Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 15:20:11 (3855)

2004-02-04 15:20:11# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég alveg hættur að skilja. Ef sparisjóðunum vegnar svona vel og allt er í ljómanum, hver er þá vandinn? Af hverju er verið að setja þessi lög? Hver er vandinn? Af hverju má ekki breyta SPRON í hlutafélag og selja það til KB-banka? Hver er vandinn? Ég skil það ekki ef reksturinn gengur svona ljómandi vel.

Nei, ég veit hver vandinn er. Sparisjóðirnir óttast stofnfjáreigendur sína, að þeir muni verða seldir hver á fætur öðrum. Það er það sem menn óttast því stofnfjáreigendur þurfa að tveimur þriðju hlutum að samþykkja breytinguna. Og það eru þeir sem stofnuðu sparisjóðina. Það eru þeir sem ráða þeim samkvæmt lögum. Það eru þeir sem kjósa stjórn og það eru þeir sem samþykkja breytingu. Og ef allt er í sómanum og allt gengur vel, hvað er þá að óttast? Af hverju þarf Sparisjóður vélstjóra að óttast stofnfjáreigendur sína, þá sem stofnuðu þá einu sinni, til þess að ná fram ákveðnum markmiðum? Ég skil það ekki.

Hv. þm. geta kannski upplýst mig um hver vandinn er. Af hverju, ef þetta gengur svona vel, má SPRON ekki fylgja sinni stefnu? Stjórn SPRON telur að þetta sé það besta sem hún geti gert fyrir starfsemi SPRON. Og af hverju má hún ekki gera það eins og hún er einhuga um?