Boðun til ríkisráðsfundar

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 13:35:20 (3751)

2004-02-03 13:35:20# 130. lþ. 55.91 fundur 285#B boðun til ríkisráðsfundar# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þessi boðun ríkisráðsfundar var nákvæmlega í samræmi við stjórnskipunarreglur og venjur ríkisins, ekki að nokkru leyti frábrugðin þeim. Það er þannig til að mynda þegar handhafar forsetavalds staðfesta lög í fjarveru forseta sem þeir hafa gert, ekki tugum sinnum heldur hundruðum sinnum. Þá er aldrei við þau tækifæri haft samband við forsetann eða forsetaskrifstofuna. Það eru mikilvægustu verkefni forsetans að staðfesta lög. Og þegar ákveðið er að halda ríkisráðsfund vegna 1. febrúar, reglugerðar um Stjórnarráðið sem átti 100 ára afmæli þann dag, er að sjálfsögðu haft samband við handhafa forsetavalds sem gegna stöðu forsetans. Allt annað er alveg fráleitt og þá sérstaklega að halda því fram að það sé einhver regla að hafa samband við forseta fjarverandi.

Við fengum bréf, handhafar, frá forseta Íslands, faxað bréf eftir lokun kl. 8 að kvöldi föstudags 23. janúar, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Til handhafa forsetavalds.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fer til Bandaríkjanna í embættiserindum sunnudaginn 25. janúar nk. Brottför er frá Keflavíkurflugvelli kl. 17 með flugi FI 633. Dagskrá í New York er frá 25.--30. janúar. Í framhaldinu verður forseti í einkaerindum og verður heimkoma tilkynnt síðar.``

Ég sá þetta bréf á mánudegi. Ég hafði ekki hugmynd um að forseti Íslands væri að fara til útlanda. Hann hafði ekki rætt það við forsrn. Hann vissi mjög vel um 1. febrúar, enda kom það fram í áramótaávarpi hans eins og menn vita þannig að þetta upphlaup núna er algerlega út í himinblámann.