Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 453. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1248  —  453. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 11. mars.)1. gr.

    2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Þar sem aðstæður leyfa skulu heilsugæslustöð og sjúkrahús rekin sem ein heilbrigðisstofnun.

2. gr.

    Orðin „að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga“ í 2. málsl. 15. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Kostnaður við byggingu og búnað heilsugæslustöðva greiðist úr ríkissjóði.
     b.      4., 5. og 6. málsl. 1. mgr. falla brott.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Ríkissjóður er eigandi heilsugæslustöðva.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      1. og 4. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Þegar heilsugæslustöð er í starfstengslum við sjúkrahús skulu framkvæmdastjórn, læknaráð og starfsmannaráð vera sameiginleg fyrir alla stofnunina.
     c.      6. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra skipar framkvæmdastjóra heilsugæslustöðva sem gegna a.m.k. hálfu starfi til fimm ára í senn og hafa þeir sömu skyldur og framkvæmdastjórar sjúkrahúsa skv. 29. gr., sbr. og 8. mgr. 30. gr. Fer um mat á hæfni þeirra skv. 30. gr.
     d.      Við greinina bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Á heilsugæslustöðvum skal starfa framkvæmdastjórn undir yfirstjórn framkvæmdastjóra. Auk hans skulu yfirlæknir (lækningaforstjóri) og hjúkrunarforstjóri skipa framkvæmdastjórn. Heimilt er að fjölga fulltrúum í framkvæmdastjórn sé gert ráð fyrir því í skipuriti stofnunar. Framkvæmdastjórn skal vera framkvæmdastjóra til ráðgjafar um rekstur heilsugæslustöðvar og skal hann hafa samráð við hana um allar mikilvægar ákvarðanir varðandi þjónustu og rekstur stöðvarinnar.
                  Framkvæmdastjórn skal boða til upplýsinga- og samráðsfunda með starfsmannaráði stofnunar a.m.k. fjórum sinnum á ári.
                  Framkvæmdastjórn skal boða til upplýsinga- og samráðsfunda með sveitarstjórn eða sveitarstjórnum á starfssvæði stöðvarinnar a.m.k. tvisvar á ári.

5. gr.

    22. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Orðin „að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga“ í 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Á sjúkrahúsum skv. 24. gr. og heilbrigðisstofnun skv. 2. mgr. 12. gr. skal starfa framkvæmdastjórn undir yfirstjórn framkvæmdastjóra. Auk hans skulu yfirlæknir (lækningaforstjóri) og hjúkrunarforstjóri skipa framkvæmdastjórn. Heimilt er að fjölga fulltrúum í framkvæmdastjórn sé gert ráð fyrir því í skipuriti stofnunar. Framkvæmdastjórn skal vera framkvæmdastjóra til ráðgjafar og skal hann hafa samráð við hana um allar mikilvægar ákvarðanir varðandi þjónustu og rekstur sjúkrahússins eða heilbrigðisstofnunarinnar.
                  Framkvæmdastjórn skal boða til upplýsinga- og samráðsfunda með starfsmannaráði stofnunar a.m.k. fjórum sinnum á ári.
                  Framkvæmdastjórn skal boða til upplýsinga- og samráðsfunda með sveitarstjórn eða sveitarstjórnum á starfssvæði stofnunarinnar a.m.k. tvisvar á ári.
     b.      Í stað orðsins „stjórn“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: framkvæmdastjóri, og sama orð í 2. málsl. sömu málsgreinar fellur brott.
     c.      2. málsl. 5. mgr. fellur brott.
     d.      Orðin „gagnvart stjórn stofnunarinnar“ í 3. málsl. 5. mgr. falla brott.
     e.      Orðin „að fengnum umsögnum viðkomandi sjúkrahússtjórna“ í 6. mgr. falla brott.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Landspítali – háskólasjúkrahús skal vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, en stjórn spítalans að öðru leyti falin sjö manna stjórnarnefnd. Nefndin skal skipuð þannig að starfsmannaráð spítalans, sbr. 3. mgr. 32. gr., tilnefnir tvo menn, Alþingi fjóra og ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn. Forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss skal skipaður af ráðherra til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnarnefndar. Ráðherra ræður meðlimi framkvæmdastjórnar spítalans samkvæmt stjórnskipulagi Landspítala – háskólasjúkrahúss. Forstjóri stjórnar fjármálum og daglegum rekstri spítalans í umboði stjórnarnefndar og ráðuneytis.
     b.      2. og 3. mgr. falla brott.
     c.      6. og 7. mgr. orðast svo:
                  Stefnt skal að því að framkvæmdastjórar sjúkrahúsa skv. 8. mgr. 29. gr. og forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss skv. 1. mgr. þessarar greinar hafi sérþekkingu á rekstri sjúkrahúsa. Ráðherra skal skipa þriggja manna nefnd til fjögurra ára í senn til að meta hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa. Fulltrúar í nefndinni skulu hafa sérþekkingu á sviði rekstrar, starfsmannamála og stjórnsýslu. Engan má skipa til starfa nema nefndin hafi talið hann hæfan. Framkvæmdastjórar sjúkrahúsa ríkisins eru skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn.
                  Framkvæmdastjórar skulu gera þróunar- og rekstraráætlanir fyrir sjúkrahúsin og einstakar skipulagsheildir þeirra. Slík áætlanagerð skal ávallt vera gerð a.m.k. fjögur ár fram í tímann, en vera í árlegri endurskoðun og unnin í nánu samstarfi við framkvæmdastjórn, forstöðumenn deilda og hjúkrunarstjóra sérdeilda sjúkrahúsanna. Áætlanir þessar skulu sendar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til staðfestingar. Ráðherra staðfestir stjórnskipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss að fengnum tillögum stjórnarnefndar og forstjóra.
     d.      Í stað orðsins „ríkisspítala“ og „3. mgr.“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: Landspítala – háskólasjúkrahúss, og: 8. mgr. 29. gr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „stjórnarnefnda“ í 5. málsl. 1. mgr. kemur: framkvæmdastjóra.
     b.      Í stað orðanna „5. mgr. 29. gr.“ í 1. málsl 2. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. kemur: 8. mgr. 29. gr.
     c.      Orðin „sbr. þó 21. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
     d.      Í stað orðsins „sjúkrahússtjórn“ í 3. mgr. kemur: framkvæmdastjóra, og orðin „sbr. þó 21. gr.“ í sömu málsgrein falla brott.
     e.      Orðin „og viðkomandi sjúkrahússtjórnar“ í 1. málsl. 4. mgr. falla brott.
     f.      Í stað orðsins „sjúkrahússtjórn“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: framkvæmdastjóra.

