Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 649. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1055  —  649. mál.
Frumvarp til lagaum Ábyrgðasjóð launa.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)

I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda eða þegar dánarbú hans er til opinberra skipta og erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar.

2. gr.
Ábyrgðasjóður launa.

    Starfrækja skal Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur staðfestu í fleiri en einu ríki veita lögin ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi, enda njóti kröfur þeirra ekki ábyrgðar í öðru ríki.
    Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfur skv. 1. mgr. hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.–IV. kafla laga þessara.
    Fari um skipti á búi vinnuveitanda samkvæmt lögum annars ríkis gilda ákvæði laga þessara eftir því sem við á um meðferð krafna sem njóta ábyrgðar skv. 1. mgr.

3. gr.
Stjórnsýsla.

    Félagsmálaráðherra fer með framkvæmd laga þessara.
    Ábyrgðasjóður launa lýtur þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Um hlutverk stjórnar Ábyrgðasjóðs launa og fjármögnun sjóðsins fer að öðru leyti skv. VIII. kafla.

II. KAFLI
Ábyrgðartímabil og kröfur.
4. gr.
Ábyrgðartímabil.

    Ábyrgð sjóðsins tekur til krafna sem taldar eru upp í 5. gr. og fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag eða réttur hefur unnist til á því tímabili. Þó er heimilt að miða ábyrgðartímabil við frestdag ef sú niðurstaða er hagstæðari fyrir kröfuhafa.
    Í sérstökum undantekningartilvikum er sjóðnum heimilt að ábyrgjast kröfur sem gjaldfallið hafa utan ábyrgðartímabils 1. mgr., að því tilskildu að eðlilega hafi verið staðið að innheimtu þeirra. Beiting þessarar heimildar skal þó ekki hafa í för með sér að ábyrgðartímabil verði lengra en 18 mánuðir.

5. gr.
Kröfur sem njóta ábyrgðar sjóðsins.

    Ábyrgð sjóðsins tekur til eftirfarandi krafna í bú vinnuveitanda:
     a.      Kröfu launamanns um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda.
     b.      Kröfu um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi að því tilskildu að kröfuhafi sýni fram á með ótvíræðum hætti, svo sem með skráningu hjá opinberri vinnumiðlun, að hann hafi verið á vinnumarkaði og ástundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti.
     c.      Kröfu um orlofslaun sem réttur hefur unnist til á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr.
     d.      Kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. Ábyrgðin takmarkast við 10% lágmarksiðgjald og allt að 4% af iðgjaldsstofni samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd, sbr. 2. og 9. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og ákvæði í kjarasamningum. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á iðgjöldum, þar á meðal um eftirlit með skilum og innheimtu þeirra.
     e.      Kröfu launamanns um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss og kröfu þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launamanns, enda taki tryggingar vinnuveitanda ekki til bótakröfunnar.

6. gr.
Hámark ábyrgðar.

    Hámarksábyrgð á kröfum launamanna skv. a- og b-lið 5. gr. skal vera 250.000 kr. miðað við hvern mánuð. Hámarksábyrgð á kröfum skv. c-lið 5. gr. skal vera 400.000 kr. Fjárhæðir þessar skulu endurskoðaðar árlega með reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.
    Greiðslur vinnuveitanda upp í kröfur skv. 5. gr. sem hann innir af hendi fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti skulu koma til frádráttar hámarksábyrgð sjóðsins eða þeirri fjárhæð sem nýtur ábyrgðar sé hún lægri. Með sama hætti skulu atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur í uppsagnarfresti koma til frádráttar kröfum skv. b-lið 5. gr. Skal greiðsla sjóðsins til launamanns nema þeirri fjárhæð sem eftir stendur.
    Við afgreiðslu sjóðsins á kröfum skv. a- og b-lið 5. gr. skal hver mánuður gerður upp sérstaklega samkvæmt hámarksfjárhæð sem kveðið er á um í 1. mgr. Nái krafa launamanns yfir skemmra tímabil en einn mánuð skal hámarksábyrgð reiknuð í hlutfalli við það tímabil.

7. gr.
Ábyrgð án gjaldþrotaskipta.

    Sjóðstjórn er heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ábyrgjast kröfur skv. 5. gr. án undangenginna gjaldþrotaskipta á búi vinnuveitanda, enda liggi fyrir að vinnuveitandi hafi sannanlega hætt rekstri og tilraunir kröfuhafa til að koma fram gjaldþrotaskiptum á búi hans hafi ekki borið árangur eða kostnaður af að koma fram gjaldþroti yrði að mati sjóðstjórnar óeðlilega mikill.

III. KAFLI
Vextir og kostnaður.
8. gr.
Vextir.

    Kröfur skv. a–d-liðum 5. gr. skulu bera vexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá gjalddaga þeirra til þess dags er krafan fæst greidd úr Ábyrgðasjóði launa.
    Um vexti á bótakröfur skv. e-lið 5. gr. fer samkvæmt þeim reglum sem almennt gilda um þær kröfur.

9. gr.
Kostnaður og skiptatrygging.

    Njóti krafa ábyrgðar skv. 5. gr. á kröfuhafi rétt á greiðslu eðlilegs kostnaðar vegna innheimtu hennar, þ.m.t. dæmds málskostnaðar.
    Auk kostnaðar skv. 1. mgr. ber sjóðurinn ábyrgð á greiðslu skiptatryggingar sem launamaður eða lífeyrissjóður hefur greitt.
    Stjórn Ábyrgðasjóðs launa skal setja reglur sem ráðherra staðfestir um hámark á greiðslu kostnaðar og önnur skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á kröfum skv. 1. og 2. mgr.

IV. KAFLI
Undanþágur frá ábyrgð.
10. gr.
Undanþágur.

    Kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóta ekki ábyrgðar samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um kröfur launamanns sem var eigandi, einn eða ásamt maka sínum eða öðrum nákomnum, að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafði umtalsverð áhrif á rekstur þess.
    Ábyrgðasjóði launa er heimilt að hafna kröfum maka þeirra einstaklinga sem taldir eru upp í 1. mgr., annarra skyldmenna eða þeirra sem nákomnir eru þeim að öðru leyti ef sýnt er fram á að kröfur þeirra séu óréttmætar með tilliti til framangreindra tengsla.
    Heimilt er að lækka greiðslu úr sjóðnum miðað við gerða kröfu ef krafan telst óeðlilega há miðað við það starf sem kröfuhafi gegndi, starfstíma hans og þau launakjör sem tíðkast í viðkomandi starfsgrein eða eftir atvikum í hinu gjaldþrota fyrirtæki.
    Ákvæði 1.–3. mgr. taka ekki til bótakrafna skv. e-lið 5. gr.

11. gr.
Upplýsingar.

    Kröfuhafi skal greina frá því í kröfugerð sinni til sjóðsins hvort þau atvik sem greinir í 10. gr. hafi átt við um hann á þeim tíma sem krafa hans á hendur vinnuveitanda stofnaðist.

V. KAFLI
Kröfugerð og umsögn skiptastjóra.
12. gr.
Frestur til að gera kröfu.

    Krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa verður því aðeins tekin til greina að hún berist sjóðnum innan sex mánaða frá þeirri birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði er ræður lokum kröfulýsingarfrests í búið. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að taka til greina kröfu er berst innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt er að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.
    Kveðið skal á um form og efni kröfu til Ábyrgðasjóðs launa í reglugerð.

13. gr.
Umsögn skiptastjóra.

    Skiptastjóri í búi vinnuveitanda skal svo fljótt sem auðið er láta Ábyrgðasjóði launa í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar sjóðsins samkvæmt lögum þessum. Umsögn skiptastjóra skal fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfu og forgangsréttar hennar án tillits til eignastöðu búsins.
    Hafi skiptafundur ekki verið haldinn í búi vinnuveitanda til þess að taka afstöðu til lýstra krafna, en skiptastjóri lýsir því yfir að hann hafi viðurkennt forgangsrétt greiðslukröfunnar að einhverju leyti eða öllu, er Ábyrgðasjóði launa heimilt að fara með greiðslukröfu eins og fullnægt væri skilyrðum 1. mgr. Hafi krafa verið greidd úr sjóðnum á grundvelli slíkrar yfirlýsingar, en síðar kemur fram að hafnað er viðurkenningu forgangsréttar kröfunnar í búið, verður sú fjárhæð sem ofgreidd hefur verið af þessum sökum ekki endurkrafin.
    Ábyrgðasjóður launa getur óskað eftir frekari skýringum skiptastjóra á umsögn hans ef nauðsyn krefur.
    Kveðið skal á um form og efni umsagnar skiptastjóra í reglugerð.

VI. KAFLI
Stjórnsýsla.
14. gr.
Ákvörðun um greiðslu.

    Ábyrgðasjóður launa skal að jafnaði taka afstöðu til framkominnar kröfu innan fjögurra vikna frá því að umsögn skiptastjóra skv. 13. gr. berst sjóðnum. Ef ekki er unnt að taka afstöðu til kröfu innan frests, svo sem vegna frekari gagnaöflunar, skal tilkynna það kröfuhafa eða umboðsmanni hans og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við sjóðinn og leggja fram frekari gögn. Sjóðurinn getur óskað eftir skýringum kröfuhafa um einstaka þætti kröfu hans ef nauðsyn krefur.
    Komi fram í umsögn skiptastjóra að ágreiningur sé um réttmæti kröfu hefst frestur skv. 1. mgr. þann dag sem sjóðnum berst tilkynning um lyktir ágreiningsins.

15. gr.
Tilkynningar.

    Ábyrgðasjóður launa skal með sannanlegum hætti tilkynna þeim er kröfu gerir og skiptastjóra í búi vinnuveitandans niðurstöðu sína um greiðsluskyldu sjóðsins. Í tilkynningu skal sundurliða þá fjárhæð sem ábyrgðar nýtur skv. II. og III. kafla.
    Áður en greiðsla á kröfu verður innt af hendi úr Ábyrgðasjóði launa skal staðreyna hvort greiðsla hafi fengist á henni að einhverju eða öllu leyti úr búi vinnuveitandans og skulu þær greiðslur dragast að fullu frá greiðslu úr sjóðnum eftir þeim reglum sem kveðið er á um í 6. gr.

16. gr.
Málskot.

    Afgreiðslu Ábyrgðasjóðs launa má skjóta til stjórnar sjóðsins innan mánaðar frá móttöku tilkynningar skv. 15. gr.
    Stjórnin skal að jafnaði taka afstöðu til framkominnar kæru innan tveggja mánaða frá því að kæra berst. Skorti gögn eða nánari skýringar til að unnt sé að taka afstöðu til kröfu skal miða upphaf frests við þann dag sem þessar upplýsingar berast.
    Heimilt er að kæra ákvarðanir stjórnar samkvæmt lögum þessum til félagsmálaráðuneytis innan tveggja mánaða frá því að aðila barst tilkynning um ákvörðunina. Þetta skerðir þó ekki rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.

17. gr.
Innlausn kröfu og fyrirsvar.

    Frá því að skiptastjóra berst tilkynning Ábyrgðasjóðs launa skv. 15. gr. fer sjóðurinn með fyrirsvar fyrir kröfunni gagnvart búi vinnuveitanda að því leyti sem hann leysir kröfuna til sín. Nýtur krafa sjóðsins sömu stöðu í skuldaröð í búinu og hún hefði ella notið.
    Sá sem gerir kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa á grundvelli laga þessara má ekki aðhafast neitt það sem rýrt gæti endurkröfurétt sjóðsins á hendur búi vinnuveitanda. Er honum óheimilt að samþykkja, án sérstaks leyfis stjórnar sjóðsins, að kröfur fái komist að við gjaldþrotaskipti sem ekki hefur verið lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests. Brjóti kröfuhafi eða umboðsmaður hans gegn þessu ákvæði hefur það í för með sér að ábyrgð samkvæmt lögum þessum fellur niður.

18. gr.
Staðgreiðsla opinberra gjalda.

    Ábyrgðasjóði launa ber að reikna staðgreiðslu launamanns á kröfur sem samþykktar hafa verið samkvæmt lögum þessum og skila til innheimtuaðila í samræmi við ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

VII. KAFLI
Orlof vegna greiðsluerfiðleika.
19. gr.
Almenn skilyrði.

    Standi vinnuveitandi ekki í skilum með greiðslu orlofslauna skv. 7. eða 8. gr. laga um orlof, nr. 30/1987, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, getur launamaður eða hlutaðeigandi stéttarfélag í umboði hans snúið sér til Ábyrgðasjóðs launa með orlofslaunakröfuna. Krafa skal studd fullnægjandi gögnum um fjárhæð hennar, svo sem launaseðlum og vottorði viðkomandi vinnuveitanda eða löggilts endurskoðanda hans.

20. gr.
Áskorun til vinnuveitanda og innlausn.

    Ef krafa launamanns uppfyllir skilyrði 19. gr. skal Ábyrgðasjóður launa þegar í stað skora á vinnuveitanda að greiða kröfuna eigi síðar en þremur vikum frá dagsetningu áskorunar.
    Komi fram andmæli af hálfu vinnuveitanda sem sjóðurinn telur réttmæt, svo sem um að krafan hafi þegar verið greidd eða hún niður fallin af öðrum ástæðum, skal sjóðurinn vísa kröfunni frá. Kröfu launamanns skal einnig vísað frá ef fram er komin beiðni um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda.
    Standi ákvæði 2. mgr. ekki í vegi fyrir því að greiða megi kröfu launamannsins skal Ábyrgðasjóður launa innleysa kröfuna eigi síðar en fimm vikum frá dagsetningu áskorunar, sbr. 1. mgr. Um ábyrgð sjóðsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum c-liðar 5. gr., 6. gr. og IV. kafla, eftir því sem við á.

