Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 20:32:24 (66)

2003-05-27 20:32:24# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[20:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Ég vil byrja á því að óska nýkjörnum alþingismönnum til hamingju og bjóða þá velkomna hingað til starfa og hinum sem láta af þingmennsku við þessar kosningar og við sjáum á bak þökkum við samstarfið og óskum alls góðs á nýjum vegum. Ég vil einnig óska nýkjörinni ríkisstjórn og nýjum ráðherrum í fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar til hamingju og velfarnaðar í starfi.

Reyndar er það nú svo að það er ekki svo mikið nýtt á ferðinni. Til marks um það er að öll athygli við þessi stjórnarskipti er á stólaskiptunum, er á mönnuninni, ekki á málefnunum. Á því hefur enginn minnsta áhuga. Og skyldi það nú ekki vera vegna þess að hér er á ferðinni sama gamla þreytta ríkisstjórnin með sömu stefnuna, sömu flötu nýfrjálshyggju- og hægri stefnuna þar sem alger fylgispekt og undirgefni við Kanann er leiðarljós í utanríkismálum og þess vegna er það að það eina sem þykir spennandi og áhugavert er hvaða kennitölur verða í hvaða stólum? Sjálfstfl. ræður ferðinni. Það er hans stefna sem hér er verið að framkvæma, t.d. í skattamálum, og það eina sem er í raun og veru að gerast er það að verið er að verðlauna Framsfl. en þó fyrst og fremst Halldór Ásgrímsson persónulega fyrir dygga þjónustu. Nú er komið að því eftir átta ára trúmennsku að ráðsmaðurinn fær að leysa af á búinu um stundarsakir. (Gripið fram í.) Það sögulega er, hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem er hér með lífsmarki úti í salnum, að Framsfl. er að jafna fylgispektarmetið við íhaldið sem gömlu kratarnir, forverar Samfylkingarinnar, áttu áður. Það er hið sögulega. Og vel að merkja, herra forseti, hvar er brosmildi, söngelski stjórnarandstöðuflokkurinn sem auglýsti sig inn að hjarta þjóðarinnar í kosningabaráttunni? Hvað er orðið um hann? Góða flokkinn sem ætlaði að bæta úr öllu sem vondi flokkurinn, Framsfl. í ríkisstjórn, hafði gert og klúðrað, t.d. í húsnæðismálum? Hvað varð um þennan léttlynda stjórnarandstöðuflokk? Gufaði hann upp kosninganóttina? Aflíkamnaðist hann? Hvar týndist hann?

Það var einu sinni auglýst eftir Framsfl. hér í þessum ræðustól. Það er kannski kominn tími á það aftur. Þá var auglýst eftir Framsfl. Þá týndist hann úr stjórnarandstöðunni vorið 1995. Fór að heiman frá sér á kosninganótt íklæddur gráum selskinnsjakka. Og svo skaut höfðinu upp undan íhaldssænginni og þar hefur hann kúrt síðan í átta ár. Og nú endurtekur sagan sig. Við týnum allt í einu brosmildum, söngelskum, glaðværum stjórnarandstöðuflokki sem auglýsti allt hið góða sem hann ætlaði að gera ef hann kæmist til einhverra minnstu áhrifa í þjóðfélaginu. En hann er ekki týndur. Hann er hérna. Hann er hérna í salnum. Það er bara búið að taka niður brosgrímuna. Það er búið að afhýða flettiskiltin. Það er búið að djúpfrysta félagshyggjuna og stjórnarandstöðuna í fjögur ár, kokgleypa skattastefnu íhaldsins og þar með er þetta komið. Hann er kominn í leitirnar. Hann er hérna, gamli Framsfl., þessi brúnaþungi, á sínum stað. En Sjálfstfl. getur brosað. Hann hefur þetta allt í hendi sér. Og forsrh. skákar mönnum út og suður. Hann skipar menn sendiherra. Hann kýs forseta Alþingis úti í bæ eins og um hans einkamál væri að ræða. Þetta er allt saman misskilningur að Halldór Ásgrímsson utanrrh. ráði því hver er sendiherra í París. Þaðan af síður hafa Frakkar nokkuð með það að segja hvort sá einstaklingur sem Íslendingar tilnefna er tekinn gildur. Davíð Oddsson er búinn að ákveða þetta.

