Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:02:36 (4077)

2004-02-11 14:02:36# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Verði ljós, og það varð ljós, eða svo ég vitni í hæstv. ráðherra: Við einkavæðingu ríkisbankanna leystist mikill kraftur úr læðingi. Svona tala guðfræðingar. Svona tala guðfræðingar frjálshyggjunnar en fáir hefðu trúað því fyrir 15--20 árum að ráðherrar Framsfl. stæðu þar næst altarinu.

Um svör hæstv. ráðherra vil ég segja þetta: Þau voru ein allsherjarmótsögn. Annars vegar sá ráðherrann ljósið og hins vegar sagði ráðherrann að hoggið hefði verið í íslenska þjóðarsátt. Siðferðið væri fyrir bí í viðskiptalífinu á Íslandi, en engin svör. Fullkomið ábyrgðarleysi.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort löggjafinn geti á einhvern hátt brugðist við þeirri þróun sem við verðum nú vitni að, vaxandi samþjöppun og fákeppni í atvinnulífinu og í reynd að fámennur hópur fjármálamanna er að sölsa undir sig yfirráð í atvinnulífinu og í fjármálalífinu. Það var þetta sem vakti fyrir okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði á sínum tíma þegar við vöruðum við einkavæðingu ríkisbankanna.

Við höfum gert annað. Við höfum reynt að hafa áhrif á þessa þróun og grípa inn í með tveimur lagafrumvörpum, annars vegar frv. um dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum og hins vegar frv. um aðskilnað á milli almennrar lána- og viðskiptastarfsemi bankanna og hins vegar fjárfestingarstefnu þeirra, að þeim sé beitt sem fjárfestingartækjum. Það er þetta síðara sem er að gerast núna í tengslum við Landsbanka og Íslandsbanka. Frá áramótum hefur verð í hlutabréfum Landsbanka lækkað um 20% vegna þess að Landsbankinn er að seilast þar til yfirráða. Landsbankinn á núna sjálfur 7,75% í Íslandsbanka en með dótturfélögum er þetta hlutfall orðið 17--20%, (Forseti hringir.) að því er sumir telja.

Frú forseti. Við hljótum að krefja viðskrh. einhverra raunverulegra svara en ekki einnar allsherjarmótsagnar (Forseti hringir.) eins og við urðum vitni að í málflutningi hennar hér áðan.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að virða ræðutímann.)