21. gr.
Aðfararhæfi og innheimta.

    Krafa Ábyrgðasjóðs launa vegna innleystrar orlofslaunakröfu er aðfararhæf gagnvart vinnuveitanda. Þá skal innleyst krafa njóta sömu stöðu gagnvart þrotabúi vinnuveitanda og krafa launamanns hefði ella notið.
    Á kröfu sem innleyst hefur verið samkvæmt reglum þessum reiknast dráttarvextir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, fyrst 15 dögum eftir innlausn.
    Um málsmeðferð fer að öðru leyti skv. VI. kafla, eftir því sem við á.

VIII. KAFLI
Hlutverk stjórnar, dagleg umsýsla og fjármögnun.
22. gr.
Hlutverk stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.

    Varsla Ábyrgðasjóðs launa, dagleg umsýsla og reikningshald eru á ábyrgð stjórnar sjóðsins í umboði félagsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. 3. gr.
    Auk þeirra verkefna sem lúta að stjórnsýslulegri meðferð þeirra mála sem berast sjóðnum skal stjórn Ábyrgðasjóðs launa annast fyrirsvar fyrir sjóðinn og sinna öðrum þeim verkefnum sem lúta að framkvæmd laga þessara.
    Stjórn sjóðsins skal fyrir lok september ár hvert gera tillögu til ráðherra um hlutfall ábyrgðargjalds, sbr. 23. gr. Tillaga stjórnar skal byggð á greinargerð hennar um fjárhagsstöðu sjóðsins og áætlun um þróun útgjalda. Jafnframt skal stjórnin fyrir sama tíma gera tillögu til ráðherra um hámarksfjárhæðir skv. 1. mgr. 6. gr.

23. gr.
Fjármögnun.

    Ábyrgðasjóður launa skal fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem nefnist, sem skattskylt er. Ákvæði laga um tryggingagjald eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu ábyrgðargjalds.
    Ábyrgðargjaldið skal vera allt að 0,2% af gjaldstofni. Hlutfallið skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðherra setur fyrir eitt ár í senn að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, sbr. 3. mgr. 22. gr.
    Skorti sjóðinn reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins þegar tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal þá leggja sjóðnum til þá fjármuni sem til þarf og skoðast það sem lántaka . Sé uppsöfnuð skuld Ábyrgðasjóðs launa við ríkissjóð í árslok hærri fjárhæð en svarar til helmings áætlaðra árstekna af ábyrgðargjaldi er félagsmálaráðherra heimilt með reglugerð, að fenginni umsögn sjóðstjórnar, að hækka gjaldið tímabundið í allt að 0,3% af gjaldstofni þar til jafnvægi er náð.
    Ábyrgðargjald telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.
    Kostnaður af rekstri Ábyrgðasjóðs launa greiðist af tekjum hans.
    Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af Ríkisendurskoðun.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.
24. gr.
Framsal.

    Hafi launamaður framselt launakröfu sína á hendur vinnuveitanda áður en bú vinnuveitanda var tekið til gjaldþrotaskipta nýtur krafan ekki ábyrgðar samkvæmt lögum þessum. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launamannsins, né heldur ef krafan hefur að fullu eða að hluta verið framseld Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 7. gr. og VII. kafla.

25. gr.
Upplýsingar.

    Stjórnvöldum, vinnuveitendum og öðrum hlutaðeigandi aðilum er skylt að láta Ábyrgðasjóði launa í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna afgreiðslu sjóðsins á einstökum kröfum.

26. gr.
Endurkrafa.

    Hafi greiðslu verið aflað úr Ábyrgðasjóði launa með því að gefa rangar upplýsingar eða leyna atriðum sem leitt hefðu til synjunar eða lækkunar á greiðslu úr sjóðnum samkvæmt lögum þessum ber þeim er greiðsluna fékk að endurgreiða þá fjárhæð sem hann hefur ranglega fengið.
    Krafa um endurgreiðslu skv. 1. mgr. fellur úr gildi fyrir fyrningu þegar tvö ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað.
    Telji stjórn Ábyrgðasjóðs launa að greiðslu hafi verið aflað eða reynt hafi verið að afla greiðslu úr sjóðnum með saknæmum hætti skal málinu vísað til opinberrar rannsóknar.

X. KAFLI
Reglugerðarheimild og gildistaka.
27. gr.
Reglugerðarheimild.

    Félagsmálaráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.

28. gr.
Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi, sem sett eru með hliðsjón af tilskipun ráðsins frá 20. október 1980 nr. 80/987/ EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, öðlast þegar gildi. Falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, með síðari breytingum. Frá sama tíma fellur úr gildi 11. gr. orlofslaga, nr. 30/1987, með síðari breytingum.
    Kröfur í bú vinnuveitanda sem úrskurðuð eru gjaldþrota fyrir gildistöku þessara laga njóta ábyrgðar samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, nr. 53/1993. Ákvæði 10. gr. laga þessara taka þó strax gildi vegna krafna í bú vinnuveitanda sem úrskurðuð eru gjaldþrota fyrir gildistöku þessara laga leiði þau til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa.
    Ákvæði d-liðar 5. gr. tekur gildi 1. janúar 2004 varðandi ábyrgð á iðgjöldum samkvæmt samningum um viðbótartryggingavernd og ákvæðum kjarasamninga sem falla í gjalddaga eftir gildistöku laga þessara, sbr. 1. mgr., enda hafi bú vinnuveitanda verið úrskurðað gjaldþrota eftir 1. janúar 2004.
    Ákvæði 1. mgr. 6. gr. um hámarksábyrgð á kröfum launamanna skv. a- og b-lið 5. gr. öðlast gildi 1. apríl 2003 vegna krafna sem gjaldfalla eftir það tímamark. Fram til þess dags gildir 2. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993.
    Ákvæði 1. mgr. 6. gr. um hámark ábyrgðar vegna krafna skv. c-lið 5. gr. öðlast þegar gildi gagnvart kröfum sem stofnast hafa en hafa ekki náð hámarki ábyrgðar fyrir gildistöku laganna. Kröfur umfram hámarksábyrgð skulu ekki skerðast að því leyti sem þær stofnast fyrir gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem felur í sér heildarendurskoðun á lögum nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, er samið í félagsmálaráðuneytinu, og er það að mestu byggt á tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa til félagsmálaráðherra.
    Helstu nýmæli sem frumvarpið hefur að geyma eru eftirfarandi:
    Lagt er til að Ábyrgðasjóður launa taki á sig ábyrgð á vangreiddum iðgjöldum sem nemur allt að 4% af iðgjaldsstofni á grundvelli samnings um viðbótartryggingavernd umfram lágmarksiðgjald samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra hefur fjöldi slíkra samninga farið stigvaxandi frá gildistöku laganna árið 1998 en samið hefur verið um slíkan sparnað í almennum kjarasamningum. Þykir eðlilegt í ljósi þeirrar þróunar að Ábyrgðasjóður launa stuðli að vernd þessara réttinda.
    Lögð er til hækkun á hámarksábyrgð sjóðsins vegna krafna launamanna. Samkvæmt gildandi lögum er hámarksábyrgð á mánuði miðuð við þrefaldar hámarksatvinnuleysisbætur á mánuði, eins og þær eru ákveðnar á hverjum tíma án tillits til barnafjölda. Í frumvarpinu er lagt til að miðað verði við fasta fjárhæð sem félagsmálaráðherra ákveður með reglugerð til eins árs í senn, að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa. Samkvæmt gildandi lögum er hámarksábyrgð á launakröfum á mánuði 232.347 kr. en lagt er til að sú fjárhæð verði hækkuð í 250.000 kr. Þessari hækkun verður að hluta til mætt með ákvæði um að ábyrgð sjóðsins á orlofslaunakröfum verði bundin hámarki sem ákveðið verður á sama hátt í reglugerð og að í upphafi miðist hámarksábyrgð við 400.000 kr.
    Þá eru lagðar til breytingar að því er varðar skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á því skilyrði fyrir ábyrgð á bótum vegna slita á ráðningarsamningi að starfsmaður skrái sig reglulega hjá opinberri vinnumiðlun. Lagt er til að kröfuhafi hafi ákveðið val um þær aðferðir sem hann notar við atvinnuleit sína og að regluleg skráning hjá opinberri vinnumiðlun verði þannig lögð að jöfnu við aðrar aðferðir við atvinnuleit þegar mat er lagt á hvort launamaður uppfyllir kröfur um virka atvinnuleit. Í öðru lagi er lagt til að tekin verði af tvímæli um að ábyrgð á bótum vegna líkamstjóns sem starfsmenn verða fyrir í vinnu sinni komi einungis til álita í þeim tilvikum þegar tryggingar vinnuveitanda taka ekki til bótakröfu starfsmanns. Í þriðja lagi er lögð til breyting á reglum um ábyrgð á orlofslaunakröfum starfsmanna og þær færðar til samræmis við forgangsréttarákvæði gjaldþrotaskiptalaga. Er lagt til að ákvæði orlofslaga um ábyrgð á orlofi vegna greiðsluerfiðleika vinnuveitanda verði færð í sérstakan kafla í lögum þessum og að þær kröfur lúti í meginatriðum sömu reglum og gilda um ábyrgð á orlofskröfum við gjaldþrot vinnuveitanda. Í fjórða lagi er lagt til nýmæli um 18 mánaða ábyrgðartímabil krafna á hendur Ábyrgðasjóði launa sem að jafnaði reiknast frá þeim degi er gjaldþrotaúrskurður er kveðinn upp. Verða kröfur á hendur sjóðnum að falla í gjalddaga eða ávinnast innan þessa tímabils ef til álita á að koma að sjóðurinn ábyrgist þær samkvæmt þeim reglum sem fjallað er um í frumvarpi þessu. Heimilt er þó að miða fremur við frestdag samkvæmt ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga ef það leiðir til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa. Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á reglum er lúta að undanþágum frá ábyrgð sjóðsins vegna tengsla kröfuhafa við eigendur eða forsvarsmenn hins gjaldþrota vinnuveitanda.
    Ýmsar breytingar eru lagðar til varðandi stjórnsýslu Ábyrgðasjóðs launa, m.a. að því er varðar kröfugerð á hendur sjóðnum og afgreiðslu hans. Þá er lagt til að heiti sjóðsins verði breytt úr ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota í Ábyrgðasjóður launa og kemur sú breyting jafnframt fram í fyrirsögn frumvarpsins.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að hafi greiðslu verið aflað úr sjóðnum með því að veita af ásetningi rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum geti það varðað sektum er numið geta allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem ranglega hefur fengist greidd nema þyngri refsing liggi við að lögum. Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði þetta falli brott enda varðar sú háttsemi sem lýst er í ákvæðinu að jafnaði þyngri refsingum á grundvelli almennra hegningarlaga.
    Loks er í frumvarpinu kveðið á um gildissvið laganna í þeim tilvikum þegar vinnuveitandi hefur starfsemi í fleiri en einu ríki en sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum. Var meðal annars höfð hliðsjón af ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2002/74/ESB um breytingu á tilskipun nr. 80/987/EBE að því er varðar ábyrgð á kröfum launamanna þegar vinnuveitandi hefur starfsstöð í fleiri en einu aðildarríkja EES-samningsins. Er meginreglan samkvæmt tilskipuninni sú að ábyrgðasjóður þess ríkis þar sem starfsmenn starfa að jafnaði skuli bera ábyrgðina, óháð því hvar aðalskrifstofa vinnuveitanda er skráð eða gjaldþrotaúrskurður hefur verið kveðinn upp.
    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Þar sem í mörgum tilvikum er um það að ræða að kröfur á hendur Ábyrgðasjóði launa myndast á löngum tíma er þó nauðsynlegt að setja lagaskilaákvæði um ýmis atriði. Ber þar fyrst að telja að kveðið er á um að um kröfur í þrotabú vinnuveitanda sem úrskurðuð hafa verið gjaldþrota áður en frumvarpið öðlast gildi skuli fara samkvæmt ákvæðum gildandi laga, með þeirri undantekningu að ákvæði 10. gr. frumvarpsins um undanþágur frá ábyrgð taki strax gildi að því leyti sem þau leiða til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa. Þá er kveðið á um að ábyrgð sjóðsins á viðbótarlífeyrissparnaði taki gildi frá og með 1. janúar 2004. Loks er kveðið á um reglur um að hækkun hámarksábyrgðar á kröfum um vangoldin laun og bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti miðist við 1. apríl 2003. Jafnframt er kveðið á um að nýmæli um hámarksábyrgð á orlofskröfum taki gildi um leið og frumvarpið verður að lögum, svo fremi að það leiði ekki til skerðingar þegar áunninna réttinda.
    Að öðru leyti vísast til athugasemda með einstökum greinum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Kaflinn hefur að geyma almenna lýsingu á markmiði og gildissviði frumvarpsins, sbr. 1. gr., upptalningu á þeim kröfum sem notið geta ábyrgðar sjóðsins ásamt vísan til annarra kafla frumvarpsins er hafa að geyma nánari lýsingu á skilyrðum fyrir ábyrgð sjóðsins í einstökum tilvikum, sbr. 2. gr., og að síðustu ákvæði um það hver fari með framkvæmd laganna, sbr. 3. gr.
    Helstu breytingar miðað við gildandi lög eru að í 1. gr. bætast ákvæði sem varða gildissvið laganna. Er lagt til í frumvarpinu að lögin gildi um kröfur í bú vinnuveitenda sem hefur skráða starfsemi hér á landi. Í þeim tilvikum er vinnuveitandi hefur starfsemi í fleiri en einu aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er lagt til að lögin gildi um kröfur starfsmanna sem inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi.
    Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að komið geti til ábyrgðar samkvæmt lögum þessum þótt lög annars aðildarríkis samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gildi um skipti á búi vinnuveitanda.
    Rétt er að geta þess að lagt er til að 4. gr. gildandi laga falli brott. Greinin hefur að geyma ýmsar skilgreiningar, m.a. á hugtakinu launþegi, sem þykja að ýmsu leyti úr sér gengnar. Í frumvarpi þessu eru notuð hugtökin vinnuveitandi og launamaður og vísast um túlkun þeirra til almennra reglna vinnuréttar.

