Aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 19:00:11 (3818)

2004-02-03 19:00:11# 130. lþ. 55.5 fundur 28. mál: #A aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu# þál., Flm. JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Flm. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig hagaði til að ég hafði óskað eftir því og þeim skilaboðum hafði verið komið í gær og svo aftur í morgun til hæstv. ráðherra fjármála og samgöngumála um að þetta mál væri hér á dagskrá og ég óskaði eftir því að þeir væru viðstaddir og svöruðu spurningum varðandi fjarskiptamál, fjármál Landssímans og að öðru leyti fjarskiptamálin. Þeir vissu því af þessari umræðu og vissu af ósk minni um þetta. Fjarskiptamálin eru í mínum huga stórmál. Landssímann er jú einn af hornsteinum okkar sem hafa gert okkur að þjóð. Það var lögð gríðarleg áhersla á uppbyggingu Landssímans á undanförnum áratugum og áhersla lögð á að allir íbúar landsins væru í símasambandi og það var talin ein af grunnforsendum fyrir öll samskipti og framþróun byggðar og atvinnulífs hér. Ég vona reyndar að svo verði enn.

Varðandi vangaveltur hv. þingmanns um hlut hæstv. fjmrh. í þessu, þá er það nú svo að Síminn er hlutafélag þar sem hæstv. fjmrh. fer með hlut ríkisins sem er kannski 97 eða 98%, eitthvað á því bilinu, og stjórn er náttúrlega bundin af ákvörðun hluthafafundar um hvað skuli gert, hverjar skuli vera áherslur fyrirtækisins, hver skuli vera fjárfestingarstefnan, hverjar skuli vera allar megináherslur fyrirtækisins. Stjórnin er náttúrlega bundin af ákvörðun hluthafafundar sem er í hendi hæstv. fjmrh. og þess vegna hlýtur hluthafafundur sem og hæstv. fjmrh. að bera ábyrgð á stefnu Símans.