Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 589. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1142  —  589. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um úthlutun sérstaks greiðslumarks í sauðfjárrækt.

     1.      Hvað líður ákvörðun ráðherra um að úthluta 7.500 ærgilda greiðslumarki til svæða sem sérstaklega eru háð sauðfjárrækt, sbr. yfirlýsingu ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þar að lútandi á Alþingi 9. maí árið 2000?
    Í nóvember 2001 sendi framkvæmdanefnd búvörusamninga erindi til Byggðastofnunar þar sem óskað var eftir að stofnunin skilgreindi þau svæði sem féllu undir að vera sérstaklega háð sauðfjárrækt og ættu takmarkaða möguleika til annarrar tekjuöflunar. Í lok febrúar sl. svaraði Byggðastofnun erindinu. Stofnunin skilgreindi sauðfjársvæði og lagði fram tillögur um viðmiðunarreglur við úthlutun andvirðis 7.500 ærgilda, en sú upphæð er áætluð 37 millj. kr. í fjárlögum. Tillögunar eru nú til athugunar hjá ráðuneytinu og verða þær einnig ræddar í framkvæmdanefnd búvörusamninga á næstunni þar sem fulltrúi Byggðastofnunar mun gera nánari grein fyrir tillögum og áherslum stjórnar stofnunarinnar í málinu.

     2.      Hyggst ráðherra auglýsa eftir umsóknum um hlut í þessu greiðslumarki áður en til úthlutunar kemur?
    Ekki hefur verið tekin afstaða til þess en Byggðastofnun leggur til að stjórnvöld auglýsi opinberlega hvernig staðið verði að umræddri úthlutun andvirðis 7.500 ærgilda greiðslumarks í samræmi við sjónarmið um jafnræði og vandaða stjórnsýsluhætti.

     3.      Hafa verið mótaðar vinnureglur um hvernig staðið skuli að úthlutuninni og hvaða forsendur eru eða verða lagðar til grundvallar:
              a.      landgæði,
              b.      tekjur umsækjenda,
              c.      almennt atvinnuástand á viðkomandi svæði,
              d.      annað?

    Eins og fyrr greinir eru tillögur Byggðastofnunar í athugun í ráðuneytinu. Byggðastofnun byggir tillögur sínar á tveimur meginþáttum. Í fyrsta lagi á svæðaskilgreiningu, þar sem tekið er tillit til vægi landbúnaðar á viðkomandi svæði, hlutfalli sauðfjárræktar í landbúnaði og hlutfalli sauðfjárræktar af heildarársverkum. Í öðru lagi bústærð viðkomandi bónda. Byggðastofnun telur mikilvægt að fjárstuðningur þessi fari fyrst og fremst til þeirra bænda sem hafa lifibrauð sitt af sauðfjárrækt, þ.e. að meiri hluti tekna þeirra komi af framleiðslu sauðfjárafurða og möguleikar til annarrar atvinnusóknar séu takmarkaðir. Því leggur stofnunin til að skilyrði fyrir úthlutun sé að viðkomandi hafi yfir 250 kindur og jafnframt að meiri hluti tekna ábúenda komi af sauðfjárrækt. Þetta er þó gert með þeirri undantekningu að sauðfjárbændur í Árneshreppi njóti tvöföldunar í úthlutunarfjárhæð og þar verði miðað við bændur með 150 kindur eða fleiri. Krafa um að meiri hluti rekstrartekna komi frá framleiðslu sauðfjárafurða stendur óbreytt.
    Gert er ráð fyrir að 368 bændur fái úthlutað rúmlega 100 þús. kr. og tillaga er gerð um jafnháa greiðslu til þeirra sauðfjárbænda sem uppfylla forsendur úthlutunarinnar og að hún verði greidd í einu lagi í apríl eða maí nk.
    Nánar vísast til tillagna Byggðastofnunar, sjá fylgiskjal.


