Siðareglur í stjórnsýslunni

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 15:46:04 (4313)

2004-02-17 15:46:04# 130. lþ. 65.8 fundur 207. mál: #A siðareglur í stjórnsýslunni# þál., 208. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Mörður Árnason:

Forseti. Það er sérstök ástæða til þess nú að fagna endurflutningi þessara frv. um siðareglur í stjórnsýslunni og fyrir alþingismenn. Nú standa að þeim, auk flutningsmannsins hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmenn úr fjórum þingflokkum af fimm hér á þinginu og það er vonandi að þessar tillögur nái að gera meira en að sofna í nefndum. Hin sérstaka ástæða sem er til að fagna endurflutningnum og til þess að ætla að þær nái nú lengra er auðvitað þau álitamál sem upp komu fyrir skömmu, tengd stjórnarsetu hv. þm. Péturs Blöndals í sparisjóðsstjórn sem talin var reyna á siðrænan grunn í afgreiðslu ákveðins máls sem varðaði einmitt þann sparisjóð sem þingmaðurinn sat í stjórn fyrir.

Þá var töluvert rætt annars vegar um þær kröfur sem gera þyrfti til alþingismanna og hins vegar um þann lagaramma sem hverfðist um störf þeirra. Menn færðu að því rök að sparisjóðsstjórnarseta þingmannsins sem um ræddi stæðist lög í mjög þröngum skilningi þess orðs. Aðrir töldu að þótt lögin hefðu sjálf ekki breyst hefði umhverfi þeirra breyst svo mikið að túlka mætti lögin þannig að hér væri a.m.k. vafi á ferð. Gagnrýnendur þingmannsins í þessu tilviki --- ég var einn af þeim --- sögðu að auki að þó að þetta kynni að vera löglegt yrði líka að líta til hins siðræna þáttar í málinu.

Það minnir okkur reyndar á þá umræðu sem hér fór fram á áttunda áratugnum undir eins konar vígorði Vilmundar Gylfasonar, hinu fræga ,,löglegt en siðlaust``. Það eru til hlutir hér sem eru löglegir en siðlausir, og það má segja að síðan hafi bæði löggjafinn og ýmsar stofnanir og félög í landinu verið að reyna að brúa þá gjá að nokkru leyti sem var á milli hins löglega og hins siðlega. Ég held að þessi frv. bæði haldi áfram því verki og séu í raun og veru mjög brýn, bæði í stjórnsýslunni og líka fyrir þingmenn eins og þessi umræða sýndi.

Ætli það mikilvægasta í þessu öllu sé ekki, eins og á ýmsum öðrum sviðum, að upplýsingarnar liggi klárar fyrir, að það sé hið fræga gagnsæi af hálfu almennings og fulltrúa almennings, t.d. á fjölmiðlum, að menn viti áður en þingmaður tekur til máls, áður en mál er afgreitt í stjórnsýslunni, hvort hann hafi einhverja þá stöðu sem telja má óeðlilega eða vera þannig að það hafi áhrif á málflutning hans?

Þær reglur sem taldar eru upp í greinargerðinni af ýmsum stöðum --- það verður að hrósa henni fyrir að vera málefnaleg --- eru afar athyglisverðar. Það er athyglisvert að lesa t.d. um það hverju þingmenn í Danmörku þurfa að gera kjósendum, almenningi og fjölmiðlum grein fyrir áður en þeir stíga í fyrsta sinn inn í þingið, og síðan reglulega. Þegar maður ber það saman við það sem opið er og augljóst um íslenska þingmenn er þar ansi mikill munur á. Jafnvel eru til gagns reglur sem eingöngu gera mönnum að upplýsa um ýmis sín mál.

Ég vil svo bæta því við í tilefni af ágætri ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, að ég tel ákveðinn mun á því hverju menn tengjast. Ég tel t.d. ákveðinn mun á því að sitja í félagsstjórnum af ýmsu tagi og því að sitja í stjórnum fyrirtækja sem standa í atvinnurekstri. Almenn félög í félagsstarfi, jafnvel verkalýðsfélög og hagsmunafélög, hafa annars konar hagsmuni en fyrirtæki og ég mundi vilja gera mun á þessu tvennu þó að ég sé honum sammála í því að þetta eigi hvort tveggja að koma fram, að menn eigi að skýra frá því ef þeir eru stjórnarmenn í félögum og skýra frá því ef þeir sitja í stjórnum fyrirtækja.

Ég tel t.d. vera þann mun á þessu að mér finnst koma til greina að ekki aðeins sé sett í siðareglur að upplýst skuli um það ef menn sitja í stjórnum fyrirtækja, heldur sé mönnum með einhverjum hætti bægt frá því að gera hvort tveggja, að sitja á þingi og að sitja í stjórnum fyrirtækja. Það er ekki eðlilegt að maður í stjórn fyrirtækis taki þar afstöðu til máls út frá hagsmunum fyrirtækisins og láti síðan þá afstöðu móta málflutning sinn og afstöðu á Alþingi. Það má jafnvel færa að því rök að afstaða sem maður tekur í stjórn fyrirtækis brjóti í bága við þá kröfu sem stjórnarskráin gerir til þingmanna og þingmenn hafa lagt drengskap sinn við að halda, að hann skuli einungis fara eftir sinni eigin sannfæringu í afstöðu sinni til mála sem koma til þings. Ég legg hér til, að þessari tillögu samþykktri sem þál., að þær nefndir sem hér um ræðir, annars vegar nefnd skipuð af ríkisstjórninni og hins vegar forsn., íhugi hvort ekki eigi með einhverjum hætti að koma í veg fyrir að þingmenn sitji í stjórnum fyrirtækja, annaðhvort með því að taka fram í siðareglunum að það eigi ekki að gera nema sérstaklega standi á eða setja um það sérlög, setja það inn í þann lagaramma sem er kringum störf þingmanna.

Ég skal segja það almennt á sama hátt og ég byrjaði að það er rétt sem hér segir í greinargerð að siðareglur og siðrænn rammi í kringum starf ýmiss konar stofnana og einstaklinga sem heyra saman með einhverjum hætti hafa á undanförnum áratugum aukið gildi sitt. Ég get sjálfur borið vitni um það vegna þess að ég sat í siðanefnd blaðamanna, einhverri þeirri elstu hérlendis. Af slíkum reglum getur verið ótvírætt gagn og þær geta að nokkru leyti komið í veg fyrir að menn takist á á öðrum vettvangi og erfiðari, leiti t.d. til dómstóla eða krefjist lagasetningar. Siðastarf getur með ýmsum hætti auðveldað samskipti manna í nútímasamfélagi og gert þjálli ýmsar lausnir á deilumálum sem við hér á landi höfum átt í töluverðum erfiðleikum með að leysa. Því til vitnis eru raunar einmitt þær deilur sem ég minntist á í upphafi, um það hvort þingmaður sem ég nefndi hér áðan hefði átt að hafa tvo hatta í einu, vera almennur alþingismaður, engum háður nema sannfæringu sinni, og sitja síðan í stjórn fyrirtækis sem hefur tiltekna hagsmuni sem hann þótti vera að berjast fyrir hér á þingi.