Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 15:51:43 (4095)

2004-02-11 15:51:43# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er nokkuð mikið mál á ferðinni í frv. til laga um siglingavernd sem full ástæða er til að þingmenn láti sig varða og umræðurnar benda til að menn telji þetta mál sem full þörf sé á að fara ofan í saumana á. Margar spurningar eru bornar fram til hæstv. samgrh. Ég vil aðeins fjalla um þau atriði sem menn hafa síður tekið fyrir til að forðast tvíverknað.

Ég vil fyrst aðeins velta fyrir mér gildissviði frumvarpsins og tilurð. Það er byggt á alþjóðasamningum með viðauka við alþjóðasamning sem gerður var fyrir rúmu ári. Ef ég skil rétt er meiningin að lögfesta þá viðbót þannig að íslensk stjórnvöld hrindi í framkvæmd ákvæðum þess viðauka.

Ég vil vekja athygli á því að fram kemur í athugasemdum með frv. að verið sé að vinna að þessu á fleiri sviðum en hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni. Hjá Evrópusambandinu liggja fyrir drög að reglugerð um málið. Það er boðað að þegar hún hefur öðlast gildi hjá Evrópusambandinu muni hún renna í íslenska löggjöf samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það er því ljóst að von er á öðru þingmáli af þessum toga. Ég mundi gjarnan vilja fá upplýsingar um það, hvort sem ráðherra hefur þær á takteinum eða við öflum þeirra í samgn. um drög Evrópusambandsins, að hvaða leyti þau eru frábrugðin þeim reglum sem hér er lagt til að verði lögfestar þannig að menn geti áttað sig á því hvaða munur er þarna á og e.t.v. kann að vera rétt að doka við og gera þetta hvort tveggja í senn ef þessar nýju reglur Evrópusambandsins eru á næsta leyti.

Þetta er fyrsta umhugsunin í málinu af minni hálfu. Að öðru leyti varðandi reglurnar sem hér er lagt til að teknar verði upp er tilefnið augljóst og erfitt að standa mjög gegn því að menn setji niður reglur til að vernda farþega, skip og farm í kjölfarið á vaxandi vá vegna hryðjuverka sem er staðreynd og við getum ekki litið fram hjá og verðum að taka á af okkar hálfu því við kunnum að standa frammi fyrir því að skipafélög, innlend eða erlend, vilji ekki sigla hingað nema ákveðins öryggis sé gætt og íslensk skipafélög kunna að þurfa að uppfylla þessar kvaðir gagnvart sínum erlendu höfnum. Við komumst því ekkert undan því að fara í gegnum málið og reyna að komast að niðurstöðu um það hvernig við stöndum að því að setja reglur hjá okkur. Þá er eðlilegt að menn horfi mjög til þess að taka upp reglur byggðar á þeim alþjóðlegu samningum sem við eigum aðild að.

Ég vil þó segja að mér sýnist að frv. sé þannig uppbyggt að reglurnar séu valkvæðar, að einstakar hafnir eigi völina í þessu og þá reyndar kvölina líka. Þær geti valið að uppfylla þessar reglur eða ekki þannig að engin hafnaryfirvöld séu tilneydd til þess með lagaboði, þau ákveða sjálf hvort þau gangist undir reglurnar eða ekki sem Alþingi setur. Mér finnst það skipta máli, það gerir málið heldur þjálla í framkvæmd.

Ég velti fyrir mér ákvæði 13. gr. frv. um innleiðingu, hvaða þýðingu hún hefur í ljósi þess að efnisatriði málsins komu fram í öðrum ákvæðum frumvarpsins. Mér finnst umhugsunarefni hvaða gildi 13. gr. hefur í frv., ég þarf bara að átta mig á því. Við getum farið yfir það í nefnd og ráðherra getur kannski bætt þar úr ef hann hefur svör á reiðum höndum við því. Maður veltir því t.d. fyrir sér ef í þeim skuldbindingum sem vitnað er til í 13. gr. sem íslenska ríkið hefur tekist á hendur eru einhver önnur ákvæði en þegar er búið að tilgreina í frv., þýðir það að 13. gr. lögfesti þau ákvæði? Ég held að menn þurfi að gæta að því að ekki sé verið að setja í 13. ákvæðið eitthvað sem ekki er ætlunin að fái lagalega stöðu. Hugsanlega mætti því alveg sleppa 13. gr.

