalframkvæmdatíma álversframkvæmdanna. Seðlabankinn hefur líka leitt rök að því að tilfærsla á framkvæmdum árin 2005–2006, þegar framkvæmdir eystra verða í hámarki, geti dregið töluvert úr vaxtahækkunum sem bankinn þyrfti ella að grípa til. Seðlabankinn hefur til dæmis reifað þá hugmynd að þessi ár verði 20% fjárfestinga ríkisins skotið á frest og síðan bætt ofan á framkvæmdir ríkisins næstu tvö ár á eftir. Heildarmagn framkvæmda minnkar því ekki, heldur er meginþunga þeirra einungis hnikað til.
    Aðgerðir af þessu tagi, í réttum takti við ákvarðanir Seðlabanka í peningamálum, eru líklegar til að draga úr þörf fyrir vaxtabreytingar bankans sem hann hefði ella gripið til í því skyni að ná verðbólgumarkmiðum sínum. Þær kalla hins vegar á mjög sterka ríkisstjórn, sem er reiðubúin til að taka á sig tímabundin óþægindi með frestun framkvæmda. Undir öllum kringumstæðum þarf sterkt og náið samráð við aðila vinnumarkaðarins. Fulltrúar Samfylkingarinnar telja litlar líkur á að núverandi stjórn hafi burði til að takast á við aðgerðir sem þessar, en benda á að sterkar vísbendingar eru um að tími hennar sé á þrotum.
    Þegar allt er skoðað telja fulltrúar Samfylkingarinnar að samvinna stjórnvalda peningamála og ríkisfjármála geti leitt til mótvægisaðgerða sem takmarka ruðningsáhrif stórframkvæmdanna eystra, þannig að afleiðingarnar verði viðunandi en ávinningur sem mestur.

