Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 13:53:14 (3831)

2004-02-04 13:53:14# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem er 550. mál þingsins, á þskj. 828.

Upphaf þessa máls má rekja til breytinga á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði árið 2001 þegar sparisjóðir fengu heimild til hlutafélagavæðingar. Þessi heimild til hlutafélagavæðingar var sett í lög í samvinnu við Samband íslenskra sparisjóða. --- Hæstv. forseti, er hægt að fá hljóð í salinn?

(Forseti (JBjart): Forseti biður þingmenn um að hafa ró í salnum og loka dyrum fram á gang.)

Ég endurtek: Þessi heimild til hlutafélagavæðingar var sett í lög í samvinnu við Samband íslenskra sparisjóða. Lögin voru að mestu að danskri fyrirmynd en Danir höfðu veitt sparisjóðum heimild til hlutafélagavæðingar í lok níunda áratugarins. Rökin að baki hlutafélagavæðingu voru þau að sparisjóðirnir stæðu frammi fyrir virkari samkeppni en áður vegna hlutafélagavæðingar ríkisviðskiptabankanna og endurskipulagningar fjárfestingarlánasjóðakerfisins. Með stækkandi markaði, alþjóðavæðingu og harðnandi samkeppni var þörfin á auknu eigin fé orðin brýnni. Það var því talin forsenda þess að samkeppnisstaða viðskiptabanka og sparisjóða yrði raunverulega jöfnuð að þeir stæðu jafnfætis þegar kæmi að möguleikum á öflun eigin fjár.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Nokkrir sparisjóðir hafa velt fyrir sér hlutafélagavæðingu og tveir sparisjóðir hafa þegar breytt sér í hlutafélög en það eru Sparisjóður Kaupþings og nb.is-sparisjóður. Langmesta athygli hefur hins vegar vakið tilraun SPRON til hlutafélagavæðingar á síðustu 18 mánuðum. Hópur stofnfjáreigenda og Búnaðarbankinn freistuðu þess að kaupa stofnfé í SPRON og ná með þeim hætti yfirráðum yfir sjálfseignarstofnun sem síðan yrði stofnuð við hlutafélagavæðingu.

Þessi áform gengu ekki eftir.

Í desember sl. náðist samkomulag á milli SPRON og KB-banka um að KB-banki yfirtæki SPRON eftir hlutafélagavæðingu með fyrirvara um samþykki fundar stofnfjáreigenda og eftirlitsaðila.

Gagnrýni mín á þennan samning hefur eingöngu lotið að því að gert er ráð fyrir að sjálfseignarstofnunin selji sinn hlut á mun lægra gengi en stofnfjáreigendurnir. Þetta hef ég talið óeðlilegt og að hagsmuna sjálfseignarstofnunarinnar hafi ekki verið gætt.

Því frv. sem hér er til umfjöllunar er ætlað að taka á þessum hagsmunaárekstrum. Það er veikleiki í löggjöfinni að þegar tilboð um yfirtöku berst getur sú hætta skapast að stofnfjáreigendurnir sem stjórna sjálfseignarstofnuninni taki ákvörðun sem þjónar hagsmunum þeirra en ekki hagsmunum sjálfseignarstofnunarinnar.

Þegar hlutafélagavæðingarlögin voru samþykkt á sínum tíma varð nokkur umræða um með hvaða hætti væri best að haga stjórn sjálfseignarstofnunarinnar. Niðurstaðan þá varð sú að enginn væri betur til þess fallinn að stýra þessu fé en þeir sem hefðu lagt sparisjóðnum til fjármagn í gegnum tíðina. Önnur niðurstaða hefði á sínum tíma ekki verið samþykkt af sparisjóðunum.

Á þeim tíma var ekki hugað að því að hagsmunaárekstrar gætu orðið á milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunarinnar þegar til yfirtökutilboðs á sparisjóði kæmi. Ekki hefur náðst samstaða um breytingu á þessu fyrirkomulagi fyrr en virðist vera núna.

Sú breyting sem hér er lögð til aftengir hagsmuni stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar. Þessi breyting hefur engin áhrif á stöðu stofnfjáreigandans sem hluthafa í sparisjóði.

Á árinu 2002 óskaði ég eftir því við Pál Hreinsson, prófessor við Háskóla Íslands, að hann mæti það hvort breyting af þessu tagi stangaðist á við ákvæði stjórnarskrár.

Í greinargerð Páls frá september 2002 segir, með leyfi forseta:

,,Helstu einkenni sjálfseignarstofnana eru þau að eignir slíkra stofnana eru ekki háðar eignarráðum einstaklinga eða lögaðila og þeir eiga ekki rétt til ágóða af rekstri sjálfseignarstofnana, heldur er starfsemin öll rekin í þágu ákveðins markmiðs, yfirleitt í þágu mannúðarmála eða í öðrum hliðstæðum tilgangi. Þótt slíkar lagabreytingar hafi þannig áhrif á rétt hluthafa sparisjóðs til þess að kjósa alla menn í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar og hafa þannig áhrif á stjórn stofnunarinnar verður ekki séð að þeir eigi stjórnarskrárvarinn rétt til þess. Skal hér áréttað að þeir eiga ekkert eignarréttarlegt tilkall til slíkra sjálfseignarstofnana.