Um 1. gr.


    Í ákvæðinu er lýst markmiði frumvarpsins. Ákvæðið er að mestu samhljóða 1. gr. gildandi laga. Þó er lagt til að notað verði hugtakið „launamaður“ í stað hugtaksins „launþegi“, sbr. 1. gr. gildandi laga. Þá er lagt til að orðið „viðurkennds“ á undan orðinu „lífeyrissjóðs“ falli brott, en ítarleg ákvæði um starfsemi lífeyrissjóða er nú að finna í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um tilvist Ábyrgðasjóðs launa og taldir upp þeir kröfuflokkar sem sjóðurinn ábyrgist greiðslu á. Ákvæðið felur í sér breytt heiti sjóðsins en samkvæmt gildandi lögum nefnist sjóðurinn ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota. Var sjóðurinn stofnaður á grundvelli laga nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, en áður bar ríkissjóður ábyrgð á kröfum launamanna vegna gjaldþrots vinnuveitanda. Fyrstu lög um ríkisábyrgð á launum eru nr. 31/1974.
    Í 1. mgr. er einnig að finna afmörkun á gildissviði laganna og er ákvæðið meðal annars samið með hliðsjón af ákvæðum tilskipunar nr. 2002/74/ESB, um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 80/987/EBE um samræmingu laga aðildarríkja Evrópusambandsins til verndar réttindum starfsmanna við gjaldþrot vinnuveitanda. Ákvæðið felur í sér að lögin gilda um ábyrgð á kröfum vegna allra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi, jafnvel þótt vinnuveitandi reki starfsemi í fleiri en einu ríki. Í ákvæðinu er gerð krafa um að vinnuveitandi hafi staðfestu og reki starfsemi hér á landi en sambærilegt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það meginskilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins að kröfur launamanna annars vegar og lífeyrissjóða hins vegar hafi verið samþykktar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Þar sem ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum endurspeglar ekki í einu og öllu ákvæði 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga er tekið fram að áskilnaður um viðurkenningu kröfu sem forgangskröfu er með fyrirvara um þau takmörk og frávik sem kveðið er nánar á um í II.–IV. kafla frumvarpsins. Er með þessu undirstrikuð sérstaða þeirra reglna sem hér um ræðir bæði að því er varðar sjálft gildissvið þeirra og nánari skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum.
    Áskilnaðurinn um viðurkenningu skiptastjóra á forgangsrétti kröfu gefur kröfunni, í þeim tilvikum þegar það á við, engu að síður ákveðið vægi við mat Ábyrgðasjóðs launa á því hvort skilyrði séu til greiðslu hennar. Viðurkenning skiptastjóra á kröfu skv. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga bindur hins vegar ekki hendur sjóðsins enda ráð fyrir því gert að sjóðurinn taki ávallt sjálfstæða afstöðu til þess hvort krafa njóti ábyrgðar samkvæmt þeim sérstöku reglum sem hér er kveðið á um.
    Til nánari skýringar skal tekið fram að með orðinu „takmörkun“ í 2. mgr. 2. gr. er í fyrsta lagi vísað til þess að ábyrgðartímabil skv. 4. gr. frumvarpsins fellur ekki nákvæmlega að því tímabili sem forgangsréttur skv. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga er miðaður við. Í öðru lagi er kveðið á um hámark ábyrgðar á einstökum launakröfum, sbr. 6. gr. frumvarpsins, en slíkar takmarkanir er ekki að finna í 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Í þriðja lagi er ábyrgð sjóðsins takmörkuð hvað varðar fjölda starfsmánaða. Samkvæmt a-lið 5. gr. njóta síðustu þrír starfsmánuðir ábyrgðar en skv. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga geta vangreiddar launakröfur í allt að 18 mánuði notið forgangsréttar við úthlutun úr þrotabúi vinnuveitanda. Um aðrar takmarkanir að þessu leyti vísast til einstakra greina frumvarpsins.
    Orðið „frávik“ vísar fyrst og fremst til þess að kröfur sem ekki njóta forgangsréttar skv. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga geta notið ábyrgðar samkvæmt reglum frumvarpsins. Hér er í fyrsta lagi um að ræða reglur um ábyrgð sjóðsins á viðbótarlífeyrissparnaði, sbr. d-lið 5. gr. Í öðru lagi má nefna ákvæði 9. gr. frumvarpsins um ábyrgð sjóðsins á málskostnaði og skiptatryggingu. Í þriðja lagi er í 10. gr. frumvarpsins kveðið á um ýmsar undanþágur frá ábyrgð sjóðsins vegna tengsla kröfuhafa og vinnuveitanda en þessar reglur byggjast að hluta til á öðrum lagasjónarmiðum en hin sérstöku undanþáguákvæði 3. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Loks má nefna 7. gr. frumvarpsins um heimild sjóðsins til að greiða kröfur launamanna og lífeyrissjóða án undangenginna gjaldþrotaskipta á búi vinnuveitanda.
    Um skýringar á þessum ákvæðum og öðrum er hafa að geyma sambærileg frávik vísast að öðru leyti til einstakra ákvæða frumvarpsins.
    Ákvæði 3. mgr. felur í sér nýmæli og hefur það í för með sér að ákvæði laganna gilda eftir því sem við á þótt um skipti á búi vinnuveitanda fari samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum annars ríkis í þeim tilvikum sem krafa nýtur ábyrgðar samkvæmt lögum þessum. Þykir eðlilegt að kveða á um þennan möguleika í frumvarpinu í ljósi þess að mjög hefur færst í vöxt að fyrirtæki hér á landi reki einnig starfsemi í öðrum ríkjum.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að félagsmálaráðherra fari með framkvæmd laganna.
    Í 2. mgr., sem er efnislega samhljóða 1. mgr. 2. gr. gildandi laga, er kveðið á um að Ábyrgðasjóður launa lúti þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og einn án tilnefningar sem skal vera formaður stjórnar. Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði um skipan varamanna.
    Í 3. mgr. er vísað til VIII. kafla frumvarpsins er hefur að geyma nánari ákvæði um hlutverk stjórnar sjóðsins og fjármögnun hans. Samkvæmt ákvæði þessu og ákvæðum VIII. kafla er framkvæmd laganna á sameiginlegri ábyrgð félagsmálaráðherra og stjórnar sjóðsins.

Um II. kafla.


    Í kaflanum er að finna þau ákvæði er fjalla um ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum launamanna og lífeyrissjóða. Lagt er til það nýmæli að kröfur um iðgjöld á grundvelli samnings um viðbótarlífeyrissparnað njóti framvegis ábyrgðar sjóðsins, þó að hámarki 4% af heildarlaunum fyrir hvern mánuð. Jafnframt er lagt til að afnumin verði tenging hámarksábyrgðar af kröfum um laun og bætur í uppsagnarfresti við ákvæði laga um atvinnuleysisbætur og að þess í stað miðist hámarksábyrgð við fasta fjárhæð sem ráðherra ákveður með reglugerð. Einnig er lagt til það nýmæli að tekin verði upp hámarksábyrgð á kröfum um vangoldið orlof en engin slík takmörkun er í gildandi lögum.

Um 4. gr.


    Greinin hefur að geyma ítarlegri reglur um ábyrgðartíma krafna á hendur Ábyrgðasjóði launa en ákvæði gildandi laga. Í 1. málsl. 1. mgr. er lagt til það nýmæli að þær kröfur sem gerð er krafa um greiðslu á úr Ábyrgðasjóði launa hafi fallið í gjalddaga eða að réttur hafi unnist til þeirra á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag. Í 1. tölul. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti er hins vegar kveðið á um að kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag njóti forgangsréttar við úthlutun úr þrotabúi.
    Þessi breyting er lögð til þar sem ávallt eru dæmi um það að fyrirtæki haldi áfram starfsemi þó að fram sé komin beiðni um gjaldþrotaskipti. Ef beiðni um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda nær fram að ganga telst sá dagur þegar beiðnin var lögð fram fyrir héraðsdómi frestdagur í skilningi 2. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Eins og áður segir njóta laun sem starfsmenn vinna fyrir eftir frestdag ekki forgangsréttar skv. 1. tölul. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga né ábyrgðar samkvæmt gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa. Í mörgum tilvikum hafa skiptastjórar þrotabúa þó samþykkt slíkar launakröfur sem forgangskröfur og Ábyrgðasjóður launa því ekki talið fært að hafna greiðsluábyrgð. Ætla má að rökin fyrir afstöðu skiptastjóra í þessum málum séu þau að kröfur launamanna standi í beinum tengslum við vangoldnar launakröfur sömu aðila sem fallið hafa í gjalddaga fyrir frestdag og því ekki ástæða til að greina þar sérstaklega á milli. Sú breyting sem lögð er til með 4. gr. þessa frumvarps felur því fyrst og fremst í sér aðlögun að framangreindri lagaframkvæmd og er launamönnum til hagsbóta.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að við sérstakar aðstæður sé sjóðnum heimilt að miða fyrrgreint ábyrgðartímabil við frestdag í stað úrskurðardags ef sú niðurstaða er hagstæðari fyrir kröfuhafa. Er hér einkum haft í huga að ábyrgð sjóðsins á iðgjöldum lífeyrissjóða skv. d-lið 5. gr. þessa frumvarps getur í sumum tilvikum spannað allt 18 mánaða ábyrgðartímabilið miðað við frestdag. Ef rekstur fyrirtækis hefur í raun stöðvast á frestdegi og nokkur tími líður fram að úrskurðardegi getur sú regla sem kveðið er á um í 1. málsl. 1. mgr. leitt til skerðingar á þeirri vernd sem reglum þessa frumvarps er ætlað að veita iðgjöldum starfsmanna. Ef þessari sérreglu er beitt færist 18 mánaða ábyrgðartímabilið aftar í tíma án þess að það hafi í för með sér fjölgun þeirra iðgjaldamánaða sem notið geta ábyrgðar skv. d-lið 5. gr.
    Í 1. mgr. eru orðin „fallið í gjalddaga“ og „réttur unnist til“ notuð án frekari skýringa. Með orðunum „fallið í gjalddaga“ er einfaldlega verið að vísa til þeirra reglna sem gilda um gjalddaga kröfu samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Með orðunum „réttur unnist til“ er hins vegar verið að vísa til þess að launatengdar kröfur, svo sem orlof og lífeyrisréttindi, geta áunnist á löngu tímabili.
    Samkvæmt 99. gr. gjaldþrotaskiptalaga falla kröfur á hendur þrotabúi, þ.m.t. launakröfur, sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda án tillits til þess sem kann áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti. Úrskurðurinn hefur jafnframt þau áhrif að ráðningarsamningum starfsmanna er rift og þeir öðlast bótakröfu vegna ráðningarslitanna sem samsvarar launum í uppsagnarfresti og nýtur krafan ábyrgðar skv. b-lið 5. gr. Sjóðurinn ber einnig ábyrgð á iðgjaldahluta kröfunnar þótt hluti hennar hefði fallið í gjalddaga eftir þennan dag ef ekki hefði komið til þess að vinnuveitandi hefði verið úrskurðaður gjaldþrota. Verða lífeyrissjóðir að taka tillit til þessa atriðis í kröfugerð sinni á hendur sjóðnum þar sem síðasti mánuður 18 mánaða ábyrgðartímabils á kröfum, sbr. 4. gr. frumvarpsins, er ávallt síðasti mánuður í uppsagnarfresti hvort sem hann er fyrir eða eftir úrskurðardag.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að við sérstakar aðstæður geti ábyrgð sjóðsins tekið til krafna skv. 5. gr. sem falla í gjalddaga fyrir upphaf ábyrgðartímabilsins eins og það er skilgreint í 1. mgr. Það skilyrði er sett fyrir beitingu þessa heimildarákvæðis að eðlilega hafi verið staðið að innheimtu krafnanna. Í ákvæði þessu er einkum höfð í huga sú staðreynd að gjalddagi bótakrafna skv. e-lið 5. gr. reynist mjög oft falla utan við 18 mánaða forgangsréttartímabil skv. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga og e-lið 5. gr. gildandi laga. Samkvæmt ströngustu lagatúlkun ber að hafna forgangsrétti slíkra krafna. Ábyrgðasjóður launa hefur í fáeinum tilvikum fallist á að greiða slíkar kröfur að því tilskildu að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi í kjölfar hins bótaskylda atviks fengið tjón sitt staðreynt og staðið eðlilega að innheimtu kröfu sinnar. Ákvæðið heimilar ekki að öðru leyti frávik frá fjölda þeirra mánaða sem mynda 18 mánaða hámarksábyrgðartímabil, sbr. 1. mgr. Komið getur til álita að beita þessari heimild vegna tiltekinnar kröfu launamanns, til að mynda bótakröfu hans vegna líkamstjóns sem sérstök rök mæla með að njóti ábyrgðar sjóðsins þó að hún falli utan ábyrgðartímabils, sbr. 1. mgr. Slík ákvörðun þarf ekki að hafa áhrif á mat sjóðsins á því hvort aðrar kröfur sama launamanns eða annarra kröfuhafa falli innan ábyrgðartímabils eins og það er skilgreint í 1. mgr.
    Eftir að bú vinnuveitanda hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta ber skiptastjóra skv. 98. gr. gjaldþrotaskiptalaga að taka afstöðu til þess hvort þrotabúið taki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum þeirra manna sem starfa við atvinnurekstur þrotamannsins. Í sama ákvæði segir að starfsmenn eigi rétt til launa frá því að úrskurður var kveðinn upp og til þess tíma sem þrotabúið tekur afstöðu sína. Um rétthæð slíkra launakrafna gagnvart þrotabúi vinnuveitanda fer skv. 3. tölul. 110. gr. laganna. Þessar launakröfur, sem og aðrar kröfur á hendur vinnuveitanda, falla utan ábyrgðar sjóðsins samkvæmt gildandi lögum og er ekki lögð til breyting á því með frumvarpi þessu.