Skattaákvæði.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar gera alvarlega athugasemd við það að Alcoa er ívilnað sérstaklega og með óásættanlegum hætti varðandi óhjákvæmilega umhverfisskatta framtíðarinnar. Umrætt ákvæði er að finna í 2. mgr. 6. gr. Þar er efnislega lagt til að heimilt sé að kveða á um í samningnum við Alcoa að ekki skuli lagðir skattar eða gjöld á útblástur lofttegunda, raforkunotkun eða aðra losun úrgangsefna af hálfu fyrirtækisins, nema því aðeins að slík gjöld séu lögð með almennum hætti á alla aðra starfsemi í landinu. Hér eru mikil mistök á ferðinni af hálfu stjórnvalda, sem bera vott um einstaka skammsýni hvað varðar þróun umhverfismála. Ákvæðið er með engu móti hægt að skilja öðru vísi en svo, að síðar á öldinni verði aldrei hægt að leggja sérstakan umhverfisskatt á orkufreka stóriðju hér á landi. Þessi skilningur var staðfestur í efnahags- og viðskiptanefnd í munnlegu svari iðnaðarráðuneytisins við spurningu fulltrúa Samfylkingarinnar.
    Hér er brotin grundvallarregla að mati Samfylkingarinnar. Það er óásættanlegt að í framtíðinni verði ekki hægt að koma við sérstökum gjöldum á losun skaðlegra lofttegunda frá stóriðju. Þessi ákvörðun stjórnvalda er hápólitísk, og gengur harkalega gegn þeirri þróun sem er í gangi á alþjóðlega vísu. Síðasta áratug hefur myndast almenn samstaða meðal þjóða heimsins um að lífríki heimsins stafi veruleg vá af hlýnun andrúmsloftsins. Öll vísindaleg rök hníga að því að hlýnunina megi rekja til losunar lofttegunda, sem meðal annars falla til í stórum stíl við stóriðju. Nú þegar eru í gangi athyglisverðar hugmyndir um að beita markaðslausnum til að takmarka losun þessa úrgangs, með því að heimila sölu á losunarkvótum. Um leið breytast þeir í takmarkaða markaðsvöru sem verður eftirsótt á alþjóðlega vísu. Í markaðsumhverfi er því óhjákvæmilegt að skilgreina losunarkvóta sem takmarkaða auðlind, þar sem heimildir til að losa úrgang út í umhverfið munu ganga kaupum og sölum. Losunarkvótar hljóta þá að skilgreinast sem sameign þjóðarinnar, engu síður en fjarskiptarásir í lofti, fiskistofnar í sjó, og fallvötn á landi. Tæpast er hægt að búast við að stóriðja, sem þegar er tekin til starfa þegar slíkar aðstæður skapast, keppi á markaði um slíkan losunarkvóta innan lands. Það er því sanngjarnt þegar að þessum tímamótum kemur að stóriðja á Íslandi greiði sérstakt umhverfisgjald.
    Stórnotendur slíkra kvóta, eins og stóriðja, hljóta að búast við því að síðar á þessari öld verði slík gjöld tekin upp. Ljóst er að Alcoa er mun framsýnna en íslensk stjórnvöld hvað þetta varðar, þar sem ákvæðið staðfestir ljóslega að fyrirtækið hefur séð þessa þróun fyrir, og því sótt umrædda heimild í samningum við ríkið. Einstök skammsýni stjórnvalda í umhverfismálum birtist í samþykkt þessa ákvæðis. Að mati Samfylkingarinnar er þetta ótækt. Hún leggur áherslu á að síðar á öldinni verði umhverfisgjöld tekin upp í stað hefðbundinna skatta sem hagræn stjórntæki. Samfylkingin leggst því eindregið gegn þessu ákvæði.
    Í frumvarpinu er lagt til að félaginu verði heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu níu almanaksárum. Í lok síðasta árs samþykkti Alþingi að lengja þann tíma sem fyrirtækjum almennt er heimilt að nýta rekstrartöp úr átta árum í tíu ár. Samfylkingin lagðist gegn þeirri breytingu, en í ljósi þess að tíu ára reglan er nú almenn regla, þá leggst Samfylkingin ekki gegn samsvarandi lengingu fyrir Alcoa.
    Stimpilgjöld eru samkvæmt frumvarpinu lækkuð verulega fyrir Alcoa í tengslum við fjárfestingar í álverinu. Af því tilefni vill Samfylkingin að skýrt komi fram að flokkurinn er á móti stimpilgjöldum. Margrét Frímannsdóttir, varaformaður, hefur ítrekað lagt fram frumvarp þess efnis, og eitt liggur nú fyrir þinginu. Samfylkingin telur jafnsjálfsagt að lækka stimpilgjöld á einstaklinga og smáfyrirtæki og á stóriðjufyrirtæki í erlendri eigu og brýnir af þessu tilefni þingið til að samþykkja tillögu Margrétar. Ástæða er líka til að nefna að stjórnarflokkarnir felldu tillögu frá Samfylkingunni í desember 2001 í tengslum við skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar um að stíga fyrsta áfanga í lækkun á stimpilgjöldum og lækka þau um þriðjung.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar vekja enn athygli á þeim mismun sem verður á tekjuskattsgreiðslum stóriðjufyrirtækjanna þriggja og árétta þá afstöðu sína að jafnræði ríki í skattgreiðslum fyrirtækja ef veita þarf undanþágu frá íslenskum skattalögum til að laða að erlenda fjárfestingu, enda gildi um það almennar reglur sem séu öllum fyrir fram kunnar.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar vilja að lokum vekja athygli á því að þótt gerð tvísköttunarsamnings milli Ítalíu og Íslands sé lokið þá hefur hann enn ekki verið birtur, og því ekki tekið gildi. Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo mun ef að líkum lætur starfa á Íslandi meira en tólf mánuði. Vöntun á fullgildingu tvísköttunarsamningsins kann því að skapa réttaróvissu um skattgreiðslur, bæði fyrirtækisins og erlendra starfsmanna þess, og hugsanlega að baka ríkinu bótaábyrgð. Samfylkingin leggur því áherslu á, að stjórnvöld beiti sér fyrir fullgildingu samningsins hið fyrsta. Af þessu tilefni vilja fulltrúar Samfylkingarinnar vekja athygli á því að fleiri dæmi eru um að fullgerðir tvísköttunarsamningar milli Íslands og annarra ríkja séu enn óbirtir, og þar af leiðandi ekki búnir að taka gildi.