Og ég verð að segja grínlaust, herra forseti, þótt það sé kannski tilgangslaust að ætlast til þess, ég fer fram á það að menn kalli það tillögur sínar um hver verði forseti Alþingis mörg ár fram í tímann þegar þeir boða það úti í bæ áður en Alþingi hefur svo mikið sem hafið störf. Ég mælist til þess að menn sýni a.m.k. þessari stofnun þá virðingu að menn kalli það tillögur sínar um það hver eigi að vera forseti Alþingis.

Reyndar getur maður þá bara alveg eins spurt: Af hverju er þetta ekki klárað? Hvers vegna fengum við engar upplýsingar um það hverjir verða seðlabankastjórar næstu árin? Er ekki ein eða jafnvel tvær stöður þar á lager, á ,,hold`` eins og sagt er á útlensku? Er ekki bara best að klára þetta? Eða er svona erfitt að finna nýjan Finn, herra forseti?

Nei, án gamans, það kann að vera æskilegt markmið í sjálfu sér að einfalda stjórnsýsluna. En ég held að það sé ekki í þágu lýðræðisins að fækka ráðuneytunum niður í eitt og leggja þar á ofan Alþingi undir það ráðuneyti, en það stefnir í það að óbreyttu, herra forseti.

Svo verð ég að segja, herra forseti, um stjórnarsáttmálann og ræðu þá sem hér var flutt að hún er einhver sú snautlegasta sem ég man eftir og hef ég þá hlustað á þær nokkuð margar. Reyndar var engin ræða flutt hér. Þetta var ,,ekki-ræða`` eins og fréttirnar eftir klukkan fimm á daginn. Og við biðum, þingmenn, undanfarna daga eftir ræðunni sem samkvæmt landslögum á að koma til okkar sem trúnaðarmál þremur sólarhringum áður en hún er flutt. Svo var það upplýst seint og um síðir að það yrði engin ræða. Það yrði engin ræða, heldur mundi forsrh. lesa upp þetta kver, þennan ritling sem ekkert er. Er einhver snautlegasti stjórnarsáttmáli sem lengi hefur sést. Reyndar stóð hæstv. forsrh. ekki við það því hann hafði talsverðan inngang að upplestrinum, enda hafði hann nógan tíma því þessar 20 mínútur dugðu miklu meira en í að lesa ritið, þannig að hann gat haft hér talsverðan inngang. Og þar gat hann ekki setið á sér að pilla á stjórnarandstöðuna og var þar með auðvitað farinn að brjóta þær hefðir sem hér eiga að ríkja, að þingmenn sem taka þátt í umræðunum hafi áður lesið ræðu forsrh.

Í þessu litla riti er með ótrúlega fátæklegum hætti fjallað um mörg mikilsverðustu mál samtímans. Byggðamál eru nánast ekki nefnd. Umhverfismál eru með aumkunarverðum hætti höfð þarna á blaði, ein mikilvægustu framtíðarmál Íslendinga og mannkynsins alls, og það er í takt við það að þau eru skiptimynt í stólaskiptakapli ríkisstjórnarinnar.

Efnahagsmál og kjarasamningar eru tengdir þannig saman að háskalegt hlýtur að teljast. Í reynd er atvinnurekendum réttur óútfylltur víxill sem þeir geta lagt fram í kjarasamningum, neitað öllum kauphækkunum og sent reikninginn á ríkissjóð. Það er búið að búa út þann gaffal. Og þannig mætti um fleira ræða, herra forseti, í þessu riti.

