Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:14:51 (3582)

2004-01-28 18:14:51# 130. lþ. 52.9 fundur 426. mál: #A þjóðgarðar og friðlýst svæði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni og sérstaklega ráðherra fyrir svörin og einnig hversu góðan skilning hún hefur haft á því að það þyrfti að hafa mikið og gott samráð við heimamenn við ákvörðunartöku í þessum stóru málum. Það er alveg ljóst að í þeim sveitarfélögum þar sem þjóðgarðar og friðlýst svæði eru hafa menn mjög miklar skoðanir á þessum málum, enda skerða slíkar friðlýsingar í sumum tilfellum athafnafrelsi manna og margt sem kemur þar til.

Ég varpaði fram þeirri hugmynd að setja af stað nýja stofnun, sem staðsett yrði á landsbyggðinni, sem hefði með málefni þjóðgarða og verndarsvæða að gera og þá á ég við allra þeirra, ekki eingöngu þessa nýja þjóðgarðs sem menn ræða nú og verið er að íhuga heldur væru þessi málefni tekin frá Umhverfisstofnun og ný stofnun sæi um þennan málaflokk. Ég held að þarna sé komið kjörið tækifæri til að standa við markmið stjórnvalda um að ný starfsemi á vegum ríkisins skuli staðsett á landsbyggðinni því að ný stofnun sem væri með þennan málaflokk á auðvitað betur heima úti á landi. (Gripið fram í: Af hverju?) Þeir sem búið hafa í nábýli við þjóðgarða hafa í mörgum tilfellum ekkert verið sérstaklega ánægðir með nábýlið og því mætti breyta ef heimamenn tækju á sig ábyrgð varðandi stjórn. Heimamenn telja að stundum ráði félagasamtök í Reykjavík meiru en þeir sem búa í eða við verndarsvæði og tortryggni heimamanna, t.d. í Mývatnssveit, byggist á slæmri (Forseti hringir.) reynslu varðandi skipulagsmál. Þjóðgarðar eru ein tegund (Forseti hringir.) landnýtingar og það er eðlilegt að íbúar komi þar að.

(Forseti (SP): Forseti beinir því til ræðumanna að virða ræðutímann.)