Um 5. gr.

    Í greininni eru taldar upp þær kröfur sem njóta ábyrgðar sjóðsins og er þar nánar kveðið á um skilyrði fyrir ábyrgð á þeim kröfum. Framsetning og orðalag ábyrgðarreglna er með nokkuð öðrum hætti en í gildandi lögum en ekki er um grundvallarbreytingar að ræða ef frá er talið það nýmæli að lagt er til að viðbótarlífeyrissparnaður njóti ábyrgðar sjóðsins.
     Um a-lið.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða a-lið 1. mgr. 5. gr. gildandi laga.
    Með orðinu „vinnulaun“ í skilningi ákvæðisins er fyrst og fremst átt við samningsbundin laun eins og þau eru skilgreind í kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Undir þetta falla almenn vinnulaun og ýmsar uppbætur á laun sem tengdar eru vinnuframlagi kröfuhafa. Hins vegar á hugtakið „vinnulaun“ ekki við um ýmsar kröfur sem raktar verða til ráðningarsambands launamanns og vinnuveitanda, til að mynda kröfur um greiðslu á kostnaði sem launamaður hefur sjálfur lagt út fyrir enda flokkast slíkar kröfur ekki sem endurgjald fyrir vinnu í þjónustu vinnuveitanda. Má þar nefna kröfu launamanns um greiðslu ferðareiknings vegna ferðar á vegum vinnuveitanda, kröfu um greiðslu eldsneytiskostnaðar og annars sambærilegs kostnaðar.
    Rétt er að taka fram að við úrskurð um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda falla kröfur um desemberuppbót sem kveðið er á um í kjarasamningi í gjalddaga eins og aðrar launakröfur og njóta hlutfallslegrar ábyrgðar sem hluti af heildarlaunakröfu starfsmanns skv. a-lið 5. gr. frumvarpsins. Sama á við um kröfur launamanna vegna orlofsuppbótar. Njóta slíkar kröfur ábyrgðar sjóðsins sem hluti af launakröfu starfsmanns skv. a- og b-lið 5. gr. frumvarpsins.
    Ábyrgðarreglur sjóðsins byggjast á þeirri grundvallarreglu að einungis kröfur launamanna geta notið ábyrgðar sjóðsins. Kröfur verktaka í bú vinnuveitanda falla því utan ábyrgðar sjóðsins. Ef vafi leikur á stöðu kröfuhafa að þessu leyti verður að meta samningssamband hans og vinnuveitanda heildstætt samkvæmt almennum reglum við ákvörðun um hvort hann skuli teljast launamaður eða verktaki.
     Um b-lið.
    Ákvæði b-liðar 5. gr. frumvarpsins fjallar um ábyrgð sjóðsins á bótum vegna slita á ráðningarsamningi og er að mestu efnislega samhljóða d-lið 1. mgr. 5. gr. gildandi laga. Með orðunum „slit á ráðningarsamningi“ er vísað til þess að krafa launamanns um bætur getur verið byggð á uppsögn ráðningarsamnings með venjulegum hætti eða riftun ráðningarsamnings. Rétt er að taka fram að krafa samkvæmt þessum lið getur notið ábyrgðar samkvæmt lögum þessum hvort sem ráðningarslit verða fyrir gjaldþrot eða sama dag og úrskurður um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp.
    Lagt er til í ákvæðinu að skilyrði um skráningu hjá opinberri vinnumiðlun verði rýmkað og að kröfuhöfum gefist kostur á fleiri aðferðum til að sýna fram á að þeir hafi gert reka að því að leita sér að nýju starfi í kjölfar slita á ráðningarsamningi. Þess eru mörg dæmi að t.d. einstaklingar með sérfræðimenntun njóti aðstoðar sérhæfðra ráðningarstofa hér á landi og erlendis og þykja sanngirnisrök eiga að leiða til þess að kröfur þeirra í bú gjaldþrota vinnuveitanda njóti ábyrgðar samkvæmt lögum þessum ef þeir geta lagt fram gögn um að þeir hafi stundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti. Kröfuhafi getur uppfyllt þetta skilyrði með ýmsu móti, svo sem með því að leggja fram afrit af atvinnuumsóknum, staðfestingu á skráningu frá vinnumiðlun hvort sem í hlut á einkarekin vinnumiðlun eða opinber eða, ef því er að skipta, upplýsingar um milligöngu fagfélags eða stéttarfélags vegna atvinnuleitar hans. Gera verður kröfu um að atvinnuleit kröfuhafa hafi verið reglubundin og staðið allt það tímabil sem krafa hans nær til. Að öðrum kosti kann að koma til þess að ábyrgð á kröfu hans falli að hluta eða öllu leyti niður.
    Við framkvæmd gildandi laga hefur ábyrgð sjóðsins á kröfum vegna uppsagnar ráðningarsamnings verið miðuð við föst laun samkvæmt ráðningarsamningi eða kjarasamningi og er gert ráð fyrir að svo verði áfram.
    Hafi vinnuveitandi óskað eftir vinnuframlagi launamanns í uppsagnarfresti mæla sanngirnisrök með því að krafa launamannsins falli undir b-lið 5. gr. frumvarpsins en ekki a-lið sömu greinar sem krafa um vangoldin starfslaun. Skilyrði er þó að ráðningarsamningi hafi verið sagt upp með formlegum hætti og vinnuveitandi hafi óskað eftir vinnuframlagi starfsmanns í uppsagnarfresti. Ef launamaður á jafnframt inni vangoldin laun vegna allt að þriggja undangenginna starfsmánaða fellur sú krafa undir a-lið 5. gr.
    Um áhrif tekna sem kröfuhafi aflar í uppsagnarfresti er fjallað í 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Um c-lið.
    Samkvæmt b-lið 1. mgr. 5. gr. gildandi laga tekur ábyrgð sjóðsins til kröfu launþega um orlofslaun sem koma áttu til útborgunar á síðustu þremur starfsmánuðum hans hjá vinnuveitanda. Í c-lið 5. gr. frumvarps þessa er lögð til sú breyting að ábyrgð sjóðsins taki til kröfu um orlofslaun sem réttur hefur unnist til á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr., þ.e. á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag. Þessi breyting felur jafnframt í sér að orðalag ákvæðisins er fært til samræmis við 3. tölul. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga þar sem fjallað er um forgangsrétt orlofslaunakrafna. Tillagan mun ekki hafa áhrif á fjárhag sjóðsins þar sem kröfur um áunnin orlofslaun falla ávallt í gjalddaga við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Til frekari skýringar skal það tekið fram að uppsafnað en ógreitt orlof launamanns utan 18 mánaða ábyrgðartímabils nýtur ekki ábyrgðar samkvæmt þessu ákvæði.
    Í kjarasamningum er kveðið á um að orlofslaun skuli vera að lágmarki 10,17% af launum, hvort sem er fyrir dagvinnu eða yfirvinnu. Ekki eru í frumvarpinu gerðar neinar takmarkanir á ábyrgð sjóðsins að því er varðar hlutfallstölu orlofslauna. Hins vegar er í 1. mgr. 6. gr. þessa frumvarps lagt til að ábyrgð sjóðsins á orlofslaunakröfu starfsmanns takmarkist við ákveðna hámarksfjárhæð.
     Um d-lið.
    Samkvæmt c-lið 1. mgr. 5. gr. gildandi laga tekur ábyrgð sjóðsins til kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag að uppfylltum skilyrðum III. kafla laganna um innheimtuaðgerðir.
    Í d-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ábyrgðartímabil krafna verði hið sama og í 4. gr. frumvarpsins. Það felur m.a. í sér þá breytingu að Ábyrgðasjóði launa verður gert að greiða iðgjöld lífeyrissjóða sem fallið hafa í gjalddaga eftir frestdag. Um rök fyrir þessari breytingu vísast til athugasemda með 4. gr. og a-lið 5. gr. en eðlilegt þykir að ábyrgð sjóðsins á vangoldnum iðgjöldum falli að því ábyrgðartímabili sem gildir um sjálfar launakröfurnar.
    Þá er í ákvæðinu vísað til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Skv. 2. gr. þeirra laga skal iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða á annan sambærilegan hátt. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skal vera a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni.
    Ábyrgð sjóðsins skv. d-lið 5. gr. tekur einungis til krafna lífeyrissjóða sem hlotið hafa starfsleyfi fjármálaráðherra skv. V. kafla laga nr. 129/1997 og þeirra aðila sem heimild hafa skv. 3. mgr. 8. gr. sömu laga til að taka við iðgjaldi á grundvelli samnings um viðbótartryggingavernd.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að ábyrgð sjóðsins miðist við lágmarkstryggingavernd skv. 4. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Það þýðir að samningar launamanna og vinnuveitanda um viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum nr. 129/1997 njóta nú ekki ábyrgðar sjóðsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að kröfur launamanna á grundvelli slíkra samninga geti notið ábyrgðar sjóðsins. Í reglugerð um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingavernd, nr. 698/1998, er viðbótartryggingavernd skilgreind sem sú tryggingavernd sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður skilgreinir og greitt er fyrir með greiðslu iðgjalds samkvæmt sérstökum samningi við þá aðila sem tilgreindir eru í 1.–4. tölul. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997. Samkvæmt þessum reglum er launamönnum heimilt að gera samning um tryggingavernd á grundvelli iðgjalda sem þeir hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir skv. 1. mgr. 5. gr. laganna. Er launagreiðanda skylt, að beiðni launamanns, að draga umsamið iðgjald af launum og skila því til viðkomandi vörsluaðila.
    Svo dæmi sé tekið er í kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var í maí 2000 kveðið á um að í þeim tilvikum sem starfsmaður leggur til viðbótarframlag í séreignarsjóð skuli vinnuveitandi greiða framlag á móti. Segir í ákvæði þessu að frá 1. maí 2000 skuli mótframlag vinnuveitanda vera 1% gegn 2% framlagi starfsmanns en frá 1. janúar 2002 skuli mótframlagið nema 2% gegn 2% framlagi starfsmanns.
    Jafnframt er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ábyrgð sjóðsins taki til viðbótarlífeyrisskuldbindinga sem samið hefur verið um í almennum kjarasamningum. Samhliða ákvæðum um frjálsan viðbótarsparnað er nú í kjarasamningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins kveðið á um 1% framlag vinnuveitanda vegna viðbótarsparnaðar í þeim tilvikum þegar launamaður hefur ekki gert samning við vörsluaðila um viðbótarlífeyrissparnað á grundvelli 9. gr. laga nr. 129/1997. Er í frumvarpinu lagt til að ábyrgð sjóðsins á vangoldnum iðgjöldum vegna viðbótarlífeyrissparnaðar geti numið allt að 4% af iðgjaldsstofni, að meðtöldu mótframlagi vinnuveitanda.
    Lagt er til að ákvæði III. kafla gildandi laga verði felld brott. Kaflinn hefur að geyma ítarlegar reglur um eftirlit og innheimtuaðgerðir lífeyrissjóða sem skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á iðgjöldum. Þegar lög nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, tóku gildi voru ekki til samræmdar vinnureglur fyrir lífeyrissjóðina um eftirlit með skilum iðgjalda og innheimtu þeirra. Var því talið eðlilegt að skylda sjóðina til að fylgja ákveðnum vinnureglum við innheimtu iðgjalda og skerða greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa ef ekki væri farið að þeim reglum. Á þessu hefur nú orðið breyting þar sem í lögum nr. 129/1997 er nú kveðið sérstaklega á um slíkar reglur, sbr. m.a. 18. gr. þeirra laga.
    Að því er varðar samninga um viðbótarlífeyrissparnað eru vörsluaðilar slíks sparnaðar, svo sem fjármálastofnanir, ekki skuldbundnir samkvæmt lögum nr. 127/1997 til að hafa sérstakt eftirlit með því að vinnuveitandi standi skil á framlagi sínu og launamannsins. Af þeim sökum er lagt til að ráðherra verða heimilað að setja í reglugerð skilyrði um ábyrgð sjóðsins á viðbótarlífeyrissparnaði, þar á meðal um eftirlit vörsluaðila með skilum og innheimtu iðgjalda. Gert er ráð fyrir því að ákvæði reglugerðarinnar taki eftir atvikum einnig til iðgjalda skv. 2. gr. laga nr. 129/1997.
    Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um að vörsluaðili verði að sýna fram á að hann hafi gert sams konar ráðstafanir varðandi eftirlit og upplýsingagjöf gagnvart launamanni og kveðið er á um í 18. gr. laga nr. 127/1997. Þessi breyting mun væntanlega ekki hafa nein veruleg áhrif á þá lífeyrissjóði sem bæði annast vörslu hins lögbundna lífeyrissparnaðar og viðbótarlífeyrissparnaðarins. Það verða því fyrst og fremst þær fjármálastofnanir sem heimild hafa til að taka að sér vörslu viðbótarlífeyrissparnaðar sem munu þurfa að endurskoða framkvæmd sína á þessu sviði. Jafnframt má vænta þess að gerð verði krafa um að greiðslukröfu skuli fylgja afrit samnings milli launamanns og vinnuveitanda um viðbótarlífeyrissparnað og að launaseðill beri það með sér að samið hafi verið um slíkan viðbótarlífeyrissparnað. Að síðustu skal það áréttað að vörsluaðili viðbótarlífeyrissparnaðar samkvæmt samningi þar um telst aðili að kröfugerð á hendur Ábyrgðasjóði launa en ekki launamaðurinn sjálfur.
    Í gildistökuákvæðinu er lagt til að ákvæði um ábyrgð sjóðsins á kröfum um iðgjöld samkvæmt samningum um viðbótartryggingavernd taki gildi 1. janúar 2004. Vísað er til athugasemda með því ákvæði um ástæður fyrir frestuninni.
     Um e-lið.
    Samkvæmt e-lið 1. mgr. 5. gr. gildandi laga ber sjóðurinn ábyrgð á því tjóni sem rakið verður til vinnuslyss sem vinnuveitandi ber skaðabótaábyrgð á gagnvart launamanni eða eftir atvikum dánarbúi hans. Getur ábyrgð sjóðsins hvort tveggja tekið til bótakrafna vegna vinnuslysa á grundvelli skaðabótalaga og slysatryggingaákvæða kjarasamninga.
    Í frumvarpinu er gerður sá fyrirvari að í þeim tilvikum þegar tryggingar vinnuveitanda bæta kröfu samkvæmt þessum e-lið kemur ekki til ábyrgðar sjóðsins. Ábyrgð sjóðsins er því í raun byggð á því að vinnuveitandi hafi ekki keypt ábyrgðartryggingu vegna starfsmanna sinna eða að hún sé sannanlega niður fallin.
    Rétt er að geta þess að í þeim tilvikum þegar ekki hefur fallið dómur um réttmæti kröfu samkvæmt þessum staflið á Ábyrgðasjóður launa allar sömu varnir og vinnuveitandi óháð því hvort skiptastjóri hafi viðurkennt kröfu sem forgangskröfu í þrotabú vinnuveitanda.

