Símenntunarmiðstöðvar

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 13:35:05 (4280)

2004-02-17 13:35:05# 130. lþ. 65.94 fundur 335#B símenntunarmiðstöðvar# (umræður utan dagskrár), Flm. AKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar á Íslandi sem nú eru níu talsins voru flestar stofnsettar á rótum fullorðinsfræðslu framhaldsskólanna. Þær eru allar sjálfseignarstofnanir, starfa á landsbyggðinni og eru reknar fyrir eigið aflafé með fjárstuðningi ríkisins. Hlutverk miðstöðvanna er að greina þarfir og veita þjónustu í samræmi við þær og einbeita þær sér jafnt að atvinnulífinu sem einstaklingum. Markmið sitt nálgast þær bæði með eigin námsframboði og miðlun náms frá öðrum stofnunum eða skólum. Stöðvarnar sinna kynningar- og hvatningarstarfi, ráðgjöf og upplýsingagjöf samhliða mikilvægu frumkvöðlastarfi hver á sínu svæði. Hvers kyns fjarnám er umsvifamikið og í miklum vexti.

Starfsmenn miðstöðvanna hafa leitað sér þekkingar í kennslufræðum fullorðinna og kennslutækni. Þeir bjóða greiningu á endurmenntunarþörf innan fyrirtækja og stofnana og skipuleggja sérsniðið nám samkvæmt því. Námsframboð á þeirra vegum er allt frá nokkurra kennslustunda tómstundanámskeiðum til háskólanáms. Allar hafa þær fjárfest í fjarmenntabúnaði, tölvum og öðrum nauðsynlegum búnaði vegna fjarnáms, fjarkennslu og annarrar starfsemi.

Á fyrstu starfsárum símenntunarstöðvanna ríkti sú skoðun að rétt væri að gefa þeim ráðrúm til að þróast og finna sér farveg án þess að um þær væri settur sérstakur lagarammi. Það var skynsamlegt þar sem aðstæður eru afar mismunandi eftir starfssvæðum. Sumar miðstöðvarnar starfa á einum stað, aðrar hafa allt að sjö föstum starfsstöðvum og enn fleiri tilfallandi. Á sumum svæðum eru samgöngur auðveldar, á öðrum mjög torveldar. Sums staðar er menntunarstig tiltölulega hátt, annars staðar hafa allt að 50% íbúa aðeins lokið grunnskólaprófi eða minna.

Breyting á atvinnuháttum á landsbyggðinni leiðir af sér síminnkandi þörf fyrir vinnuafl með stutta skólagöngu. Tölur Hagstofunnar sýna hækkandi hlutfall atvinnulausra með grunnmenntun eingöngu og lægra hlutfall atvinnulausra eftir því sem menntun er meiri.

Það þarf væntanlega ekki að fara mörgum orðum um hve brýnt er fyrir samfélagið að hæfileikar og hæfni landsmanna verði ræktað og þeim gert kleift að mennta sig í samræmi við breyttar aðstæður á vinnumarkaði. Þar gegna fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar lykilhlutverki. Símenntunarmiðstöðvarnar eiga það sameiginlegt að sinna fjölbreyttum hópi umbjóðenda sem hefur jafnt þörf fyrir grunnmenntun sem háskólamenntun. Þróun og síaukin umsvif miðstöðvanna knýja hins vegar á um að þeim verði fundinn formlegur staður í menntakerfinu og starfsemi þeirra tryggð. Það er brýnt að gerður verði starfssamningur við stöðvarnar, metið hvaða kostnað grunnverkefni og sérverkefni hafi í för með sér og skoðaður mismunandi kostnaður vegna landfræðilegra aðstæðna.

Stóraukið háskólanám hefur í för með sér mikinn kostnað á þeim stöðum sem námið fer fram á og þann kostnað hafa símenntunarmiðstöðvarnar borið einar. Það auk uppbyggingar tækjabúnaðar, aðstöðu, þekkingar starfsmanna og hins fjölbreytta námsframboðs fyrir mismunandi hópa er þeim fjárhagslega um megn, einkum þeim sem lítinn sem engan annan stuðning fá. Það verður að tryggja símenntunarmiðstöðvunum stöðu til að sinna af krafti sínu ómetanlega hlutverki í viðhaldi og enduruppbyggingu landsbyggðarinnar. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurninga:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir formlegri skilgreiningu á stöðu fræðslu- og símenntunarmiðstöðva innan menntakerfisins?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir að rekstrargrunnur fræðslu- og símenntunarmiðstöðva verði tryggður?

3. Hyggst ráðherra kveða á um fjárhagsleg samskipti og ábyrgð fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og háskóla?