Fylgiskjal.

Byggðastofnun, þróunarsvið:


Skilgreining sauðfjársvæða og tillögur um reglur sem til
viðmiðunar verði við úthlutun andvirðis 7.500 ærgilda.

(Lagt fyrir stjórn Byggðastofnunar 14. febrúar 2003.)



Inngangur.
    Í erindi framkvæmdanefndar um búvörusamninga til Byggðastofnunar, dags. 12. nóvember 2001, var óskað eftir því að Byggðastofnun skilgreindi þau svæði sem féllu undir það að vera sérstaklega háð sauðfjárrækt og eiga takmarkaða möguleika til annarrar tekjuöflunar.
    Á stjórnarfundi Byggðastofnunar hinn 12. desember 2001 var samþykkt að verða við erindinu í samræmi við yfirlýsingu landbúnaðarráðherra á Alþingi 9. maí 2000 þar sem segir að framkvæmd úthlutunarinnar verði þannig að Byggðastofnun verði falið að skilgreina svæðin og undirbúa reglur sem til viðmiðunar verði hafðar við úthlutun.
    Minnisblað þetta inniheldur tillögur Byggðastofnunar um svæðaskilgreiningar og úthlutun fjármuna sem nemur andvirði beingreiðslna 7.500 ærgilda greiðslumarks í sauðfé árin 2003 til 2007. Heildarráðstöfunarfjárhæð nemur um 36 millj. kr. á ári í fimm ár.

Svæðaskilgreiningar í sauðfjárrækt.
    Svæðaskilgreiningar í þeim tilgangi að greiða mishátt framlag til sauðfjárbænda hafa ekki verið unnar áður.
    Í skýrslu Byggðastofnunar „Staða sauðfjárræktar og áhrif á byggðaþróun“ frá 1997 eru skilgreind landsvæði sem talin voru háð sauðfjárrækt. Sú mynd sem þar fékkst er í góðu samræmi við upplýsingar Hagstofu Íslands um atvinnusókn 2001 og jafnframt svæðaflokkun þá sem fékkst í skýrslunni „Byggðir á Íslandi“ (atvinnuþróunarsvæði 1–2). Greinilega fer saman að þar sem sauðfjárrækt er aðalatvinnugrein þar er jafnframt lakasta staða svæða í byggðalegu tilliti, sama hvaða mælikvarðar eru notaðir (mannfjöldabreytingar, tekjur o.fl.).
    Eftir ýmsar athuganir var það niðurstaðan að svæðaskilgreiningin mundi byggjast á upplýsingum frá Hagstofu Íslands um atvinnusókn í október 2001, skýrslu Byggðastofnunar „Byggðir á Íslandi“ frá 1999 um atvinnuþróunarsvæði og upplýsingum frá Bændasamtökum Íslands um ásetning haustið 2001.

Úthlutun.
    Heildargreiðslumark ársins 2002 var tæp 353.000 ærgildi og því er ráðstöfun andvirðis 7.500 ærgilda til svæðamismununar um 2,1% af heildinni. Til þess að aðgerð þessi hafi tilætluð áhrif er mikilvægt að sú fjárhæð sem varið verður til einstakra sauðfjárbænda verði ekki undir 100.000 kr. Úthlutun 7.500 ærgilda til sauðfjárbænda á ákveðnum landsvæðum er byggðastuðningur og því mikilvægt að hann sé fyrirséður til lengri tíma en eins árs. Því er lagt til að úthlutunin standi að óbreyttum forsendum út samningstíma samnings um framleiðslu sauðfjárafurða, þ.e. út árið 2007. 1
    Ljóst er að allnokkrir hagsmunir eru í húfi fyrir einstaklinga og svæði sem byggja efnahag sinn að stórum hluta til á sauðfjárrækt þegar stjórnvöld ákveða hvort og þá hvernig skuli úthluta byggðastyrkjum til sauðfjárbænda. Því er mjög brýnt að gætt sé að sjónarmiðum um jafnræði við úthlutun og að fullnægjandi grundvöllur sé fyrir slíkum ákvörðunum enda byggjast þær eðli máls samkvæmt á mati. Það leiðir af óskráðri grundvallarreglu stjórnsýsluréttar um jafnræði að stjórnvöld verða jafnan að framkvæma úthlutanir þannig að leitast sé við að tryggja jafna möguleika allra þeirra sem til greina koma til að sýna fram á þörf sína fyrir slíka úthlutun. Það er því betur í samræmi við sjónarmið um jafnræði og vandaða stjórnsýsluhætti að stjórnvöld auglýsi opinberlega að til standi að úthluta takmörkuðum gæðum svo sem andvirði greiðslumarks í sauðfjárrækt. Á grundvelli framanritaðs er lagt til að fyrirhuguð úthlutun verði auglýst og gerð grein fyrir svæðaskilgreiningu og úthlutunarreglum.