Um 6. gr.


    Í 2. mgr. 5. gr. gildandi laga segir að ábyrgð sjóðsins skv. a- og d-lið 1. mgr. sömu greinar skuli ekki nema hærri fjárhæð miðað við einn mánuð en sem nemur þreföldum atvinnuleysisbótum eins og þær eru ákveðnar hæstar á hverjum mánuði án tillits til barnafjölda. Samkvæmt gildandi lögum er hámark á ábyrgð á launakröfum á mánuði 232.347 kr. eða sem nemur þreföldum atvinnuleysisbótum á mánuði, þ.e. þrisvar sinnum 77.449 kr. Að tillögu stjórnar Ábyrgðasjóðs launa er lagt til að afnumin verði tenging við fjárhæð atvinnuleysisbóta og að þess í stað verði miðað við fasta fjárhæð sem endurskoðuð verði árlega. Jafnframt er lagt til að tekin verði upp hámarksábyrgð á orlofskröfum skv. c-lið 5. gr. sem einnig mun gilda um kröfur skv. VII. kafla frumvarpsins. Þykir eðlilegt að mæla fyrir um einhver takmörk að þessu leyti á sama hátt og gildir um þær kröfur sem falla undir a- og b-lið 5. gr. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ráðherra gefi út reglugerð sem gildir fyrir eitt ár í senn og að stjórn sjóðsins geri tillögur til ráðherra um hámarksfjárhæðir.
    Í 2. mgr. er fjallað um áhrif þess þegar kröfuhafi hefur fengið greiðslur frá vinnuveitanda upp í kröfu sína. Skulu þessar greiðslur koma til frádráttar kröfu hans á hendur sjóðnum. Svo dæmi sé tekið af launamanni sem á kröfu á hendur vinnuveitanda skv. a-lið 5. gr. að upphæð 270.000 kr. en fær 25.000 kr. greiðslu frá honum verður sú fjárhæð dregin frá hámarksábyrgðinni skv. 1. mgr. þannig að eftir stendur 225.000 kr. krafa. Sama máli gegnir um atvinnutekjur, þ.m.t. verktakalaun, og atvinnuleysisbætur sem kröfuhafi fær greiddar í uppsagnarfresti. Ákvæði þetta er í samræmi við framkvæmd gildandi laga og almenn sjónarmið í vinnurétti. Enn fremur vísast til 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að hver kröfumánuður skv. a- og b-lið 5. gr. skuli gerður upp sérstaklega með vísan til hámarksábyrgðarinnar, sbr. 1. mgr. Þá er kveðið á um að ef krafa launamanns nær yfir skemmra tímabil en mánuð skuli hámarksábyrgð reiknuð út í hlutfalli við það tímabil. Gildir þetta m.a. um þá sem fá greidd laun sín vikulega. Samspili þessa ákvæðis við 2. mgr. má lýsa með einföldu dæmi. Bótakrafa skv. b-lið 5. gr. tekur til þriggja mánaða og krafa vegna hvers mánaðar er 220.000 kr. Kröfuhafi fær nýtt starf í byrjun síðasta mánaðar í uppsagnarfresti og vinnur sér inn 300.000 kr. Sú fjárhæð kemur ekki til lækkunar heildarkröfu hans skv. b-lið 5. gr. heldur einungis til lækkunar á kröfu hans vegna síðasta mánaðarins. Í þessu tilviki fellur krafa vegna þriðja mánaðar í uppsagnarfresti niður en sjóðurinn greiðir fyrstu tvo kröfumánuðina óskerta.
    Nái krafa launamanns yfir skemmra tímabil en mánuð skal krafan reiknuð út í hlutfalli við það tímabil. Þessu ákvæði verður m.a. beitt í því tilviki þegar launamaður setur fram bótakröfu að fjárhæð 300.000 kr. skv. b-lið 5. gr. fyrir einn mánuð en hefur síðan störf um miðjan mánuðinn hjá nýjum vinnuveitanda og vinnur sér inn 100.000 kr. frá þeim tíma fram að mánaðamótum. Í þessu tilviki er hámarksábyrgðin, sbr. 1. mgr., að teknu tilliti til 2. málsl. 3. mgr., 125.000 kr. og verða laun frá nýjum vinnuveitanda dregin frá þeirri fjárhæð. Kröfuhafi fengi samkvæmt þessu 25.000 kr. greiddar úr Ábyrgðasjóði launa vegna síðari hluta mánaðarins en 125.000 kr. vegna fyrri hluta mánaðarins eða alls 150.000 kr. Ef kröfuhafi hefði hins vegar verið í þessu nýja starfi allan mánuðinn hefðu laun hans væntanlega verið tvöfalt hærri eða 200.000 kr. Frádráttur vegna þessara launa hefði því verið miðaður við hámarksábyrgðina eða 250.000 kr. og greiðsla Ábyrgðasjóðs launa vegna alls mánaðarins því 50.000 kr.
    Ef upphafleg krafa er undir hámarksábyrgðinni, t.d. 180.000 kr., og kröfuhafi aflar 120.000 kr. hjá nýjum vinnuveitanda frá miðjum mánuði fram að mánaðarlokum verður að skipta kröfunni í tvo jafna hluta. Þar sem laun kröfuhafa eru hærri síðari hluta mánaðarins en sú fjárhæð sem nýtur ábyrgðar sjóðsins fyrir sama tímabil fellur sá hluti kröfunnar niður. Kröfuhafi fengi hins vegar 90.000 kr. vegna fyrra tímabilsins óskertar.
    Varðandi bótakröfur vegna slita á ráðningarsamningi skv. b-lið 5. gr. gildir hámark sem kveðið er á um í 1. mgr. 6. gr. um þá kröfufjárhæð sem nýtur ábyrgðar. Það þýðir að kröfuhafi sem setur fram kröfu um 300.000 kr. bætur á mánuði vegna slita á ráðningarsamningi, en fær 150.000 kr. í laun frá nýjum vinnuveitanda á sama tíma verður að sæta því að sú fjárhæð komi til lækkunar miðað við hámarksábyrgðina, þ.e. 250.000 kr. Af því leiðir að kröfuhafi fengi 100.000 kr. greiðslu úr Ábyrgðasjóði launa. Þessari uppgjörsaðferð hefur verið beitt við framkvæmd 2. mgr. 5. gr. gildandi laga og felur frumvarpið því ekki í sér breytingu frá gildandi réttarframkvæmd. Tekið skal fram að ekki er gert ráð fyrir að laun fyrir starf sem kröfuhafi var í meðfram því starfi sem hann gegndi hjá hinu gjaldþrota fyrirtæki komi til frádráttar kröfu hans á grundvelli 2. mgr. 6. gr. enda ekki um að ræða nýjan vinnuveitanda.
    Mikilvægt er að kröfuhafar eða umboðsmenn þeirra hagi kröfugerð sinni á hendur sjóðnum í samræmi við framangreindar reglur. Ávallt skal lýsa heildarkröfu launamanns en gera jafnframt grein fyrir þeim greiðslum sem hugsanlega geta komið til frádráttar samkvæmt þeim reglum sem hér er kveðið á um. Ella getur reynt á endurkröfurétt sjóðsins, sbr. 26. gr.

Um 7. gr.


    Ákvæði þetta er að efni til samhljóða 4. mgr. 5. gr. gildandi laga. Þar sem um heimildarákvæði er að ræða ber kröfuhafi sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði fyrir beitingu þessarar undanþágu séu fyrir hendi.

Um III. kafla.


    Kaflinn hefur að geyma reglur um greiðslu vaxta á þær kröfur sem njóta ábyrgðar sjóðsins og reglur um ábyrgð sjóðsins á kostnaði sem hlýst af innheimtuaðgerðum kröfuhafa og kröfugerð hans á hendur sjóðnum.

Um 8. gr.

    Samkvæmt f-lið 1. mgr. 5. gr. gildandi laga bera kröfur skv. a–d-lið vexti skv. 5. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987, frá gjalddaga þeirra til þess dags er krafan fæst greidd úr Ábyrgðasjóði launa. Ný lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, hafa tekið gildi, og er lagatilvísun breytt því til samræmis. Í 4. gr. þeirra laga segir að þegar greiða beri vexti skv. 3. gr. laganna en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun að öðru leyti ekki tiltekin skuli vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Lagt er til að þessi regla taki til krafna sem falla undir a–d-lið 5. gr. frumvarpsins.
    Til skýringar skal þess getið að gjalddagi krafna skv. a- og b-lið 5. gr. er fyrsti dagur næsta mánaðar fyrir hvern mánuð eða skemmra tímabil sem nýtur ábyrgðar sjóðsins. Stofn til útreiknings vaxta er sú fjárhæð sem eftir stendur þegar tekið hefur verið tillit til 6. gr. þessara laga. Gjalddagi orlofslaunakröfu skv. c-lið 5. gr. miðast við úrskurðardag nema starfslok kröfuhafa eða síðasta gjalddaga kröfu sem nýtur ábyrgðar skv. a- eða b-lið 5. gr. beri upp á dag fyrir úrskurðardag og skal krafan þá bera vexti frá þeim degi. Vextir skulu reiknaðir af heildarlaunakröfu starfsmanns á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr., að teknu tilliti til niðurstöðu sjóðsins um greiðsluskyldu skv. a- og b-lið 5. gr. og 6. gr. Gjalddagi kröfu um lífeyrisiðgjöld skv. d-lið 5. gr. skal vera tíunda dag næsta mánaðar á eftir hverju iðgjaldagreiðslutímabili og miðast við kröfu launamanns á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr., að teknu tilliti til niðurstöðu sjóðsins um greiðsluskyldu skv. a- og b-lið 5. gr. og 6. gr.
    Um vexti á bótakröfur skv. e-lið 5. gr. fer hins vegar samkvæmt þeim reglum sem almennt gilda um þær kröfur, þ.e. ákvæðum skaðabótalaga, nr. 50/1993, og kjarasamninga, eftir því sem við á.
    Kröfur um greiðslu skiptatryggingar, kostnaður við kröfugerð á hendur sjóðnum og annar innheimtukostnaður sem ákvarðaður er skv. 9. gr. bera ekki vexti. Kröfur um greiðslu orlofs vegna greiðsluerfiðleika skv. VII. kafla þessa frumvarps bera ekki vexti frekar en verið hefur.

Um 9. gr.


    Samkvæmt g-lið 1. mgr. 5. gr. laganna ber sjóðurinn ábyrgð á greiðslu skiptatryggingar sem launamaður eða lífeyrissjóður hafa greitt vegna úrskurðar um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda. Sama gildir um óhjákvæmilegan kostnað sem launamaður eða sá sem krefst bóta skv. e-lið hefur orðið að greiða vegna nauðsynlegra ráðstafana til innheimtu kröfu sinnar, þó að hámarki samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar.
    Stjórn Ábyrgðasjóðs launa samþykkti árið 1998 viðmiðunarreglur um greiðslu innheimtukostnaðar samkvæmt ákvæði þessu. Með reglum þessum voru staðfestar ýmsar vinnureglur á þessu sviði og um leið mótaðar nýjar reglur. Nauðsynlegt þykir að endurskoða þessar reglur í því skyni að gera þær einfaldari og skýrari án þess að dregið sé úr ábyrgð sjóðsins á þeim kostnaði sem til fellur vegna innheimtuaðgerða kröfuhafa.
    Í ákvæði þessu er kveðið á um að njóti krafa ábyrgðar skv. 5. gr. frumvarpsins eigi kröfuhafi rétt á greiðslu eðlilegs kostnaðar vegna innheimtu kröfu sinnar. Undir þetta getur til dæmis fallið kostnaður vegna almennra innheimtuaðgerða lögmanns, þar á meðal vegna höfðunar dómsmáls, svo og útlagður kostnaður. Þá er lagt til að stjórn Ábyrgðasjóðs launa ákveði nánari útfærslu þessarar ábyrgðar, m.a. hámark á greiðslu kostnaðar, með reglum sem ráðherra staðfestir.

