Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 599. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1258  —  599. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um fjarskipti.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneytinu, Sigurjón Ingvason frá Póst- og fjarskiptastofnun, Pál Ásgrímsson frá Landssímanum og Ágúst Sindra Karlsson og Ingvar Garðarsson frá Íslandssíma.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Íslandssíma hf., Alþýðusambandi Íslands, Persónuvernd,
Landssíma Íslands hf., Póst- og fjarskiptastofnun, Samkeppnisstofnun, Ríkisútvarpinu, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Eyþingi, Byggðastofnun og ríkislögreglustjóra.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um fjarskipti. Jafnframt er innleidd í íslenskan rétt ný fjarskiptalöggjöf ESB. Markmið tilskipana ESB er að draga úr flóknu regluverki fjarskipta og færa það jafnframt í átt til samkeppnisréttar.
    Helstu breytingar í frumvarpinu eru að ekki er lengur krafist rekstrarleyfis til að stunda fjarskipti, reglum samkeppnisréttar er beitt við mat á því hvort fyrirtæki hafi markaðsráðandi stöðu, kveðið er á um dreifingu útvarps, heimild er veitt til að gera dreifingu ákveðinna útvarpsdagskráa að skyldu, sett eru ítarlegri ákvæði um vernd notenda fjarskiptaþjónustu, reglur um alþjónustu eru endurbættar og lágmarksréttur notenda styrktur, skilmálar um aðgang að netum og þjónustu eru endurskoðaðir og settar markvissari reglur um nýtingu á aðstöðu.
    Nefndin ræddi nokkuð um það hvort rétt væri að kveða á um rétt neytenda um einn reikning vegna fjarskiptaþjónustu. Eftir nánari skoðun er það álit meiri hlutans að heppilegra sé að fjarskiptafyrirtækin komi sér saman um að bjóða upp á slíka þjónustu heldur en að skikka þau til þess með lagaboði, enda er ljóst að slíkt lagaákvæði gæti orðið torvelt í framkvæmd án samvinnu fjarskiptafyrirtækjanna. Meiri hlutinn hvetur því fjarskiptafyrirtækin til að reyna til þrautar að ná samningum sín á milli um þessi mál.
    Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frumvarpinu og er hún í samræmi við breytingartillögu meiri hluta allsherjarnefndar við frumvarp til laga um almannavarnir o.fl.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Í stað orðanna „að beiðni almannavarnaráðs“ í 2. mgr. 72. gr. komi: að beiðni ríkislögreglustjóra, að höfðu samráði við almannavarnaráð.

    Magnús Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Lúðvík Bergvinsson og Jóhann Ársælsson skrifa undir álitið með fyrirvara við framsetta breytingartillögu.

Alþingi, 11. mars 2003.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Sigríður Ingvarsdóttir.


Árni R. Árnason.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.

Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.