Ég velti líka fyrir mér ákvæði 11. gr. um reglugerðarsetningu þar sem segir að ráðherra hafi heimild til að setja nánara ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um hlutverk Siglingastofnunar Íslands og annarra opinberra aðila. Nú er hlutverk Siglingastofnunar skilgreint í frumvarpstextanum, einkum í 4. gr. frv. ef ég hef tekið rétt eftir. Ég velti því fyrir mér hvort verið sé að opna með 11. gr. heimild fyrir ráðherra til að ætla stofnuninni annað hlutverk en tekið hefur verið fram í ákvæðum frv. um stofnunina og hvort það sé þá opið, hvort ráðherra geti bætt við nýju hlutverki óháð því hvað það er. Það getur verið skynsamlegt að ráðherra hafi heimild til að fela stofnuninni að gera eitthvað fleira en ákveðið er í lögunum, en ég held að sú heimild þurfi að vera afmörkuð, menn verða að setja í lagatextann einhverja innrömmun á því hversu víðtæk sú opnun er.

Ég var með svipaðar vangaveltur og hv. þm. Halldór Blöndal varðandi 9. gr. frv. um gjaldtöku. Ég tek þó eftir því að samkvæmt 9. gr. er ekki skylda hafna að innheimta gjöld til að standa straum af rekstrinum, heldur aðeins heimild, þannig að einstakar hafnir gætu ákveðið að innheimta engin gjöld eða innheimta gjöld fyrir hluta af kostnaðinum. Þá kemur upp spurningin sem hv. þm. varpaði fram hvort það fyrirkomulag mundi stangast á við samkeppnislög. Þá væri um óeðlilega samkeppni milli hafnanna að ræða. Ég held að við þurfum að fara aðeins yfir það atriði og vita hvernig við viljum skipa því til lengri tíma.

Ég spyr um annað praktískt atriði varðandi gjöldin, sem í sjálfu sér eru ágætlega afmörkuð og skilgreind í 9. gr., varðandi möguleika þess sem leggur gjöldin á til að innheimta þau. Fylgir t.d. réttur til að taka lögveð í skipum? Fer með þessi gjöld eins og önnur hafnargjöld? Hvernig er hugmyndin að tryggja innheimtuna? Fellur það einfaldlega undir þessa almennu heimild ráðherra til að setja í reglugerð nánari ákvæði um innheimtu gjalda þeirra sem kveðið er á um í greininni? Það er spurning hvort ekki þyrfti að taka það fram að í þeirri reglugerð hefði ráðherra heimild til að kveða á um tryggingar fyrir gjöldunum.

[16:00]

Ég vil líka víkja aðeins að nokkrum hugtökum í þessu frv. sem ég held að við þurfum að fara yfir og lagfæra ef þörf reynist vera á því eða öðrum atriðum við framkvæmd. Það segir í 4. gr. frv. að ríkislögreglustjóri ákveði vástig um borð í skipum og í höfnum. Vástig er hvergi skilgreint í frv. Það kemur hins vegar fram í skýrslunni sem fylgir með að það er til skilgreining um þrjú mismunandi vástig og það má vel vera að það sé það sem vísað er til. Vástig er væntanlega ákvörðun sem ríkislögreglustjóri tekur og getur leitt af sér að aðrir aðilar verði að bregðast við með tilteknum hætti. Þar er því um að ræða ákvörðun sem hefur áhrif á þriðja aðila og ég held að við þurfum e.t.v. að skilgreina betur hvað felst í þessu.

Það segir líka um þetta að ríkislögreglustjóri ákveði vástig að höfðu samráði við Siglingastofnun og Landhelgisgæslu. Ég skil þetta orðalag þannig, og bið þá ráðherra að leiðrétta mig ef ég er ekki á réttu spori í því, að hann beri undir þessar stofnanir, Siglingastofnun og Landhelgisgæslu, ákveðna hugmynd um vástig og fái viðbrögð stofnananna við henni. Þær eru e.t.v. sammála tillögunni eða vilja gera á henni breytingar og þá er það spurningin hvort ,,að höfðu samráði`` þýði það að ríkislögreglustjóri taki ákvörðunina eftir að hafa fengið viðbrögð stofnananna jafnvel þó að stofnanirnar séu ekki að öllu leyti sammála ákvörðuninni, eða verður ríkislögreglustjóri að laga sína upphaflegu tillögu að ábendingunum sem stofnanirnar hafa komið fram með? Ég held að þetta þurfi að vera skýrt af því að hérna er um það að ræða að draga fram ákvörðunarferil að atriði eins og viðbragði við hættu, og þá þurfa boðleiðirnar að vera alveg skýrar og ljóst hvert hlutverk hvers og eins aðila er. Ég held því að það væri gott að fá fram nákvæmlega hvernig ráðherra hugsar þetta.

