Veiðigjald og sjómannaafsláttur

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:49:18 (4336)

2004-02-18 13:49:18# 130. lþ. 66.91 fundur 336#B veiðigjald og sjómannaafsláttur# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Mörður Árnason:

Forseti. Það er rétt, og ber að viðurkenna það, hjá hæstv. sjútvrh. að undirskriftir þeirra Guðjóns og Ragnars, að mig minnir, annars hv. núverandi þingmanns, Ara Edwalds hugsanlega líka, voru með fyrirvara um fyrningarleiðina. Ég var ekki í auðlindanefndinni og ekki á þingi þegar hæstv. ráðherra Árni Mathiesen kom með hið fáránlega frv. sitt um veiðigjald sem engin sátt gat orðið um, og er ekki enn --- það er rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni --- en það var alveg skýrt af hálfu Samf. og fulltrúa hennar í þessari nefnd að þó að hún skrifaði undir hina almennu umfjöllun um auðlindamál, þar á meðal þessar tvær leiðir sem þarna voru nefndar, stóð hugur hennar alla tíð til fyrningarleiðarinnar og það hefur löngum verið ljóst.

Skætingur, segir hæstv. sjútvrh. Hann hefur komið tvisvar inn í umræðuna sem fjallar um --- hvað? Ekki um auðlindanefndina, heldur um orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, vilja hans til að skipta á sjómannaafslætti og veiðigjaldi. Kemur það kannski hæstv. sjútvrh. ekkert við, forseti sæll? Er það skætingur að spyrja hvaða skoðun hæstv. sjútvrh. hafi á þessu máli? Er það skætingur að ætlast til þess að hann eða einhver annar fulltrúi stjórnarliðsins komi hér upp og skýri hvers vegna sjómannaafslátturinn er í uppnámi? Hvernig stendur á því að þessar hugmyndir koma frá virðulegum, háttvirtum, margfróðum og vinsælum þingmanni, Einar Oddi Kristjánssyni, sem hefur munninn fyrir neðan nefið í þessu máli sem öðrum? Er hann einn í þessu máli, er hann einangraður í Sjálfstfl., hjá stjórnarliðinu, eða er hann hér með hugmyndir á sveimi sem við eigum eftir að sjá seinna verða að veruleika á þinginu?

Þessu á hæstv. sjútvrh. eða þá einhver annar í hans stað að svara og ekki að vera að tala um skæting hjá öðrum.