Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 14:36:39 (3648)

2004-01-29 14:36:39# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Heilbrigðismálin hafa verið í brennidepli þjóðmálaumræðunnar á síðustu vikum og mánuðum. Tilefni þeirrar umræðu hefur fyrst og fremst verið fjárframlög til heilbrigðismála og hvernig á að forgangsraða innan kerfisins og einstakra stofnana. Það er mjög eðlilegt að fólk láti sig þessi mál varða því það skiptir svo sannarlega miklu máli að vel sé að verki staðið í þessum málaflokki sem tekur til sín langstærsta hlutann af útgjöldum ríkisins. Við Íslendingar búum svo sannarlega við mjög góða heilbrigðisþjónustu sem við erum stolt af. En það er ekki þar með sagt að hún sé hafin yfir gagnrýni. Það er augljóst að okkur ber skylda til að nýta sem allra best þá fjármuni sem varið er til heilbrigðismála, en fjárframlög til þeirra hafa aukist mjög á undanförnum árum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur um áratuga skeið lagt mikla áherslu á að nýta beri í miklu ríkara mæli en gert er kosti einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni. Þeirri umræðu hefur fram til þessa ekki verið vel tekið af vinstri flokkunum á Alþingi. Jafnan hefur verið hrópað ,,úlfur, úlfur`` og því haldið fram að þar með væri verið að búa til tvöfalt kerfi, annað fyrir ríka og hitt fyrir fátæka o.s.frv., sem er alrangt. Menn hafa hliðrað sér hjá því að ræða þessi mál opið og fordómalaust, snúið út úr hugtakanotkun og þess háttar og ekki viljað ræða í alvöru hlutverk ríkisins í heilbrigðisþjónustunni frá þessum sjónarhóli. (ÖJ: Ger þú það þá.) Augljóst er að ríkið á að bjóða út verk í þessum málaflokki eins og öðrum alls staðar þar sem því verður við komið til þess að nýta fjármuni betur, spara og hagræða. Það hafa þær þjóðir gert sem við berum okkur jafnan saman við, eins og t.d. bæði Norðmenn og Svíar sem eru komnir miklu lengra í þessum efnum en við. Ísland hefur hreinlega dregist aftur úr umræðunni miðað við aðrar þjóðir í því að nýta kosti einkareksturs í heilbrigðismálum. Nú virðist þó vera að rofa til og fleiri að vakna til vitundar um að hugmyndir okkar sjálfstæðismanna eru allrar athygli verðar.

Alþýðusamband Íslands gaf út í mars sl. skýrslu sem ber yfirskriftina ,,Velferð fyrir alla --- áherslur og framtíðarsýn Alþýðusambands Íslands í velferðarmálum``. Þar eru mjög athyglisverðar hugmyndir um fjölbreyttari rekstrarform í heilsugæslunni og tekið undir sjálfstæðan rekstur heilsugæslustöðva eins og í Lágmúla og Salahverfi í Kópavogi, en þá stöð er verið að opna nú um helgina. Nefnt er að æskilegt sé að fjölga valmöguleikum í þjónustutilboðum og reifað að nýta megi einkarekstur við frekari útfærslu á því. Nú hefur Samfylkingin einnig tekið undir hugmyndir Sjálfstfl. svo að ætla má að unnt ætti að vera að ná meiri sátt og samstöðu í framtíðinni um breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni.

Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss eru aðaltilefni umræðunnar að þessu sinni. Því miður hefur sú umræða verið um of í upphrópunarstíl, margt verið ofsagt og þjónar helst þeim tilgangi að hræða fólk og koma því inn að þar sé allt í kaldakoli vegna sparnaðar og hagræðingarkrafna ríkisins og þess að ætlast sé til þess að sjúkrahúsið haldi sig innan fjárlaga.

Í nóvember sl. lauk Ríkisendurskoðun stjórnsýsluendurskoðun á sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Mjög athyglisverðar niðurstöður og ábendingar er að finna í skýrslunni, m.a. erlendur samanburður um afköst í þjónustu, gæði, skilvirkni og kostnað. Stjórnendur Landspítala -- háskólasjúkrahúss styðjast greinilega mjög við þessa skýrslu í tillögum sínum um sparnað og hagræðingu í rekstri spítalans og er það vel. Stefnumótun spítalans og hlutverk hans til framtíðar er þáttur sem alltaf þarf að vera í skoðun, enn fremur samspil heilsugæslu, sjúkrahúsþjónustu, sérfræðiþjónustu og annarrar þjónustu, t.d. við aldraða og geðfatlaða.

Við vitum að á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi eru fjölmargir langlegusjúklingar, bæði aldraðir og geðsjúklingar sem eiga betur heima annars staðar en á hátæknisjúkrahúsi, t.d. á hjúkrunarheimilum og sambýlum. Markvisst er unnið að því að fjölga þeim úrræðum. Á morgun verða Vífilstaðir formlega opnaðir sem bæta úr brýnni þörf og létta á Landspítalanum. Og á þessu ári er áformað að taka í notkun 160 ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Biðlistar á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi hafa einnig styst, þó að öðru hafi verið haldið fram.

Heilsugæsluna ber einnig að efla enn frekar. Og það er ánægjulegt að aukinn áhugi er hjá læknum að starfa innan hennar sem er breyting frá því sem var fyrir ekki svo löngu.