Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 15:11:56 (3850)

2004-02-04 15:11:56# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga er skýrt að það að vera formaður nefndar á sérsviði gerir ákveðnar kröfur til hv. þingmanna. Við 1. og 2. umr., sérstaklega 1. umr., ber þeim einstaklingi að hlýða á og virða þau sjónarmið sem fram koma í þingsal, fyrst og fremst til að geta gætt hlutleysis við meðferð mála. Það er rík ábyrgð sem hvílir á formanni hverrar nefndar á hv. þingi.

Finnst hv. þm. Pétri Blöndal eða hæstv. forseta að þessa hlutleysis hafi verið gætt í málflutningi hans? Finnst hv. þingmanni, eftir þessa ræðu, að hann geti með góðri samvisku stýrt störfum efh.- og viðskn.?

Hv. þm. lýsti því yfir að þetta frv. væri nánast hneisa sem hæstv. ráðherra hefði vaðið fram með. Ég öfunda ekki þá einstaklinga, hvort sem um er að ræða hv. þingmenn í stjórn eða stjórnarandstöðu, sem eiga eftir að sitja við umfjöllun um frv. sem hér er til umræðu undir stjórn hv. þm. eftir þá ræðu sem hér var flutt. Finnst hv. þm. að hér hafi hlutleysis verið gætt?