Telja verður því að almenna löggjafanum sé heimilt að breyta fyrirkomulagi á kjöri í stjórn slíkra sjálfseignarstofnana frá þeirri skipan sem ákveðin var með 3. gr. laga nr. 71/2001 og að 72. gr. stjórnarskrárinnar standi því ekki í vegi.``

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og ræða hér stuttlega stöðu sparisjóðanna. Sparisjóðir eru hér á landi sem annars staðar staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Þeir hafa sterkar félagslegar rætur og markmiðið með rekstrinum er að stuðla að almannahag. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Sparisjóðir hafa í dag sömu starfsheimildir og viðskiptabankar en sérstaða þeirra er enn mikil. Þeir eru yfirleitt lítil fjármálafyrirtæki í miklum tengslum við sitt nánasta umhverfi. Flestir þeirra starfa einungis á takmörkuðu svæði. Þannig myndast yfirleitt sterkari tengsl við mannlíf og atvinnulíf á starfssvæði sparisjóðsins og meiri nálægð við viðskiptavini en tíðkast meðal annarra fjármálafyrirtækja.

[14:00]

Stofnfjáreigendur leggja sparisjóðnum til stofnfé og eiga rétt á að fá það fé til baka, verðbætt við tilteknar aðstæður. Þeir eiga, ólíkt hluthöfum í hlutafélagi, ekkert tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðanna. Enginn getur gert tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðs, en við slit hans rennur afraksturinn til líknar- og menningarmála á starfssvæði hans. Stofnfjáreigendur eiga hins vegar rétt á arði af stofnfé sínu samkvæmt nánari reglum í lögum um fjármálafyrirtæki.

Þetta er meginhugmyndafræðin á bak við sparisjóðina. Hvort þessi hugmyndafræði lifir af í heimi stöðugra umbóta skal ósagt látið. Það verður að koma í ljós. Sparisjóðirnir verða sjálfir að taka sér tak og móta framtíð sína. Þeir mega ekki verða nátttröll sem dagar uppi á fjármálamarkaði. En þetta er undir sparisjóðunum sjálfum komið. Því miður hafa verið miklar innbyrðis deilur innan sparisjóðanna á undanförnum árum. Það er vonandi að sparisjóðirnir beri gæfu til að leysa þær deilur og verði vel í stakk búnir til að veita viðskiptabönkunum fremur öfluga samkeppni á komandi árum.

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess hér að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur haft íslensku fjármálalöggjöfina til skoðunar að undanförnu, m.a. lagaákvæði um sparisjóði. Í þessu frv. mæli ég fyrir einni breytingu sem ESA og viðskrn. eru sammála um að standist EES-samninginn. Önnur ákvæði um sparisjóði sem ESA hefur óskað skýringa á brjóta ekki í bága við EES-samninginn að mati viðskrn. ESA hafa verið sendar ítarlegar, rökstuddar athugasemdir. Á þessu stigi er hins vegar óvíst um framtíð þessa máls.

Hæstv. forseti. Það er ekki markmið mitt með þessu frv. að koma í veg fyrir hlutafélagavæðingu sparisjóða heldur eingöngu að laga þann veikleika sem er á gildandi lögum. Vissulega er til staðar lagarammi í dag þar sem ítarlega er kveðið á um skyldur stjórnar sparisjóðsins og stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar. Útilokað er á þessu stigi að segja til um hvort samningur SPRON og KB-banka gangi í gegn að óbreyttum lögum. Ég hef sem eftirlitsaðili með sjálfseignarstofnunum sem stunda atvinnurekstur haft efasemdir um að stjórn sjálfseignarstofnunarinnar sé hæf til að taka ákvörðun í málinu og hvort hún gæti hagsmuna sjálfseignarstofnunarinnar með því að samþykkja að selja hlut sinn í SPRON á genginu 1. Jafnframt er ógjörningur að segja til um viðbrögð Samkeppnisstofnunar og Fjármálaeftirlitsins en báðar þessar stofnanir hafa beina aðkomu að málinu.

Ástæða þess að frv. er lagt fram er að það er sparisjóðum í landinu til framdráttar að stjórn sjálfseignarstofnunarinnar sé breytt þannig að enginn velkist í vafa um hæfi hennar til að taka ákvarðanir. Hvaða áhrif frv. hefur á sparisjóði getur tíminn einn skorið úr um. Sparisjóðir standa frammi fyrir virkari samkeppni á markaði en nokkru sinni fyrr. Viðskiptabankarnir eru að stækka, lánskjör þeirra og lánshæfismat að batna og þar með geta þeirra til að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör. Við þessu þurfa sparisjóðirnir að bregðast. Sparisjóðirnir þurfa að hafa í huga að hver er sinnar gæfu smiður.

Hvort stofnfjáreigendur í sparisjóðum kjósi að breyta rekstrarformi sparisjóða eftir þessa breytingu verður að koma í ljós. Hvort SPRON-málið hið þriðja mun koma upp á næstu missirum er einnig óvissu háð. En eitt er víst: Ekkert verður eins og áður. Við getum ekki tryggt að sparisjóðirnir verði alltaf til í óbreyttri mynd.

Ég vil einnig gjalda varhuga við því að gerðar verði breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem útiloki breytingar á rekstrarformi sparisjóða og því að gerðar verði breytingar sem óvissa er um hvort standist stjórnarskrárvarin eignarréttindi og ákvæði EES-samningsins.

Herra forseti. Ég óska eftir því að þessu máli verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn. og óska eftir því að það fái skjótan framgang í þinginu.