Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 15:23:55 (3857)

2004-02-04 15:23:55# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og hv. þm. hafi ekki hlustað á alla ræðu mína. Ég sagði að markmið stjórnar SPRON hefði verið að tryggja stöðu SPRON til framtíðar númer eitt, tvö og þrjú. Síðan að gæta hagsmuna starfsmanna, svo viðskiptavina jafnframt og að síðustu að gæta þess að stofnfjáreigendur væru sæmilega sáttir. Það voru markmiðin, í þessari röð. Þetta hefur allt tekist með því samkomulagi sem gert var á undraverðan hátt og ég var virkilega ánægður því við vissum ekki hvaða tilboð við mundum fá, en við settum þessar kröfur fram þegar við leituðum eftir tilboðum frá bönkunum. Þessar kröfur í þessari röð. Og tilboðið frá KB-banka uppfyllti þau öll. Ég ætla ekki að segja hvernig önnur tilboð voru. En í sumum tilboðunum hefðu stofnfjáreigendur fengið minna en sjálfseignarstofnunin og tapað. Það er sem sagt KB-banki sem er að búa til þennan mikla sjóð sem mun veita peninga til menningar- og líknarmála í þeim mæli sem við höfum aldrei séð áður sem menn ætla að eyðileggja núna. Menn ætla að eyðileggja að veitt sé 300--400 millj. kr. á ári til menningar- og líknarmála í Reykjavík. Þeir peningar koma ekki frá SPRON. Þetta er miklu meira en allt eigið fé SPRON. Þeir koma frá KB-banka sem sá sér hag í því að borga þetta.

Varðandi það að sjá glufur í lögum. Menn fóru algjörlega að lögum. Það voru engar glufur. Og að láta sparisjóðinn í friði, hvað eru menn að gera hérna? Eru þeir að láta sparisjóðinn í friði? Láta þeir SPRON í friði? Ó, nei. Og stofnfjáreigendur eru ekki þröngur hópur, hjá SPRON eru þetta 1.100 manns. Það er ekki þröngur hópur.