Skilyrði fyrir úthlutun.
    Það er mikilvægt að fjárstuðningur þessi fari fyrst og fremst til þeirra bænda sem hafa lifibrauð sitt af sauðfjárrækt, þ.e. að meiri hluti tekna þeirri komi af framleiðslu sauðfjárafurða og að möguleikar til annarrar atvinnusóknar séu takmarkaðir. Því hafa verið sett þau skilyrði fyrir úthlutun að viðkomandi hafi fjárfjölda yfir 250 kindur og jafnframt að meiri hluti tekna ábúenda komi af sauðfjárrækt. Stuðningurinn er eingöngu ætlaður þeim sem hafa sauðfjárrækt að aðalatvinnu. Árið 2001 voru sauðfjáreigendur í landinu (sv.f.nr. >3000) 2.734 og þar af 742 með fleiri en 250 kindur.

Nánari skilyrði fyrir úthlutun:
     A.      Að bústofn sé 250 kindur eða fleiri samkv. forðagæsluskýrslu 2001. 2
     B.      Að meiri hluti rekstrartekna viðkomandi komi af framleiðslu sauðfjárafurða. 3
    Við ákvörðun stærðarviðmiðunar er rétt að skoða hvaða fjárhæðir væru til ráðstöfunar til hvers og eins miðað við mismunandi stærðarmörk.

    

Fjöldi bænda

Áætluð fjárhæð

Fleiri en 100 ær
569 63.269
Fleiri en 150 ær 523 70.039
Fleiri en 200 ær 442 83.916
Fleiri en 250 ær 368 100.559
Fleiri en 300 ær 301 120.401

    Gerð er tillaga um jafna greiðslufjárhæð til þeirra sauðfjárbænda sem uppfylla forsendur úthlutunarinnar og að hún verði greidd í einu lagi í apríl/maí.

Skilgreining svæða.
    Við skilgreiningu svæða er m.a. byggt er á gögnum frá Hagstofu Íslands og er miðað við búsetu 1. október 2001 og staðgreiðslu í þeim mánuði. Landbúnaður er skilgreindur sem deildir 01 og 02 (í ÍSAT-95) og sauðfjárrækt er skilgreind sem grein 01221, þ.e. blandaður búskapur telst ekki með. Taldar voru einstakar kennitölur í viðmiðunarmánuði.
    Hagstofa Íslands fer fram á að farið verði með þessar upplýsingar sem vinnugögn. Úr þeim má ekki birta heildartölur, né má birta eftir einstökum sveitarfélögum þar sem fjöldi einstaklinga getur verið mjög lítill. Gögnin eru bráðabirgðaupplýsingar þar sem enn eftir að gera á þeim ýmsar leiðréttingar, einkum hvað varðar fjölda starfandi. Hagstofa Íslands telur þær þó vera nærri lagi.
    Við skilgreiningu svæða voru notaðir eftirfarandi þrír mælikvarðar:
          vægi landbúnaðar á viðkomandi svæði,
          hlutfall sauðfjárræktar í landbúnaði,
          hlutfall sauðfjárræktar af heild.
    Eftirfarandi tafla sýnir stigagjöf einstakra mælikvarða.


