Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:50:51 (3949)

2004-02-09 15:50:51# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er löngu hættur að reyna að aka ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar hingað í þingsal til þess að tala um það sem máli skiptir. Ég gerði enga tilraun til þess að ná í hæstv. landbrh. vegna þess að ég læri af reynslunni. Hún hefur einfaldlega sýnt mér að það er ekki hægt að koma þessum mönnum hingað til þess að tala um það sem máli skiptir.

Hins vegar finnst mér að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, ætti ekki að vera svona fastheldinn á fortíðina eins og ég veit að hann á stundum vanda til. Sú ástæða ein að hann hafi gegnt hlutverki landbrh. og sé gamall húsbóndi í landbrn., eins og hann orðar það, gefur ekkert tilefni til þess að halda hér uppi vörnum fyrir tilvist ráðuneytis ef hægt væri að sýna fram á að það væri óþarft.

Ég sem gamall húsbóndi í umhvrn. hef enga sérstaka löngun til þess að aka verkefnum á það ráðuneyti. Hins vegar gæti ég í löngu máli skýrt út fyrir hv. þingmanni hvernig mér finnst að ætti að fara með eftirlit auðlinda og síðan ákvarðanir um nýtingu þeirra. Þá kynni að vera að við yrðum sammála um það, ég og hv. þingmaður, og hugsanlega mundi umhvrn. njóta góðs af því.

Þegar ég horfi yfir stjórnsýsluna --- það var nú verið að staðfesta nýja reglugerð um verkaskiptingu ráðuneyta, eins og frægt er, á liðnum dögum --- sýnist mér margt þar ekki vera í takt við tímann. Ég gæti í lengra máli skýrt út hvers vegna ég tel að það mætti hugsanlega leggja þrjú ráðuneyti niður. Eitt af þeim er landbrn. Ég tel að þar séu ýmis verkefni sem væri betur komið annars staðar, ég tel t.d. að menntamálunum og því sem undir þau falla væri betur komið í menntmrn.

Hins vegar segi ég að ég lít á fiskeldi sem framsæknustu atvinnugreinina í landinu. Ég held að hún eigi eftir að færa okkur ómældan auð í búið og ég tel skipta máli að vel sé hlúð að henni. Ég tel að það væri langbest og það mundi nýta rannsóknaratgervi og fjármuni best að hafa allt á einum stað, og sá staður er að mínu viti sjútvrn.