Það hefði verið fróðlegt að fara hér líka aðeins yfir yfirbragð þeirrar kosningabaráttu sem er að baki, fara yfir peningaausturinn, yfir auglýsingamennskuna og skoðanakannanirnar og spyrja þeirrar spurningar: Ætla stjórnmálaflokkar sem vilja láta taka sig alvarlega og telja sig vestræna lýðræðisflokka áfram að þverskallast við og koma Íslandi í siðaðra manna tölu hvað það varðar að hér ríki einhver lög og einhverjar reglur um fjármál og stjórnmálastarfsemi? Ísland er að verða að viðundri í hinum vestræna heimi hvað þetta snertir, að hér skuli engar leikreglur, engin lög vera við lýði og við stöndum frammi fyrir stjórnlausri þróun eins og við sáum núna í síðustu kosningabaráttu.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð fékk ekki þá útkomu í þessum kosningum sem við höfðum vonast eftir. En það skal enginn gera þau mistök að halda að það hafi nokkur áhrif á einbeittan vilja okkar til að halda áfram að byggja upp og efla og styrkja þessa hreyfingu, baráttutæki vinstri manna og umhverfisverndarsinna í landinu. Stjórnarandstaðan gerði veruleg mistök á síðasta kjörtímabili og sérstaklega í aðdraganda kosninganna að stilla ekki betur saman strengi. Tilboði okkar um að stjórnarandstaðan stillti upp hreinni víglínu og segði ,,við viljum fella þessa ríkisstjórn og svo ætlum við að taka við`` var því miður ekki sinnt af Samfylkingunni. Og Samfylkingin á enn langt í land, því miður. Það upplifum við t.d. nú í samskiptum hér innan stjórnarandstöðunnar þar sem gömlum hefðum um það að stjórnarandstaðan leggi saman krafta sína og jafni á milli sín, a.m.k. í einhverjum mæli, sætum í stjórnum, nefndum og ráðum er hafnað, þannig að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn máttu búa við þau samskipti við Samfylkinguna nú á undirbúningsdögum þessa þings.

Þetta sýnir kannski, herra forseti, hversu satt hið fornkveðna er ,,að ótrúlega lítið hjarta getur verið í stórum búki``. Eða kannski ætti ég frekar að segja að þetta sanni það hversu stærðin er afstætt hugtak.

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Ísland er gott land og við erum gæfusöm þjóð að fá að búa hér, nýta, nota en þó fyrst og síðast gæta þessa fallega lands. Við eigum nánast einstæða möguleika á því að byggja hér upp farsælt og friðsælt velferðarsamfélag, búa í friði við okkar nágranna, bræðraþjóð okkar Færeyinga, Grænlendinga, hin Norðurlöndin, Evrópu og Norður-Ameríku.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur markað sér skýra sérstöðu í íslenskum stjórnmálum. Við leggjum áherslu á vinstri stefnu, á jöfnuð og jafnrétti, kvenfrelsi, umhverfisvernd og friðarstefnu. Við höfum fullan hug á því að snúa vörn í sókn í umhverfismálum. Umhverfismál á Íslandi verða að komast úr þeim farvegi að vera stanslaus varnarbarátta gagnvart ásókn afla sem vilja leggja allt landið undir og gera það að leikvelli þess vegna erlendra auðhringa. Til marks um það er tillaga okkar, eina þingmálið sem hér hefur verið flutt, um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Við getum á margan hátt vel við okkar hlut unað í þessari kosningabaráttu. Eitt það allra ánægjulegasta í okkar starfi er að mjög margt ungt fólk gekk til liðs við okkur í baráttunni og á undanförnum missirum. Ég er því bjartsýnn á baráttuna fram undan. Það er spennandi tilhugsun að takast á við hin stóru mál framtíðarinnar með vaxandi kynslóð ungra stjórnmálamanna.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð þarf svo sannarlega ekki að kvarta undan því að þau mál sem við helgum okkur veki ekki áhuga ungs fólks. Baráttan fyrir verndun umhverfis og sjálfbærri þróun. Baráttan gegn heimsvaldastefnu og drottnun auðhringa og hervalds. Baráttan fyrir mannréttindum og friði í heiminum. Ef eitthvað ýtir við ungu fólki í dag þá eru það þessi mál og önnur slík stór sem við erum að berjast fyrir.

Ég óska landsmönnum ánægjulegs sumars. Gæfan veri með okkur öllum. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.