Hlutfall landbúnaðar

Stig

Hlutfall sauðfjárræktar af landbúnaði


Stig
Hlutfall sauðfjárræktar af heild
Stig
< 30 % 0 < 25 % 0 < 25 % 0
30–39,9 % 0,5 25–29,9 % 0,5 25–29,9 % 1
40–49,9 % 0,75 30–34,9 % 1 30–34,9 % 2
50–59,9 % 1 35–39,9 % 1,5 35–39,9 % 3
=> 60 % 1,25 40–44,9 % 2 => 40 % 4
45–49,9 % 2,5
50–54,9 % 3
=> 55 % 3,5

    Auk upplýsinga um vægi landbúnaðar/sauðfjárræktar í atvinnulífi svæða er sett skilyrði um að viðkomandi svæði hafi flokkast atvinnuþróunarsvæði 1 eða 2 í flokkum dreifbýlis og dreifbýlis-þéttbýlis í skýrslu Byggðastofnunar „Byggðir á Íslandi“ frá 1999. Í þeirri flokkun var litið til þéttleika byggðar, breytingar í íbúafjölda, fækkun ársverka í landbúnaði, atvinnusamsetningar, frávik í tekjum o.fl.
    Eftirfarandi forsendur eru fyrir svæðaskilgreiningu sauðfjársvæða:
          Að svæðið falli undir atvinnuþróunarsvæði 1 eða 2 samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar „Byggðir á Íslandi“ frá 1999.
          Að matsvægi sé 3,5 eða hærra þegar litið er til hlutar landbúnaðar af heildaratvinnusókn svæðis og hlut sauðfjárræktar af landbúnaði og af heild.
    Á „sauðfjársvæðum“ skilgreindum á þennan hátt eru um 47 % sauðfjárbúa með fleiri en 250 kindur en aðeins rúm 19 % á öðrum svæðum.

Bústærð Sauðfjársvæði Hlutfall Önnur svæði Hlutfall Samtals
1–50 154 19,57% 740 38,01% 894
51–100 64 8,13% 270 13,87% 334
101–150 46 5,84% 234 12,02% 280
151–200 81 10,29% 198 10,17% 279
201–250 74 9,40% 131 6,73% 205
251–300 67 8,51% 99 5,08% 166
> 300 301 38,25% 275 14,12% 576
Samtals 787 1.947 2.734




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðanmálsgrein: 1

    1 Hér þarf að skilgreina hvað átt sé við með óbreyttum forsendum. Krafa um búsetu er ótvíræð en ekki er víst að skynsamlegt sé að fella niður stuðning þó svo að sauðfé fækki niður fyrir viðmið, þ.e. 250 kindur, né þó svo að mælihlutföll breytist svæðisbundið á tímabilinu.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Með þeirri undantekningu að sauðfjárbændur í Árneshreppi njóti tvöföldunar í úthlutunarfjárhæð og þar verði miðað við bændur með 150 kindur eða fleiri. Krafa um að meiri hluti rekstrartekna komi frá framleiðslu sauðfjárafurða stendur óbreytt.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Krafa er sett um að meiri hluti rekstrartekna (samkvæmt tekjuhlið landbúnaðarframtals eða eftir því sem við á samræmingarblaði) komi af sauðfjárrækt. Með þessu móti er náð yfir tekjur af ferðaþjónustu, hlunnindum, skólaakstri, rekstri vörubifreiða o.fl. Því er ekki tekið tillit til tekna á persónuframtali, svo sem launatekna, ellilífeyrisgreiðslna, sjúkradagpeninga o.fl.