Þá geri ég athugasemdir við orðalag í 4. gr. þar sem segir að ríkislögreglustjóri hafi heimild til, að fengnu samþykki viðkomandi einstaklings, að gera bakgrunnsskoðun á einstaklingum. Ég held ég viti hvað átt er við en ég held að þetta sé ekki heppilegt orðalag í lagatexta. Þetta vísar auðvitað í læknisfræði og það eru læknar sem gera skoðun á einstaklingum, en auðvitað er ekki átt við það í þessu tilviki þannig að ég held að við ættum að lagfæra þetta orðalag í meðförum nefndarinnar.

Framarlega í 4. gr. er orðalag sem mig langar að spyrja ráðherra um. Þar stendur: ,,Siglingastofnun Íslands ber m.a. ábyrgð á að:`` --- og svo er það talið upp í stafliðum a--g. Þar stendur ekki Siglingastofnun ,,skal``, og síðan að gera það sem þar er tilgreint, heldur ,,ber ábyrgð á``. Ég spyr: Þýðir þetta að meiningin sé að Siglingastofnun geti falið öðrum aðila að framkvæma þær athafnir sem felast í stafliðum a--g, en beri ábyrgð á verkum þeirra aðila? Eða er meining ráðherra að Siglingastofnun geri þetta sjálf sem stofnun? Ég held að það væri gott að fá þetta skýrt þannig að ekki sé misskilið til hvers er ætlast.

Í 5. gr. er kveðið á um áhættumat sem svonefndur verndarfulltrúi skuli leggja fyrir Siglingastofnun Íslands til staðfestingar. Það liggur ekki fyrir í frv., að því er ég fæ séð, hvort það sé einhver skýring sem Siglingastofnun getur stuðst við til þess að leggja mat á hvort heimilt eða unnt sé að staðfesta tillögur af þessu tagi, hvað þær þurfa að uppfylla til þess að stofnunin geti staðfest þær. Ég held að það þurfi að vera ljóst hvað það er, hvað þurfi að felast í áætlun þannig að hún geti fengið staðfestingu. Ef leiðbeiningar um þetta koma fram í skýrslu þá væri ágætt að fá ábendingar um það þannig að menn gætu þá hnykkt á því í meðförum nefndarinnar svo það fari ekki á milli mála hvað skuli liggja til grundvallar.

Ég vil svo, herra forseti, segja að lokum að þegar rætt er um kostnað miðað við það sem kemur fram í skýrslunni, þá er árlegur kostnaður töluverður fyrir þær þrjár hafnir sem hafa látið meta þetta fyrir sitt leyti. Eins og hér kom fram hjá borgarfulltrúa áðan er árlegur kostnaður Reykjavíkurhafnar talinn vera um 195 millj. kr., árlegur kostnaður Hafnarfjarðarhafnar 25--35 millj. kr. og árlegur kostnaður Akureyrarhafnar um 11 millj. kr. Þetta eru því um 226--236 millj. kr. bara hjá þessum þremur höfnum. Síðan bætist við um 20 millj. kr. árlegur kostnaður hjá þremur ríkisstofnunum, Tollstjóranum í Reykjavík, Landhelgisgæslunni og Siglingastofnun. Það fer því ekki á milli mála að hér er um að ræða umtalsverðan kostnað í rekstri fyrir utan stofnkostnað. Það er því að vonum að menn vilji fara vandlega yfir málið og vita hvort hægt er að komast frá því með fullnægjandi hætti með minni tilkostnaði.

Eitt af því sem kemur fram í skýrslunni er að hér er vikið að Vaktstöð siglinga sem hefur ákveðið hlutverk í siglingavernd. Ég harma það, herra forseti, að það skuli hafa orðið niðurstaða dómsmrh. að setja Vaktstöð siglinga niður í Reykjavík en ekki úti á landi eins og eindregnar óskir stóðu til, bæði frá Ísafjarðarkaupstað og Vestmannaeyjabæ. Það verður víst ekki neinu um það breytt héðan af en ég hefði kosið að menn notuðu tækifærið, af því að til stendur að byggja þessa stofnun upp m.a. í ljósi þessa frv., til að færa þessi störf og vinna þau utan höfuðborgarsvæðisins af því að það er svo auðveldlega hægt að gera það með fullnægjandi hætti. Ég verð að segja, herra forseti, að ég harma það að menn skuli ekki hafa komist að þeirri niðurstöðu að verða við þessum eindregnu óskum.

Fleira er ekki af minni hálfu um þetta mál, herra forseti, og ég læt máli mínu lokið um það.