Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 15:04:01 (4090)

2004-02-11 15:04:01# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Málið sem við nú ræðum er frv. um siglingavernd. Eins og hæstv. samgrh. gerði grein fyrir er það til komið vegna þeirra atburða sem orðið hafa í heiminum vegna hryðjuverkastarfsemi og vegna þess að menn hafa áhyggjur af því að hægt sé að nota fleiri farartæki til slíkra skemmdarverka og hryðjuverka en flugvélar eins og í því tilviki sem olli því fyrst að þetta mál var tekið til afgreiðslu erlendis og sett inn í SOLAS-reglurnar.

Að því er snýr að okkur hér á landi þá þarf að velta mörgu fyrir sér. Í fyrsta lagi vaknar sú spurning hvort það þurfi að loka höfnum, þ.e. girða af þær hafnir sem falla undir lagaskilgreiningu varðandi stærð skipa í 2. gr. frv., með leyfi forseta:

,,a. farþegaskip, þ.m.t. háhraðaför,

b. flutningaskip 500 brúttótonn eða stærri og

c. færanlega borpalla.``

Þar sem skip sem falla undir 2. gr. koma til hafnar og þessi reglugerð nær til þarf e.t.v. að standa svo að verki að loka hafnarsvæðunum og taka þar upp varanlega eða jafnvel sólarhringsvakt. Það má hálfpartinn lesa það út úr 9. gr. frv. Þar er talað um gjöldin, hvernig þeim skuli fyrir komið og til hvers skuli gripið og má eiginlega skilja það þegar maður setur það í samhengi við öryggishlutverkið að jafnvel megi færa fyrir því rök að flestar hafnir þar sem nokkuð tíð ferðaáætlun er --- það er þó eigi skilgreint í frv. hversu mikil hún þarf að vera. Hér segir m.a. í 9. gr., með leyfi forseta, þar sem talað er um tilfallandi framkvæmd:

,,Með tilfallandi framkvæmd siglingaverndar er átt við ráðstafanir vegna einstakra koma og brottfara skipa sem falla undir lög þessi, svo sem vegna afgreiðslu farþega- og flutningaskipa.``

Það vantar skilgreininguna á því hvað menn eiga nákvæmlega við. Eru það fimm skipakomur á ári, tíu, fimmtán eða hvernig skilgreina menn þetta atriði?

Að öðru leyti sýnist mér að vöruhafnir og hafnir þar sem um er að ræða bæði vöru- og farþegaflutninga með nokkuð skipulögðum hætti þurfi að taka upp sérstakt öryggissvæði svo sem með girðingum, vöktun, leit og lokun svæða, eins og segir í frv.

Við erum því vissulega að stofna hér til mikils kostnaðar og þá kemur að spurningunni sem hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði áðan varðandi 9. gr. þar sem segir að heimilt sé að innheimta gjöld, með leyfi forseta:

,,Gjöldin skulu ákveðin í gjaldskrá ... og skal gjaldtakan standa undir kostnaði við veitta þjónustu.

... Gjald þetta skal taka mið af magni vöru og standa undir stofnkostnaði, rekstrarkostnaði og hluta sameiginlegs kostnaðar ...``

Þessi upptalning gefur auðvitað mikla möguleika til alls konar gjaldtökuútfærslu. Ég held að menn þurfi að fara mjög vandlega yfir þetta og eins hversu langt við ætlum að ganga í því að girða af hafnarsvæði. Hafnarsvæðin í Sundahöfn t.d. eru jú girt af. Menn fara þar í gegnum hlið inn á hafnarsvæðin. Þannig hagar ekki til sums staðar annars staðar. Ég held að þannig hagi ekki til í Hafnarfirði og þannig hagar ekki til uppi á Grundartanga svo dæmi séu tekin.

Það er því spurning hvort við séum að segja það hér að girða skuli viðkomandi hafnir af, t.d. Kópavogshöfn, þar sem skipakomur eru reglulegar, að þar skuli taka upp vakt og að þá megi innheimta þetta gjald til að standa undir stofnkostnaði, rekstrarkostnaði og hluta sameiginlegs kostnaðar af ráðstöfunum til verndar farmi, svo sem girðingum, vöktun, leit og lokun svæða.

Margar spurningar vakna í sambandi við þetta. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég hef ekki lesið fylgiskjal I með frv., þ.e. skýrslu stýrihóps um siglingavernd. Ég er ekki búinn að koma því í verk að lesa það. En það tekst nú væntanlega. Auk þess á ég sæti í hv. samgn. þannig að það verður svo sem tími til þess að fara vel yfir þetta mál enda held ég að þess þurfi. Menn þurfa að fara vandlega yfir það eins og hæstv. ráðherra gat um og skoða nákvæmlega hvað við erum að setja hér í lög og reglur. Ég held að aðallega væri áhugavert að fá nánari útskýringar ráðherra á því hversu víðtækt hann álítur þetta þurfa að vera miðað við aðstæður í höfnum hér á landi og hvort hægt sé að vera með tilfallandi framkvæmd eftirlits án þess að taka upp afgirtar hafnir og vaktafyrirkomulag og hvernig skilgreiningin ætti þá að liggja í því.

Þetta er það sem ég vil helst fá upplýsingar um frá hæstv. ráðherra við 1. umr. málsins. Það liggur auðvitað fyrir að við erum að tala um afleiðingar af alþjóðareglum sem við verðum að reyna að uppfylla eins og framast er kostur. En æskilegt er líka að við gerum það með sem minnstum kostnaði en þó eigi á kostnað þess öryggis sem við viljum ná út úr þeim reglum sem hér er verið að setja.