Aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 18:41:58 (3815)

2004-02-03 18:41:58# 130. lþ. 55.5 fundur 28. mál: #A aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[18:41]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ég vil aðeins taka fram nokkur atriði sem snerta öryggisþætti GSM-farsímakerfisins. Á 128. löggjafarþingi var flutt samsvarandi till. til þál. um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu. Ég var þá meðflutningsmaður þeirrar tillögu.

Ég legg sérstaka áherslu á að GSM-farsímakerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins. Ástæðan er augljós. GSM-kerfið er mjög algengt og í raun og veru það kerfi sem langflestir nota í dag og menn gera ráð fyrir að hafa aðgengi að því. Þetta mismunar því orðið mjög byggðarlögum og því miður treystir fólk það mikið á þetta kerfi að það lendir oft í vandræðum þegar það kemur inn á bletti eða svæði sem GSM-geislarnir ná ekki til. Það á bæði við um þjóðvegi landsins og heil landsvæði, þá nefni ég sérstaklega Norðausturland.

Ég ætla ekki að fara sérstaklega í þætti sem snúa að atvinnu og möguleikum fólks til jafnrar þátttöku í atvinnulífinu, þau tækifæri sem GSM-farsímakerfið bíður upp á í því sambandi. Ég legg áherslu á að það að nota GSM-farsímakerfið sem lið í að styrkja öryggis- og neyðarkerfi landsins.

Í þáltill. í greinargerðinni er gerð grein fyrir einu tilviki sem átti sér stað árið 2002. Í framhaldi af því vil ég vitna til umsagnar sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sendi inn vegna fyrri þáltill. sem var samhljóma þessari. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa þá stuttu umsögn:

,,Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur fengið til umsagnar þingályktunartillögu um aðgang almennings að GSM-farsímakerfinu.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru í dag kallaðar út með GSM-símum, með svokölluðum SMS-boðum. Ljóst er af reynslu okkar af því kerfi að fagna ber hugmyndum um meira og betra rekstraröryggi. Útkallskerfi það sem GSM-kerfið tók við af, hið svokallaða símboðakerfi, tryggði félögum björgunarsveita mun meira öryggi á að komast í útkall. GSM-kerfin eins og þau eru rekin í dag hafa ýmsa kosti við umfram gamla símboðakerfið. En aðalókostur GSM er að ekki er sama drægni til að allar björgunarsveitir landsins geti treyst á að nota það sem fullgilt útkallskerfi.``

[18:45]

Þetta finnst mér vera mikilvæg rök fyrir því að styrkja kerfið svo að ekki verði þessi stóru göt í boðkerfinu eða í geislunum, og þó svo að almenna símkerfið og NMT-kerfið sé það kerfi sem notað er sem öryggistæki eru SMS-boðin það sem byggt er á í dag. Ef það er tækni sem er auðveld í notkun og gæti verið örugg tel ég það vera mjög mikilvæg rök fyrir því að halda áfram uppbyggingu þessa kerfis.