Alþingi 16. febr. 2003.

Össur Skarphéðinsson.
Jóhanna Sigurðardóttir.




Fskj. 1.

Umsögn umhverfisráðuneytis.
(11. febrúar 2003.)


    Á fundi fulltrúa ráðuneytisins með efnahags- og viðskiptanefnd 3. febrúar sl. um frumvarp til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði kom fram beiðni um skriflega afstöðu ráðuneytisins til 2. málsgr. 6. gr. frumvarpsins en þar segir: „Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.“
    Í fyrsta lagi vill ráðuneytið árétta að umhverfiskröfur til fyrirtækisins verða skilgreindar í starfsleyfi og að umrædd grein í frumvarpinu mun ekki hafa nein áhrif á þær umhverfiskröfur sem gerðar verða til starfseminnar. Það sem hér um ræðir lýtur að hugsanlegri notkun hagrænna stjórntækja í þeim tilgangi að hafa áhrif á útstreymi lofttegunda eða annarra úrgangsefna. Í þessu ákvæði kemur fram að ef til beitingar slíkra stjórntækja kemur munu stjórnvöld taka mið af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar við útfærslu þeirra.
    Ríkisstjórn Íslands markaði á síðasta ári stefnu í loftslagsmálum á grundvelli rammasamnings Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókunarinnar. Í þeirri stefnumörkun er ekki gert ráð fyrir því að skattar eða gjöld verði lögð á gróðurhúsalofttegundir að svo komnu máli. Stefnan verður endurskoðuð í ljósi reynslunnar árið 2005. Í nágrannalöndunum er losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju almennt ekki skattlögð. Nokkur þeirra hafa þó í undirbúningi kröfur um að fyrirtæki hafi framseljanlegar losunarheimildir vegna losunar sinnar. Fyrirhugað kvótakerfi ESB vegna losunar gróðurhúsalofttegunda mun hins vegar ekki ná til losunar frá áliðnaði.

F. h. r.

Magnús Jóhannesson.
Halldór Þorgeirsson.

Fskj. 2.

ISAL:

Samanburður á skattaumhverfi.
(6. febrúar 2003.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn 1. minni hluta umhverfisnefndar.


    Umhverfisnefnd hefur borist bréf iðnaðarnefndar dags. 29. janúar sl. þar sem óskað er álits nefndarinnar á því hvort farið hafi verið að lögum um mat á umhverfisáhrifum vegna frumvarps til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði.
    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Stefán Thors frá Skipulagsstofnun.
    Fyrir liggur að fyrri eigandi Reyðaráls hf. lagði fram skýrslu um mat á umhverfisáhrifum byggingar allt að 420 þús. tonna álvers í tveimur áföngum fyrir Skipulagsstofnun í maí 2001. Í lok ágúst sama ár féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina með tilteknum skilyrðum. Úrskurðurinn var kærður til umhverfisráðherra sem síðar staðfesti hann. Í framhaldi af kaupum Alcoa á Reyðaráli hf. voru gerðar nokkrar breytingar á fyrirhugaðri framkvæmd. Í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. grein 13 a í viðauka 2, lét framkvæmdaraðili vinna skýrslu sem lögð var fram hjá Skipulagsstofnun þar sem borin eru saman umhverfisáhrif 420 þús. tonna álverksmiðju og 322 þús. tonna verksmiðju sem nú er fyrirhuguð. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var að umræddar breytingar væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.
    Fyrsti minni hluti telur meðferð málsins vera í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Alþingi, 10. febr. 2003.

Magnús Stefánsson.
Kristján Pálsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Jóhann Ársælsson.