Um IV. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um heimildir Ábyrgðasjóðs launa til að hafna kröfum sem uppfylla að öðru leyti ákvæði þessa frumvarps. Felur frumvarpið í sér verulegar breytingar frá gildandi lögum þótt í meginatriðum varði ákvæði kaflans sömu einstaklinga og ekki njóta ábyrgðar samkvæmt gildandi lögum. Vísast að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar.

Um 10. gr.


    Í greininni eru lagðar til ýmsar efnisbreytingar miðað við gildandi lög að teknu tilliti til dómaframkvæmdar og nýlegra breytinga á 10. gr. tilskipunar 80/987/EBE. Breytingarnar hafa það í för með sér að í mörgum tilvikum mun afstaða til þess hvort krafa þeirra sem tengjast eigendum eða stjórnendum hins gjaldþrota fyrirtækis ráðast af huglægu mati. Í gildandi lögum er að mestu byggt á hlutlægum reglum.
    Samkvæmt 6. gr. laga nr. 53/1993 geta eftirtaldir launamenn ekki krafið sjóðinn um greiðslu krafna skv. a–d-lið 1. mgr. 5. gr.:
     a.      Þeir sem sæti áttu í stjórn gjaldþrota félags eftir að fjárhag þess tók verulega að halla. Þetta á þó ekki við um þá sem sæti eiga í varastjórn félags nema þeir hafi gegnt stjórnarstörfum á umræddu tímabili.
     b.      Þeir sem átt hafa 5% hlutafjár eða meira í gjaldþrota hlutafélagi.
     c.      Forstjóri, framkvæmdastjóri og þeir aðrir sem vegna starfa sinna hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda áttu að hafa þá yfirsýn yfir fjárhag fyrirtækisins að þeim mátti ekki dyljast að gjaldþrot þess væri yfirvofandi á þeim tíma sem unnið var fyrir vinnulaununum.
     d.      Maki þess sem ástatt er um sem segir í a–c-lið, svo og skyldmenni hans í beinan legg og maki skyldmennis í beinan legg. Leiði ákvæði þetta til mjög ósanngjarnrar niðurstöðu að mati sjóðstjórnar getur stjórnin ákveðið að heimila greiðslu til þessara launamanna úr ríkissjóði á grundvelli laganna, enda þótt launakrafa hafi ekki verið viðurkennd sem forgangskrafa, sbr. 3. gr. og 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, nr. 21/1991.
    Í 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um að kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um kröfur þeirra sem eiga, einir eða ásamt maka eða öðrum nákomnum, verulegan hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki ásamt því að hafa umtalsverð áhrif á rekstur þess. Hin rekstrarlega ábyrgð hvílir á stjórnendum hins gjaldþrota fyrirtækis auk þess sem þeir eiga að hafa yfirsýn yfir fjárhagsstöðu félagsins. Um hlutverk og ábyrgð félagsstjórnar og framkvæmdastjórnar er m.a. fjallað í 68. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Segir í ákvæði þessu að félagsstjórn fari með málefni félagsins og skuli annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Skal stjórnin annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Sambærileg ákvæði er að finna í lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Í 64. gr. gjaldþrotaskiptalaga er einnig kveðið á um að skuldara sem er bókhaldsskyldur sé skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar svo er ástatt að hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms.
    Í ljósi þessa er ekki talið eðlilegt að sjóðurinn ábyrgist kröfur framangreindra aðila um laun, launatengd réttindi og bætur vegna missis launa í uppsagnarfresti. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt þeir verði eftir atvikum taldir launamenn í skilningi skattalaga. Lagt er til að orðið „forstjóri“, sbr. c-lið 1. mgr. 5. gr. gildandi laga, verði ekki notað í frumvarpi þessu enda ekki slíkur merkingarmunur á því orði og orðinu „framkvæmdastjóri“. Jafnframt er lagt til að ákvæði gildandi laga um varamenn í stjórn falli brott. Taki varamaður sæti í stjórn á þeim tíma sem krafa stofnast á hendur Ábyrgðasjóði launa fer um ábyrgð sjóðsins skv. 1. mgr. 10. gr.
    Að því er varðar stjórnarmenn sérstaklega má gera ráð fyrir að sjóðnum verði þrátt fyrir orðalag 1. mgr. heimilt að greiða kröfur slíkra aðila í undantekningartilvikum. Má sem dæmi gera ráð fyrir að kröfuhafi geti í einhverjum tilvikum sýnt fram á að skipan sín í stjórn félags hafi verið til málamynda og í raun aldrei ætlast til þess að hann skipti sér af störfum stjórnar. Tilkynning til hlutafélagaskrár um skipan í stjórn mundi í slíkum tilvikum ekki ein og sér koma í veg fyrir að vangoldnar launakröfur hans nytu ábyrgðar sjóðsins. Jafnframt yrði í mörgum tilvikum litið svo á að kröfur fulltrúa starfsmanna sem hlotið hafa kosningu í stjórn fyrirtækis skuli njóta ábyrgðar sjóðsins.
    Samkvæmt b-lið 6. gr. gildandi laga er miðað við að 5% eignarhluti launamanns í gjaldþrota fyrirtæki útiloki sjálfkrafa að krafa hans um vangoldin laun njóti ábyrgðar sjóðsins. Það viðmið þykir allt of lágt og má sem dæmi nefna að í norskri löggjöf er miðað við að kröfur eigenda allt að 20% eignarhlutar njóti ábyrgðar. Í þessu frumvarpi er farin sú leið að miða ekki við ákveðið eignarhlutfall og þykir eðlilegra að miða við að einungis verulegur eignarhlutur launamanns í hinu gjaldþrota fyrirtæki geti valdið því að hann glati rétti sínum gagnvart sjóðnum. Við mat á því hvað telst verulegur eignarhlutur verður meðal annars að líta til þess hvort kröfuhafi getur beitt áhrifum sínum á rekstur félagsins í skjóli eignarhluta síns en ekki er gert að skilyrði að um ráðandi hlut sé að ræða. Þá getur skipt máli hvort kröfuhafi hefur vegna eignarhluta síns notið einhverra sérkjara umfram aðra starfsmenn.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Ábyrgðasjóði launa sé heimilt að hafna kröfum vegna sérstakra tengsla kröfuhafa og vinnuveitanda og sameiginlegra hagsmuna þeirra, svo sem kröfum maka þeirra einstaklinga sem taldir eru upp í 1. mgr., annarra skyldmenna eða þeirra sem nákomnir eru þeim að öðru leyti.
    Ákvæðinu er ætlað að endurspegla betur reglur 10. gr. tilskipunar nr. 80/987/EBE en gert er í 6. gr. gildandi laga. Ákvæði tilskipunarinnar er svohljóðandi, eftir að því var breytt með tilskipun nr. 2002/74/ESB:
    „Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkja:
     a.      til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun;
     b.      til að hafna þeirri greiðsluábyrgð, sem getið er um í 3. gr. eða þeirri greiðsluskyldu, sem getið er um í 7. gr., eða lækka hana komi í ljós að skuldbindingin sé óréttmæt vegna sérstakra tengsla milli launþegans og vinnuveitandans og sameiginlegra hagsmuna sem leiðir til þess að þeir gera með sér leynilegt samkomulag;
     c.      til þess að hafna eða lækka greiðsluábyrgð, sem getið er um í 3. gr. eða þeirri greiðsluskyldu, sem getið er um í 7. gr., þegar launamaður, einn eða ásamt nánum ættingjum, var eigandi að verulegum hluta í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafði veruleg áhrif á starfsemi þess.“
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ábyrgðasjóður launa geti verið undanþeginn ábyrgð á kröfum maka einhvers þeirra sem nefndir er í 1. mgr. en með orðinu maki er í skilningi þessa ákvæðis bæði átt við fólk í hjúskap og sambúðarfólk. Í öðru lagi getur undanþágan tekið til annarra skyldmenna þeirra sem getið er í 1. mgr. en hér er einkum átt við börn, systkini eða foreldri. Í þriðja lagi eru þeir nefndir sem nákomnir eru þeim aðilum að öðru leyti sem taldir eru upp í 1. mgr. en hér eru m.a. hafðir í huga starfsmenn sem hafa náin fjárhagsleg eða persónuleg tengsl við þá einstaklinga sem taldir eru upp í 1. mgr. Við mat á því hvort skilyrði séu fyrir synjun á greiðsluábyrgð getur meðal annars skipt máli hvort umræddir einstaklingar eiga einhverra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, til að mynda í formi eignarhluta í félaginu, hvort sem þeir eiga þann eignarhlut einir eða í sameign með þeim aðilum sem nefndir eru í 1. eða 2. mgr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild sjóðsins til að lækka greiðslu í stað synjunar á ábyrgð ef krafa telst óeðlilega há miðað við það starf sem kröfuhafi gegndi, starfstíma hans og þau launakjör sem tíðkast í viðkomandi starfsgrein eða innan fyrirtækisins. Er ákvæðinu ætlað að koma í veg fyrir málamyndagerninga og hindra misnotkun á ábyrgð sjóðsins. Búast má við því að í mörgum tilvikum muni koma til álita að beita lækkunarheimild þessari um aðila sem taldir eru upp í 2. mgr. fremur en að synja þeim algerlega um ábyrgð.
    Í lokamálsgrein 10. gr. er tekið fram að undanþágan eigi ekki við kröfur um bætur vegna vinnuslyss eða andláts launamanns, sbr. e-lið 5. gr. Samsvarandi reglu er að finna í 6. gr. gildandi laga.

Um 11. gr.

    Í greininni er kveðið á um skyldu kröfuhafa til að upplýsa sérstaklega um það hvort þau atvik sem nefnd eru í 10. gr. frumvarpsins séu kröfu hans til fyrirstöðu. Skorti á þessar upplýsingar af hálfu kröfuhafa getur það leitt til þess að sönnunarbyrðin falli á hann en meginreglan skv. 2. mgr. 10. gr. er að sjóðurinn beri sönnunarbyrðina fyrir því að heimilt sé að hafna ábyrgð.

Um V. kafla.

    Í kaflanum eru saman komin þau ákvæði er lúta að kröfugerð launamanns og lífeyrissjóðs á hendur Ábyrgðasjóði launa. Frumvarpið hefur að geyma helstu meginreglur hvað þessi atriði varðar en lagt er til að nánari ákvæðum verði skipað í reglugerð sem félagsmálaráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.
    Með umsögn skiptastjóra er hvort tveggja átt við umsögn skiptastjóra í þrotabúi vinnuveitanda og umsögn skiptastjóra vegna opinberra skipta á dánarbúi hans, sbr. 1. gr. þessa frumvarps.
    Að öðru leyti vísast til athugasemda með einstökum greinum.

Um 12. gr.


    Greinin fjallar um frest til að gera kröfu á hendur sjóðnum og er ákvæðið efnislega samhljóða 10. og 12. gr. gildandi laga. Þá er lagt til að kveðið skuli nánar á um form og efni kröfugerðar á hendur sjóðnum í reglugerð.

Um 13. gr.


    Greinin fjallar um umsögn skiptastjóra til Ábyrgðasjóðs launa og er efnislega samhljóða 11. gr. gildandi laga.
    Við afgreiðslu þeirra mála sem berast Ábyrgðasjóði launa er í meiri hluta tilvika byggt á mati skiptastjóra þrotabús um réttmæti kröfu og forgangsrétt hennar skv. 1. tölul. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Ábyrgðasjóður launa er engu síður ekki bundinn af umsögn skiptastjóra enda hefur stjórn sjóðsins sjálfstætt úrskurðarvald á grundvelli þeirra laga sem hann starfar eftir. Eru þess allmörg dæmi að sjóðurinn hafni ábyrgð á kröfu þótt skiptastjóri hafi viðurkennt forgangsrétt hennar en einnig hefur stjórn sjóðsins samþykkt að krafa njóti ábyrgðar þegar kröfuhafi hefur getað lagt fram gögn sem sýna fram á að lagaskilyrðum sé fullnægt enda þótt fyrir liggi neikvæð afstaða skiptastjóra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um bráðabirgðaumsögn skiptastjóra og er ákvæðið efnislega samhljóða 11. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögfest verði sérstakt ákvæði um upplýsingaskyldu skiptastjóra gagnvart Ábyrgðasjóði launa í þeim tilvikum þegar umsögn skv. 1. eða 2. mgr. reynist ekki fullnægjandi. Þá er lagt til að kveðið skuli nánar á um form og efni umsagnar skiptastjóra í reglugerð.

Um VI. kafla.


    Í kaflanum er að finna reglur er varða afgreiðslu og stjórnsýslu Ábyrgðasjóðs launa og stjórnar sjóðsins. Fjallað er m.a. um frest sjóðsins til að taka afstöðu til framkominna krafna, tilkynningar til kröfuhafa og fyrirsvar sjóðsins gagnvart þrotabúi eftir innlausn kröfu. Lagt er til að lögfest verði kæruheimild til félagsmálaráðuneytis og er það í samræmi við túlkun gildandi laga. Um málsmeðferð hjá sjóðnum og stjórn hans fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nema annað sé tekið fram.

Um 14. gr.