10. gr.

    Orðin „sem sjúkrahússtjórnir staðfesta“ í 2. mgr. 32. gr. laganna falla brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal framlag ríkissjóðs við byggingu og búnað sjúkrahúsbygginga skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 24. gr. vera 100%.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Fari fram blönduð starfsemi á sjúkrahúsi, sbr. flokkun sjúkrahúsa í 24. gr. og heilsugæslustöðva í 13. gr., skal skipting kostnaðar fara eftir umfangi hverrar starfsemi. Við skiptingu kostnaðar skal hafa til hliðsjónar stærð húsnæðis og áætlaðan fjölda rýma undir hverja starfsemi fyrir sig. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skiptingu kostnaðar samkvæmt þessari málsgrein.
     c.      4. mgr., sem verður 5. mgr., orðast svo:
                  Ríkissjóður er eigandi sjúkrahúsbygginga skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 24. gr. Ríkissjóður og sveitarfélög eru eignaraðilar að öðrum sjúkrahúsbyggingum í hlutfalli við framlög til þeirra.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 18. gr. og 5. mgr. 34. gr. laganna verða sveitarfélög áfram eigendur þeirra eignarhluta í heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsbyggingum skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 24. gr. sem þau áttu fyrir 31. desember 2002. Sveitarfélög geta ekki krafist innlausnar á 15% eignarhluta sínum nema afnotum eignanna í þágu heilbrigðisþjónustu ljúki. Í þeim tilvikum skulu ríki og viðkomandi sveitarfélög ráðstafa slíkum fasteignum sameiginlega að teknu tilliti til endurmetinna eignarhlutfalla. Við slíkt endurmat skal tekið tillit til nýframkvæmda og lagt til grundvallar að eignarhluti sveitarfélaga í umræddum fasteignum afskrifist á 15 árum í jöfnum árlegum áföngum.

II.


    Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða I geta sveitarfélög ekki krafist innlausnar á 15% eignarhluta sínum í íbúðarhúsnæði sem telst hluti heilsugæslustöðva, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna, ef annað íbúðarhúsnæði fyrir sömu heilbrigðisstarfsmenn er keypt eða byggt í viðkomandi sveitarfélagi í stað þess sem fyrir var. Í slíkum tilvikum skal eignarhluti sveitarfélagsins endurmetinn og mynda nýjan eignarhlut í nýja húsnæðinu.

III.

    Kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði bygginga og búnaðar er um ræðir í 1.–3. tölul. 1. mgr. 24. gr. og 18. gr. laganna og ríkissjóður tekur yfir, sbr. 3. mgr. 34. gr. og 1. mgr. 18. gr. laganna, og eru á framkvæmdastigi við gildistöku laga þessara, skal taka mið af stöðu framkvæmda 31. desember 2002.