Rannsókn flugslysa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:21:39 (3657)

2004-01-29 15:21:39# 130. lþ. 53.6 fundur 451. mál: #A rannsókn flugslysa# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um rannsókn flugslysa.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á löggjöf um rannsóknir flugslysa. Það var lagt fram á 128. löggjafarþingi en náði því miður ekki fram að ganga á því þingi.

Gerðar hafa verið nokkrar breytingar á frv., einkum að því er varðar ákvæði III. og IV. kafla frv. um meðferð og birtingu gagna sem rannsóknarnefnd flugslysa aflar við rannsókn mála. Breytingarnar sem koma fram í frv. voru unnar af starfshópi sem ráðuneytið skipaði í maí sl. til þess að skila áliti og tillögum varðandi aðgang að gögnum sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum.

Í erindisbréfi starfshópsins kemur fram að honum er ætlað að hafa að leiðarljósi þróun mála á alþjóðavettvangi og það markmið flugslysarannsókna að auka öryggi í flugi. Hin mikla umræða í þjóðfélaginu á undanförnum árum um rannsóknir flugslysa leiddi til þess að ég taldi brýnt og tímabært að taka gildandi löggjöf um rannsókn flugslysa til endurskoðunar og í því ljósi er þetta frv. flutt.

Markmið flugslysarannsókna miða að því einu að koma í veg fyrir að flugslys endurtaki sig og stuðla að auknu öryggi í flugi. Í frv. er lögð áhersla á þau meginmarkmið.

Rannsóknarnefnd flugslysa fer með flugslysarannsóknir hér á landi í samræmi við skuldbindingar í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Rannsóknarnefndin gerir skýrslur um niðurstöður sínar og skal gera tillögur til Flugmálastjórnar Íslands og til annarra viðeigandi aðila um úrbætur í flugöryggismálum eftir því sem rannsóknir á flugslysum gefa tilefni til.

Rannsóknarnefnd flugslysa er í rannsóknum sínum óháð öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Nefndin ákveður sjálf hvenær efni er til rannsóknar á flugslysum og er í núgildandi lögum engin aðkoma ráðherra að rannsókn flugslysa og ráðherra getur ekki krafist endurupptöku. Nefndin getur hins vegar sagt sig frá rannsókn og þá skipar ráðherra nýja rannsóknarnefnd vegna tiltekins slyss.

Í frv. er lagt til að rannsóknarnefnd flugslysa verði skipuð þremur mönnum í stað fimm í gildandi lögum. Stjórnskipulagi flugslysarannsókna verður breytt og sjálfstæði nefndarinnar verður treyst í sessi með því að skipa henni forstöðumann er annist daglegan rekstur nefndarinnar, stjórni rannsóknarverkefnum og verði rannsóknarstjóri hennar. Sem rannsóknarstjóri verður forstöðumaðurinn ábyrgur fyrir stjórnun á vettvangi flugslysa.

Í frv. er fjallað um tilkynningar um slys og um framkvæmd rannsóknar. Þá er fjallað um skýrslur rannsóknarnefndar flugslysa sem skulu greina orsakaþætti slysa í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að flugslys endurtaki sig.

Helstu nýmæli önnur sem frv. hefur að geyma eru:

Í fyrsta lagi að þrátt fyrir meginregluna um að rannsóknarnefndin ákveði sjálf hvenær tilefni er til rannsóknar flugslyss er gert ráð fyrir að samgrh. geti falið rannsóknarnefndinni að rannsaka nánar tiltekið flugslys eða sérstök atriði sem tengjast flugslysi ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn er lokið, auk þess sem hann getur falið nefndinni að rannsaka atriði sem varða almennt flugöryggi án þess að það tengist flugslysi. Samkvæmt núgildandi lögum hefur ráðherra í raun engar heimildir til þess að fela nefndinni að endurupptaka mál eins og þekkt er.

Í öðru lagi má nefna að rannsókn flugslysa skuli jafnframt ná til þess hvernig fyrirkomulag hefur verið á tilkynningum um flugslys og hvernig háttað hefur verið leitar- og björgunaraðgerðum, sem er nýmæli.

Í þriðja lagi eru nefndinni gefnar rýmri heimildir til að krefjast þess að fá í sína vörslu upptökur og skráningar svo og önnur gögn sem varða loftför, áhafnir þeirra og umferð loftfara auk þess sem heimilt er að krefjast framlagningar gagna sem varða rannsókn flugslysa.

Í fjórða lagi að við aflestur og afritun samskipta sem fram koma á upptökum, og rannsóknarnefndin getur krafist að fá í sína vörslu, ber að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja fyllsta trúnað vegna upplýsinga sem þar koma fram.

Í fimmta lagi að kveðið er á um heimild dómstóla til að mæla fyrir um takmarkaðan aðgang að gögnum hjá rannsóknarnefndinni ef gagnanna verður ekki aflað með öðrum hætti og ætla má að úrslit máls velti á gögnunum. Sú heimild nær ekki til aðgangs að aðila- og vitnaskýrslum sem teknar eru á vegum nefndarinnar og tekur eingöngu til endurrits af upptökum sem gerðar eru í tilefni af rannsókn flugslysa.

Í sjötta lagi að kveðið er á um sérstaka þagnarskyldu nefndarinnar og þeirra sem starfa fyrir hana.

Í sjöunda lagi að heimilt verði að fela rannsóknaryfirvöldum annars ríkis að annast rannsókn flugslysa á íslensku yfirráðasvæði að hluta eða öllu leyti. Þetta getur átt við þegar önnur ríki hafa verulega hagsmuni af rannsókn máls eða hún verði fyrirsjáanlega svo yfirgripsmikil að rannsóknarnefnd flugslysa hafi ekki aðstöðu til að annast hana.

Hæstv. forseti. Ég hef í stuttu máli rakið meginatriði og nýmæli frv. til laga um rannsókn flugslysa. Ég tel ekki þörf á að fara ítarlegar í einstök atriði frv. þar sem ég mælti fyrir því á síðasta ári og gerði þá grein fyrir efnisatriðum þess sem hægt er að kynna sér frá þeim tíma.

Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.