Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:34:39 (3791)

2004-02-03 16:34:39# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:34]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal fjallaði í ræðu sinni um gildi þjóðgarða fyrir þjóðina og stöðu íbúa í nágrenni þeirra gagnvart þjóðgörðunum og fjallaði um það af mikilli nærfærni og djúpum skilningi.

Hins vegar varpaði hv. þm. fram mjög áleitinni spurningu til þingheims þegar hv. þm. upplýsti að að undanförnu hefðu sést tveir ernir flögra um í Mývatnssveitinni sem er að sjálfsögðu fagnaðarefni og bendir til þess að arnarstofninn sé í vexti. Sá skuggi fylgdi, eftir því sem hv. þm. gaf í skyn, að mér fannst, að ofarlega á matseðli arnarins væri húsönd sem líka er friðaður fugl eins og alþjóð veit. (Gripið fram í: Ekki allir.) Eru nú góð ráð dýr --- hvor er betri, brúnn eða rauður?

Þar sem ég veit að hv. þm. er mikill náttúruunnandi og hefur kynnt sér afskaplega vel náttúrulíf í Mývatnssveitinni yrði ég honum afskaplega þakklátur ef hann gæti deilt með þingheimi þeim lausnum sem hann sæi á því vandamáli hvernig við getum varið tvær fuglategundir, sem báðar eru friðaðar, en sá vandi blasir við okkur að önnur nærist hugsanlega á hinni.