Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:30:45 (11)

2003-05-26 19:30:45# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:30]

Frsm. minni hluta kjörbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég beið talsvert spenntur eftir að hlýða á rök fulltrúa meiri hlutans, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, hér á Alþingi.

Okkur greinir líka á um það, væntanlega, að mér fundust lítil sem engin efnisleg rök vera sett fram. Það eina sem mér fannst vera hönd á festandi var að kjörstjórnin hefði skilað frá sér einhverjum tilteknum skýrslum um hvernig þetta fór fram. Það liggur algerlega fyrir, ef sú skýrsla er til, að hún er ekki með það efni sem hér er óskað eftir. Og kjarninn í þessu --- kannski hefur það ekki komið nægilega skýrt fram og valdið einhverjum misskilningi --- er sá að Alþingi rannsaki framkvæmdina, það er lykilatriðið. Hvort einhverjar skýrslur liggi úti í bæ kemur málinu ekkert við því það er Alþingis að kveða upp úr um það hvort kosningin sé gild eða ekki.

Við erum að fara hér fram á skýrslur frá yfirkjörstjórnum um tiltekin atriði til þess að bera það saman hvort framkvæmdin hafi verið samræmd, til þess að bera það saman hvort miklir hnökrar hafi verið á kosningunum. Til þess erum við að kalla á þetta. Við erum ekki að fjalla um það að úti í bæ kunni að vera einhverjir pappírar frá einhverjum mönnum, það er ekki það sem málið snýst um. Þetta verða menn að vera meðvitaðir um í þessari umræðu.

Það er heldur ekki stóra málið í þessu hvort það sé praktískt vandamál hvernig eða hver eigi að endurtelja. Ef Alþingi hefur rétt til þess að ógilda kosningu hefur Alþingi alveg klárlega rétt til þess að grípa til mun minni aðgerða heldur en að ógilda kosningu í heild sinni. Það er alveg kristaltært og við munum klárlega geta fundið út úr því með hvaða hætti við ráðumst í slíkar aðgerðir.