Úreltar búvélar

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 13:53:23 (3521)

2004-01-28 13:53:23# 130. lþ. 52.2 fundur 256. mál: #A úreltar búvélar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram hefur verið átak í gangi, einmitt átak af því tagi sem fyrirspyrjandinn er að kalla eftir. Hvort það hafi verið í öllum landshlutum, þá býst ég við því þó að ég hafi ekki upplýsingar um það á reiðum höndum, en alla vega fengu búnaðarsambönd bréf um átakið og það var mikið samráð um allt land, svo ég býst við því að það hafi náð til allra landshluta.

Almennt séð á mengarinn að borga, þ.e. sá sem mengar eða safnar dóti í kringum sig á að standa fyrir því að koma því í förgun, það er hin almenna nálgun í slíkum málum. Það er hægt að hjálpa til eins og hér hefur verið gert með átaki en það er ekki hægt að varpa ábyrgðinni yfir á ríkið. Aðilar, bæði bændur og aðrir, verða að sjá um að koma sínu rusli, hvort sem það eru búvinnuvélar eða annað, í förgun, oft með hjálp sveitarfélaga en almennt má segja að mengarinn borgi.

Varðandi það sem kom fram um rúllubaggana og það gjald sem hefur verið lagt á bændur þá er það gjald sem hefur skapast nokkuð góð samstaða um í þinginu, er hluti af úrvinnslugjaldinu svokallaða þar sem mengarinn borgar. Verið er að setja gjald á vöru til að hægt sé að safna í sjóð til að standa undir endurvinnslu á ákveðnum tegundum af rusli. Auðvitað finnst fólki þetta ankannalegt í fyrstu en síðan skapast yfirleitt mjög mikil samstaða um slíkar leiðir og það hefur verið mikil samstaða um spilliefnagjaldið sem er gjaldtaka af sama tagi og fellur núna á rúllubaggaplastið.