Megináherslur íslenskra stjórnvalda í Barentsráðinu

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:17:05 (3531)

2004-01-28 14:17:05# 130. lþ. 52.4 fundur 380. mál: #A megináherslur íslenskra stjórnvalda í Barentsráðinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Mörður Árnason:

Forseti. Hæstv. umhvrh. kom hér og lýsti áformum sínum, auðvitað í stuttu máli. Það væri kannski ástæða til að gefa ráðherranum færi á því að gera það í lengra máli. Það vekur athygli að hæstv. umhvrh. ætlar sem forustumaður í norrænu samstarfi að beita sér fyrir því að haldin verði ráðstefna í júní um verndun hafsins og um loftslag á norðurslóðum eða loftslag í heiminum og áhrif breytinganna á norðurslóðum. Það er gott og ég hlakka til að fá boð á þá ráðstefnu.

En ég óska þess að hæstv. umhvrh. noti líka þann tíma sem hún kann að eiga hér eftir til þess að skýra fyrir okkur fyrir hvaða ráðstöfunum hún hyggst beita sér í loftslagsaðgerðum meðan við förum með þetta dýrmæta hlutverk að vera í forustu fyrir hinu norræna samstarfi, vegna þess að hingað til hefur ekki verið sýnt neitt frumkvæði af hálfu Íslendinga undir stjórn hæstv. umhvrh. og kominn er tími til þess að það gerist í alþjóðlegu samhengi.