Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 22:12:30 (3919)

2004-02-05 22:12:30# 130. lþ. 58.1 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 130. lþ.

[22:12]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að sparisjóðunum verður ekki bjargað með lögum. Sparisjóði er hægt að eyðileggja með lögum. Að sjálfsögðu skiptir lagaumhverfi sparisjóða og annarra fjármálastofnana í landinu máli. Reyndar eru sparisjóðirnir á Íslandi ekki á flæðiskeri staddir. Þeir eru að sækja í sig veðrið. Þeir hafa 25% markaðshlutdeild í fjármálalífinu.

Eitt vildi ég leiðrétta hjá hæstv. ráðherra. Ég held að hæstv. ráðherra hafi annaðhvort misskilið eða misheyrt það sem ég sagði. Ég velti því upp hvernig á því stæði að ríkisstjórnin hefði beitt sér fyrir því að heimila sparisjóðunum að breyta sér í hlutafélög á árinu 2001. Ég sagði að ríkisstjórnin hefði það sér til vorkunnar að krafa hefði komið fram um það frá Sambandi íslenskra sparisjóða sem studdu slíka lagabreytingu. Ég var hins vegar að reyna að skýra hvernig á þeirri kröfu stóð, að hún væri fyrst og fremst til komin vegna þrýstings frá einum sparisjóði, þ.e. Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þess vegna tók Samband íslenskra sparisjóða þessa afstöðu. Ég var ekkert að vefengja það nema síður væri.

Síðan vakti ég athygli á því að stjórn Sambands íslenskra sparisjóða er á því máli núna að þetta hafi ekki verið skref til framfara og væri því fylgjandi fyrir sitt leyti að þetta yrði numið brott úr lögum.