Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 636. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1031  —  636. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Á eftir 85. gr. laganna kemur ný grein, 85. gr. A, svohljóðandi:
    Til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra vara við útflutning er landbúnaðarráðherra heimilt að greiða verðjöfnun við útflutning fullunninna vara sem innihalda innlend landbúnaðarhráefni. Verðjöfnun skal vera jöfn mismun á innlendu viðmiðunarverði og erlendu viðmiðunarverði hverrar tegundar hráefnis sem notað er við framleiðslu vörunnar. Greiðslur miðast við heimildir fjárlaga hverju sinni.
    Landbúnaðarráðherra gefur út reglugerð þar sem tilgreind skulu þau tollskrárnúmer sem heimilt er að greiða verðjöfnun fyrir, þær hráefnistegundir sem heimilt er að verðjafna, viðmiðunarverð innlendra landbúnaðarhráefna, erlend viðmiðunarverð sömu hráefna og nánari skilyrði verðjöfnunar. Í henni skal jafnframt kveðið á um tilhögun greiðslu og heimild ráðherra til að fresta greiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni.
    Sækja skal um verðjöfnun til landbúnaðarráðuneytis. Tollstjórinn í Reykjavík annast greiðslu verðjöfnunar að uppfylltum skilyrðum reglugerðar skv. 2. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á undanförnum árum hafa stjórnvöld heimilað greiðslu verðjöfnunargjalda við útflutning fullunninna vara sem innihalda landbúnaðarhráefni. Fyrst í stað var þessi heimild veitt af fjármálaráðuneytinu en með lögum nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, fluttust þessi verkefni til landbúnaðarráðuneytisins. Reglugerð nr. 259/1996 var sett um þessa framkvæmd og hefur verið unnið eftir henni fram að þessu. Við umrædda lagabreytingu fóru hins vegar ekki fram nákvæm skil á milli verksviðs fjármála- og landbúnaðarráðuneytis um það hvort ráðuneytið færi með framkvæmd tolla á vörum sem bera magntoll (A1-toll). Það var hins vegar gert með lögum nr. 104/2000, sem breyttu m.a. tollalögum, nr. 55/1987, og heyra því vörur sem bera magntoll alfarið undir landbúnaðarráðherra.
    Verðjöfnun á sér eingöngu stað við útflutning á fullunnum vörum sem innihalda innlend landbúnaðarhráefni og falla undir sama vörusvið og vörur sem bera magntoll við innflutning. Hins vegar er ekki um endurgreiðslu á tollum að ræða.
    Lagastoð fyrir verðjöfnun við útflutning þykir ekki nægilega skýr í 85. gr. laga nr. 99/ 1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og er frumvarp þetta því lagt fram.
    Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir heimild ráðherra, til að jafna samkeppnisstöðu innlendra vara við útflutning, til að greiða verðjöfnun við útflutning fullunninna vara sem innihalda innlend landbúnaðarhráefni. Við það er miðað að verðjöfnun verði jöfn mismun á innlendu viðmiðunarverði og erlendu viðmiðunarverði hverrar tegundar hráefnis sem notað er við framleiðslu vörunnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að gefa út reglugerð þar sem tilgreind eru þau tollskrárnúmer sem heimilt er að greiða verðjöfnun fyrir. Þá skulu tilgreind í reglugerðinni þau landbúnaðarhráefni sem heimilt er að verðjafna, viðmiðunarverð þeirra og erlend viðmiðunarverð sömu hráefna. Einnig skulu nánar tiltekin skilyrði verðjöfnunar og kveðið á um tilhögun greiðslu, þ.m.t. um hugsanlega frestun hennar. Slíkt er nauðsynlegt til að taka af öll tvímæli um að ráðherra sé heimilt að færa endurgreiðslur á milli ára komi til þess að endurgreiðslur verði umfram heimildir í fjárlögum. Í fjárlögum fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir heimild fjármálaráðherra til þess að greiða verðjöfnun við útflutning (fjárlagaliður 09-999- 1.81) að fjárhæð 5 millj. kr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að sækja skuli um heimild til verðjöfnunar til landbúnaðarráðuneytis sem mun meta hvort settum skilyrðum er fullnægt. Þá er lagt til að tollstjóranum í Reykjavík verði falið að annast greiðslu verðjöfnunar að uppfylltum skilyrðum reglugerðar skv. 2. mgr.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 99/1993,
um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að styrkja lagaheimildir landbúnaðarráðherra til að gefa út reglugerð til greiðslu verðjöfnunar fyrir mismun á verði innlendrar og erlendrar landbúnaðarvöru sem notuð er sem hráefni í fullunna vöru til útflutnings, þ.m.t. sala í fríhöfn. Vara sem nýtir hérlenda landbúnaðarframleiðslu er ekki talin samkeppnishæf erlendis vegna hlutfallslega hærra verðs á landbúnaðarvöru hér á landi. Slík verðjöfnun hefur verið greidd frá árinu 1995 og kostnaður síðustu tvö ár hefur verið 1,5 m.kr. á ári. Að öðru óbreyttu má gera ráð fyrir að sú upphæð komi einnig til greiðslu í ár. Samkvæmt fyrirhugaðri reglugerð landbúnaðarráðherra er ætlunin að fjölga þeim tollnúmerum sem til greina koma við greiðslu og við það gæti kostnaður hækkað nokkuð. Fjárheimildir, sem eru sú hámarksupphæð sem nýta má til greiðslnanna, eru 5 m.kr. fyrir árið 2003 og hafa ekki breyst frá árinu 1995. Ekki er gert ráð fyrir að hækka fjárheimildir fyrir árið 2004.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld gætu numið 1,5–5 m.kr. á ári sem rúmast innan fjárheimilda.