    Í greininni er kveðið á um frest Ábyrgðasjóðs launa til að taka afstöðu til krafna á hendur sjóðnum. Lagt er til að sjóðurinn hafi að jafnaði fjórar vikur til að taka afstöðu til framkominnar kröfu frá því að umsögn skiptastjóra skv. 13. gr. berst sjóðnum. Þessi regla gildir að því tilskildu að krafan og umsögn skiptastjóra uppfylli þær kröfur sem kveðið er á um í frumvarpi þessu. Ef á skortir að þessu leyti skal Ábyrgðasjóður launa gefa kröfuhafa eða umboðsmanni hans kost á að koma skýringum sínum á framfæri við sjóðinn og leggja eftir atvikum fram frekari gögn.
    Þá segir í 2. mgr. að komi fram í umsögn skiptastjóra að ágreiningur sé um réttmæti kröfu skuli sá frestur sem kveðið er á um í 1. mgr. hefjast þann dag sem sjóðnum berst tilkynning um lyktir ágreiningsins.

Um 15. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að sjóðurinn skuli með sannanlegum hætti tilkynna þeim er kröfu gerir og skiptastjóra í búi vinnuveitandans niðurstöðu sína um greiðsluskyldu sjóðsins ásamt sundurliðun þeirra fjárhæða sem njóta ábyrgðar skv. II. og III. kafla þessa frumvarps.
    Í þessu sambandi skal bent á að sjóðurinn greiðir í fæstum tilvikum kröfur launamanna óbreyttar, sbr. ákvæði um hámarksábyrgð, frádrátt vegna launa í uppsagnarfresti o.s.frv. Gerð er grein fyrir útreikningi kröfufjárhæðar í tilkynningu til kröfuhafa skv. 15. gr. og þarfnast sá útreikningur almennt ekki frekari skýringa. Kröfuhafi getur þó ávallt krafist frekari rökstuðnings á ákvörðun sjóðsins að þessu leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Þá er í 2. mgr. kveðið á um að sjóðurinn skuli staðreyna, áður en greiðsla er innt af hendi, hvort krafan hafi að einhverju eða öllu leyti fengist greidd úr búi vinnuveitandans og skulu þær greiðslur dragast að fullu frá greiðslu úr Ábyrgðasjóði launa eftir þeim reglum sem kveðið er á um í 6. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er efnislega samhljóða 15. gr. gildandi laga.

Um 16. gr.

    Í greininni er kveðið á um stjórnsýslumeðferð krafna og málskotsrétt.
    Samkvæmt 1. mgr. er unnt að bera afgreiðslu Ábyrgðasjóðs launa undir stjórn sjóðsins innan mánaðar frá móttöku tilkynningar skv. 15. gr.
    Þá segir í 2. mgr. að stjórn sjóðsins skuli að jafnaði taka afstöðu til framkominnar kæru innan tveggja mánaða frá því að kæra skv. 2. mgr. berst stjórninni. Er hér um að ræða nokkuð lengri frest en stjórnin hefur skv. 1. mgr. 14. gr. gildandi laga og ræðst breytingin af því að stjórnin heldur að jafnaði ekki fundi oftar en mánaðarlega. Ef óskað hefur verið gagna eða nánari skýringa kæranda skal miða upphaf frests við þann dag sem þessar upplýsingar berast stjórn.
    Um rökstuðning fyrir ákvörðun stjórnar fer skv. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Stjórn sjóðsins þarf með öðrum orðum ekki að rökstyðja ákvörðun um synjun á greiðsluskyldu nema fram komi ósk um það frá kröfuhafa eða umboðsmanni hans.
    Þá er í 3. mgr. tekið fram að skjóta megi ákvörðun stjórnar til félagsmálaráðherra til úrskurðar innan tveggja mánaða frá því að aðila barst tilkynning um ákvörðun stjórnar. Málskotsheimild er ekki að finna í gildandi lögum en umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að kæruheimild til félagsmálaráðuneytis sé fyrir hendi á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga.

Um 17. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er í samræmi við 2. mgr. 16. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um að stjórn sjóðsins fari með fyrirsvar fyrir kröfu frá því að skiptastjóra í búi vinnuveitandans berst tilkynning Ábyrgðasjóðs launa um greiðslu kröfunnar úr sjóðnum. Þá er kveðið á um að krafa Ábyrgðasjóðs launa njóti sömu stöðu í skuldaröð í búinu og krafa sú sem hann hefur leyst til sín hefði ella notið.
    Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við 4. mgr. 10. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa. Ekki hefur reynt á ákvæði þetta við framkvæmd gildandi laga.

Um 18. gr.


    Ákvæði greinarinnar er efnislega samhljóða 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um að sjóðnum beri að tilkynna viðkomandi innheimtuaðila ríkissjóðs hvaða fjárhæð hefur verið dregin frá kröfu launþega vegna ákvæða laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Af ákvæði þessu verður dregin sú ályktun að krafa launamanns á hendur sjóðnum skuli vera heildarlaunakrafa hans, þ.m.t. skattahluti hennar. Er þetta tekið fram þar sem dæmi eru um að einungis kröfum um greiðslu nettólauna hafi verið lýst í þrotabú vinnuveitanda og þær kröfur síðar sendar sjóðnum til afgreiðslu. Það athugast að vextir sem sjóðurinn greiðir skv. 8. gr. frumvarpsins teljast til fjármagnstekna og ber launamanni að gera grein fyrir þessum tekjum á skattframtali sínu.

Um VII. kafla.


    Í þessum kafla eru tekin upp ákvæði 11. gr. laga um orlof, nr. 30/1987, með síðari breytingum, þar sem kveðið er á um ábyrgð sjóðsins þegar launagreiðandi stendur ekki í skilum með útborgun orlofslauna vegna greiðsluerfiðleika án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Getur launamaður, eða hlutaðeigandi stéttarfélag í umboði hans, snúið sér til Ábyrgðasjóðs launa með orlofslaunakröfuna studda gögnum um fjárhæð hennar, svo sem launaseðlum, vottorði viðkomandi launagreiðanda eða löggilts endurskoðanda hans.
    Gert er ráð fyrir að sjóðurinn skori á vinnuveitanda að greiða kröfuna og gefi honum jafnframt færi á að andmæla kröfu launamannsins. Verði launagreiðandi ekki við þessari áskorun sjóðsins og engin andmæli liggja fyrir leysir sjóðurinn kröfuna til sín.
    Í frumvarpinu eru ekki gerðar efnisbreytingar á 11. gr. orlofslaga að öðru leyti en því að lagt er til að ákvæði 3. mgr., um álagningu 7,5% viðurlaga á innleysta orlofskröfu, falli brott.
    Sú breyting að fella ákvæði 11. gr. orlofslaga undir lög um Ábyrgðasjóð launa mun leiða til þess að ákvæði laga um Ábyrgðasjóð launa, svo sem um undanþágur frá ábyrgð, sbr. 10. gr., og hámark ábyrgðar, sbr. 1. mgr. 6. gr., gilda einnig um þessar kröfur en svo er ekki samkvæmt gildandi lögum.

Um 19. gr.


    Í greininni, sem er efnislega samhljóða 1. mgr. 11. gr. orlofslaga, er kveðið á um heimild launamanna til að gera kröfu um greiðslu vangoldins orlofs án þess að bú vinnuveitanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þessi réttur er fyrir hendi þegar ráðningarsamband launamanns og vinnuveitanda er enn í gildi, sbr. 7. gr. orlofslaga, og þegar því hefur verið slitið, sbr. 8. gr. þeirra laga.
    Þá er í ákvæðinu fjallað um þau gögn sem launamaður verður að leggja fram kröfu sinni til stuðnings, svo sem launaseðla þar sem fram komi upplýsingar um vangoldin orlofslaun hans.

Um 20. gr.


    Uppfylli krafa launamanns þau skilyrði sem kveðið er á um í 19. gr. ber sjóðnum að skora á vinnuveitanda að greiða kröfuna. Er í þessu ákvæði lagt til að vinnuveitandi hafi þrjár vikur frá dagsetningu greiðsluáskorunar til að greiða kröfuna. Ekki er kveðið á um slíkan frest í 11. gr. orlofslaga en rétt þykir að tilgreina hann sérstaklega.
    Í 2. mgr., sem er nýmæli, er fjallað um viðbrögð sjóðsins við andmælum vinnuveitanda. Segir í ákvæðinu að komi fram andmæli af hans hálfu sem sjóðurinn telur réttmæt, svo sem að krafan hafi þegar verið greidd eða hún niður fallin af öðrum ástæðum, skuli sjóðurinn vísa kröfunni frá. Ákvæði þetta er í samræmi við framkvæmd gildandi reglna. Þá segir í ákvæðinu að kröfu launamanns skuli einnig vísað frá ef fram er komin beiðni um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda. Sama gildir ef krafa launamanns er fram komin en óafgreidd hjá sjóðnum þegar beiðni um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda er lögð fram. Ef sú er raunin má vænta þess að orlofslaunakröfunni verði lýst af hálfu launamanns í þrotabú vinnuveitanda og hún síðan eftir atvikum greidd af sjóðnum á grundvelli c-liðar 5. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að sjóðurinn skuli greiða orlofslaunakröfu eigi síðar en fimm vikum eftir dagsetningu greiðsluáskorunar, sbr. 1. mgr. Ákvæði 2. málsl. 3. mgr., sem er nýmæli, hefur að geyma takmörkun á ábyrgð sjóðsins, með vísan til c-liðar 5. gr., 6. gr. og IV. kafla frumvarpsins. Tilvísun til c-liðar 5. gr. felur í sér nánari afmörkun á ábyrgð sjóðsins á orlofslaunakröfum og færir ábyrgðina til samræmis við þær reglur sem gilda þegar bú vinnuveitanda hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Tilvísun til 6. gr. frumvarpsins felur á hinn bóginn í sér að ákvæði frumvarpsins um hámarksábyrgð á orlofslaunakröfum gildir einnig í því tilviki sem hér um ræðir. Þá skal sjóðurinn við afgreiðslu orlofslaunakrafna beita undanþáguákvæði 10. gr. frumvarpsins, ef við á, en gildandi lög hafa ekki að geyma hliðstætt ákvæði.

Um 21. gr.

    Í 1. mgr. 21. gr. er kveðið á um að krafa sjóðsins vegna innleystrar orlofslaunakröfu sé aðfararhæf gagnvart vinnuveitanda. Þá er kveðið á um að krafa sjóðsins njóti sama réttar og krafa launamanns hefði notið ella gagnvart þrotabúi vinnuveitanda komi til gjaldþrots.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að á innleysta kröfu sjóðsins skuli reikna dráttarvexti samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, fyrst 15 dögum eftir innlausn. Um útreikning dráttarvaxta fer skv. III. kafla þeirra laga.

Um VIII. kafla.


    Kaflinn hefur að geyma ákvæði um hlutverk stjórnar Ábyrgðasjóðs launa ásamt því sem fjallað er um fyrirkomulag daglegrar umsýslu og fjármögnun sjóðsins.

Um 22. gr.


    Í greininni er vísað til 3. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um skipan stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.
    Ákvæði 2. mgr. hefur að geyma almenna lýsingu á verkefnum stjórnar. Segir í ákvæðinu að stjórn sjóðsins skuli, til viðbótar þeim verkefnum sem lúta að stjórnsýslulegri meðferð þeirra mála sem berast sjóðnum, annast fyrirsvar fyrir sjóðinn og sinna öðrum þeim verkefnum sem lúta að framkvæmd laganna.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að varsla sjóðsins, dagleg umsýsla og reikningshald sé á ábyrgð stjórnar Ábyrgðasjóðs launa í umboði félagsmálaráðherra. Ákvæðinu svipar til 2. mgr. 2. gr. gildandi laga. Vinnumálastofnun var árið 2000 falinn sá þáttur sem lýtur að daglegri umsýslu fyrir Ábyrgðasjóð launa á grundvelli samnings sem gerður var milli þessara aðila og félagsmálaráðuneytis. Ekki er lögð til breyting á því fyrirkomulagi með frumvarpi þessu.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að stjórn sjóðsins skuli fyrir lok september ár hvert gera tillögu til félagsmálaráðherra um hlutfall ábyrgðargjalds, sbr. 23. gr., auk þess sem þar er að finna nýmæli um að stjórn sjóðsins geri tillögu um hámarksfjárhæðir skv. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er nokkuð breytt frá gildandi lögum og er nú kveðið sérstaklega á um að tillaga stjórnar um hlutfall ábyrgðargjalds skuli byggjast á greinargerð hennar um fjárhagsstöðu sjóðsins og áætlun um þróun útgjalda. Gert er ráð fyrir að tillögur stjórnar berist nægilega snemma til að unnt verði að taka mið af þeim við gerð fjárlaga næsta árs.

Um 23. gr.


    Í greininni er fjallað um fjármögnun sjóðsins. Ákvæðið er að mestu samhljóða 3. gr. gildandi laga. Samkvæmt ákvæði þessu er sjóðurinn fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem nefnist, sem skattskylt er. Ákvæði laga um tryggingagjald eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu.
    Samkvæmt 2. mgr. getur ábyrgðargjaldið verið allt að 0,2% af gjaldstofni en félagsmálaráðherra tekur ákvörðun um hlutfall þess með reglugerð að fenginni tillögu stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.

Um IX. kafla.


    Níundi kafli frumvarpsins hefur að geyma ákvæði er varða framsal kröfu, skyldu stjórnvalda til að láta Ábyrgðasjóði launa í té upplýsingar og áhrif þess að greiðslu hefur verið aflað úr sjóðnum á grundvelli rangra upplýsinga. Í 2. mgr. 17. gr. gildandi laga kemur fram að hafi greiðslu verið aflað úr sjóðnum með því að veita af ásetningi rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum geti það varðað sektum er numið geta allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem ranglega hefur fengist greidd nema þyngri refsing liggi við að lögum. Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði þetta falli brott enda varðar sú háttsemi sem lýst er í ákvæðinu að jafnaði þyngri refsingum á grundvelli 248. gr. almennra hegningarlaga.

