Skýrsla forsætisráðherra um launamun kynjanna

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:04:20 (4223)

2004-02-16 15:04:20# 130. lþ. 64.1 fundur 321#B skýrsla forsætisráðherra um launamun kynjanna# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég met það svo, svo ég svari því síðasta fyrst, að það hafi orðið góð framþróun í málaflokki þessum eins og mörgum öðrum. Auðvitað má betur gera og ég hygg að vilji allra í þessum sal standi til þess að gera betur í þessum efnum.

Varðandi skýrsluna sjálfa þá hefur hún ekki verið lögð fyrir ríkisstjórn. Hún var kynnt daginn eftir að hún var send mér. Það var engin ástæða til annars en að kynna hana strax opinberlega. Hún verður lögð fyrir ríkisstjórn á morgun og í framhaldi af því verða teknar ákvarðanir um með hvaða hætti næstu skref verða stigin. Ég tel að greinargerðin sem hv. þm. vitnaði til sé að mörgu leyti fróðleg. Ég get einnig tekið undir orð hans um að það eru engar stórkostlegar nýjungar eða ný sannindi sem þarna koma fram, veruleiki nokkuð þekktur. Ég tel þó að hann sé ágætlega sundurgreindur í skýrslunni og þær tillögur sem fylgja séu athyglisverðar. En miðað við hversu stutt er síðan skýrslan var lögð fram hefur engin endanleg ákvörðun verið tekin um næstu skref í ríkisstjórn. Það verður gert í framhaldinu.