Aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 18:18:52 (3809)

2004-02-03 18:18:52# 130. lþ. 55.5 fundur 28. mál: #A aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[18:18]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Hér er um mjög gott mál að ræða og ég þakka frummælanda fyrir að hafa borið það upp. En það er brýn nauðsyn á að ýtt verði á eftir Landssímanum að efla GSM-farsímakerfið sem víðast um landið. Ég er sannfærður um að þeir sem ferðast um landið furða sig á að ekki sé haldið áfram af krafti að byggja upp GSM-farsímakerfið. Farsímakerfið eykur öryggi vegfarenda og ætti að vera eðlilegt að GSM-kerfið nái a.m.k. yfir þjóðveg 1, hringveginn.

Einnig eru mjög langir vegarkaflar án farsímasambands, eins og frummælandi, hv. þm. Jón Bjarnason, minntist hér á að í suðurhluta Vestfjarða er ekkert farsímasamband nema á einum punkti og það er brýn nauðsyn á að koma á farsímasambandi þar, sérstaklega vegna þess að þar er mjög dreifbýlt og mjög langt að fara í annan síma.

GSM-samband er einnig nauðsynlegt fyrir þá sem reka ferðaþjónustu og það er óásættanlegt fyrir ferðaþjónustuaðila að vera ekki í farsímasambandi, það gefur augaleið. Það er bara orðin krafa nútímans fyrir nútímafyrirtæki að vera í farsímasambandi.

Frú forseti. Það vill svo til að ég heyrði ágætt viðtal um daginn sem Ingvi Hrafn Jónsson tók við forstjóra Landssímans, en því var útvarpað á ágætri útvarpsstöð, Útvarpi Sögu. En það var á forstjóranum að heyra að hann væri hvorki tilbúinn í að koma á ADSL-sambandi við fámennar byggðir þar sem byggju færri en 500 íbúar né að koma á bættu farsímaneti nema að fá um það skýr skilaboð frá eigandanum eða þjóðinni, en handhafi þess hlutabréfs sem nýbúið er að færa, sá sem nú heldur á því, er hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde. Og það er spurning hvort við ættum þá að beina þessari þáltill. til hans frekar en hæstv. samgrh. En hann beið eftir þessum skilaboðum, forstjóri Landssímans. Forstjórinn taldi að það væri ekki nægileg arðsemi af því að byggja upp öflugt netsamband við smærri þéttbýlisstaði né að bæta GSM-sambandið á þjóðvegum landsins og þess vegna yrðu skilaboðin að vera skýr frá hæstv. fjmrh. til þess að fjárfestingin skilaði sér.

Ég tel nauðsynlegt að skoða þessa afstöðu forstjórans í samhengi við ýmsar aðrar fjárfestingar sem Landssíminn hefur ráðist í nú upp á síðkastið. Það var upplýst hér á fundi í fyrirspurnatíma fyrr í vikunni að Landssíminn hefði verið að fjárfesta fyrir 300 milljónir í Búlgaríu, í símafyrirtæki sem er í meirihlutaeigu einstaklings. Það má því ráða af orðum forstjórans í útvarpsviðtalinu góða að hann hafi þá líklega fengið um það skýr skilaboð frá eigandanum eða fulltrúa eigandans að fjárfesta í Búlgaríu.

En það leiðir svona hugann að því að það er náttúrlega með ólíkindum að menn skuli fara svona bratt í að fjárfesta í útlöndum þegar það blasir við að byggja þarf upp símkerfið innan lands, sérstaklega í ljósi þess að það er ekki svo langt síðan að fráfarandi forstjóri Landssímans fór með góðar upphæðir úr landi og fjárfesti í hinum og þessum fyrirtækjum, og það fé tapaðist nær allt. Hann var síðan verðlaunaður í lokin með tugmilljóna starfslokasamningi.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst að hæstv. fjmrh. hefði átt að fara hægar í sakirnar með að fara með háar upphæðir úr landi, 300 milljónir. En af orðum forstjóra Landssímans þá er mjög líklegt að hann hafi fengið um það skýr skilaboð, vegna þess að það er ekki hægt að setja upp farsímasendi í Flatey nema fá um það mjög skýr skilaboð, þrátt fyrir það, eins og kom fram áður í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að sýslumaðurinn hafi ítrekað óskað eftir því að fá símasamband á þjóðveginum.

Ég tel það miklu nær að fjárfesta innan lands í staðinn fyrir að fara með háar upphæðir úr landi í ljósi þess hve langt við eigum í land með að koma á góðu farsímasambandi.

En ég ætla að taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar að öðru leyti. Ég tel mjög áhugavert að fá að heyra afstöðu framsóknarmanna í þessu máli en þeir gefa sig stundum út fyrir það að vera landsbyggðarflokkur, og það ríkir oft algjör þögn þegar verið er að ræða bein hagsmunamál landsbyggðarinnar eins og farsímasamband og nettengingu. Ég var fyrir skömmu, fyrir jól, á fundi í Húnaþingi vestra og þá var mönnum tíðrætt um það að koma á betra netsambandi í dreifbýli. Mér finnst þetta vera mál sem skiptir fólk í dreifbýli miklu máli sem og fólk sem er á ferð um landið og fyrir öryggi þeirra sem eru á ferð á vegum landsins.