Um 24. gr.


    Ákvæðið fjallar um áhrif þess þegar krafa sem fellur undir gildissvið frumvarpsins er framseld þriðja aðila. Ákvæðið er efnislega samhljóða 13. gr. gildandi laga. Meginreglan er sú að hafi launamaður framselt launakröfu sína á hendur vinnuveitanda áður en bú vinnuveitandans var tekið til gjaldþrotaskipta nýtur krafan ekki ábyrgðar samkvæmt reglum þessum. Frá þessu er þó vikið hafi launamaður framselt stéttarfélagi eða Atvinnuleysistryggingasjóði kröfu sína. Á þessa undanþágu kann að reyna þegar dráttur verður á því að bú vinnuveitanda sé tekið til gjaldþrotaskipta þótt allar forsendur séu fyrir slíkri ákvörðun. Í slíkum tilvikum eru dæmi þess að stéttarfélög komi félagsmönnum sínum til aðstoðar og leysi til sín kröfur þeirra á hendur vinnuveitanda.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sama regla gildi í þeim tilvikum sem fjallað er um í 7. gr. og VII. kafla þessara laga.

Um 25. gr.


    Ákvæðið er nýmæli en eðlilegt þykir að frumvarpið hafi að geyma almennt ákvæði um upplýsingaskyldu. Í ákvæðinu er í fyrsta lagi talað um stjórnvöld án þess að það sé tiltekið sérstaklega um hvaða aðila geti verið að ræða. Í framkvæmd reynir fyrst og fremst á upplýsingagjöf skattyfirvalda en sjóðnum er nauðsynlegt að hafa aðgang að upplýsingum um tekjur sem kröfuhafi kann að hafa aflað sér í uppsagnarfresti, sbr. b-lið 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Upplýsingagjöf vinnuveitanda getur m.a. komið til vegna reglna VII. kafla um greiðslu orlofs vegna greiðsluerfiðleika. Aðrir hlutaðeigandi aðilar eru einkum lífeyrissjóðir og aðrar fjármálastofnanir.
    Upplýsingaréttur Ábyrgðasjóðs launa sætir þeirri takmörkun að umbeðnar upplýsingar verða að vera nauðsynlegar vegna afgreiðslu sjóðsins á einstökum kröfum.

Um 26. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 17. gr. gildandi laga og fjallar um skyldu þess sem fengið hefur greiðslu úr sjóðnum á grundvelli rangra upplýsinga eða vegna þess að upplýsingum hefur verið haldið leyndum til að endurgreiða sjóðnum þá fjárhæð sem þannig er fengin. Ábyrgðasjóður launa ber sönnunarbyrði fyrir því að greiðslan hafi verið innt af hendi vegna hinna röngu eða leyndu upplýsinga. Ekki er gerð krafa um ásetning eða gáleysi af hálfu viðtakanda greiðslunnar sem skilyrði fyrir endurgreiðslukröfu sjóðsins, sbr. þó 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli og fjallar um fyrningu á endurgreiðslukröfu sjóðsins skv. 1. mgr. Er lagt til að slíkar kröfur falli niður fyrir fyrningu að liðnum tveimur árum frá því að greiðsla var innt af hendi.
    Í 3. mgr. er lagt til að fellt verði brott refsiákvæði 2. mgr. 17. gr. gildandi laga. Er í ákvæðinu mælt fyrir um skyldu stjórnar Ábyrgðasjóðs launa til að vísa málum til opinberrar rannsóknar telji hún að greiðslu hafi verið aflað eða reynt hafi verið að afla greiðslu úr sjóðnum með saknæmum hætti. Mundi í þessum tilvikum fyrst og fremst vera um að ræða háttsemi sem varðað getur við 248. gr. almennra hegningarlaga og eftir atvikum einnig XVII. kafla sömu laga.

Um X. kafla.


    Lokakafli frumvarpsins hefur að geyma ákvæði um reglugerðarheimild ráðherra ásamt ákvæði um gildistöku og lagaskil.

Um 27. gr.


    Í greininni er kveðið á um að félagsmálaráðherra skuli að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna. Mun reglugerðin meðal annars hafa að geyma nánari fyrirmæli um kröfugerð launamanna og lífeyrissjóða á hendur sjóðnum, umsögn skiptastjóra, skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á kröfum án gjaldþrotaskipta, ábyrgð á málskostnaði og ábyrgð sjóðsins á kröfum við skipti á dánarbúi vinnuveitanda.

Um 28. gr.


    Í ákvæði þessu kemur fram að frumvarpið er lagt fram með hliðsjón af tilskipun ráðsins frá 20. október 1980 nr. 80/987/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota en tilskipun þessi var innleidd hér á landi á grundvelli EES-samningsins.
    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi með eftirfarandi fyrirvörum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að kröfur í bú vinnuveitanda, sem úrskurðuð eru gjaldþrota fyrir gildistöku þessara laga, skuli njóta ábyrgðar samkvæmt lögum nr. 53/1993. Í ákvæðinu er þó kveðið á um að 10. gr. þessa frumvarps skuli taka strax gildi leiði hún til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa en 6. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er lagt til að nýmæli d-liðar 5. gr. um ábyrgð á viðbótarlífeyrissparnaði taki gildi 1. janúar 2004 vegna þeirra iðgjalda sem falla í gjalddaga eftir gildistöku þessa frumvarps, sbr. 1. mgr. Enn fremur er lagt til að ákvæðinu verði einungis beitt vegna þeirra fyrirtækja sem tekin eru til gjaldþrotaskipta eftir 1. janúar 2004. Frestun á gildistöku ræðst meðal annars af því að ábyrgð sjóðsins er háð skilyrðum um eftirlit og innheimtu vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar. Vörsluaðilum viðbótarlífeyrissparnaðar er með þessu móti gefinn kostur á að aðlaga starfsemi sína að þeim kröfum sem settar verða í reglugerð um eftirlit og innheimtu.
    Í 4. mgr. er lagt til að gildistaka 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins, að því er varðar hækkun á hámarksábyrgð sjóðsins á kröfur launamanna skv. a- og b-lið 5. gr., miðist við 1. apríl 2003. Kemur ákvæðið til framkvæmda vegna þeirra krafna sem gjaldfalla eftir 1. apríl 2003 án tillits til þess hvenær bú vinnuveitanda var tekið til gjaldþrotaskipta. Fram til þess dags gildir hámarksábyrgð skv. 2. mgr. 5. gr. gildandi laga.
    Minnt skal á að við afgreiðslu sjóðsins á kröfum skv. a- og b-lið 5. gr. skal hver mánuður gerður upp sérstaklega samkvæmt þeim hámörkum sem kveðið er á um í 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Óhjákvæmilegt er að álykta að við meðferð krafna um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti skuli miða við þá hámarksfjárhæð sem í gildi er í hverjum mánuði uppsagnarfrests. Til skýringar skal tekið dæmi um launamann sem hættir störfum við gjaldþrot vinnuveitanda í lok febrúar 2003. Miðað við að hann eigi þriggja mánaða uppsagnarfrest á hann rétt á launum í uppsagnarfresti í mars til maí sama ár. Hámarksábyrgð sjóðsins mun samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu miðast við þrefaldar atvinnuleysisbætur vegna marsmánaðar en 250.000 kr. vegna apríl og maí.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði 1. mgr. 6. gr. um hámark á ábyrgð sjóðsins á orlofslaunakröfum, sbr. c-lið 5. gr., taki gildi strax í samræmi við 28. gr. þessa frumvarps varðandi þær orlofskröfur sem stofnast hafa en hafa ekki náð hámarki ábyrgðar. Vegna banns við afturvirkni íþyngjandi lagaákvæða er tekið fram í ákvæðinu að kröfur umfram hámarksábyrgð skuli ekki skerðast að því leyti sem þær stofnast fyrir gildistöku laganna. Ákvæðið felur hins vegar í sér að haldi þessar kröfur áfram að hækka eftir að frumvarpið verður að lögum mun sá hluti kröfunnar ekki njóta ábyrgðar sjóðsins.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Ábyrgðasjóð launa.

    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Það er samið af félagsmálaráðuneyti að fengnum tillögum stjórnar ábyrgðasjóðs launa.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að fjármögnun sjóðsins verði óbreytt en sjóðurinn er fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknunum og af reiknuðu endurgjaldi. Samkvæmt gildandi lögum skal ábyrgðargjald vera allt að 0,2% af gjaldstofni. Hlutfallið skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðherra setur fyrir eitt ár í senn að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Það hefur verið 0,04% hin síðari ár og námu markaðar tekjur sjóðsins 170 m.kr. árið 2002.
    Helstu nýmæli frumvarpsins sem leiða til kostnaðarauka fyrir ábyrgðasjóðinn eru:
     1.      Lagt er til að ábyrgðasjóður launa taki á sig ábyrgð af vangreiddum iðgjöldum samkvæmt samningum launþega og vinnuveitanda um viðbótartryggingavernd að hámarki 4%.
     2.      Lögð er til hækkun á hámarksábyrgð sjóðsins vegna krafna launþega og verði hún 250.000 kr. á mánuði í stað þrefaldra atvinnuleysisbóta eins og nú er. Fjárhæðin verði endurskoðuð árlega með reglugerð sem ráðherra setur.
     3.      Frumvarpið gerir ráð fyrir að hámarksábyrgð sjóðsins á orlofskröfum sem áunnist hafa verði 400.000 kr. en í gildandi lögum er ekkert hámark á ábyrgð sjóðsins varðandi orlofskröfur. Gert er ráð fyrir að fjárhæðin verði endurskoðuð árlega með reglugerð ráðherra. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að reglur um ábyrgð á orlofslaunakröfum starfsmanna verði færðar til samræmis við forgangsréttarákvæði gjaldþrotaskiptalaga og að ákvæði orlofslaga um ábyrgð á orlofi vegna greiðsluörðugleika vinnuveitenda verði færð undir sérstakan kafla í lögum um ábyrgðasjóð launa. Munu framkvæmdastjórar og stjórnarmenn og launamenn sem eiga verulegan eignarhlut ekki njóta ábyrgðar sjóðsins vegna launakrafna og geta því ekki heldur krafið sjóðinn um greiðslur vegna svonefnds vanskilaorlofs. Á hinn bóginn gerir frumvarpið ráð fyrir meiri sveigjanleika í túlkun bótaréttar skyldmenna og eigenda hlutafjár en gert er í gildandi lögum og er það í samræmi við afgreiðslu stjórnar sjóðsins eftir að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli E–9/97 gegn íslenska ríkinu lá fyrir. Áhrifin eru því hverfandi miðað við gildandi réttarástand og er áætlað að fjölgun þeirra sem njóta ábyrgðar sjóðsins frá því sem nú er verði innan við 0,5%.
    Við mat á áhrifum frumvarpsins á útgjöld sjóðsins var m.a. tekið mið af upplýsingum sjóðsins um kröfur og bótagreiðslur undanfarin ár varðandi meðalbótafjárhæð á mánuði og meðaltímalengd greiddra bótamánaða.
    Nokkur óvissa er um áhrif frumvarpsins á útgjöld sjóðsins vegna nýmæla um ábyrgð hans á vangreiddum iðgjöldum samkvæmt samningi um viðbótarlífeyrissparnað. Ætla má að tæp 40% launafólks á almennum launamarkaði hafi nú þegar gert slíkan samning og ljóst er að þeim sem gera slíka samninga fer fjölgandi ár frá ári. Ef miðað er við meðalfjölda þeirra sem notið hafa ábyrgðar sjóðsins undanfarin þrjú ár, að 40% þeirra taki þátt í viðbótarlífeyrissparnaði og að 4% hámarksviðbótariðgjald sé í vanskilum í 6–7 mánuði má ætla að útgjöld sjóðsins aukist um 15–20 m.kr. á ári en auk þess koma til 4–6 m.kr. vegna 1% samningsbundins framlags atvinnurekenda til velflestra launamanna ASÍ þótt þeir taki ekki þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Vakin er hins vegar athygli á að hámarksviðmiðunartími er 18 mánuðir.
    Þá er gert ráð fyrir að hækkun á hámarksábyrgð sjóðsins vegna krafna launþega auki launakröfur um rúm 10–11% og þar með útgjöld sjóðsins um 3,6 m.kr. á ári ef miðað er við svipaðar forsendur og ráðið hafa útgjöldum sjóðsins 1999–2001.
    Loks er í frumvarpinu lagt til að aukið verði svigrúm til að túlka bótarétt skyldmenna. Á móti er gert ráð fyrir að sett verði hámark á ábyrgð sjóðsins varðandi orlofskröfur og takmarkaður réttur til greiðslu orlofs vegna greiðsluörðugleika fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að áhrif þessara tillagna lækki útgjöld sjóðsins um 2 m.kr. á ári miðað við bótakröfur síðustu ára.
    Miðað við sömu forsendur og ríkt hafa undanfarin þrjú ár koma útgjöld sjóðsins til með að aukast um það bil 20–30 m.kr. á ári verði frumvarpið óbreytt að lögum. Rétt er hins vegar að benda á að það aukna svigrúm sem frumvarpið heimilar getur leitt til mun hærri útgjalda komi til með að reyna á ýtrustu skuldbindingar sjóðsins. Útgjöld sjóðsins aukast eftir því sem þátttaka launafólks á almennum vinnumarkaði í viðbótarlífeyrissparnaði verður almennari og eftir fjölda mánaða sem iðgjöld eru í vanskilum. Þá er rétt að vekja athygli á að sjóðurinn er eftir sem áður fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknunum og af reiknuðu endurgjaldi auk vaxtatekna af fjármunum sjóðsins.